Föstudagur 01.05.2015 - 21:39 - Lokað fyrir ummæli

Í dag er 1. maí

Starfsævin dugar ekki til að greiða niður námslánin hjá háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum. Samt skilur ríkið ekki kröfur um að menntun sé metin til launa, miðað við yfirlýsingar undanfarið.

Engar skuldaleiðréttingaraðgerðir frá hruni hafa tekið tillit til námslána. Sú staðreynd talar sínu máli í mati á menntun almennt, þar sem litið er á skuld vegna fjárfestingar í menntun sem einkavandamál hvers og eins.

Sóknarfæri íslensks vinnumarkaðar á næstu árum og áratugum liggja á sviði þekkingar og nýsköpunar, bæði í geirum sem ekki eiga forsögu hérlendis og á formi samþættingar gróinna atvinnuvega við nýja þekkingu.

Getur einhver bent mér á markvissa stefnu stjórnvalda og vinnumarkaðar sem miðar að því að styðja þekkingargeirann sérstaklega? Standa sterk í samkeppni um þekkingarstarfsfólk?

Þrátt fyrir að allir kjarasamningar á landsvísu frá hruni (og jafnvel fyrri) hafi snúist um hækkun lægstu launa umfram millitekjuhópana, er í dag litið á kröfu um 300 þúsund króna lágmarkslaun sem draumóra og fásinnu, ef marka má talsmenn atvinnulífsins og ríkisstjórnina.

Það er eitthvað sem ekki gengur upp í þessu reikningsdæmi.

Okkur er ekki að takast að láta almenning njóta arðs af auðlindum landsins, ég tel að reikningsskekkjan liggi þar. Það er gert ráð fyrir of litlu til skiptanna. Og almenningi síðan gert að keppa innbyrðis um gæðin.

Ég vil taka það skýrt fram að ein af auðlindum landsins er unga fólkið sem okkur er ekki að takast að halda í landinu.

Fjárfesting landsins í þekkingu ætti sem útflutningsvara að byggja á sölu „afurða“ þekkingarinnar, ekki á því að mennta fólk og flytja það sjálft út í stórum stíl. Það er fullunnin afurð sem við erum bókstaflega að gefa úr landi.

Hver er framtíðarstefnan á íslenskum vinnumarkaði?

Ríkið á ekki peninga – en þarf þá heldur ekki?

Í aðdraganda 1. maí þetta árið, þegar verkfall BHM félaga hjá ríki hefur varað um mánuð og fleiri verkföll á landsvísu yfirvofandi, lýsir fjármálaráðherra að forgangsmál sé að létta á skattgreiðslum álfyrirtækja. Sem hljómar óneitanlega undarlega í ljósi yfirlýsinga um að alls ekki sé svigrúm til að bæta launakjör ríkisstarfsmanna.

Það er ekki nema von að ráðherra afþakki aðstoð skoðanakannana á vegum MMR við að sýna fram á skort á tengslum hans við almenning. Hann er fullfær um að sýna fram á það tengslaleysi sjálfur.

Gleðilegan baráttudag launafólks.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur