Þriðjudagur 28.10.2014 - 17:08 - FB ummæli ()

Ríkisútvarpið – hvað næst ?

 

Það blæs ekki byrlega fyrir Ríkisútvarpinu þessa dagana. Margra ára skuldahaugur hvílir á rekstri þess og  stjórnendum er uppálagt að skera niður. Magnús Geir er ekki öfundsverður af starfi sínu. Hann tekur við afleitu búi.Hvernig gat það gerst að grundvallarstoð íslenskrar menningarmiðlunar og menningarvarðveislu, er að blæða út ? Finnst stjórnmálamönnum sem ríkisútvarpið skipti ekki máli eða að hægt sé að reka alvöru menningarfjölmiðil  án alvöru tekna ? Það erfiðasta sem Ríkisútvarpið þarf þó að glíma við, er það menningarpólitíska tómarúm sem umlykur starfsemi þess. Það er bara þarna eins og venslalaus  einstaklingur á víðavangi. Það á að sjá um sig sjálft. Það var mikið óheilla skref sem fyrrverandi fjármálaráðherra  steig, þegar hann tók hluta af áskriftargjaldi ríkisútvarpsins og lét það renna í ríkissjóð. Það var baneitrað fordæmi, jafnvel þótt reynt væri að réttlæta það. Þá var það vanræksla hjá fyrrverandi stjórnendum að takast ekki strax á við lífeyrisskuldbindingar stofnunarinnar. Nú er það að verða of seint.  Þetta var upphaf þrautargöngu RÚV sem engan enda sér á. Þá er það auðheyrt að áhrifamiklir pólitískir einkavæðingarsinnar vilja ekkert ríkisútvarp. Þeir eiga öfluga forsvarsmenn í báðum ríkisstjórnarflokkunum. Á meðan svo er mun enginn friður verða, hvorki um daglegan rekstur, fjárhagsaðgerðir né framtíðarsýn RÚV. Einu skilaboðin sem almenningur fær úr Efstaleitinu er vonlaus skuldastaða, erfiður rekstur og vængbrotin dagskrá.

Opinber fréttamiðlun og menningarrækt

Flestar þær þjóðir sem eru okkur næstlægar reka öfluga ríkisfjölmiðla í formi útvarps og sjónvarps. Undantekning  eru BNA.  Á Norðurlöndum og á meginlandi  Evrópu eru ríkisfjölmiðlar kjölfestan í frétta- og menningarfjölmiðlun viðkomandi landa. Um það ríkir pólitísk sátt, þótt núningur geti orðið við skipan einstakra stjórnenda. Megin straumar stjórnmálanna telja að þannig verði fréttamiðlun og kostnaðarsöm menningarrækt best af hendi leyst. Styrkur almannavalds  og almenningsálits í samfélagi þessara þjóða er svo sterkt, að stjórnmálamenn virða vilja þess. Þannig vinna þroskaðar, siðmenntaðar þjóðir. Einnig hér hjá okkur ríkti fyrrum sátt um öflugt Ríkisútvarp, þótt átök í útvarpsráði væru  tíð ,einkum ef um ómerkilega hluti var að ræða. Megin munur á samfélagslegri umgjörð útvarpsmála hérlendis  og í grannríkjum okkar er að hér hefur almannahugsun löngum verið veik og almenningsálitið breytilegt eins og vindáttirnar. Við erum svo fámenn og auðvelt að ná eyrum okkar,að öflugur pólitískur áróður getur  sveiflað almenningsálitinu  fram og til baka. Einræna fásinnisins  mótaði þjóðina meir en samhyggja þéttbýlisins, sem var ekki burðugt lengi vel. Áhrifavald almannaálitsins  veitir stjórnmálamönnum hér því ekki sama aðhald.

Rás 1,5

Dagskrá útvarpsins hefur einnig orðið fyrir áföllum í þessum þrengingum. Rás 1 eða Gamla gufan, sem einu sinnu var, er ekki svipur hjá sjón, eftir að hún var sameinuð  Rás 2 á aðalhlustunartímum . Búið er að aðlaga dagskrána óskum auglýsenda.Háværar  auglýsingar fá kjörstaðsetningu í dagskránni. Utan um þær sveipast umgjörð efnislítilla viðtala, fyllt upp með gnauði frá stuðmúsík. Svona samsetning breytir sérhverjum hlustanda í  steinrunna mosaþembu. Af hverju má ekki móta dagskrána að hlustendum sem eru aðal greiðendur stofnunarinnar? Ég hélt lengi vel í þá von, að við sem höfum litla ánægju af síbyljutónlist sem uppistöðu í dagskrá, fengjum að hafa Rás 1 í friði. Sennilega eru  gagnrök  útvarpsstjórnenda  þau, að bæði hlustun og tekjur hafi aukist með þessum breytingum. Slík áhrif eru velþekkt, þegar staðlar eru lækkaðir.Opinber fjölmiðill  verður að miða dagkrá sína kröfuharðara  viðmiði um upplýsingu og menningarmiðlun, en auglýsendur  gera.Verði framhald á þessari pop- og auglýsingavæðingu, hlýtur almenningur að spyrja, hvort ekki sé rétt að losa um skylduaðildina. RÚV er þó enn okkar BBC, DR, NRK, ARD. Það er daglegur félagi okkar, velferð þess og reisn skiptir okkur öll máli.  Alþingi verður að höggva á tilvistarvanda þess. Auðvelda því að losna  við fjárhaglegar byrgðar fortíðarinnar, og gefa okkur  með því von um skapandi,kröfuharða og þar með skemmtilega  dagskrá.

Greinin birtist í mbl. 27.10.2014

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur