Mánudagur 08.04.2013 - 20:09 - FB ummæli ()

Hjó sú er hlífa skyldi

´Við vissum að virkjunin myndi hafa þessi áhrif á fljótið´. Þannig komst fyrrverandi umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir efnislega að orði þegar fram kom í nýrri skýrslu að Lagarfljót væri dautt; hafi  bæst í hóp drullupolla heimsins; lífvana fljóta og stöðuvatna. Hún bætti við, að þegar ráðuneyti hennar hefði snúið við úrskurði Skipulagsstofnunar, hefðu meiri hagsmunir verið teknir fram fyrir minni. Það er merkilegt mat af umhverfisráðherra. Það er hrollvekjandi að heyra konu sem gegndi starfi umhverfisráðherra segja, að vísvitandi hafi hún ákveðið að fórna náttúrugæðum á altari álsins. Þáverandi umhverfisráðherra taldi verndun náttúrunnar verða að víkja, ef álframleiðsla væri í boði. Þetta viðhorf er í fullu samræmi við viðhorf Pútíns rússlandsforseta sem sagði, að ef mannréttindi og þarfir efnahagslífsins rækust á, yrðu þau fyrrnefndu að víkja. Fallvaltur og oft mengandi iðnaður, er settur ofar öllum öðrum gildum.  Náttúra Íslands var aftur orðið umkomulaus.

“Óspillt náttúra“

Þegar umhverfisráðuneytið var stofnað, var það að einhverju leyti erlend eftiröpun en ekki bara. Hér óx þeirri skoðun  fiskur um hrygg að náttúran þyrfti á  verndara að halda gegn vaxandi ágengni stóriðju. Í stað þess að ýta undir og skapa skilyrði fyrir nýsköpun til atvinnuþróunar gerðu íslenskir stjórnmálamenn stóriðju að meginstefi atvinnuuppbyggingar. Það hlaut að hafa í för með sér meiriháttar röskunn á íslenskri náttúru eins og fljótlega kom og í ljós. En við kölluðum nú ekki allt ömmu okkar á því sviði. Við  vissum mætavel að íslenskri náttúru hafði verið misþyrmt öldum saman en þó sennilega aldrei meira en á 20. öldinni. Erlendir ferðamenn eru lokkaðir hingað með slagorðinu „njótið óspilltrar náttúru.“ Hvar er svo þessi „óspillta“  íslensk náttúra ? Jú hún birtist okkur í nær algjöru skógleysi, víðáttumiklum uppblæstri, rótnöguðum úthaga, framræstu votlendi, ofveiddum fiskimiðum og útdauðum geirfugli. Að jöklum, hæstu fjallstindum og ný runnum hraunum undanskildum, er fátt eitt eftir sem minnir á „óspillta“ náttúru. Þó endurtökum við þennan spuna í sífellu.  Þegar fagnað var nýju umhverfisráðuneyti bjuggust fæstir við því, að með því sköpuðust  forsendur til að vernda landið gegn ofbeit og framræslu, til þess var hagsmunagæslan á alþingi of sterk.

Er Mývatn næst ?

Nú eru ákveðin kaflaskil í landvernd hérlendis. Rammaáætlun hefur verið samþykkt með fyrirvara þó. Fréttir af dauða Lagarfljóts vöktu óhug í brjósti fjölmargra. Nú þurfti ekki  lengur að tala í viðtengingarhætti um hugsanleg neikvæð áhrif. Staðreyndirnar töluðu sínu máli. Ekki var lengur um neitt að villast. Afar upplýsandi kvikmynd um sprenginguna í Miðkvísl sýnir hvaða áhrif andóf einstaklinga getur haft. En hættunni á stórslysi í náttúru Íslands af manna völdum hefur ekki verið bægt frá. Einhverjir mestu dýrgripir íslenskrar náttúru, Þingvallavatn og Mývatn  eru að nálgast válistann. Mývatn er næst. Þegar svo ofur viðkvæmt náttúrufágæti sem Mývatn er, þá er það bókstafleg skylda að fara með ítrustu gát og láta ekkert ógert til að ganga  úr skugga um skaðleysi  virkjunar í Bjarnarflagi. Bjarnarflagsvirkjun á að vera allra,allra  síðasti kostur – ekki sá fyrsti, auðveldasti. Þetta ættum við að hafa lært af Kárahnjúkavirkjun. Ég bið og vona innilega að næsti umhverfisráðherra verði ekki jafn kaldrifjaður gagnvart náttúrunni og sá sem drap Lagarfljót. Hann segi ekki eftir 20 ár. Ég vissi að lífríki Mývatns var í hættu, en nokkur stóriðjustörf voru í húfi. Ég valdi þau.

 Umhverfi og náttúira

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur