Eftir áhugaverða Eurovision settist pistlahöfundur yfir SKY-News fréttastöðina í gærkvöldi þar sem farið var yfir blöðin sem koma út á Bretlandi nú í morgunsárið.
Vitnað var í lítinn kálf í The Guardian sem kom inn um póstlúgurnar nú í morgun á Bretlandseyjum. Um var að ræða áhuga Breta á Evrópusambandinu (ESB) og kjör til Evrópuþingsins.
Samkvæmt pistli Egils Helgasonar á Eyjunni fara kosningar til Evrópuþingsins fram 22. – 25. maí næstkomandi. Jafnframt leggur Egill Helgason uppúr því að með úrslitum í Eurovision hafi verið slegið á putta þeirra innan Evrópu sem hafa fordóma.
Fyrir pistlahöfund voru úrslitin í Eurovision ánægjuleg, áhugaverð og virðast segja mest um baráttu gegn fordómum og áhuga almennings innan Evrópu á Conchita Wurst, sem vann Eurovision í gær, en frambjóðendum til Evrópuþingsins.
Í the Guardian kemur fram að um 90% aðspurða á Bretlandseyjum þekkir ekki til þingmanna sinna á Evrópuþinginu og aðeins 27% gátu nefnt nafn José Manuel Barroso sem forseta framkvæmdastjórnar ESB og töldu um 19% að forsetinn væri Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Eins og margir áhugasamir ESB aðildarsinnar væntanlega vita skaut José Manuel Barroso á Breta nýlega en það virðist ekki hafa haft mikil áhrif til aukinnar vitneskju um stöðu forsetans innan vébanda ESB.
Einnig kemur fram í frétt the Guardian að aðeins 8% aðspurðra hafi haft með einhverjum hætti samband við sinn evrópuþingmann á meðan 79% sögðust aldrei hafa íhugað að leita til evrópuþingmanna sinna. Jafnframt kom fram í viðræðum á SKY-News að breskir evrópuþingmenn væru almennt önugir við fréttamenn og viku sér mun oftar frá þeim en þingmenn á breska þinginu.
Samkvæmt frétt the Guardian er talið fullvíst að EVRU-neikvæðir (e. Eurosceptic) flokkar nái allt að 30% fylgi í kosningunum og munu ná allt að 200 sætum á Evrópuþinginu.
Í ljósi úrslita í Eurovision eru nú sterkar líkur á að José Manuel Barroso hafi fengið nýjan keppinaut um athyglina innan Evrópu, þ.e. dívuna Conchita Wurst.
Vænta má að þessi athygli almennings og áhugi á Evrópusambandinu innan þess sé alveg fordómalaus.