Miðvikudagur 23.12.2015 - 18:23 - Lokað fyrir ummæli

Gleðileg Jól kæru öryrkjar !

Á dögunum tóku forsetahjónin upp á því að aðstoða við matargjafir handa fátæku fólki á Íslandi og eru okkar ástkæru öryrkjar þar á meðal. Það er fagnaðarefni.

Hafa a.m.k. tveir mætir menn í Sjálfstæðisflokknum, mínum ágæta og breiða flokki, gagnrýnt þetta nokkuð harðlega.

Þykir mér þetta miður og skora á þessa flokksfélaga mína að leika þetta eftir forseta Íslands og kynna sér stöðu öryrkja með þessu móti og annarra landa sinna sem hafa það afar bágt nú um hátíðarnar. Forseti Íslands er forseti allra Íslendinga, einnig þeirra sem eiga lítið eða um sárt að binda og er því göfugt af þeim hjónum að ganga í þetta verk og vekja athygli á stöðu fátækra á Íslandi.

Það er vel vitað að embætti forseta Íslands fær úr ríkissjóði dágóða fjárhæð til að halda embættinu gangandi og standa að veislum fyrir háa sem lága, veita þegar menn kalla eftir orðuveitingum og stuðla að samskiptum við þjóðarleiðtoga sem eyða talsvert meiru en það embætti sem nú virðist sótt að.

Eftir stendur, sem þessir ágætu samherjar mínir verða að líta til, að það var þessi forseti sem hafnaði ICESAVE samningi og Evrópusambandskukli sem þeir hafa báðir komið að með beinum eða óbeinum hætti í gegnum tíðina.

Þykir mér því menn kasta á milli sín óþarfa ónotum nú rétt fyrir hátíðarnar og vil því vísa til kveðju þeirra Sigurðar Breiðfjörðs og Bólu-Hjálmars eftir síðustu samfundi sína.

Við eigum að vera góð við hvort annað fyrir og yfir hátíðarnar sem og endranær en ekki vera með tóm leiðindi. Við eigum að hjálpa og styðja, vera bæði góð við menn og dýr eins og skáldið sagði.

Læt ég því kveðjur þeirra félaga vera skilaboð mín til þeirra sem eru með hnútukast sín í millum nú rétt fyrir blessuð Jólin.

Sigurður

Sú er bónin eftir ein,

ei skal henni leyna,

ofan yfir Breiðfjörðs bein

breiddu stöku eina.

Bólu-Hjálmar

Ef ég stend á eyri vaðs

ofar fjörs á línu,

skal ég kögglum kapla-taðs

kasta að leiði þínu.

 

Gleðileg Jól kæru öryrkjar !

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur