Fimmtudagur 31.10.2013 - 15:30 - FB ummæli ()

Hallalaus fjárlög já, en …

 

 

 

Það er óhætt að taka kröftuglega undir með fjármálaráðherra, að afar mikilvægt sé að afgreiða hallalaus fjárlög.Fjárlögin eru gleggsta vísbendingin um fullveldi sérhvers lands. Hafi þjóðþing fullt vald yfir afgreiðslu fjárlaga er fullveldi viðkomandi þjóðar  lítið skert.Skuldug þjóð,hvað þá skuldugt ríki er ekki fullvalda því lánadrottnar  legga henni línurnar m.a. á sviði ríkisfjármála. Þeir óttast um peninga sína. Skuldugt ríki bindur hluta af tekjum í vaxtagreiðslum. Því hærri ríkisskuld þeim mun hærri vaxtagreiðslur og jafnframt erfiðara að fá ný lán, nema á ofurkjörum. Vaxtagreiðslur verða ekki lækkaðar með niðurskurði. Fjármálaráðherra getur ekki ákveðið niðurskurð á vaxtagreiðslum eins og t.d. í heilbrigðiskerfinu. Ráðherrann er ekki fullvalda þegar að þeim hluta fjárlaga kemur. Þess vegna eru hallalaus fjárlög svo mikilvæg. Um þetta ættu allir flokkar að vera sammála.

Ríkisskuldir eru skuldir bankanna

En það er ekki sama hvernig hallalausum fjárlögum er náð. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Fjárlög eru stærsta og  áhrifamesta einstaka ákvörðun sem tekin er í þjóðarbúskapnum árlega. Þau hafa áhrif út um allt land og snerta ákvarðanir og afkomu fjölmargra starfsstétta. Í grófum dráttum má segja að tvær megin kenningar hafa verið uppi um hvaða aðferðum sé best að beita til að ná niður ríkishalla. Annars vegar sú sem kennd er við klassíska frjálshyggju sem mælir með lækkun útgjaldaliða. Hins vegar sú sem kennd er við félagshyggju og bendir á skattahækkanir sem ákjósanlegustu aðferðina. Uppúr miðri síðustu öld mikið rætt um svokallað blandað hagkerfi, þar sem báðum þessum aðferðum var beitt. Skuldir íslenska ríkisins eru að verulegu leyti skuldir banka og sparisjóða, sem ríkið yfirtók.Hrunið hófst í bankakerfinu og mun enda þar.Ríkissjóður var skuldlítill við upphaf bankahrunsins.Það voru bankarnir sem skulduðu. Icesave málið gekk út á það að láta útlendinga borga erlendar skuldir bankanna.Ef draga á saman í ríkisrekstri til að borga þær skuldir bankanna,sem ríkið yfirtók, þá breytist niðurskurðurinn í átök um lífskjör og tekjuskiptingu, því hann kemur misjafnt niður á borgurunum. Við göngum ekki öll í eins buxum.

Millistéttin verður verst úti

Evrópskt ríkisvald hefur löngum fært miklar fúlgur fjármuna milli hópa og málaflokka.Þessar tekjutilfærslur gerðu það að verkum,að í lýðræðisríkjum vesturlanda myndaðist millistétt sem varð kjölfesta samfélagsins.Svo varð einnig hér á síðustu öld.Millistéttin  er trygging okkar fyrir því að samfélagið sporðreisist ekki; skiptist í öreiga og stórríka. Niðurskurður ríkisútgjalda bitnar harðast  á millistéttinni og tekjulitlum þjóðfélagshópum.Það er þetta fólk sem nýtur velferðarútgjaldanna, borgar vextina og síðan skatta einstaklinga. Niðurskurðurinn gagnast hins vegar þeim sem eiga innistæður. Þeir síðast nefndu eru að jafnaði færri en þeir fyrrnefndu.Því má alveg segja að einhliða niðurskurður sé ígildi sérstaks viðbótarskatts, sem lagður er á aðra en þá efnuðu, þ.e. meirihluta þjóðarinnar og meirihluta kjósenda.

Hvað þá með fjárlögin ?

Er ég þá búinn að afskrifa hallalaus fjárlög ? Nei, síður en svo.Markmiðinu verður hins vegar ekki náð með niðurskurði  einum vopna,nema auka enn frekar á vanda þjóðarinnar.Fleira þarf til að koma og horfa verður til lengri tíma.Það verður að ná tökum á bankakerfinu,setja hömlur á það svo það vaxi ekki úr hófi og endurtaki leikinn frá 2004-2008. Annars er þetta all fyrir bý.Í annan stað verður almenningur að búa við lága vexti,ekki hærri en árleg verðbólga,sem þýðir stöðugt verðlag.Í þriðja lagi,þá verða þeir ríku að borga meira í ríkissjóð. Án öflugri aðkomu þeirra,gengur reiknisdæmið ekki upp, burtséð frá öllum móral og réttlætiskennd. Það siðferðislega segir það ekki til fyrirmyndar, að létta álögum af þeim sem mestan afgang hafa,til þess eins að íþyngja þeim sem lítið eða ekkert eiga aflögu. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að bjarga velferðarsamfélagi okkar eða færast enn lengra til samfélags byggt á frjálshyggju, þar sem hver sér um sig sjálfan.Hættulegasta birtingarform þeirrar þrautargöngu sem þjóðin fetar nú liggur í landflóttanum.Gott heilbrigðis- og menntakerfi gegna þar lykilhlutverki sem móttvægi. Hrár niðurskurður mun ýta undir að ungt hæfileikafólk flytjist úr landi og alþjóðlega gjaldgengir sérfræðingar finna auðveldlega vel launaða vinnu erlendis. Það molnar úr millistéttinni.Hvers konar samfélag verður hér án ungs fólks ?

Greinin birtist í Mbl 28.okt. s.l.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur