Sunnudagur 28.04.2013 - 00:10 - Lokað fyrir ummæli

Bjarni stýrir XD til sigurs

 

Nú er orðið ljóst, þrátt fyrir að ,,nóttin sé ung“ og breytingar geti komið fram, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er að stýra flokki sínum til sigurs í þessum kosningum. Sérstaklega er flokkurinn sterkur í kjördæmi formannsins sem er fagnaðarefni. Á sama tíma styrkir Framsóknaflokkurinn sig mikið en ekki eins mikið og kannanir voru að sýna á síðustu dögum og vikum.

Eins og Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins sagði á RÚV í kvöld, virðist VG vera að taka við sem forystuafl á vinstri vængnum af Samfylkingunni sem tapar meiru en aðrir flokkar hafa náð að tapa frá stofnun lýðveldisins skv. orðum Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors í stjórnmálafærði við Háskóla Íslands. Það eru ,,hamfarir“ eins og  Össur Skarphéðinsson orðaði þessa stöðu Samfylkingarinnar í kvöld eftir að fyrstu tölur höfðu borist.

Það er rík hefð og regla á Íslandi að Forseti Íslands veiti stærsta stjórnmálaflokknum fyrst umboð til að mynda ríkisstjórn og því eru hverfandi líkur á öðru en því að Bjarni Benediktsson fái stjórnarmyndunarumboð og verði næsti forsætisráðherra Íslands.

Varðandi stjórnarmyndun framundan er mikilvægt að horfið verði frá breytingum á ráðuneytum sem vinstri stjórnin hafði stuðlað að til að sýnast að vera að spara. Taka á aftur upp 12 ráðuneyti þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hljóta 6 ráðuneyti og Framsóknarflokkurinn 6. Ekki gengur að sjávarútvegurinn hafi ekki sérstakan ráðherra og að heilbrigðisgeirinn hafi ekki sérstakan ráðherra ásamt því sem nefna má iðnað og viðskipti. Þessu verður að breyta sem og auðvitað stefnu stjórnvalda.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki síður sigurvegari þessara kosninga en Framsóknarflokkurinn enda að bæta við sig fylgi og þingmönnum þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn þegar hag- og fjármálakerfið hrundi. Framsókn hagnast af því að hafa ekki verið þá við völd þrátt fyrir að hafa verið ríkjandi afl lengi þar á undan.

Það ríkir vinarþel og traust á milli formanna þessara tveggja stærstu flokka og ætti því ekkert að vera til fyrirstöðu varðandi stjórnarmyndum sem byggðist á því að rétta stöðu heimila, efla atvinnulíf og lækka skatta.

Bjarni Benediktsson er að stýra Sjálfstæðisflokknum, stærstu stjórnmálahreyfingunni á Íslandi, til sigurs í þessum kosningum og það er lykilatriðið.

Til hamingju Sjálfstæðisfólk um land allt, til hamingju Bjarni Benediktsson.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur