Í Fréttablaðinu í dag er birt áskorun flugmanna á flugvél Landhelgisgæslu Íslands þar sem þeir mótmæla harðlega lokun flugbrautar 06/24 og taka undir yfirlýsingu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna frá 14. júní sl. en félagið lýsti yfir verulegum áhyggjum af stöðu flugöryggismála á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar dómsins. Harma flugmenn á flugvél Landhelgisgæslunnar að ekkert tillit hafi verið tekið til flugöryggishagsmuna sjúkra-, leitar-, björgunar- og almannavarnaflugs við ákvörðun um lokun brautarinnar og óttast þeir afleiðingarnar af þeirri ráðstöfun þar sem oft á tíðum þurfi að að fara í slík neyðarflug þegar veður séu hvað verst og aðstæður hvað varasamastar því hafi flugöryggi þeirra sem slíkt flug stunda verið skert.
http://www.visir.is/askorun-flugmanna-a-flugvel-landhelgisgaeslu-islands/article/2016160629429
Þá hafa fyrirsvarsmenn Mýflugs, sem sinnir nær öllu sjúkraflugi innan Íslands, lýst yfir verulegum áhyggjum vegna lokunar brautarinnar. Í umfjöllun um málið á heimasíðunni www.alltumflug.is er m.a. notuð eftirfarandi samlíking: „Það hefur stundum verið sagt að sú ráðstöfun að loka braut 06/24 sé eins og að taka loftpúðann og öryggisbeltin úr hverjum einasta bíl í eigu þjóðarinnar því það veit enginn hvenær hann þarf á þessari mikilvægu braut að halda í vályndu veðri þegar líf liggur við.“
Samningar skulu halda
Eins og kunnugt er hefur Hæstiréttur dæmt að ríkinu sé skylt að loka umræddri flugbraut. Niðurstaða dómsins byggir ekki á flugöryggissjónarmiðum heldur á því að samningar skuli halda. Dómsmálið snérist um samning sem gerður var í október 2013 milli þáverandi innanríkisráðherra og þáverandi borgarstjóra en ekki um flugöryggi.
Flugbrautin hefur margítrekað sannað gildi sitt og hafa komið upp tilfelli þar sem ekki hefur verið hægt að lenda sjúkraflugvél í Reykjavík á neinni annarri braut nema neyðarbrautinni. Hinn 30. desember sl. treysti sjúkraflug í hæsta forgangi algjörlega á neyðarbrautina en ekki var hægt að lenda á hinum tveimur brautunum.
Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur áður lýst því yfir að nefndin telur að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul sé röng þar sem hún sé byggð á röngum forsendum og í andstöðu við alþjóða reglur. Hljóta fullyrðingar öryggisnefndarinnar að útreikningur nothæfisstuðulsins sé rangur að verða skoðaðar við endanlega gerð áhættumatsins vegna áhrifa á sjúkraflugið og neyðarskipulags almannavarna.
http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/05/18/hvad-vard-um-athugasemdir-oryggisnefndarinnar/
Þó dómur sé fallinn á eftir að klára áhættumatið
Þrátt fyrir að ríkið hafi verið dæmt til að loka brautinni liggur enn ekki fyrir áhættumat vegna lokunar brautarinnar og áhrifa lokunarinnar á sjúkraflug og neyðarskipulags almannavarna.
Í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 kemur fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga. Bendir Samgöngustofa á að gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni.
Með vísan til þess þarf að gera sérstakt áhættumat vegna lokunar brautarinnar því áhættumatið nær hvorki til neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga.
Þar sem enn á eftir að gera áhættumat vegna sjúkraflugsins ættu þær forsendur sem öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur ítrekað bent á að séu rangar eða vanti í áhættumat Isavia að vera teknar inn í matið m.a. að reiknað verði með minni gerðum flugvéla eins og notaðar eru í sjúkraflugið og lægri hliðarvindstuðli, en reikna skal nothæfisstuðul með 10 hnúta hámarks hliðarvindstuðli fyrir slíkar vélar, svo spurningin er hver nothæfisstuðull flugvallarins verður eftir þá útreikninga. Gæti niðurstaða þess jafnvel orðið til þess að Alþingi myndi telja nauðsynlegt að taka svæðið eignarnámi. Í niðurstöðu héraðsdóms segir: „Í krafti almennra heimilda sinna getur Alþingi einnig, ef því er að skipta, gefið ráðherra fyrirmæli um framkvæmd málefna Reykjavíkurflugvallar, svo og sett sérstök lög um málefni vallarins, þ. á m. um stærð og umfang flugvallarins, eftir atvikum þannig að kveðið sé á um heimildir til eignarnáms vegna ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og forgang laganna gagnvart hvers kyns áætlunum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.“