Mánudagur 18.05.2015 - 20:56 - FB ummæli ()

Launakröfur og reið þjóð

Launakröfur og reið þjóð

Tímarnir eru gamalkunnir en þó sérstakir. Verkalýðsfélögin setja fram háar kröfur sem lærðir hagfræðingar og ábyrgðaraðilar fyrirtækja svo ekki sé talað um ríkisstjórnina, vísa út í hafsauga – segja þær ávísun á verðbólgu. Verði þær samþykktar þýði þær kjaraskerðingu ekki kjarabætur. Nú þurfi nýja þjóðarsátt. Á þessa leið hljóma ummæli margra þeirra sem spáð hafa í raungetu hagkerfisins til kjarabóta. Sá sem þetta ritar talaði og skrifaði í  anda þessa boðskapar í aðdraganda þjóðarsáttar haustið 1985 um nauðsyn þess að semja um betri kjör í stað uppskrúfaðra, falsra launahækkana. Rökin voru veikt efnahagslíf sem svara myndi háum launakröfum með gengisfellingu og verðbólgu. Eftirtekjan yrði skammvinn og rýr. Árum seinna voru gerðir skynsamlegir samningar,sem kenndir eru við þjóðarsátt. Gilda ekki sömu rök lengur ? Hefur eitthvað breyst frá því í lok níunda áratugar s.l. aldar? Vissulega. Umgjörð, samsetning og gangvirki efnahagskerfisins hafa gjörbreyst. Fiskveiðistjórnunarkerfið er farið að skila umtalverðum hagnaði til útgerðarmanna. Með auknum aflaheimildum mun hagnaðurinn að öðru óbreyttu vaxa enn. EES samningurinn hefur gert íslensks efnahagslíf fjölbreyttara, frjálsara og áræðnara, aukið samkeppnishæfni þess og opnað markaði áður lokaða. Ferðamannaiðnaðurinn hefur vaxið með leifturhraða og er nú orðin ein vinnufrekasta og gjöfulasta útflutningsgrein landsins. Krósett bankakerfið bólgnar út af krónueignum. Afkomutölur segja að flest svið íslensks efnahagslífs skili handhöfum og eigendum góðum eða miklum hagnaði. Þannig var sannarlega ekki umhorfs á tímum þjóðarsáttar.

Velgjörðarhalli hjá ríkisstjórn

Enn búum við þó við hagkerfi, sem knúið er áfram af meginboðorði nýfrjálshyggjunnar, sem stillt er inná hámarkshagnað sem forgangsmál meðan laun eru afgangsstærð. Félagslega markaðskerfið staldraði stutt við hérlendis.Bilið milli hagnaðar og raunlauna er hættulega breitt og víkkar. Þetta veit launafólk og vill ekki sætta sig við. En það er ekki nóg með að fyrirtækin hagnist vel, sem í sjálfu sér er gott. Ríkisstjórnin virðist hafa það að megin viðfangsefni að auka hagnaðinn enn meir. Hún  er ötul við að taka ákvarðanir sem lækka skatta á útgerðir, stóriðju og hæst launaðasta fólkið, eins og þar kreppti mest að. Jafnframt finnst fólki ríkisstjórnin vera að ræna sig helgum arfi sínum og eign sem er sjávarauðlindin, með einhliða úthlutun langvarandi aflaheimilda s.s. á makríl. Allt er þetta gert í nafni bættra rekstrarskilyrða atvinnuveganna, sem eru sömu vígorð og notuð voru fyrir hrun. Við virðumst ófær um að læra af reynslunni.Samhliða þessum velgjörðarhalla berst ungt fólk í bökkum við að komast af, ekki hvað síst vegna hárra húsnæðisreikninga og verðtryggðra skulda. Ísland er erfitt og óvinveitt land ungu launafólki. Skilaboð til launafólks um ábyrgð og skynsemi missa því  marks.

Reið kynslóð

Hvergi lenti almenningur verr útúr fjármagnskreppunni en hér á landi vegna gengishraps krónunnar. Hún magnaði upp áhrif hrunsins og kom mörgu launafólki á kaldan klakan.Hún var bölvun ekki happ. Nú hefur ríkisstjórnin ýtt útaf borðinu  þeirri von að tenging við ESB gæti opnað framtíðarsýn og fært okkur gjaldmiðil, sem ekki er stöðugur leiksoppur misheppnaðra ákvarðana stjórnmála- og/eða fjármálamanna. Þá virðist það ekki hvarfla að alþingismönnum að gagngerar breytingar á landbúnaðarkerfinu  geti bætt kjör almennings. Núverandi kerfi er rándýrt og sniðið að hagsmunum fárra á kostnað fjöldans.Þetta sést ekki bara á fjallháum styrkjum til frumstæðs sauðfjárbúskapar, heldur einnig í fáránlegum einkasölureglum, þar sem innflutningsbanni er beitt þó aðeins einn  eða örfáir innlendir framleiðendur séu til staðar. Auðvitað finnur almenningur hve niðurnjörvað og andsnúið kerfið er, en hann veit jafnframt að hann á fáa bandamenn, sem þora að gera breytingar þar á.  Þess vegna dugar lítt nú að skírskota til hógværðar í kröfugereð eins og hægt var á árunum fyrir 1990.  Reiði fólks birtist m.a. í hruni allra flokka í skoðanakönnunum, nema þessara einu lítt þekktu pírata. Háar launakröfur með verkfallsvopnið á lofti er líka andsvar fólks og tjáning við áhrifaleysi, andsnúnum og einstrengingslegum ákvörðunum ríkisvaldsins. Á síðasta útifundi  á Austurvelli spurði ég unga konu hverju hún væri að mótmæla. Hún sagðist mótmæla því að vera neydd til að lifa í stöðugu ofbeldissambandi með ríkisstjórninni, sem keyri áfram af óbilgirni ítrustu sjónarmið sín í öllum viðkvæmum málum. Sanngirnissjónarmið eða meðalhóf sé hvergi að finna. Hræddur er ég um að þetta viðhorf sér algengara en mig hafði grunað, og að unga konan deili því með fjölmörgum.

Greinin birtist i  Morgunblaðinu 16. maí s.l.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur