Mánudagur 24.03.2014 - 14:00 - FB ummæli ()

Ósátt, klofin og síðbúin þjóð

 

Ósátt, klofin og síðbúin þjóð

Samkvæmt evrópskum hagtölum lækkuðu tekjur íslenskra launþega frá 2007 -2010 um 8% eða 12% eftir því hvaða tekjustærð er miðað við. Þetta var mesta tekjuhrap nokkurrar þjóðar í Evrópu á tímabilinu.Til samanburðar lækkuðu tekjur grískra launþega um 4% eða 8%  og írskra aðeins um 4% og 5%. Ísland er orðið láglaunaland. Kaupmáttur launa er á svipuðu róli eða lélegri og í löndum við austanvert Miðjarðarhaf.Rekstur bæði  mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfa samfélagsins er á brauðfótum,þar sem framlög eru skorin við trog. Menntunarstigi þjóðarinnar hefur hrakað og mörg önnur grunnþjónusta s.s. löggæsla og vegamál  sitja á hakanum.Það samfélagskerfi sem við bjuggum til á s.l. öld og  er í aðalatriðum enn við lýði, ræður ekki við það megin hlutverk sitt að skapa þjóðinni mannsæmandi lífskjör.Þvert á móti. Eftir því sem reynt verður að njörva kerfið fastar niður,þeim mun þungbærara verður það almenningi.

Að koma of seint

Það var Gorbatsjoff sem sagði  forystu austur-þýska kommúnistaflokksins að tíminn refsaði þeim sem kæmu of seint. Þetta voru viðbrögð hans við því dogmatíska stagli sem hann fékk að heyra, þegar hann hvatti forystu flokksins til að hefja umbætur á stöðnuðu kerfi.Þeir töldu það af og frá. Til þess væri engin brýn þörf. Nokkrum mánuðum seinna hrökklaðist stjórn þeirra frá völdum. Við vitum hvað síðan gerðist.Íslendingar hafa, eins og tölur sýna, einnig misst af lestinni. Þeir búa við staðnað kerfi, sem þeir reynist ófærir um að bæta. Íslenska hagkerfið samanstendur af tveimur innri kerfum sem byggja á ólíkum forsendum. Annars vegar markaðskerfi hins almenna viðskiptalífs.Hins vegar auðlindabúskapur,sem er nánast óháð innlendum markaði.Til þess fyrrnefnda teljast, almenn iðnaðarframleiðsla,þjónusta hvers konar, verslun og fjármálaviðskipti.Til síðarnefnda flokksins heyra í stórum dráttum sjávarútvegur og landbúnaður og stóriðja.Sjávarútvegurinn selur afurðir sínar mestmegnis utanlands. Innanlands markaður landbúnaðarvara er lokaður í bak og fyrir. Þar gilda engin markaðslögmál. Stóriðjan selur nánast alla sína framleiðslu erlendis. En það sem mestu máli skiptir, framleiðsluverðmæti  auðlindaatvinnurekstrar er ekki nema að litlu leyti tilkominn vegna vinnutengdrar atvinnuþróunnar, heldur náttúruauðæfa, fengna af sjó eða landi.Það er auðlindin ekki úrvinnslan sem skapar verðmætin. Það gefur handhöfum hennar afar sterka pólitíska valdastöðu Auðlindajörfarnir í Ruhrhéraðinu höfðu ógn mikil völd og kusu Hitler sem leiðtoga sinn. Handhafar auðlindanna íslensku hafa margfalt meiri pólitísk völd en samanlagt allir eigendur markaðsfyrirtækjanna. Ný ríkisstjórn leggur nú allt kapp á að auka hlut auðlindabúskapar í landinu með því að greiða niður orku og aðstöðu til erlendrar stóriðju.Úrvinnsluferli iðnvæðingarinnar var forsenda lýðræðisþróunar í Evrópu, ekki auðlindabúskaður. Hann hefur öfug áhrif.Það virðist fylgja því einhver pólitískur vanþroski að vera auðlindanýtingarþjóð.

Tvískipting atvinnuvega

Í jafn litlu hagkerfi sem hér er, hefur þessi tvískipting veruleg áhrif á gangvirki efnahagslífsins, löggjafarstarfsemina og þjóðlífið allt. Stundum er því haldið fram að þróun markaðskerfis eins lands sé jafnframt mælikvarði á stöðu lýðræðisins. Þar sem stórir hlutar íslenska efnahagslífsins standa utan við markaðskerfið, er markaðshugsun ekki sterk í þjóðarvitundinni.Markaðsstarfsemi er ekki talin mikilvægur skipulagshlekkur í gangvirki  hagkerfisins.Hluti þjóðarinnar lítur á samkeppni  sem hjaðningavíg fremur en aflvaka verðlækkana. Sama er hægt að segja um þroska lýðræðisins og markaðsins. Lýðræðið á sífellt í vök að verjast bæði vegna ágengi stjórnmálaflokka en einnig er meðvitund þjóðarinnar um mikilvægi þess ekki sterk. Nægir þar að minnast á, að hér er naumast um að ræða þrískiptingu valds, þar sem framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið er nánast samvaxið. Gegnsæi opinberra ákvarðana er iðulega torveldað svo dæmi sé tekið.Þá býr stórhluti þjóðarinar enn (2014) við skertan kosningarétt. Auðlindatengdir atvinnuvegir hafa líka allt aðra afstöðu til gjaldmiðilsins en markaðstengdir.Það er hagsmunamál fyrir auðlindabúskap að gengið sé lágt og sveigjanlegt í þeirra þágu. Sjónarmið auðlindabúskapar í gjaldeyrismálum og hagsmunir almennings eru andstæð.Þessu er öfugt farið með markaðsatvinnuvegina.Þar þarf stöðugleika,enda skekkjast öll innri hlutföll á markaði ef gjaldmiðillinn er óstöðugur og sé einnig ónothæfur erlendis.Samkeppni þrífst illa ef mælikvarðinn er á sífelldri breytingu.Hagsmunir almennings með sín húsnæðislán og dagleg innkaup fara saman við hagsmuni markaðsatvinnuveganna.

Klofin þjóð

Innan Alþýðubandalagsins sáluga var af skarpsýni greint á milli þjóðlegra og óþjóðlegra atrvinnuvega. Þeir síðarnefndu einatt kallaðir milliliðir.Landbúnaður og sjávarútvegur voru þjóðlegir. Hjarta flokksins sló með þeim þjóðlegu. Þessi tvískipting atvinnugrunnsins hefur leitt til heiftúglegra átaka meðal þjóðarinnar.Á grundvelli efnahagslegra mótsagna milli markaðs- og auðlindaatvinnuvega, milli þéttbýlis og dreifbýlis, milli opins og lokaðs hagkerfis, um inngöngu í eða fjarveru frá ESB, hefur grundvallar jafnræðisreglum lýðræðisins verið fórnað  og atkvæðavægið í alþingiskosningum skert í þéttbýli. Klofin þjóð  getur ekki komist að niðurstöðu um skynsamlega umgjörð efnahagslífsins og þar með samfélagsins. Annar hlutinn rígheldur í aldagamalt fyrirkomulag,sem vill óheftan aðgang að útflutningsmörkuðum,en höft eða lokun á innflutningi. Markaðstengdu atvinnuvegirnir,sem eru þátttakendur í hnattrænu viðskiptalífi, verða hins vegar að starfa við svipuð starfsskilyrði og umhverfið erlendis. Þeir þurfa á að halda annars konar viðskiptaumhverfi en hér ríkir. Þeir þurfa opið víðsýnt og framsækið samfélag. Alþingi virðist ófært um að ráða fram úr þessum vanda. Annað vald er ekkert hér á landi sem getur miðlað málum eða höggvið á hnútinn. Því verðum við enn um stund niðurnjörvuð í illleysanleg hagsmunabönd sem leiða til þess að Ísland dragist enn frekar afturúr nágrannaþjóðum og verði á ný fátæktarbæli Evrópu. Þar húktum við í fimm aldir, þökk sé auðlindabúskap þess tíma. Auðlindir hafa sjaldan gert þjóðir ríkar. Það er ekkert séríslenskt fyrirbæri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur