Miðvikudagur 27.08.2014 - 21:35 - FB ummæli ()

Að vanda sig

 

Það mun hafa verið Þorsteinn Gylfason sem sagði að menning væri það að vanda sig. Þetta er hagnýt en jafnframt djúp hugsuð skilgreining. Til eru margar fleygar skilgreiningar á menningu. Sú þekktasta sennilega ættuð úr Vilta vestrinu; „þegar ég heyri orðið menning gríp ég um byssuskeftið“. Það er nokkuð önnur nálgun en hjá Þorsteini. Kannski óttuðust  þessir ofbeldismenn Vestursins ósýnilegt afl menningarinnar, það gæti tafið fyrir ef þyrfti að vanda sig við að ákveða, hvort drepa skyldi. Yfirfært á annað svið, þá könnumst við Íslendingar við þá sjálfsmynd að við séum öðrum þjóðum fremri í því að vera skjótráðir til ákvarðana. Á meðan aðrar þjóðir þurfi langan tíma til að velta fyrir sér tiltekinni framkvæmd, þá sé hún afgreidd á einum stuttum fundi hér. Það fyrrnefnda skoðast sem tafsamt skrifræði. Sögu hrunsins má líka skrifa undir þeim formerkjum,að þar hafi farið menningarlaus lýður sem kunni ekki að vanda sig. Sú tvíræða, dulda aðdáun sem kemur fram í því að kalla strandhöggsmenn og áburðarkerrur þeirra útrásarvíkinga, segir meira um nafngiftarmenn en þá sem fengu nafnið. Víkingar, fyrirennarar hetja Villta vestursins, gerðu strandhögg, drápu,limlestu,rændu, nauðguðu og seldu í ánauð. Sú endurvakning aðdáunnar Íslendinga á víkingaeðlinu s.s. hjá Agli Skallagríms og Gretti sterka og fleiri ribböldum fornaldar, sýnir vonandi bara tímabundið afturhvarf menningar okkar. Aðdráttarafl orðspakurs hrottaskapar hefur ekki bliknað.

Menning er hugarfar

Menning er það að vanda sig.  Að vanda sig er ákveðið hugarfar. Til að vinna vel úr hlutunum þarf að gefa sér tíma, hafa bæði kunnáttu og reynslu til að gera vel. Ná því besta fram. Það er vissulega oft mikill kraftur í því sem við erum að fást við Íslendingar. Árangur okkar á einstaka sviðum er ágætur. Við erum góðir í því að hrinda af stað  og klára hlutina. Úrvinnslan er erfiðari. Það er þar sem þörf er á vandvirkni,reynslu og nægum tíma. Verkmenningu. Atvinnuuppbygging okkar er mikið með þessu marki brennd. Lengi vel þótti það manndómur að sækja sem mest úr sjó, óháð því hvernig það væri nýtt. Landið sjálft var og er að hluta enn ofnýtt, gróðureytt og sundurskorið af djúpum skurðum. Hér voru og eru menn ekki að vanda sig. Það þarf heldur ekki að vanda sig til að lokka að eitt stykki stóriðju. Það tefur frekar fyrir samningum að vanda sig, gera sjálfsagðar kröfur og ganga vandlega frá. Þetta er allt tafsamt. Stóriðjan krefst ekki af okkur mikillar verkkunnáttu,hana sjá aðrir um.

Ribbaldaháttur

Við gerum vissulega marga hluti snoturlega. Þegar talað er um menningu eiga menn almennt við tónlist, bókmenntir, myndlist og aðra listræna sköpun. List er vissulega menning en menning er meira. Sú stóra eflur sem myndar menningu þjóðar streymir úr hugsun okkar, tilfinningum og framgöngu á öllum sviðum þjóðlífsins frá morgni til kvölds. Listsköpun þjóðarinnar er á köflum glæsileg. Við yrðum merkis þjóð ef menningarstig annarra samfélagsþátta væri svipað. En menning okkar ristir ekki svo djúpt, að hún gagnsýri þjóðfélagið. Við vöndum okkur ekki mikið í stjórnmálum. Íslensk stjórnmála- og viðskiptasaga einkennist því miður hvorki af kunnáttu né reynslu. Það pólitíska fárviðri og sá fjármálalegi ribbaldaháttur sem mærðir voru af þjóðinni og sem að lokum leiddu hana í ógöngur, er gott dæmi um óvandaða, hraðsoðna hugsun, lausa við reynslu og þroska – menningarleysu. Fyrir einhverjum mánuðum ákvað ráðherra að flytja ríkisstofnun út á land án nokkurrar umræðu í samfélaginu eða samráðs við hlutaðeigandi starfsmenn. Sumum kann að finnast þetta sniðugt. Vönduð vinnubrögð eru þetta ekki. Svona ákvörðum  þarfnast tíma, rökræðna og kannski snýsr mönnum að lokum hugur. Það er ribbaldaháttur að stilla fólki þannig upp við vegg. Það skiptir sköpum að vanda sig, því farsæl framtíð er ekki hvað síst undir því komin að þjóðmál, stór sem smá, séu meðhöndluð af ráðamönnum af yfirvegun og þeim leyft að þroskast. Það þarf að gefa sér tíma og vanda sig skref fyrir skref.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur