Sunnudagur 03.04.2016 - 20:57 - FB ummæli ()

Alþýðuhreyfingar, útópíur og tálsýn tíðarandans.

 

Vandinn við okkar tíma er sá að framtíðin er ekki sú sem hún er vön að vera, sagði Paul Valery hinn franski. Síðan þessi skáldlegu og andríku orð féllu er liðinn nokkuð langur og afdrifaríkur  tími.   Sýn mannsins á heiminn og á sjálfan sig hefur breyst. En það breytir því ekki …“að framtíðin er ekki sú, sem hún  er vön að vera.“

Á öllum tímum reynum við að útskýra, hver séu hreyfiöfl sögunnar, orsakasambönd pólitískra athafna,  og hver sé hugmyndaheimur stjórnmálanna. Hvað gefi vísbendingar um þann tíðaranda sem umlykur okkur og hvað sé framundan.

Það voru þeir Hegel og Marx sem mótuðu sýn margra kynslóða á þróunaröfl sögunnar. Hugmynd marxismans um stéttarsamfélagið var reist á díalektískum átökum andstæðna,vinnu og auðmagns, öreigastéttar og auðstéttar. Þessi söguskoðun var eldsneytið í sósíalismann allt uppúr miðbiki nítjándu aldar og fram á okkar öld. Stéttarbaráttan var í senn tilvísun tímans og tíðarandinn sjálfur. Þannig voru þjóðfélagsgerðin og þjóðfélagsátök skýrð út frá hugmyndafræðilegum forsendum. Sumir marxistar töldu þessa skýringu altæka.

Nú er orðið sjaldgæfara að leita skýringa á þróun samfélagsins með tilvísunum í stéttaátök. Hefðbundin stéttarátök eru ekki fyrirferðarmikil lengur og pólitískar atlögur milli kapítalisma og sósíalisma eða þeirra beggja við kommúnismann eru ekki áberandi. Verkföll litin tortryggnum augum. Kjarasamningar eru leystir tæknilega inná skrifstofum af tölvufróðu fólki.

Merking hugtakanna sósíalismi og kommúnismi hefur líka dofnað. Í Kína búa meira en helmingur allra milljarðamæringa heimsins. Hvergi eru andstæður auðs og örbirgðar nöturlegri en þar. Félagsleg ábyrgð samfélagsins óvíða minni. Þó prýðir ríkið sig með nafnbótinni Alþýðulýðveldi og alræðisflokkurinn heitir Kommúnistaflokkur Kína.

Með þeirri friðsamlegu byltingu sem varð í austur Evrópu og sem leiddi til hruns Sovétríkjanna og  Berlínarmúrsins, á árunum 1989-1991 urðu mikil vatnaskil í pólitískri sögu og þróun heimsins. Ekki bara að kommúnisminn hyrfi  af leiksviði sögunnar, heldur kvöddu í framhaldi hinn heimspólitíska vettvang bæði  hefðbundin  íhaldsstefna (konservatívísmi) og hefðbundinn kratismi.

Í gömlu gildum evrópsk-borgaralegrar íhaldsstefnu var áhersla lögð á kristna trú, heiður þjóða sinna, öryggi og reglu í samfélaginu og sterkt feðraveldi bæði innan fjölskyldu og ríkis – þessi gildi máðust út í framhaldi af byltingunum 1989-1991.  Nú eru þau nánast horfin úr pólitískri umræðu. Það sem tók við var neo-kon og nýfrjálshyggjan.

Hefðbundinni jafnaðarstefnu gekk einnig sinn pólitíski áttaviti úr greipum. Hún missti viðmiðunina við stéttarhugmyndina. Þegar stéttarríkið – sem slíkt – var horfið úr almennri umræðu, hvarf viðspyrnan – framtíðin sveipaðist þoku. Ef andstæðar stéttirnar voru ekki lengur sá veruleiki sem almenningur skynjaði –  hvaða meining var þá í því að berjast fyrir samfélagi án stéttamismunar ? Kommúnisminn var ekki til staðar lengur til að brýna kratana, með því að kalla þá stéttsvikara og handlangara auðvaldsins. Um leið hvarf eldsneytið í baráttu jafnaðarmanna  gegn kommunum vegna alræði þeirra síðanefndu, ófrelsi þegna þeirra og undirokunarstefnu þeirra. Það sem á eftir kom var Blair-isminn eða New Labour stefnan.

Báðar fyrrnefndar stefnur – íhaldshyggjan og kratisminn-  vantaði nú sárlega gagnaðilann. Andstæðingurinn gufaði upp og með hvarfi hans breyttist umræðan, varð opnari en jafnframt einsleitnari. Hún snerist meir um hagskipanina, með og móti. Þetta skók tilvistargrundvöll hefðbundins íhalds og gamla kratismans. Það sem einu sinni þótti gott og gilt mátti nú draga í efa. Hefðbundin gildi og baráttumál misstu marks.

Hvaða hugmyndir eru þá að takast á innan nútíma vestrænna samfélaga ? Eru viðfangsefni jafnaðarmanna einhver önnur en annarra miðjusækinna stjórnmálaflokka ? Nei,  því miður. Ekki er um auðugan garð að gresja. Engar ferskar hugmyndir um nýtt og breytt eða annars konar samfélag. Ný hugmyndafræði ekki í sjónmáli. Sú nýjasta var feminisminn, sem þegar er farinn að grána. Ekki eru sjáanlegar neinar útlínur nýs samfélagssáttmála.  Þó er nóg af upplausn, úlfúð og átökum. Þó er það svo að ekki er örgrannt um að ný tímamót séu að knýja dyra.

Ef grannt er skoðað, má kenna breyttar pólitískar viðmiðanir. Ný pólitísk eyktarmörk, þar sem átakalínur samfélags nútímans virðast liggja ?  Þessar eyktir eru okkur þó gamalkunnar.  Þær heita : Fortíð, nútíð og framtíð. Pólitískir hreyfiferlar og tilvísanir taka nú í vaxandi mæli mið af og snúast um hugmyndir sem rekja má til mismunandi tímaskeiða. Það endurspeglast í pólitískum átökum um þessar mundir.

Með því að skoða og fylgjast með pólitískum hræringum í álfunni má rekja slóðina. Við erum annars vegar vitni að aðför pólitískra hugmynda úr fortíð, sem sækja að samtímanum. Jafnframt hamlar hagskipan nútímans sýn til framtíðar.

Skýrum þetta nánar.

Þótt fortíðin hafi vissulega margar mismunandi birtingarmyndir og ásýndir, getum við skilgreint sem fortíð, allar þær hreyfingar og stefnur, sem styðjast við misöfluga valdræðishyggju – átóriterisma, sem er ætíð á skjön við nútíma opið vestrænt lýðræði. Sterkur foringi, veikar stofnanir, skert fjölmiðafrelsi, mannréttindi á hliðarlínunni, girt og varin landamæri.                                                                                                                                        Í þessari skírskotun skiptir það ekki öllu máli, hvort hugmyndirnar komi frá vinstri eða hægri. Þær koma frá þjóðernissinnum, sem predika valdbeitingu ríkisins í stað lýðræði fjöldans, en þannig samfélag er jafnan lokaðra og sniðið að þrengri sérhagsmunum. Þið kannist við nöfnin: Sannir Finnar, Sænskir demókratar, Danski þjóðarflokkurinn, Front national, Hinn pólska flokk, Réttar  og réttlætis, o.fl.

Sama gildir um hreyfingar sem ættaðar eru úr aðdáendahópum einstakra valdsmanna, sem sýnt hafa glögga valdræðistilburði; eða úr baráttusamtökum til varnar evrópskri menningu, svo ekki sé talað um liðsmenn „Íslamska ríkisins“, sem með hrotta og hryðjuverkum vilja kveða niður hvers konar frjálslynd lífsviðhorf og upplýst samfélög.     Allt sækir þetta næringu úr sömu lindinni – fortíðinni.

Þessa hópa, eða endurómun þeirra, má, stóra sem smáa, finna í flestum ríkjum álfunnar, einnig hérlendis. Þeir stefna að skertu lýðræði, þögulum fjölmiðlum og þrengra samfélagi, lokuðum efnahag og upphafningu á fullveldi þjóða. Þarna er um öfl að ræða, þar sem afturhaldssækin – reaktioner – hugsun úr fortíð, sem við héldum að væru komin á ruslahaug sögunnar, ákveður stefnur og framgöngu hreyfinga og stjórnmálaafla í nútíð.

Margar þjóðir í álfunni hafa kosið yfir sig ríkisstjórnir sem blekkja þegna sína með margs konar tálsýnum og hugmyndum úr fortíð sem taka nútíðina í herkví.

Sömu hugmyndatengsl má greina hjá ríkisstjórn Íslands. Tökum lítið dæmi: Hvaðan haldið þið t.d. að þær fyrirmyndir séu komnar sem endurspeglast í nýgerðum búvörusamningnum ? Engir samningar snerta almenning meir en þessi samningur. Hvaðan eru viðmiðin tekin ? Hann þarf í reynd hvorki að bera undir bændur sjálfa né alþingi. Þetta er gert af sömu mönnum og kvarta undan lýðræðishalla hjá ESB. Við gætum haldið áfram með fleiri dæmi.

Ég sagði líka að ég teldi okkur taka þátt í atlögu nútíðar að framtíðinni. Gjaldgengur samtalsfrasi segir, að við séum uppi á nýfrjálshyggju tímum, og þá er yfirleitt átt við hömlulausan markaðsátrúnað og einsleitna gróðahyggju á grunni kapítalismans, sem eins konar grunn gildi samfélagsins. Ef grannt er skoðað er nýfrjálshyggjan hins vegar meira. Áhrif hennar eru ekki eingöngu efnahagsleg. Hún er frekari til fjörsins en svo.

Ítök hennar í hugsunarhætti okkar eru sterk. Segja má, að nýfrjálshyggjan sargi sundur samhengi tímanna, því hún byggir nefnilega á  tvíhyggju: þ.e. samfélagslegri kyrrstöðu, um leið og hún rekur hagkerfið áfram á fleygiferð og skapar mikinn auð. Hún er gjöful á auðsköpun og atvinnu sem veldur því, að við teljum kerfi hennar vera árangursríkt. En það  leiðir hins vegar til ákveðinnar pólitískrar kyrrstöðu. Það er eins og framtíðin hverfi úr hugum okkar öðru vísi en í umgjörð nýfrjálshyggjunnar. Í huga okkar afmáum við vissa samfélagslega framtíð, með því að gleyma okkur í nútímanum.

Við vesturlandabúar búum við meira öryggi, frið og velmegun en nokkur kynslóð á undan okkur. Þessi velmegun dregur eðlilega úr löngun okkar til að hugsa til breytinga á samfélaginu. Einhvers konar pólitísk tómhyggja ræður ríkjum. Við erum nefnilega hætt að trúa því, að til sé hagskipan sem virki betur en kapítalismi bragðbættur með nýfrjálshyggju.

 

 

Útópían

En af hverju fullyrði ég það vera  afleiðingu nýfrjálshyggju að við séum stöðnuð í aðdáun á samtímanum ? Við höfum þegar minnst á seiðmögnun velmegunarinnar. Af hverju sagði ég að hún sargi sundur samhengi tímanna !

Það var nefnilega svo, að í eina tíð hafði verið lofað breytingum á þjóðfélaginu, á kapítalismanum, einkum af alþýðuhreyfingum sem áttu uppruna sinn í fátækt og undirokun. Kynslóðir börðust með það fyrirheit á vörum að  breytingar kæmu. Loforðið var hugsjónin um samfélag sem ekki var, útópían, staðleysan. Útópían var nauðsynleg  til að við gætum breytt samfélagi nútímans. Og mannkynið  veit af þessu loforði. Það veit að kapítalismi í nýfrjálshyggjustíl er ekki endalok tímans.

Frelsi, jafnrétti og bræðralag voru einu sinni stefnumörk eða gildi, sem sett voru á pólitíska dagskrá heimsbyggðarinnar, sem framtíðarsýn – útópía  –     til að við gætum notið  þeirra í samtíðinni – núna í dag. Framtíðin varð nútíð. Þetta samhengi hefur verið rofið.

Ef við teljum:

Upplýst lýðræðissamfélag , Jafnrétti og Jöfnuð,   Jafnræði kynjanna,     Mannréttindi,   Virðingu og vernd einstaklingsins   og       Jafnan rétt til menntunar

Ef við teljum þetta vera vinstrisinnuð gildi, þá getum við sagt, að framtíðin hafi alltaf verið til vinstri. Framtíðin var ætlunarverk hreyfinga vinstrimanna, jafnaðarmanna. Fortíðin var aldrei viðmiðun alþýðuhreyfinga. Þess vegna þurfum við að endurvekja framtíðina, gera hana aftur að útópíu vinstri manna. Við þurfum á ný að finna leið til að úthugsa nútímann frá sjónarhorni framtíðarinnar. Þannig breytir útópían deginum í dag.

Sveitaútópía Jónasar frá Hriflu.

En pólitískar draumsýnir geta átt mismunandi  rætur. Þær geta líka tekið mið af rómantískri endursköpun fortíðar. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, var eftir því tekið, að það gerðist með sterkri skírskotun til Jónasar frá Hriflu. Samfélagssýn hans var fyrirmyndin. Stjórnarsáttmálinn og ummæli öll bera þess vitni.

Uppúr aldamótunum 1900 fjalla margir leiðarar Skinfaxa um það, að ´kaupstaðalífið íslenska sé að bera sveitalífið ofurliði. Kaupstaðirnir séu bæði of margir og of fjölmennir ; sá faraldur geisi um landið, að æskulýðurinn streymi til kaupstaðanna  og fjöldinn allur hafi snúið baki við sveitalífi fyrir fullt og allt – Allir sjái, hvílíkur voði þetta sé þjóðlífinu og öllum framförum í landinu. Þetta sé þjóðinni hættulegra en búferlaflutningarnir til Ameríku.  Snúa verði af þessari viðsjárverðu braut.´

Sams konar málflutningur þótti aftur boðlegur með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar. Móta skal nútíð okkar úr þekktum hugmyndaheimi fortíðar.

Jónas frá Hriflu kallaði þetta kaupstaðasýki, sem yrði að stöðva. Hann tók til óspilltra málanna við að smíða pólitíska stefnu fyrir ungan flokk, byggða á eins konar afturhvarfi til þjóðveldissamfélagsins. Jónas afbakaði útópíu jafnaðarmanna og flutti hana uppí sveit.  Verkfærið var  Framsóknarflokkurinn

Hann hannaði og gróðursetti þá framtíðarsýn að íslensk bændastétt skyldi leiða þjóðina inní farsæla framtíð. Hann fól það bændum og búaliði að aðlaga íslenskt samfélag þessari framtíðarsýn. Fjölga skyldi í sveitum. Landnám ríkisins, átti að auka ræktanlegt land fyrir stórtæka nýbýlabyggð.  Pólitísk og þjóðfélagsleg undirtök ættu að vera hjá bændum til frambúðar. Til að tryggja pólitískt yfirráð sveitanna var tangarhaldið  geirnegld með ójöfnum kosningarrétti..

Hrinda skyldi af stað menningar- og viðskiptabyltingu í dreifbýlinu svo bændur gætu sinnt forystuhlutverki sínu. Samvinnurekstur dreifbýlisins var mótvægið við og áskorun á einkarekstur í bæjunum. Samvinnuskólinn var stofnaður til að mennta elítuna – forystusveit  samvinnuhreyfingarinnar. Jónas kom á fót héraðs- eða alþýðuskólum. Allir voru þeir staðsettir í dreifðum byggðum.

Nýlega  greindi forsætisráðherra frá nýrri  menntastefnu sérhannaðri fyrir dreifbýlið.

Allt var þetta gert í nafni litla mannsins og bændasynir höfðu þessa lífssýn að leiðarljósi allt sitt líf, löngu eftir að þeir voru komnir í daglaunavinnu á mölina. Í þessari framtíðarsýn – tilraun til íslenskrar  útópíu – lá styrkur Framsóknarflokksins. Á grunni hennar varð til öflug alþýðuhreyfingin í sveitum landsins.

Rétt er að taka það fram, að þegar ég tala sífellt um Jónas frá Hriflu, þá nota ég hann meira sem sýmból – táknmynd-  en alsráðandi, einan geranda – því þó hann hafi verðið þyngsta áburðarkerran, var hann alls ekki sú eina.

Alþýðuhreyfing jafnaðarmanna

Sýn Jónasar um endurnýjun sveitabúskaparins á kostnað þéttbýlisins gerði hugsjón jafnaðarmanna erfitt fyrir. Tvær alþýðuhreyfingar  kepptu  um atkvæði og pólitísk heimkynni.  Ungt sveitafólk sem komið var á mölina hafði bundist og játast hugsýn Jónasar um nýja gullöld velmegandi sveita. Þessum ungmennum reyndist erfitt að slíta sig frá henni. Það voru aðeins slitrur úr þessari bændahreyfingu sem gengu til liðs við alþýðuhreyfingu jafnaðarmanna.

Þegar  jafnaðarmenn tóku þátt í ríkisstjórnum var staða þeirra jafnan á hliðarlínunni – til hliðar við Jónas. Fylgdarsveinahlutverk þeirra olli því að þeir náðu aldrei þeirri pólitísku fótfestu að hafa  heildar áhrif á uppbyggingu og mótun samfélagsins. Jafnaðarstefnan skaut því aldrei sömu djúpu rótum hérlendis sem á hinum Norðurlöndunum.

Hún varð aldrei grunnstoð samfélagssins eins og þar.    Þrátt fyrir það ávannst margt sem fáir vildu vera án, og sem bætti líf alþýðufólks umtalsvert.

Hvað lifði af ?

En þróunin varð ekki umflúin. Tíminn vann á móti Jónasi. Þrátt fyrir öflugan og langvarandi stuðning fækkaði sífellt  í sveitunum og innviðir þeirra veiktust. Samvinnustefnan varð undir. Forystusveit samvinnuhreyfingarinnar, sem alist hafði upp í velgengni og undir pólitískum verndarvæng Framsóknarflokksins, en jafnframt  bundin af stefnu hans, fann engin svör við tíðarandanum. Samfélagsþróunin tók fram úr  þjóðfélagsmódeli Jónasar, sem byggði á því að endurlífga samfélag, sem var á útleið. Kerfi hans hlaut  að  líða undir lok. Forystusveit með áttskakkann kompás, hafði hvorki þrótt, vilja, né þekkingu  til að endur hanna stefnuna. Þegar útópía Jónasar tók að blikna, skrapp fylgi við Framsóknarflokkinn saman.

Voldug og áhrifamikil samvinnuhreyfing, samvinnuskólinn, héraðsskólarnir, Landnám ríkisins, allt er þetta horfið á braut. Og ég vil bæta því við, að það er mikil eftirsjá að samvinnustefnunni.. Það sem enn lifir góðu lífi er opinber framfærsla úrelts landbúnaðarkerfis og ójafn kosningaréttur. Hann er nú – valdaleg forsenda ný endurvakinnar landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu.

Nú – þegar bráðum tveir áratugir eru liðnir af 21. öldinni og liðlega 150 ár frá evrópsku byltingunum, hefur íslensku þjóðinni enn ekki tekist að jafna kosningaréttinn, þótt vissulega hafi hún  innleyst kröfu evrópsku byltinganna um almennan kosningarétt.  Samsetning alþingis endurspeglar því ekki þjóðina sem heild og þar af leiðandi gera lögin, sem þaðan koma, það ekki endilega heldur. Alþingi Íslendinga er því ekki þjóðþing í  þess göfugustu merkingu.

Það er einörð skoðun mín, að ekkert eitt atriði í pólitísku stjórnskipulagi Íslands endurspegli á jafn nöturlegan hátt, sögulegt  magnleysi alþýðuhreyfinga jafnaðarmanna eins og það misvægi atkvæða, sem enn er leyft að vara hér, eins og hvert annað náttúrulögmál.

Staða stjórnmálaflokka

Frá upphafi þessarar aldar hefur verið í gangi mikil breyting á stöðu stjórnmálaflokka um alla álfuna. Sú líflega skoðanamyndun og almenna umræða sem áður átti sér stað innan evrópskra stjórnmálaflokka , einnig hér,  er ekki svipur hjá sjón. Flokksfélögum hefur fækkað og eru nú  aðeins lítið brot kjósenda. Nýjustu flokkarnir hafa enga skráða meðlimi.

Flokkarnir hafa því glatað hæfileika sínum, til að vera þessi mikilvæga brú milli þjóðar og pólitískra stofnana ríkisins, sem þeir einu sinni voru.                                                                    Þjóðþingin eru lítillækkuð í þá stöðu að vera leiksoppur eða leikfang  flokkanna, sem veldur því að þjóðirnar vantreysta báðum – flokkunum og þjóðþingunum. Einnig hér á landi. Stefnuskrár flokka og pólitískar lífsskoðanir  þykja gamaldags.

Nú eru evrópskir flokkar reknir eins og straumlínulöguð fyrirtæki, þar sem  formaðurinn og ímynd hans er talin skipta mestu máli fyrir árangur flokksins. Persónur ýta stefnuskrám til hliðar. Fólk er með eða móti Merkel, með eða móti Hollande, Camerun , o.s.frv.. Við gætum heimfært þetta á íslenska formenn Árna Pál. Sigmund Davíð eða Bjarna Ben. Dugi þeir ekki , er þeim ýtt til hliðar. Pragmatismi og hentistefna ráða ríkjum.

Ég sagði í upphafi máls míns að sýn mannsins á sjálfan sig hafi breyst. Stafræna byltingin hefur haft sín áhrif. Við erum öll jöfn á fésbókinni og þar er enginn foringi. Þar tekur hver mið af sjálfum sér. Fólk er orðið sjálfsækið. Margir bera eigin getu ekki lengur saman við afreksgetu, heldur eingöngu við sjálfa sig. Horfa í spegil og þykja harla gott. Sjáið allan þennan fjölda sem telur sig ráða við embætti Forseta Íslands. Sama sjálfshyggja smitast inní stjórnmálaflokkana. Binding við þá er talin tímaskekkja. Stöðug þjóðaratkvæði eiga að koma í staðinn fyrir flokkslýðræði þjóðþinganna. Brúin milli þjóðar og þings skal vera þjóðaratkvæðið.

Hætt er við að þetta byrgi pólitísku samhengi sýn, ýti samfélagslegri og samflokkslegri hugsun til hliðar, því flokkarnir varðveittu samfélagssýnina, hver á sinn hátt. Hér mætti einnig bæta við tíðaranda nýfrjálshyggjunnar, sem minnst var á að framan. Hann er einnig hér að verki. Sögðum við ekki að hann sliti sundur samhengi tímans ?

Jafnaðarmannaflokkur Íslands                                                   

Niðurstöður  þessarar léttstígu yfirferðar um stöðu  stjórnmálaflokka í álfunni, má einnig heimfæra á þann flokk, sem flestir lifandi leiðtogar íslenskra jafnaðarmanna höfðu forystu um að stofna – Samfylkinguna.

Eitthvað brást hrapalega. Flokkur sem ekki nær tveggja stafa fylgi í könnunum,  hvað eftir annað, gæti auðveldlega orðið tæringunni að bráð. Slíkur flokkur hefu rekki  mikið aðdráttarafl.Þess vegna hrekst hann til áhrifaleysis.     Enn er þó jafnaðarstefna viss kjarni í pólitísku veganesti flokksins.

En það nægir ekki lengur, því stefnuskrám virðist vera ofaukið. Síðasta ríkisstjórn og endalok hennar virðist hafa skipt sköpum í fylgistapi flokksins. Hún var:

Ríkisstjórn,  þar sem hver höndin var uppá móta annarri; fyrir opnum tjöldum.

Ríkisstjórn, þar sem eigin ráðherrar hindruðu framgang meginmála ríkisstjórnar sinnar;

Ríkisstjórn, sem ekki kunni að forgangaraða mikilvægustu verkefnunum og klára þau;

Ríkisstjórn, sem virtist setja metnað sinn helst í það að sanna að vinstri stjórn geti setið út heilt kjörtímabil;

Ríkisstjórn, sem taldi það sitt helsta afreksverk að kona stýrði henni;

Þannig ríkisstjórn fælir kjósendur frá og þá skiptir það minna máli þótt viðkomandi ríkisstjórn hafi á ýmsum sviðum lyft grettistaki. Í augum kjósenda var hún ónýt.

Núverandi forystusveit Samfylkingarinnar  leggur margt skynsamlegt til málanna. En hana vantar tengingu við þjóðina. Ungt venjulegt fjölskyldufólk er aðþrengt. Lífsbarátta þess er allt annað en auðveld. Verðtryggð krónan, rokdýrar landbúnaðvörur, útlátamikið og vandfundið húsnæði gerir þeim lífið erfitt, því launin eru ekki að sama skapi há. Samfylkingin virðist ekki hafa haft frumkvæði af því að mynda með þeim baráttuhópa fyrir betri kjörum. Þannig mætti halda áfram.

Þótt margt hafi breyst, þá er pólitísk ábyrgð stjórnmálaflokks jafnaðarmanna gagnvart þeim þjóðfélagshópum, sem álíta forystusveit þjóðarinnar eða efnahagskerfið sem slíkt, vera sér andsnúið,- þessi ábyrgð er enn til staðar. Og það skiptir engu máli hvort forysta Samfylkingarinnar  er  þessum hópum að einhverju leyti ósammála og finnst þeir vera ósanngjarnir – við þá þarf að tala. Flokkurinn verður að sýna  þessu fólki fram á, að hann láti sér ekki standa á  sama. Jafnaðarstefnan snýst ekki hvað síst um það, að fólk viti að það skipti máli, vandamál þess sé líka vandamál flokks jafnaðarmanna og fólk finni að það sé ekki eitt á báti.   Það eru ekki upphlaup á alþingi, heldur samtöl við almenning sem gera gæfumuninn.

Þess vegna er það mikilvægt að gefa almennum borgurum tækifæri til að setjast á alþingi fyrir jafnaðarmannaflokk. Meðan prófkjörsaðferðin er notuð til að forgangsraða á framboðslista komast fyrst og fremst þekkt andlit og persónur úr framvarðasveit flokksins á lista. Í stað helmingareglu kynja ætti ekki síður að hafa helmingareglu almennings og elítu. Það myndi jarðbinda flöktandi fylkingu betur. Þegar forystusveitin er farin að endurnýja sjálfa sig, eins og prófkjörin ýta undir, þá er einangrun afleiðingin.

Hér erum við enn og aftur komin á þekkta brautarstöð.     Evrópsku  og norrænu krataflokkarnir  vissu í upphafi, hvar þeir áttu að staðsetja sig á andlegu og pólitísku landakorti fólksins. Þeir vissu að boðskapurinn þurfti að snerta tilfinningalíf fólksins, vekja með því ástríðu, koma því í uppnám. Ef það tækist, þá yrði  flokkurinn heimili þess. Forystufólk þessara flokka vissi mætavel að lærdómur og vitsmunir hrökkva skammt, ef tilfinningin fylgdi ekki með, því næra þyrfti ástríðuna. Hreinn vitsmunaflokkur yrði aldrei heimili fólksins, hversu klókur og viturlegur sem málflutningurinn annars væri.

Í aðalatriðum gildir þetta enn. Þegar jafnaðarmenn fara á ný að horfa á nútímann af sjónarhóli framtíðarinnar, verður ástríðan og tilfinningin að eiga þar sinn sess. Innantóm og nagandi neysluboðun og nauðhyggja hagvaxtarátrúnaðarins eru gengin sér til húðar. Þau eru fortíð sem vekja frekar óvissu og óþægindi en hrifningu. Hreyfing nýrra náttúruverndarsjónarmiða, á seinni hluta liðinnar aldar, kafnaði að mestu í skruðningum hagvaxtarhyggjunnar og náði aldrei landfestu á hugmyndaströnd jafnaðarmanna. Þess gjalda þeir nú.

Víðara sjónarhorn

Við hófum þessa lautarferð með því að skoða nýjar viðmiðanir stjórnmálanna; að fjölmargir sæki ekki skoðanalegar viðmiðanir lengur til framtíðarsýnar – heldur með afturhvarfi til fortíðar. Við sögðum að hrun  Sovétríkjannna, Berlínarmúrsins og kommúnismans hefðu verið vatnaskil í nútíma stjórnmálasögu heimsins. En það er fleira sem breytt hefur gamalkunnum skírskotunum til stéttarsamfélagsins, sem megin pólitísks átakasvæðis.

Það sem breyst hefur undanfarna áratugi – og sem einnig má rekja til loka níunda áratugs liðinnar aldar, er hnattvæðingin – hún hefur umturnað skipulagi heimsviðskipta, svo trauðla verður aftur snúið ; vörur , þjónusta, vinnuafl, fjármagn og auðhyggja flæða yfir allan heiminn, framhjá öllum landamærum, tillitslaus og brútal. Í senn uppbyggileg og styrkjandi fyrir suma,  en jafnframt eyðileggjandi og veikjandi fyrir aðra. Atvinnuleysið og vonleysi þess, hungur og örvænting;  upplausnin og stríðin í Austurlöndum-nær og straumar flóttafólks þaðan, og hryðjuverkin – Allt eru þetta líka, en ekki bara, afleiðingar hnattvæðingarinnar.

Í  vestrænum samfélögum verður framandi fólk, lítt skiljanleg tungumál, óþekktir siðir og annars konar trúarbrögð sífellt fyrirferðameiri. Þjóðleg hagkerfi fara úr skorðum. Þau nýju ekki orðin til.  Fólk er hrætt við að missa öryggi sitt og samsömun við eigin trúarbrögð og þjóðlega menningu sína.

Hér erum við aftur komin að átökum milli  fortíðar, nútíðar og framtíðar.

Í eigin álfu erum við áhorfendur að rimmu milli þeirra sem aðhyllast svokallaða þjóðríkis- eða smáríkjalausn annars vegar og hinna sem kjósa það sem nefna má Evrópulausn hins vegar.

Þeir sem kjósa smáríkjalausn, vilja verjast glundroðanum og óvissri framtíð með því að loka landamærum, stjórna efnahagsmálum sínum sjálf og forðast framandi fólk. Þeir  óttast hnattvædda framtíð, vilja snúa af leið. Því finnst ofmargt  vera á hverfanda hveli.  Fullveldi og ídentítet eru baráttuorð þeirra, hugtök sem vísa til fortíðar, gamalla siða,eigin trúarbragða, menningar sem er, en ekki verður – til veraldar sem var, en ekki er. Hver og ein þjóð otar sínum tota.

Ef við viljum finna pólitíska fulltrúa þessara hópa þá má nefna Donald Trump , Marie le Pen þá frönsku, Pútín, Erdógan hinn tyrkneska og Orban þann ungverska.

Þeir sem aðhyllast Evrópulausn líta hins vegar svo á að hnattvæðingin sé staðreynd, sem ekki verði snúið til baka. Hún hafi kosti en hún varpi jafnframt af sér stórum skuggum. Sameiginlega megi  draga úr neikvæðum áhrifum hennar og nýta sér kosti hennar. Ef hver og ein þjóð otar sínum litla tota, verði það vonlítið.

Víggirt eða lokuð landamæri, ógagnsæ valdsmannleg stjórnkerfi og gagnrýnislaus samfélög dragi úr samkeppnishæfni og áræðni. Það geri neikvæðar afleiðingar hnattvæðingarinnar verri. Þeir vilja að glímt verði við vandamálin innan stofnana Evrópusambandsins og leyst sameiginleg af meðlimaríkjum þess.

Áhangendur Evrópulausnarinnar segja að hnattvædd framtíð sé óhugsandi án þess að deila með öðrum; vinnu, velmegun, siðum, menningu, trúarbrögðum og einnig að hluta – fullveldi. Þeir tala fyrir opnum landamærum, hreyfanleika milli  atvinnusvæða, frjálsum og opnum viðskiptum og hnattrænum samfélagsbreytingum innan laga og reglna réttarríkis, lýðræðis og mannréttinda.

Sé einhver einn stjórnmálamaður fulltrúi   þessara sjónarmiða, þá er það Angela Merkel.

Sú lausn að taka heilstætt á vanda nútímans á erfitt uppdráttar um þessar mundir, því hún skírskotar til hins óþekkta, vill byggja upp nýtt, nokkuð framandi heimili. Það gengur skrykkjótt og flækjustigin eru mörg.  Gamla lausnin er hins vegar þekkt, vafningarnir færri.

Þessi átök milli fortíðar og framtíðar skapa mikinn glundroða, já fjandskap nú um sinn. Í því róti þrífast hálf fasískir og pópúlískir flokkar og hreyfingar, sem aldrei fyrr, því þar gilda fullyrðingar og einfaldar skýringar meir en flókin greining.

Lýðskrum og pópúlismi skjóta ekki hvað síst rótum, þar sem jafnaðarflokkar hafa vanrækt tilfinningaræturnar og ná ekki eyrum almennings. Stærsti hluti áhangenda pópúlískra flokka er óöruggur og hræddur almúginn, hræddur við óvissuna. Mörg úr þeirra hópum líta vonaraugum til svokallaðra sterkra leiðtoga, og virðast  reiðubúin til að fallast á að dregið verði úr lýðréttindum  og frelsi til að tryggja öryggi gegn því óþekkta.

Það vekur athygli að evrópskir jafnaðarmenn hafa flestir skipað sér á bekk við hliðina á kristilega demókratanum Angelu Merkel í þessum átökum. Og þeir virðast leika þar, ekki ósvipað hlutverk og íslenskir jafnaðarmenn fyrrum; til hliðar við Hriflu-Jónas. Boðskapur þeirra um frelsi, jafnréttindi og bræðralag til handa flóttafólki í nauð, féll í ófrjóan jarðveg. Merkel var búin að sá í þann akur á undan þeim og pópúlísk samtök höfðu  ötullega eitrað fyrir þess konar málflutningi. Jafnaðarmenn móta ekki lengur sýn almennings‚ heldur eru þeir meðhlauparar. Þeir ryðja ekki brautir lengur.

Þetta er reiðarslag þeirrar hreyfingar, sem eitt sinn  hafði framtíðina að léni og mótaði samtíma sinn í  spegilmynd hennar.

 

Skruðningar tímans

Skruðningar tímans eru sannarlega allmiklir. Sumir segja, að þetta sterka afturhvarf til fortíðar, þar sem sjónarmið pólitískrar einsleitni og orðfæri öfga og bábilju eru orðin gjaldgeng á ný,  —  að fortíðarhyggja  bjóði öruggara skjól gegn framtíð, sem „er ekki sú sem hún er vön að vera.“    Þetta séu fyrirboðar mikilla umbreytinga.  Djúpt niðri í þjóðarsálunum vaxi órói og ótti um að velmegunin sem við höfum búið við frá stríðslokum, sé á útleið. Upplausn og átök um minnkuð gæði innan svæða og milli landsvæða muni einkenna síðasta hluta yfirstandandi aldar.

Þekktir hagfræðingar amerískir, færa nú rök fyrir því að tækniþróun sú sem knúið hefur hjól velmegunarinnar áfram síðast liðin 250 ár hafi hægt verulega á sér. Sú þróun hafi þegar náð hámarki sínu.

Ef efnahagur vestrænna ríkja muni hnigna  og verði pólitísk viðbrögð flótti til fortíðar – þá eru vissulega mikil pólitísk vatnaskil framundan.

Nú er ég kominn að lokum þessara losaralegu hugleiðinga.

Þróun kapítalismans hefur sett  megin hugsjón jafnaðarstefnunnar um jöfnuð á hliðarspor. Þrátt fyrir að hafa verið  möndull verkalýðshreyfinga í yfir 100 ár – og þrátt fyrir þátttöku jafnaðarmanna í stjórn stórra sem smárra vestrænna ríkja, verður misskipting, hvort heldur sem er tækifæra, auðs eða tekna, sífellt augljósari, einnig hérlendis. Hér eflast eignastéttir og láta æ meira til sín taka, meðan fátækt er aftur orðin smánarblettur á Íslandi. Með aukinni misskiptingu rýrnar einnig lýðræðið.  Enginn jafnaðarflokkur hefur komið með marktækt andsvar við þessu.  Því skrikar þeim fótur. Tiltrú á þá dvínar.

Við sögðum áðan að framtíðin hefði alltaf verið til vinstri – meðan okkur tekst ekki að skapa nýja, skarpari framtíðarsýn, sem hrífur  fólkið, skírskotar til tilfinninga þess, vona þess og ótta, þá munu þeir sem leita lausna í liðinni, þekktri fortíð hafa undirtökin. Fortíðarhyggja samfara sterkri þjóðernisstefnu leiðir okkur til baka í enn óöruggari, ójafnari og varhugaverðari heim, hvort heldur sem sá heimur verður fátækari, ríkari eða svipaður og nú.

Þessar slitróttu hugleiðingar hófust jafnframt á stuttri umfjöllun um nýfrjálshyggjuna.  Um og eftir síðustu aldamót tókum við Íslendingar hana í sérstakt dekurfóstur,sem framtíðarsýn  okkar ; var boðskapurinn þó ekki óþekktur áður. Á liðlega 20 ára tímaskeiði mótaði hún samfélag okkar og hugsunarhátt sterkar en flestra annarra þjóða í álfunni.  Það er okkar nútími.

En nýfrjálshyggjan varir ekki að eilífu. Hún er þrátt fyrir allt tímabundið fyrirbæri. Hvað tekur við af henni ? Verður það einhvers konar einokunar kapítalismi,  þar sem hnattrænar fjármálastofnanir ráða för – eða róttæk félagshyggja á grunni blandaðs hagkerfis, þar sem gangverk markaðsins,  hefur verið stokkað upp ? Það fer mikið eftir því hvernig efnahag heimsins muni reiða af. Hver sem  auðlegð heimsins verðu, hljóta jafnaðarmenn að taka þátt í því að móta þá framtíð. Gefa þjóðum heims nýja sýn, nýja von.

Boðskapur nýfrjálshyggjunnar  hefur vissulega haft  áhrif á sýn okkar til samfélagsins. En það er ekki  sú sýn sem útópían lofaði okkur endur fyrir löngu – sem var – að gera okkur nútímabörn að frjálsum einstaklingum í samfélagi jöfnuðar og réttlætis ; í samfélagi mótuðu af samhyggju.

Ég á enn ósótta tösku í Berlín, söng Marlene Dietrich, eftir að hún flutti til Ameríku.

Víða liggja ósóttar töskur fullar af fyrirheitum um réttlátari, öruggari og jafnari  heim. Taka þarf uppúr þeim, því fyrirheitin skuldbinda.  Jafnaðarmenn – hvar sem þeir búa – eiga þar sérstökum skyldum að gegna.

Erindi flutt í fyrirlestraröð vegna 100 ára afmælis Alþýðuflokksins í Iðnó, laugardaginn 2.apríl 2016.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur