Sunnudagur 17.02.2013 - 20:31 - FB ummæli ()

Eitraður kokteill

Eitraður kokteill

Aðdragandi hrunsins var ofhitun íslenska hagkerfisins, Grundartangi, óheft íbúðarlán, Kárahnjúkar. Þetta var kynding af mannavöldum. Stefna tveggja ríkisstjórnarflokka. Þetta hvatti útrásarhetjur til afreksverka, sem  síst vildu láta sitt eftir liggja. Þeir dældu ómældum,ódýrum peningum inní bankakerfið og sprengdu  íslenska hagkerfið í loft upp.Þeim héldu engin bönd enda röskir og sannir Íslendingar. Íslenska krónan magnaði svo hagsveiflurnar upp og breytti erfiðri stöðu í afleita. Með tæknilegu gjaldþroti seðlabankans og hallarekstri ríkissjóðs mögnuðust skuldir hans.

Hættuleg kosningaloforð

Þetta er rifjað hér upp svo við áttum okkur betur á orsakasamhengi hrunsins. Mestu orkuframkvæmdir íslandssögunnar, ásamt miklum byggingaframkvæmdum. Mikið innflæði ódýrra peninga,frjálst gengi örgjaldmiðils. Seðlabankinn brást við með því að hækka vexti, sem aftur jók innstreymi erlends fjármagns. Loforð Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningar allt frá árinu 1999  hafa verið skrautleg. Þau hafa einkum verið í því fólgin að opna húsnæðislánakerfið,þannig að fólk sem ekkert átti gat slegið stór lán. Þetta var eftiröpun frá Ameríku, sem endaði þar í hruni fasteignamarkaðsins. Kosningaloforð Framsóknarflokksins hafa reynst þjóðinni dýr og örlagarík. Nú eru kosningar á næsta leyti. Nýr formaður vill nú róa á gömul loforðamið með því að afnema vístölutryggingar og  með miklum afslætti af fasteignaveðlánum. Árið 2003 var lofað 90% íðúðarlánum. Þrátt fyrir alvarleg varnaðarorð seðlabankans,varð það að lögum. Með öflugri aðstoð viðskiptabankanna  varð til mesta fasteignabóla íslandssögunnar.

Lýðskrum og loforð

Fyrir kosningarnar 2009 kom síðan loforðið um 20% almenna niðurfærslu húsnæðisskulda. Almenningur átti að taka að sér skuldir þeirra skuldsettu. Sem betur fór, var flokkurinn utanstjórnar og ófær að framkvæma þessi loforð.Og nú, skömmu fyrir kosningarnar 2013,er bætt um betur og tvær loforða tillögur settar á oddinn. Annars vegar skal verðtryggingin lögð niður en nafnvextir teknir upp í staðinn. Hins vegar skal afskrifa fasteignalán með frádrætti af tekjuskattsstofni. Samhliða verði lán færð niður í 100% af fasteignamati. Þessi aðgerð myndi gera Íbúðarlánasjóð tæknilega gjaldþrota og í framhaldi setja miklar byrðar á ríkissjóð. Þó er hann ekki aflögufær um þessar mundir. Þessi tillaga er auk þess afar ósanngjörn. Byrðar eru settar á axlir almennings, sem sannarlega er ekki aflögufær, til að létta undir með efnabetra fólki, sem fór offörum fyrir hrun. Einhvers staðar þykist ég hafa séð fyrirheit um að lækka vexti, en það hlýtur að vera misskilningur minn. Hvað hina tillöguna snertir, afnám verðtryggingar,þá er ljóst að aðeins yrði hægt að afnema verðtryggingu af lánum sem ótekin eru.Gömul lán verða ekki afvísitölulögð, því slík lög gætu ekki verið afturvirk, nema ríkissjóður taki á sig allar skuldbindingarnar. Hér er því miður um lýðskrum að ræða, ættað úr töfrakistu einfaldra lausna til að leysa erfið, flókin mál. Slá ryki í augu fólks. Þessar tillögur taka til afleiðinga verðrýrnunar,því verðtryggingin sjálf er ekki nema að litlu leyti orsakavaldur erfiðleikanna. Vandinn er óstöðugt efnahagslíf, skuldum vafinn ríkissjóður og íslenska  krónan, ekki verðtryggingin. Framsóknarmenn vilja koma böndum á  reykinn í stað þess að slökkva eldinn. Meðan við höldum í krónuna verður ekkert auðveldara fyrir almennan lántaka að ráða við afborganir sínar með háum nafnvöxtum  en verðtryggingu sem jafnar út greiðslurnar. Tillögur framsóknar tekur ekki á neinum þessara vandmála. Þær auka þau.

Höfum við ekkert lært ?

Sjálfkjörinn samstarfsflokkur framsóknar er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann er einnig byrjaður að brydda kosningarblýantinn. Hann hefur aldrei sætt sig við þá ró sem komst á hagkerfið og þjóðlífið á síðustu árum. Megin stef hans í efnahagsmálaumræðunni hefur verið skortur á nýjum virkjunum. Sagt er að aðeins nýjar virkjanir fái hjól atvinnulífsins til að snúast, hvað sem það nú þýðir. Þetta höfum við heyrt oft áður. Hljómar eins og ósjálfráð viðbrögð við samdrætti. Virkjanir verða ekki reistar án erlendra lána. Meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði er tómt mál að tala um afkomu erlendra fjárfesta. Staða ríkissjóðs og reyndar Landsvirkjunar einnig,hefur verið þannig að skuldatryggingarálagið hefur verið svo hátt að jafnvel mun betur stæð lönd, skirrast við að taka lán á þeim kjörum, ef þau eru yfirleitt í boði. Berskjaldað peningakerfi, ónýtur gjaldmiðill og bullandi framkvæmdir, sem fjármagnaðar verða með dýrum erlendum lánum, er eitraður efnahagskokteill,sem áður hefur verið drukkinn. Uppköstin voru eftirminnileg. Ætlum við ekkert að læra ?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur