Sunnudagur 28.04.2013 - 15:55 - Lokað fyrir ummæli

Sigur Bjarna Benediktssonar

Mörgum hefur orðið tíðrætt um að Framsóknarflokkurinn sé sigurvegari kosninganna. Það er ekki rétt mat þrátt fyrir að sá flokkur hafi bæði náð vopnum sínum frá fyrri tíð og rifið óánægjufylgi af Samfylkingunni m.a. vegna þess að sú fylking hefur hent út eðalkrötum á síðustu árum. Hið rétta mat er að Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem hefur átt mest undir högg að sækja, fengið rætna fjölmiðla gegn sér umfram aðra flokka auk þess sem fyrrverandi formaður hans var að ósekju m.a. látinn ganga í gegnum eld og brennistein Landsdómsmálsins. Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar stendur engu að síður sterkur eftir, vinnur fylgi og rís upp sem stærsta stjórnmálaafl Íslands enn á ný. Það er fagnaðarefni fyrir Íslendinga.

Hér er einnig um að ræða einn stærsta sigur stjórnarandstöðu og það var Bjarni Benediktsson sem leiddi þá andsstöðu ásamt frábærum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er hvikuðu ekki frá stefnu sinni og sannfæringu. Það er einnig rétt að Framsóknarflokkurinn stóð sig vel og þá sérstaklega í ICESAVE málinu.

Í kosningum byrja allir flokkar á núlli og þurfa að lúta því sem þjóðin kýs. Þjóðin, sem margir hafa talið sig vera fulltrúa fyrir en eru ekki skv. niðurstöðu kosninganna, hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn til valda og flestir kjósendur treysta Sjálfstæðisflokknum mest. Það er kjarni málsins og ekkert annað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sigrað þessar kosningar og það er formanni þess flokks að þakka.

Þegar ,,álitsgjafar“ Egills í Silfrinu í dag ræddu út og suður um þessi mál var RÚV enn á ný að sýna sitt rétta andlit með að tefla fram fólki sem samræmist ekki þeirri stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu. Þarna var fólk sem endurspeglaði alls ekki þjóðina og afstaðnar kosningar. Það er rétt að Framsóknarflokkurinn vinnur sigur en hann er ekki stærsti flokkurinn í landinu. Framsóknarflokkurinn er næst stærsti flokkurinn í landinu því það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er stærstur þrátt fyrir að þeir hafi á að skipa sama fjölda þingmanna.

Það sem stendur eftir er að Samfylkingin er orðin minni flokkur en Alþýðuflokkurinn var. Það skiptir litlu hvað Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði reynir að túlka þetta,  svona er staðan og ESB aðildin er hér með kolfelld og þjóðin vill ekkert með aðild hafa, a.m.k. meirihluti hennar. Það vakti sérstaka athygli þegar þeir sem hafa nú mikinn minnihluta á Alþingi fóru að ræða þá hugmynd í Silfrinu ásamt Agli í dag að það ætti nú að fara í einhverja þjóðaratkvæðagreiðlslu um ESB aðild þegar þjóðin hefur kosið til valda tvo flokka sem hafa bara engan áhuga á að ræða ESB aðild. Er þetta ekki afgreitt mál?

Að auki má nefna hið augljósa að fylgið er að færast til hægri. Íslendingar hafa fengið sig fullsadda af vinstri stefnu sem engu skilar.

Eftir stendur að úrslitin sýna sigur Bjarna Benediktssonar sem hefur nú endurheimt styrk Sjálfstæðisflokksins í íslenskri stjórnmálasögu.

Njótið dagsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur