Mánudagur 29.04.2013 - 10:45 - Lokað fyrir ummæli

Er ESB ekki ,,tapari“ kosninganna?

Oftar en ekki er kveikt á útvarpinu á morgnanna og í dag er morguninn einstaklega fagur, blár himinn, sól og blíða. Stillt var á Heimi og Kollu í útvarpinu. Tónlistarinnar var notið í botn enda verið að spila Queen og rödd Freddy Mercury ómaði um eldhúsið. Dagurinn byrjaði virkilega vel. Í örskotsstund var hugað að því, á meðan hellt var á könnuna, hvar Freddy væri í raun jarðsettur. Skaust í gegnum hugann að farið yrði og sett blóm á leiðið hans ef það væri fundið rétt eins gert var þegar Jim Morrison, söngvara Doors, var vottuð virðing í Père Lachaise kirkjugarðinum í París hér á árum áður. Þar beið fólk í röð til að komast að.

Og hver eyðilagði þessa stund á Bylgjunni í morgun? Það var enginn annar en Eiríkur Bergmann sem hélt því fram að stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstæðisflokkurinn, væri ,,tapari“ kosninganna. Hvers vegna er þessi maður að gefa sig út að vera sérfræðingur þegar hann lætur þetta út úr sér? Það er með ólíkindum að Heimir og Kolla skulu kalla Eirík í þáttinn og gera a.m.k. ekki athugasemd enda einstaklega vandræðalegt fyrir hann að láta þetta út úr sér. Þau áttu að vita betur og að Eiríkur þyrfti mun lengri tíma til að jafna sig eftir áfallið.

Setti Stefanía Óskarsdóttir reyndar ofan í Eirík blessaðan í þættinum með því einmitt að benda á að það væri Sjálfstæðisflokkurinn sem væri einn af sigurvegurum kosninganna. Það er reyndar augljóst.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að þessi sami Eiríkur Bergmann hefur fjárfest í ferli sínum og veðsett hann með umfjöllun og áróðri varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það verður enginn skuldaniðurfelling í tengslum við slíka veðsetningu og má því reikna með að hann þurfi að greiða þá skuld upp að fullu þó síðar verði.

Hvað Ísland og Íslendinga varðar skal á það bent að öll ESB umræða var jörðuð á Íslandi nú um nýliðna helgi. Aðdáendaklúbburinn hefur bara ekki alveg áttað sig á því enn og þurfa meðlimir hans tíma til að ná áttum. Á meðan þurfum við hin að sýna þessu fólki virðingu, biðlund og umhyggju.

Eins og með yndislega tónlistamenn, sem kunna að spila á hljóðfæri og syngja vel, vill maður ekki Evrópusambandinu eða evrunni neitt illt. En þegar hljóðfærin, sem spilað er á hér á landi, eru svo ramm fölsk og Eiríkur Bergmann reyndist vera í morgun, jaðrar slíkt glamur við umhverfisspjöll af hálfu sambandsins sem enginn tilskipun nær til.

Ef Evrópusambandið myndi ásamt evrunni leggja upp laupana yrðu það líklega afar fáir frá Íslandi sem myndu leggja lykkju á leið sína við að fara með blóm til Brussel að votta því virðingu sína. Ætli þar mætti þó ekki finna Eirík Bergmann í e.k. mussu peysu, með kerti og reykelsi líkt og þau sem elska Jim Morrison enn þann dag í dag, sitja þar álút við leiði hans og kyrja Love Street?

Því má til sanns vegar færa að það er einmitt ESB, Eiríkur Bergmann og hans lærisveinar sem eru ,,taparar“ nýafstaðinna kosninga á Íslandi. Þetta var þjóðaratkvæðagreiðsla, ekki satt?

Rétt að halda þessu til haga um ókomna tíð.

Njótið dagsins og blíðunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur