Sunnudagur 08.03.2015 - 23:06 - Lokað fyrir ummæli

Fegurðin í fjölbreytileikanum – hugleiðing um ferðaþjónstu

Mannlífið er og verður fjölbreytt. Aðlögun okkar að þeirri staðreynd felst furðu oft í því að aðgreina fólk í hópa – undir því yfirskini að gera öllum jafnhátt undir höfði. Þótt við séum öll einn hópur.

Hvert og eitt okkar býr við eigin veruleika. Sumt það sem skilgreinir okkur sem einstaklinga er valkvætt en annað ekki. Meðal þess sem við veljum ekki sjálf eru eiginleikar eins og litarháttur, kynhneigð og atgervi. Fötlun er til dæmis ekki val. Nema ef vera skyldi að því leyti að samfélagið velur hvað skal teljast eðlilegt og hvað frávik. Með öðrum orðum hvað er fötlun og hvað ekki.

Undanfarið hefur ferðafrelsi fatlaðs fólk verið í hámæli og ekki laust við að sú umfjöllun veki umhugsun. Umræðan dregur fram þann veruleika sem við búum við í dag, að ákveðinn hópur í samfélaginu er upp á aðra kominn hvað það varðar að komast ferða sinna milli staða.

Sjálf finn ég mig í þeirri undarlegu stöðu að tilheyra þeim sem úthluta þessum gæðum til undirsetts hóps – gæðunum að komast leiðar sinnar. Umgjörðin um þessa úthlutun er kallað kerfi, þar sem skilyrði eru sett og línur dregnar.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tók þá jákvæðu ákvörðun nýverið að endurmeta umrædd skilyrði, nánar tiltekið að hætta að spyrja notendur kerfisins um erindi þeirra út í lífið. Áður kváðu reglurnar á um að ferðir til læknis, í skóla og tómstundir nytu forgangs umfram aðrar ferðir sem úthlutað væri. Með öðrum orðum var gerð krafa til skynsamlegrar – og að hluta til sjúkdómsvæddrar – hegðunar. Fatlað fólk átti helst að ferðast ef erindið var brýnt og gjarnan til heilsubótar. Mikið sem kerfi geta verið spes.

Eða yrði t.d. ekki umræðan um umferðarmannvirki, þar sem tekist er á um einkabíl eða almenningssamgöngur spennandi ef við hana yrði bætt að fólk ætti auðvitað ekki að vera að nota göturnar nema þá helst til að fara í skóla, vinnu eða til læknis? Annars bara vera heima. Þá fyrst myndi heyrast hljóð úr horni er ég hrædd um.

Öll kerfi eru börn síns tíma, fyrir utan að vera spes. Núna stendur yfir breytingarskeið í kerfinu sem fer með ferðaþjónustu fatlaðs fólks, breytingarskeið sem hefur reynst afar erfitt og jafnvel áhættusamt.

En fyrir hvern er ferðaþjónusta fatlaðra, í hverju erum við að fjárfesta?

Fyrsta hugsun flestra er eflaust sú að þarna sé samfélagið að leggja af mörkum og fjárfesta í lífsgæðum fyrir fatlað fólk. Sem er rétt og satt, skárra væri það nú. En það er hins vegar fleira sem liggur undir, atriði sem erfiðara er að meta til fjár í reikningum hins opinbera.

Sýnileiki fjölbreytileikans er meðal þess sem mannréttindi fatlaðs fólks leiða af sér. Flest hræðumst við það sem við ekki þekkjum og forðumst það þar af leiðandi. Vanþekking er undirrót fordóma. Ferðafrelsi fatlaðs fólks er því í raun liður í forvörnum gegn fordómum.

Foreldrar fatlaðra barna þekkja vel hversu særandi klisjur eins og „kyn barns skiptir ekki máli, bara að barnið sé heilbrigt“ og fleiri slíkar geta verið. Enda er hver og einn einstaklingur eins og hann er og samfélaginu verðmætur sem slíkur. Samfélag okkar ber mikla virðingu fyrir lífi, en vill stundum gleyma að líf verðskuldar tækifæri á eigin forsendum. Fötlun er ekki sjálfkrafa það sama og galli.

Áföll í þjónustu við fatlað fólk á borð við þau sem ferðaþjónustan hefur glímt við að undanförnu skaða ekki bara notendur þjónustunnar og alla sem henni tengjast – heimili, skóla, vinnustaði, þjónustuveitendur – heldur líka viðhorf samfélagsins til fjölbreytileikans.

Slík áföll senda þau skilaboð að fötlun sé kvíðvænlegt ástand en ekki hluti af sjálfsögðum breytileika mannlífsins. Þess vegna er það brýnt fyrir okkur öll, ekki bara notendur, að þessi þjónusta komist í það horf sem er til þess fallið að auka öryggi en ekki ótta. Þótt ferðafrelsi og traust þjónusta sé aðalatriðið, þarf líka að endurheimta hversdagsleikann í „kerfið“ – hið sjálfsagða í tilveruna.

Og hvað kostar þetta svo?

Framundan er án efa umfjöllun um þann tilkostnað sem úrbætur á ferðaþjónustunni munu skapa. Í þeirri umræðu tel ég brýnt að við tökum með í reikninginn þann fórnarkostnað sem felst í óviðunandi ferðaþjónustu, sem hætt er við að gleymist þegar debet og kredit er skoðað. Af hverju var farið af stað með breytingar, hvert er takmarkið í þessu ferðalagi? Höfum hugann við það.

Sem bæjarfulltrúa ber mér að sýna ábyrgð í ráðstöfun almannafjár. Ég ber hins vegar líka þá ábyrgð sem hluti af stjórnvöldum landsins að tryggja mannréttindi og virðingu við allar hliðar mannlífsins.

Öryggi, traust og fegurðin í fjölbreytileikanum verður að vera markmiðið, þangað er ferðinni heitið.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur