Eftir annasaman dag kemur í Kastljós formaður Sjálfstæðisflokksins og skýrir mál sitt. Hann gerir mun meira en það. Hann lét mann sjá að það er von um að það birti til eftir þessa drungalegu daga undanfarið.
Aðförin að Sigmundi Davíð var stórundarleg en hann hefur nú axlað ábyrgð. Sigmundur Davíð hefur gert kraftaverk fyrir þessa þjóð, komið í gegn málum varðandi skuldauppgjör á bönkunum sem engum manni gat dreymt um. Pistlahöfundur er fullviss að sagan muni dæma Sigmund Davíð vel og skipta mótmæli þar engu en þær snérust fremur að andstöðu við skattaskjól en persónu fráfarandi forsætisráðherra.
Sjá má á framangreindri mynd þá forystu sem hefði tekið við stjórn landsins yrði nú strax boðað til kosninga. Mikið ágætis fólk, vel meinandi og alveg tilbúið til að taka völdin. Það er hið eðlilegasta mál enda á það að vera markmið stjórnarandstöðu að húka ekki endalaust upp við vegg eða sitja hálf aðgerðalaus um ár og síð glápandi eitthvað út í loftið.
Það vekur sérstaka athygli hve mikla og mikilvæga festu forseti Íslands hefur í stjórnskipan landsins, festu sem markmiðið hefur verið hjá fjölmörgum að riðla með því að hræra óþarflega í stjórnarskrá lýðveldisins. Að auki vekur það von í brjósti að formaður Sjálfstæðisflokksins stendur sterkur eftir, hefur veitt fullkomnar skýringar á sínum málum m.a. með því að benda fréttamönnum á að þeir fengu gögn um öll hans mál árið 2010 en hafa aldrei birt þau.
Nú er svo komið að almenningur á Íslandi getur fengið tíma til að ná áttum eftir daginn, séð verk nýrrar ríkisstjórnar þróast og koma í ljós og síðan dæmt gjörðir hennar í kosningum við lok kjörtímabilsins eftir u.þ.b. ár. Þingræðið er enn í fullu gildi og þetta sýnir okkur hve mikilvægt er að tilfinningar og múgæsingur ráði ekki för. Slíkt má ekki verða til þess að stjórn landsins fari úr skorðum, að menn fái ekki andrúm til að ljúka störfum sem liggja fyrir og tryggja þannig hagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma.
Það svíður undan þessu hjá „Not to be“ – fylkingunni. Þessu nafni kýs pistlahöfundur að kalla það gengi sem gerði heiðarlega tilraun til að taka yfir stjórn landsins með óvenjulegum hætti sem einkenndist af e.k. misheppnuðum byltingarfarsa í bland við fremur máttlausar yfirlýsingar um skepnuskap og óheilindi.
Kjósendur fá nú andrúm til að meta stöðuna fyrir næstu kosningar.
Svo næst er það EM. Áfram Ísland !