Ég hlustaði á fréttir sunnudagkvöldið 25.maí s.l. þegar sagt var frá því, að frá áramótum giltu í landinu lög sem bönnuðu vönun á grísum án deyfingar. Þegar landbúnaðarráðherra var spurður af hverju ekki væri farið eftir lögunum nú tæpu hálfu ári eftir gildistöku þeirra, svaraði hann því til að lögin hefðu verið umdeild, og hann sjálfur hefði haft miklar efasemdir um þau. Ráðuneytið hefði því ekki þrýst á að þeim yrði framfylgt. Ég spurði sjálfan mig hvort áhugaleysi ráðherrans á því að landslögum væri framfylgt væri vegna þess að lögin hafi verið umdeild eða af því hann sjálfur var á móti þeim. Valdavíma ráðherrans virðist engan enda ætla að taka. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál ef ráðherra lætur að því liggja, að lög beri ekki að virða,af því andstaða hafi verið við setningu þeirra. Eru ekki flest lög umdeild ? Um hvers konar stjórnleysi er ráðherrann að biðja? Eða meinar hann kannski að hafi Framsóknarflokkurinn verið á móti lagasetningunni þá beri ekki að virða hana. Vissulega geta lög verið arfa vitlaus, það getur verið bæði tafsamt og flókið að hrinda sumum þeirra í framkvæmt svo vel sé. Forkastanlegt er að láta eins og allt sé í himna lagi með að hundsa lögin, af því sjálfur ráðherrann var þeim andvígur. Þá er vegið að réttaríkinu sjálfu.