Fimmtudagur 07.04.2016 - 16:41 - Lokað fyrir ummæli

Fjármálarasismi sósíaldemókrata og kommúnista

Það er ekkert nýtt að sósíaldemókratar vilji hækka skatta og eyða fjármunum annara. Hins vegar hafa kommúnistar viljað helst gera byltingar til að ná þessu fram með valdi, helst ekki lögum. Almennt eiga þessir hópar það sameiginlegt að ala á öfundsýki sem er einn mesti löstur mannkyns.

Fólk á flótta

Vegna byltinga og bruðls beggja þessara fylkinga hefur fólk flúið lönd og jafnvel dáið úr vosbúð. Einnig hefur fólk flúið óstjórn annarra ríkja eins og dæmin þessa dagana sanna. Danir hafa m.a. krafist skatta af flóttafólki sem kemur inn í skattaparadísina þá arna. Þetta skattaumhverfi elska sósíaldemókratar og kommúnistar, þ.e. þeir sem enn vilja kenna sig við þá stefnu. Þetta yfirlæti og þetta framferði bætist ofan á annan rasisma sem fólk þarf að takast á við.

Ný fluga

Síðar fengu þessir aðilar glænýja flugu í höfuðið, reyndar ekki kommar innan vébanda Vinstri grænna enda eiga þeir oft erfitt með það að fá nýjar hugmyndir uppá eigin spýtur.

Þessi nýja fluga gekk út á að það væri ráð að fá sér nýtt málefni til að berjast fyrir því þeir höfðu ekkert að viti til málanna að leggja. Var þá ákveðið að sameina krata og kommúnista í Samfylkingunni til að búa til breiðfylkingu. Þessi ,,breið“-fylking er reyndar nú með um eða rétt yfir 7% í fylgi skv. skoðanakönnunum. Fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður VG klauf sig út í e.k. smáflokk á þessum tíma en nú með um 12% fylgi, mun meira fylgi en ,,breið“-fylkingin.

Kratar höfðu áður samið um, ásamt Sjálfstæðisflokknum, að ganga að EES samningunum og fjórfrelsinu en Samfylkingin vildi inn í Evrópusambandið og þá alla leið. Fulltrúar VG á þingi brutu kosningaloforð sín eins og kommum er tamt og stukku á vagn sósíaldemókrata í síðustu vinstri stjórn Íslands.

Hnýsnisárátta og öfundsýki

Svo má ekki gleyma því hvað þessir hópar hafa unun af því að hnýsast í annarra manna mál og ala svo á öfundsýkinni út í samfélaginu. Þeir lifa á þessu.

Þessu ríða vinstri menn margir hverjir (ekki allir enda til vandaðir vinstri menn en þeir eru ekki margir) oft inn á Alþingi. Það er hreint með ólíkindum hve langt þér ná með málflutningi sem snýr að því að hækka skatta og koma þeim í þeirra eigin hendur þegar þeir stjórna landinu þar sem því er yfirleitt sólundað. Sporin hræða.

Vitað er og vel þekkt að illa er með fé farið þegar vinstri menn eru við stjórn, a.m.k. í allra flestum tilvikum. Hægt er að skilja þetta efni varðandi menntun og heilsuvernd hvers konar en svo er flest sem hreinlega má laga, spara og þróa til betri vegar. Þeir eiga ómögulegt með að skilja sparnað.

Fjármálarasisminn hin nýja stefna vinstri manna

En nú hefur nýtt bæst við. Það má kalla fjármálarasisma. Sósíaldemókratar, sem og kommúnistar, hafa tekið upp nýja stefnu til að egna fólki saman á Íslandi hinu góða. Þessi stefna fjármálarasismans gengur út á að fjármagn, þrátt fyrir ákvæði EES og ESB tilskipanna um frjálst flæði fjármagns og fólks, sem þeir hafa haft í hámæli sjálfir um árabil, má ekki vera frjálst eins og fólk. Skiptir engu þó fjármagn þetta sé gefið upp til skatts í heimalandinu, af því borgaðir skattar þar og að allt sé í samræmi við lög og reglur þar um.

Ekki veit ég hvort það muni koma mér illa síðar að hafa heimsótt Angóla en hugsanlega er það í lagi því þar er ríkandi kommúnistastjórn. Kem því samt hér á framfæri. Svo hef ég setið kvöldverð með Robert Mugabe en rétt að geta þess hér að auki. Svo á ég íslenska vinkonu frá æsku sem fór nýlega til Kúbu að dansa salsa.

Nýr rasismi verður til

Ný tegund rasisma er orðinn til. Þessi ismi gengur út á að berja á þeim sem hafa fengið ráðgjöf hjá ríkisbönkum. Þar má nefna banka sem m.a. formaður Samfylkingarinnar sat í stjórn hjá á sínum tíma og sá um að útibú bankans í Lúxemburg stofnaði félög á aflandseyjum fyrir blásaklausa bændur og búalið þeirra frá Íslandi. Isminn þessi segir í raun til um að það megi alls ekki eiga félag í landi þar sem t.d. viðskipti eru greiðari og flækjustig minna en í skattaparadísum sósíal demókrata.

Því taka Danir fjármuni frá bláfátæku flóttafólki þegar það kemur inn í ESB ríki. Þarna blandast líka inn í e.k. þjóðerniskommúnismi en það verður að tryggja jöfnuð !

RÚV hefur ekkert við þetta að athuga.

Framhaldið

Það er verðugt að taka þessa umræðu lengra og gera fólki grein fyrir því að fjármagn á og verður að geta flogið eins langt og maður sjálfur sé því ætlað að verða að gagni í viðskiptum. Sé það gefið upp til skatts til að koma að samneyslunni er það ekki ólögmætt. Því og þess vegna verðum við að ganga hratt í afléttingu gjaldeyrishafta.

Það er sumum erfitt að skilja það sem ekki á eða hefur átt búfé að þó féð komi ofan af Arnavatnsheiði inn í Biskupstungurnar er það fé ekkert verra fyrir vikið. Það er jafnvel sterkara og víðsýnna fyrir vikið. Vitur er sá er víða ratar segir í Hávamálum og það á ekkert síður við sauðkindina en fjölmarga vinstri menn.

Þetta þekkja fjallmenn Húnvetninga vel sem og bændur ofan úr Biskupstungum sem saman skáluðu oft uppi á Arnavatnsheiði og glöddust yfir velgengni hvors annars, ávöxtun fjárs og skipti litlu hvaðan það kom og af hvaða kyni það var. Þá var kátt á hjalla.

Til hamingju með nýja ríkisstjórn kæru Íslendingar. Nú eru það Sunnlendingar sem hafa eignast sinn forsætisráðherra. Lifi hann vel og lengi !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur