Laugardagur 08.03.2014 - 17:43 - Lokað fyrir ummæli

ESB mokar! Er það ekki planið?

Bílalest - Mosfellsheiði lokuð í dag (mynd af vefsvæði RÚV)

Bílalest – Mosfellsheiði lokuð í dag (mynd af vefsvæði RÚV)

Í dag æddu fjölmargir niður á Austurvöll til að mótmæla því að Alþingi stefnir að því að ekki verði kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi aðildarumsókn síðustu ríkisstjórnar að ESB.  Ríkisstjórnin sem óskaði eftir aðild að ESB harðneitaði að láta þjóðina kjósa um hvort sækja ætti um aðild að ESB og tapaði svo í síðustu kosningum m.a. vegna þessarar umsóknar.

Nú skunda margir í mislitum fatnaði á Austurvöll, fólk með mismunandi tónlistarsmekk og væntingar til lífsins og ESB. Allir fara að mótmæla og ekki gert ráð fyrir því að hugsanlega sé helmingurinn túristar sem komast ekki út úr bænum í óveðrinu. Þá er nú gott að fylgjast með mótmælum enda ókeypis.

En hverju eru allir að mótmæla? Ætli þau þekki til skilmála ESB um lagabreytingar, breytingar á stjórnarskrá til langframa og í lengri framtíð um forseta Evrópu með aðsetur í Brussel? Tony Blair átti víst að verða forseti Evrópu en það mál fór allt út um þúfur.

Í dag er mikið fannfergi á heiðum á Íslandi og fólk meira og minna fast uppi á Mosfellsheiði hér steinsnar í túnjaðri pistlahöfundar. Hver og einn hefur stillt á sitthvora stöðina, einn hlustar á BBC þó svo að farþegar um borð séu margir hrifnari af Miley Cyrus sem spiluð er á X-inu, a.m.k. af yngri kynslóðinni. Aðrir hafa ánægju af Rás 1 og sumir hlusta á Rás 2, Bylgjuna eða FM957. Allir hafa sameiginlegt markmið, þ.e. að koma sér ofan af heiðinni og heim í skjól. Væri kosið um það í þjóðaratkvæði að fá ESB til þess að moka á Mosfellsheiði, nú eða Fjarðarheiði, á Mývatns- og Möðrudalsöræfum yrðu örugglega margir tilkippilegir nú þegar veðrið lætur illa að skunda niður á Austurvöll og mótmæla því að Alþingi ætli ekki að leita til ESB til að moka heiðarnar í vondum veðrum.

Hver á þá að borga? Menn yrðu aldeilis rasandi því enginn veit hver ætti að borga.

Mokað á Mývatns- og Möðrudalsöræfum á þriðjudögum og föstudögum (Mynd af vef RÚV)

Mokað á Mývatns- og Möðrudalsöræfum á þriðjudögum og föstudögum (Mynd af vef RÚV)

ESB borgar, það er nefnilega þannig. Ekki ætlum við að nota krónur? Er það planið?

Fólk getur notað CCP ,,virtual“ krónur og getur hugsanlega keypt sér ,,virtual“ kex í framtíðinni, borðað það á meðan sprengjum rignir yfir glænýja geimskipið mitt. En við, við sem erum að ala upp börn megum bara eiga það sem úti frýs því hinir þurfa að komast að og hóta því að flytjast að heiman. Eru þetta óþekktarormar eða sérhagsmunaseggir án samfélagsvitundar?

Þjóðríki er ekki af ,,virtual world“ !

Öllu meiri líkur eru, sé miðað við umræður um alþjóðastjórnmál- og viðskipti, að EVRAN og ESB sé einmitt af slíkum heimi.

Hver verður kostnaðurinn við það að fá ESB til að borga fyrir mokstur með evrum?

Nú viljum við kjósa um að fá að ræða við valdið Brussel því ,,við viljum“ það ólm, við viljum kíkja í pakkana, fá að vera ,,memm“. Hvert okkar er með afar mismunandi væntingar varðandi framtíðina. Getum við beðið eða fennum við í kaf? Hverjir fenna í kaf? Ætli það gætu verið fjárfestar sem kröfuhafar hafa gælt við að festu fjármuni í fyrirtækjum hér á landi? Sýnið okkur þá þessa samninga eða er verið að ræða um að greitt verði fyrir hlutina í Bitcoin?

Vandinn sem blasir við Íslendingum er að svara því hvort við eigum erindi í ESB? Hagvöxtur á Íslandi hefur ekki verið meiri hér á landi í háa herrans tíð og viðskiptajöfnuður við útlönd sem slær öll met, atvinnuleysi lítið og svo lítið að slíkt þekkist ekki innan ESB. Getum við bara ekki mokað okkur út úr þessum skafli sjálf? Getum við ekki beðið aðeins eftir því að atvinnulífið dafni enn frekar eftir hrunið og komi undir sig fótunum á ný? Geta hin alþjóðlegu íslensku fyrirtæki ekki litið á það sem sína samfélagslegu ábyrgð að koma því til skila að í því umhverfi sem þau urðu til séu hugsanlega aðrir sem vildu geta flogið eins hátt og þau? Er þá ESB lausnin, eina lausnin?

Er skynsamlegt og klók leikjafræði, sé vísað til fræða John Nash, að biðja ólmur um aðild að ESB á meðan kröfuhafar gnæfa yfir almenningi og skattborgurum þessa lands með kröfur uppá það að fá evrur fyrir sinn snúð og sína áhættu? Hvað mun það kosta almenning? Þessu hefur ekki verið svarað en ljóst er að það er afskaplega ógáfulegt íslenskri þjóð að semja á þessum grundvelli og alls ekki tímabært.

Það er ágætt að fólk tjái sig um ESB á Austurvelli og leggi upp með áætlun um hvað íslenskur almenningur vill. Margir vilja kjósa um hvort halda eigi aðildarferlinu áfram sem ríkisstjórn hóf sem almenningur hefur nú sett af í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk fær tækifæri til þess í næstu kosningum til Alþingis að breyta til og eru um 3 ár í það.

Nú er bara þétta raðirnar í ,,kuldakastinu“ hér á Íslandi þar sem hagvöxtur er hár, viðskiptajöfnuður jákvæður sem aldrei fyrr og atvinnuleysi lítið.

Þeir sem vilja á heiðina í þessu veðri skunda nú á Austurvöll til að velja vegferð fyrir sig og aðra.

Þarna er skítkalt og ESB mokar ekki hér frekar en fyrri daginn.

Það eru engin plön um annað en að við mokum okkur út úr þessu sjálf !

Þannig höldum við reisn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur