Peter Freuchen, danski heimskautaofurhuginn, hefur líkast til aldrei hlotið þá frægð sem hann á skilið. Einn af þessum sérvitru brjálæðingum sem krydda mannkynssöguna með tilvist sinni og ævintýrum. Sögurnar hans hafa yfir sér ævintýrablæ í ætt við Munchausen, vafalaust ýktar eða í það minnsta færðar í stílinn, þó svo kjarni þeirra geti svosem vel verið sannur. Þannig er sagan af því þegar hann grófst í fönn í svo miklu frosti að gufan úr andardrætti hans settist innan á snjóveggina sem umluktu hann og breyttist í ís. Hélumyndunin þrengdi sífellt meira að honum svo hann sá sig loks tilneyddan að brjótast út.
Það hlýtur að vera æðsta stig sjálfheldunnar að festast í eigin andardrætti.
Óneitanlega er eitthvað táknrænt við þessa frásögn. Hún gæti til dæmis verið dæmisaga um kvíða, þar sem einstaklingur lokar sig af en eykur um leið á eigin vanda og verður því að brjótast út úr skelinni til að halda lífi. Flott saga sem slík, trúleg og ótrúleg um leið. Líkingin gæti líka talað til stærri veruleika þar sem hópur sem einangrar sig frá umheiminum verður fjötraður af eigin „anda“, frýs inni.
En Peter Freuchen braust út.
Það gerði hann af eigin rammleik, með eigin hugviti og því sem hann átti tiltækt og hendi var næst, segir sagan. Hann ku nefnilega hafa fryst eigin skít og mótað úr honum verkfæri til að moka sig með út. Hvað sem sagt verður um blautan skít þá virðist sá frosni bíta.
Kannski var Freuchen pólitíkus
Pólitík er mögulega sá bransi þar sem fólk beitir oftast fyrir sig eigin skít sem vopni. Tekur eigið klúður, eigin ósigur eða niðurlægingu, hnoðar saman og herðir síðan í frostinu sem jafnan umlykur hinn einangraða stjórnmálamann. Ræðst svo af öllu afli á fyrirstöðuna og mokar sig út.
Í þeim heimi verður ævintýrið, hetjusagan, að veruleika. Að minnsta kosti um sinn.
Hvort hinn pólitíski ofurhugi lifir síðan hetjulífi til æviloka, segjandi sögur sínar með tilþrifum umkringdur stóreygum og opinmynntum fylgjendum, er alfarið háð því hvort honum tekst að sveifla lífsvopni sínu nógu hratt og hátt til að ekki finnist af því fnykurinn eða áferðin sjáist.
Sem og því hvort við hin kjósum heldur að játa trú á ævintýrahetjur eða læra af sögunni.