Laugardagur 28.09.2013 - 14:24 - Lokað fyrir ummæli

Krónan og kröfuhafarnir

Í pistli mínum í mars á þessu ári fjallaði ég um endalausar árásir á gjaldmiðil Íslands og stöðu kröfuhafa og Íslendinga undir snjósaflinum sem sumir kölluðu snjóhengjuna til að hræða líftóruna úr fólki svo þjóna mætti þeirra lélega og mannskemmandi málstað. Jafnframt var þjóðinni ætlað að skipta þessum miðli út og tilsvarandi löggjöf sem nú kemur í ljós að hafi verið okkar brjóstvörn og er það enn.

Mikilvægur dómur

Fyrir þá sem hafa talað niður íslensku krónuna og hallast að öðrum miðlum virðast ekki átta sig á því að á meðan við þó höldum eigin gjaldmiðli og sjálfstæði getum við hlutast til um eigin mál eins og þessi þjóð barðist fyrir að geta gert um langa hríð. Eitt af grundvallarstoðum í sjálfstæðisbaráttunni var að geta dæmt í eigin málum og færa það forna vald til Íslands og frá erlendu valdi.

Hæstiréttur Íslands dæmdi í vikunni sem er að líða í máli nr. 553/2013 á þann veg að nánast allt sem getið var í marspistli mínum rúmaðist þar innan og virðist ganga eftir hvað a.m.k. greiðslu til kröfuhafa varðar og stöðu þeirra gagnvart Íslandi, íslenskum lögum og rétti.

Dómurinn er viðamikill og ítarlegur í alla staði. en rétt er að benda á þá grundvallar staðreynd að samningsstaða Íslands er öllu betri nú en menn vildu halda fram hér á árum áður þegar ICESAVE málið var og hét og allir ætluðu á límingunum varðandi það að við Íslendingar hefðum ekki varnir. Krónan reyndist vörn okkar og munu kröfuhafar þurfa virða okkar löggjöf og rétt.

Dómsorð:

Viðurkennt er að varnaraðila, LBI hf., hafi verið skylt, við umreikning hlutagreiðslna til kröfuhafa í erlendum gjaldmiðlum 2. desember 2011 og 24. maí 2012 í íslenskar krónur, að miða við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á íslenskri krónu gagnvart hlutaðeigandi erlendum gjaldmiðlum á þeim degi þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.

Þessi dómur, sem og ítarefni í skýringum réttarins, segir í raun að setji slitastjórnir bú bankanna gömlu í þrot beri að selja eignir erlendis og andvirði sem fæst við slíka sölu eigna (í hvaða mynt sem er) skal fært yfir í krónur. Þegar svo greitt er út er heimilt að greiða kröfuhöfum allt út í krónum eða í öðrum myntum en í slíkum tilvikum (þegar greitt er út í annarri mynt/myntum en krónu) skal miðað við gengi þess dags sem greiðsla fer fram. Innan hafta eru slíkar krónur (eða aðrir gjaldmiðlar) ekki að fara út úr hagkerfinu án sérstakra heimilda frá Seðlabanka Íslands og skiptir engu hvort um sé að ræða eignir þrotabúanna hér heima eða erlendis, allt verður að seljast, söluandvirðið verður að koma síðan til Íslands og greiðast út í krónum ákveði slitastjórnir slíkt fyrirkomulag.

Hömlur og krónan

Margir telja krónuna hamla viðskiptum sökum smæðar sinnar og styrks. Jafnframt er því haldið fram að hún hafi rýrnað mikið og saka krónuna um slíkt á meðan ekki er litið til þess að hér höfum við byggt hraðar upp samfélag frá fátækt til velmegunar en önnur ríki í hinum vestræna heimi.

Í dag getum við séð fram á að hömlur, sem krónan setur okkur vissulega í dag í gegnum gjaldeyrishöft er vörn, vörn fyrir almenning í þessu landi og styrkir okkar samningsstöðu eftir þennan dóm sem að framan er getið.

Á næstu misserum er nú hægt að ganga til samninga við kröfuhafa, vilji þeir leita samninga, og vinda ofan af gjaldeyrishöftum, greiða til kröfuhafa það sem þeim ber og í samhengi við íslenskan rétt. Kröfuhafar og lögmenn þeirra geta nú gengið að því vísu að biðin er á enda í þessu efni og ekkert að vanbúnaði að semja eða búin verði að öðrum kosti sett í þrot.

Forsætisráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag, 28.9.2013;

Núna ætti að vera kominn sterkur hvati fyrir kröfuhafa til að leita lausna,…

Þetta er rétt hjá ráðherranum og rétt að minnast á að þetta muni leysast þó síðar verði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur