Fimmtudagur 23.03.2017 - 14:21 - FB ummæli ()

Ævintýraheimar Styrmis

 

Við erum áhorfendur að tilraun ákveðinna hægri afla til gera grundvallar breytingar á þeirri skipan heimsviðskipta og varnarmála sem hefur verið við lýði í öllum aðalatriðum allt frá miðri síðustu öld. Fyrirkomulag sem fært hefur okkar heimshluta bæði velmegun og frið. Þótt gagnrýna megi frjáls heimsviðskipti og fjölþjóðlega viðskiptasamninga á ýmsa vegu, þá hefur þetta kerfi fært mannkyninu meiri hagvöxt og jafnað hnattræn lífskjör betur en nokkurt annað þekkt viðskiptakerfi. Sú atlaga sem nú er gerð að þessari skipan kemur frá BNA,því ríki sem frá upphafi hefur  verið í fararbroddi og helsta stuðningsríki frjálsra viðskiptahátta. Einnig þannig getur byltingin líka étið börnin sín. Við lestur síðasta pistils Styrmis Gunnarssonar (Umræðan, Mbl.18.mars) er ljóst að hann telur bæði NATO og ESB vera á útleið. Því þurfi Íslendingar að huga að framtíðarskipan bæði varnar- og viðskiptamála. Okkur hefur sannarlega farnast vel bæði í NATO og í EES, sem er megin farvegur samninga okkar við Evrópu. Við ættum því að leggja þeim lið sem vilja halda í og styrkja báðar stofnanirnar. Hann gleymir því hins vegar að án ESB er ekkert  EES. Samningurinn um EES er við ESB, þ.e. Brussel, ekki við Berlín

Framtíð NATO.

Framtíð NATO er vissulega óviss. Þótt Bandaríkin beri  þar höfuð og herðar yfir önnur lönd, þá eiga þau jafn mikið undir hernaðarlegri samstöðu við Evrópuríkin sem öfugt. Án aðstöðu í Evrópu eru BNA sjálf í langtum erfiðari stöðu til að verjast árás úr austri. Lendi Evrópa undir rússneskt áhrifasvæði þrengist mjög fyrir dyrum hjá Bandaríkjamönnum. Þeir þurfa því ekkert síður á NATO að halda. Það er fyrirsláttur eða vanþekking að segja Evrópuþjóðirnar skulda NATO, hvað þá BNA. Gert var samkomulag í Wales 2014 um að þær myndu hækka framlag sitt smám saman í 2% og ná því í síðasta lagi árið 2024. Málflutningur Trumps er því harla ómerkilegur. Sú tortryggni sem þessi málatilbúnaður veldur hefur ýtt undir hugmyndir innan ESB um sameiginlegar varnir. Ef BNA dregur úr skuldbindingum sínum gagnvart  NATO, munu Evrópuþjóðirnar ekki horfa aðgerðarlausar  á vaxandi umsvif og hernaðaruppbyggingu Rússa. Staða okkar Íslendinga á að vera sú að styrkja NATO. Í þessu sambandi var olnbogaskot Styrmis á Valhöll athyglisvert. Ef sameiginlegar tilraunir til þess skila ekki tilætluðum árangri, og trumpistar ná undirtökunum,eigum við aðeins þann kost að tengjast Evrópuríkjunum nánar varnarlega. Ævintýralegar vangaveltur um varnarbandalag með fjórum/fimm smáríkjum við Vestur Atlantshaf,  eru ekki þess virði að hugleiða þær af alvöru.

ESB örend ?

Vandi Styrmis, gömlu flokkanna (B+D) og VG er sá að þeir vilja sjá ESB feigt. Þrátt fyrir EES virðast þeir fyrrnefndu líta á ESB sem pestargemling, sem forðast beri. Þar ná þeir að snerta fingur Trumps. Af skrifum Styrmis virðist hann hafa verið viðstaddur andlát ESB. Hér er hættuleg óskhyggja á ferð. Ekki ósvipuð þeirri og mótaði hugsun margra um endalok Rússlands sem stórveldis, áratuginn eftir hrun Sovétríkjanna. ESB mun ganga í endurnýjun lífdaganna, all mikið breytt en samhuga um meginmál. Þessi fullyrðing  byggir á því að forystumenn Evrópuríkja eiga einskis annars úrkosta , því hagsmunir þjóða þeirra eiga svo mikið undir því, að samningsbundin heildasamstaða og reglur ríki í álfunni, svo ekki sé talað um þá fjármuni sem til þeirra streyma frá Brussel.  Svo notuð sé útslitin taltugga úr herbúðum B+D og VG flokkanna, þá sjá  þjóðirnar hag sínum betur borgið innan ESB en utan. Þjóðverjar munu leggja flest í sölurnar til að halda bandalaginu saman, breyta sumum þáttum þess en dýpka aðra. Berlín verður vissulega valdaleg þungamiðja, en ákvarðanirnar verða að lokum teknar í Brussel.

Heft eða frjáls viðskipti

Endalok fjölþjóðlegra samninga og alþjóðalegra reglna er stefna sem smáþjóðir um allan heim óttast. Þær fyllast geig yfir því að verið sé að taka fyrstu skrefin aftur á bak úr kerfi hnattrænna samninga í formi frjálsra verslunarhátta í átt að  tvíhliða viðskiptasamningum. Í þannig umhverfi  munu allar þjóðir ota sínum tota og takast á, og þeir sterku munu ná bestu kjörum á kostnað þeirra sem ekki ráða við þá. Það þarf ekki nema mjög yfirborðskenda þekkingu á sögu álfunnar síðustu 150 ára til að sjá hvernig slík togstreita verður leyst á endanum. Norð-vestur bandalag Styrmis er álíka loftlaus þakkompa og Steingrímur Sigfússon villtist inní við upphaf ferils síns sem fjármálaráðherra Jóhönnu. Veikasti hlekkurinn í óskhyggju Styrmis sú von hans að ESB líði undir lok. Þar deilir hann ósk sinni með bæði  Trump og Pútín. En ESB mun verða til og eflast. Afar ólíklegt er að fleiri þjóðir yfirgefi  bandalagið.  Við munum að lokum ekki komast hjá því að verða að taka afstöðu til inngöngu í ESB, ef við viljum halda í þau fríðindi sem EES veitir okkur. Það verður hinn raunhæfi valkostur,ekki fimm ríkja ævitýrabandalag Styrmis. Því við munum hvorki  geta né vilja vera viðskiptalega, pólitískt , varnarlega né menningarlega ein á báti.

Birtist í Mbl.22.03.2017

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur