Fimmtudagur 15.05.2014 - 14:22 - FB ummæli ()

Umskipti Sjálfstæðisflokksins

 

Það hefur komið mörgum á óvart,hvernig það gat gerst að  Sjálfstæðisflokkurinn hvarf frá frekari evrópsk/vestrænni samvinnu en kaus vaxandi einstæðingsskap í utanríkismálum. Sjálfstæðisflokkurinn á áhrifamikla sögu að baki. Hæst risu völd hans í kalda stríðinu,þegar hann tók afgerandi forystu um inngöngu landsins í NATO og stóð að  gerð varnarsamningsins við Bandaríkin. Í kjölfarið fylgdi svo  Viðreisnarstjórnin, inngangan í EFTA og seinna EES-samningurinn. Að vísu hafði Alþýðuflokkurinn frumkvæði að og var í forsvari fyrir tveimur síðastnefndu samningunum en ríkisstjórnirnar voru undir forsæti  Sjálfstæðisflokksins. Til voru einstaka sjálfstæðismenn sem andsnúnir voru þessum samningum, einkum EES-samningnum. Við gerð hans kom berlega í ljós hve mótdrægnir  fulltrúar auðlinda atvinnuveganna, Bændasamtökin og LÍÚ, voru þegar minnsta gagnkvæmi gagnvart þeirra atvinnugrein bar á góma. Skjól áttu þeir alltaf hjá Sjálfstæðisflokknum svo og Framsókn.

Nálgunahræðsla eyríkja

Utanríkismál eru vandmeðfarin þjóðmál.Eylönd eru þar sérstaklega viðkvæm. Nágrannar eru þeim framandi og eyþjóðir bregðast  oftast fjandsamlega við  nálgunartilraunum annarra þjóða. Frumkvæði til nálgunar hafa eyþjóðir ekki oft.Undantekningin eru Bretar. Þeir voru svo heppnir að verða undirsátar germannska þjóðflokka. Þar næst kom herseta Rómverja, landseta Víkinga og innrás  fransk-norrænna Normandíbúa. Þeir voru fyrsta evrópska fjölmenningarþjóðin.Þeir óttuðust ekki  áhrif framandi þjóða,því þeir vissu hve mikið þeir höfðu  styrkst við blöndunina.Að lokum sigraði eyþjóðin heiminn.Íslendingar sem verið höfðu einangraðir í liðlega fimm aldir fengu aldrei neina fjölþjóðlega blöndun, aðeins eilítið keltneskt blóð. Við þróuðumst einir,töldum okkur„hreinan stofn“ og óttuðumst að verða fyrir slæmum framandi áhrifum,en þjóðernisstefna byggist á þeirri tilfinningu að þykjast öðrum fremri.Það var því afrek þegar alþingi undir forystu Bjarna heitins Benediktssonar reif sig uppúr einangrunarklömbrunum og tók þá ákvörðun, að við yrðum þjóð meðal þjóða. Við vildum að vísu fá meir en við gáfum, en við vildum vera með.Sú ákvörðun hefur  reynst okkur heilladrjúg og gefið okkur tækifæri til að koma ár okkar fyrir borð við matarborð stórþjóða, því við vildum frekar éta með þeim en verða étnir.

Þjóðflokkurinn

Bjarni Ben, Ólafur Thors og Gunnar Thoroddsen voru  þeir foringjar sem gerðu Sjálfstæðisflokkinn að frjálslyndum flokki hægra megin við miðju.Þau þjóðfélagsöfl sem að baki stóðu spönnuðu nokkurn veginn allt litróf samfélagsins.Á þessum tíma voru öflugust hagsmunahópar landsins útgerðarmenn, kaupmenn og bændur. Ef frá eru talin  baráttumál verkalýðs, sem aldrei voru á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins,má segja að hann hafi  verið eins konar þjóðflokkur,þótt sérhagsmunir hafi vissulega verið rúmfrekir. Pólitísk áherslumál hagsmunaaflanna voru ólík en sem um þurfti að semja  þegar að því kom að móta heildarstefnuna. Málamiðlun varð niðurstaðan. Utanríkismálin voru þar engin undantekning.Bændur hafa ætíð kosið  frekar lokað samfélag. Útgerðarmenn kröfðust opinna erlendra markaða en engrar samkeppni innanlands,hvorki í veiðum,vinnslu né eignarhaldi útgerðarfyrirtækja. Kaupmannastéttin lagði áherslu á frjálsa opna markaði erlendis sem heima.

Kaupmannastéttin hvarf

Kaupmenn voru öflugustu stofnaðilar að Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu.Íhaldsflokkurinn var þeim of þröngur.Meðan kaupmenn voru fjölmennir og sterkir innan flokksins var utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins í þokkalegu jafnvægi.Þegar verslunarfyrirkomulag stórmarkaða ruddi sér til rúms, lét  hefðbundin kaupmammastétt í minnipokann og áhrif hennar innan flokksins hurfu. Eftir stóðu sterk ítök bænda,sem földu einangrunarhyggju sína undir bláhvítri skikkju þjóðernisstefnu og útgerðarmenn, sem ýmis voru andstæðir eða tortryggnir í garð opins frjálslynds samfélags, því þeir vildu sitja einir að auðlindum sjávar.Við hvarf kaupmannastéttarinnar, sem mótandi afls innan flokksins,myndaðist tómarúm innan hans, sem átti eftir að hafa afgerandi áhrif á stefnumörkun hans.Þetta tómarúm var síðan fyllt af háskólafólki, sem búið var að innræta róttæka og fremur þröngsýna markaðshyggju sem varð sífellt áhrifmeiri innan gamla stétt með stétt- flokksins. Frjálshyggja leysti frjálslyndi af hólmi.Einstrengingsháttur og óbilgirni einkenna oft áhangendur einfaldra kennisetninga.Stefna flokksins færðist frá frjálslyndum málamiðlunum til einsýni, þar sem þjóðernisfull og sjálfbirgingsleg einangrunarhyggja varð meginstef í utanríkismálum.Sá hugsunarháttur féll vel að viðhorfum hagsmunasamtaka auðlinda atvinnuveganna ekki hvað síst í afstöðunni til ESB. Nú virkar flokkurinn eins og stjórnlaust skipsflak í öruggu togi Heimssýnar.Þetta voru flokknum dýr umskipti. Þriðjungur fylgisins flúði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. maí s.l.. Hér birtist hún með mjög smávægilegum breytingum.

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur