Fimmtudagur 14.11.2013 - 10:25 - FB ummæli ()

Framsóknarsinnuð heimsmynd

Það mætti halda að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sé vinafælinn stjórnmálamaður.Þegar Þorsteinn Pálsson pistlar um að flokkur Jónasar frá Hriflu, Hermanns og Eysteins sé orðinn pópúlískur, þá ríkur ráðherrann uppá nef sér og lýsir frati á Þorstein. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem þekktur framsóknarmaður andmælir því að flokkur hans sé kallaður pópúlískur.Kannski ástæðan sé sú að orðið pópúlismi er útlenskt eins og skammaryrðin sósíalísmi, kommúnismi og kapítalismi.Rætur Framsóknarflokksins eru jú ekki útlenskar.

Í þessu berast fréttir um að hægri pópúlistaflokkar í Evrópu vilji ganga í eina sæng. Þeir kölluðu til samstöðu og buðu velkomna alla evrópska flokka, sem hefja vilji  þjóðleg gildi til vegs á ný, segja upp Schengen-samningnum, endurreisa alvöru landamæraeftirlit og takmarka áhrif og komu útlendinga til landa þeirra. Megin markmið þeirra væri þó, að berjast af öllu afli gegn ESB, murka lífið úr skrímslinu í Brussel og endureisa fullvalda evrópsk þjóðríki.Þá skal evrunni kastað á ruslahaug sögunnar með ófögrum eftirmælum. Stríðgeng er forystuærin frú Le Penn sem stýrir Front Nationale í Frakklandi og göfugmennið Wilders í Hollandi, sem látið hefur frækið orð af sér fara við að berjast  gegn erlendum áhrifum þar í landi, einkum íslömskum. Þau beindu máli sínu m.a. til Sannra Finna, Lega Nord á Ítalíu, FPÖ í Austurríki, Framfara- ( ekki Framsóknar-) flokksins í Noregi og annarra föngulegra flokka á evrópska hægri vængnum, sem deila með þeim draumsýn þessari.

Þegar ég las þetta rifjaðist allt í einu upp fyrir mér ræða forsætisráðherra okkar þann 17. júní s.l. þar sem gáfumprýdd íslensk þjóð, gildi hennar svo og yfirburðir hins fullvalda þjóðríkis, voru hafin til skýjanna, lofuð og mærð. Og ekki fóru skúrkarnir í ESB varhluta af hrósyrðum forsætisráðherra, hvað þá evru druslan. Ekki er ýkja langt síðan sá, sem nú klæðir embætti utanríkisráðherra lét afar ástúðleg orð falla um ESB, ummæli sem ég er viss um að sú vakra frú Le Penn hefði bravóað hann fyrir. Þá má ekki gleyma ræðum þingmanna og forystufólks innan Framsóknarflokksins sem vilja draga okkur útúr Schengensamningnum til að koma í veg fyrir að útlenskur glæpalýður flykkist til landsins. Auðvitað eru þetta allt háleit markmið, hlaðin sömu göfgi og stefnumið þeirra flokka úti í Evrópu, sem ég gerði að umtalsefni í upphafi.

Ég á því erfitt með að skilja, hví utanríkisráðherra og fleiri gildir framsóknarmen öskurjúki útaf því að vera kallaðir pópúlistar. Það er þó jákvætt miðað við að vera kallaðir hægri öfgasinnar, en því öfugmæli er stundum klínt á fyrrnefnda evrópska flokka. Meira segja sjálft RÚV notar þetta gífuryrði um skoðanavini framsóknarmanna úti í Evrópu. Ég hygg að hæstvirtur utanríkisráðherra átti sig ekki alveg á þeirri agalausu stefnufestu sem felst í hugtakinu pópúlismi. Það er hins vegar full ástæða til að óska ráðherranum til hamingju með að flokkur hans sé samsæva títtnefndum framsóknarsinnuðu, evrópsku stjórnmálaflokkum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur