Föstudagur 15.05.2015 - 09:12 - Lokað fyrir ummæli

Fjölmenning í Hafnarfirði

Heimurinn er alltaf að minnka og veröldin að stækka. Þetta hljómar kannski þversagnarkennt, en með bættum samgöngum og fjölbreyttari samskiptaleiðum, styttast leiðir og kunningsskapur eykst milli þjóða og menningarheima.

Evrópsk lýðræðisvika verður haldin í október næstkomandi undir yfirskriftinni „Að búa saman í fjölmenningu, virðing, samtal og samskipti“. Þessi yfirskrift lýsir vel því viðfangsefni sem bæjarfélög víðs vegar í Evrópu fást við um þessar mundir; að tengja saman innfædda og aðflutta og styrkja þannig samfélagið innanfrá.

Hafnarfjörður er engin undantekning hvað þetta viðfangsefni varðar, nema síður sé. Í bænum er eitt stærsta, ef ekki það stærsta, samfélag innflytjenda frá Póllandi, auk þess sem fjölmörg önnur þjóðerni er að finna í fjölbreytilegu samfélagi fjarðarins fagra.

Bærinn á reyndar rótgróna sögu um samskipti við aðrar þjóðir, allt frá Hansakaupmönnum til erlendra nunna og systra sem þjónuðu bæjarbúum með hjúkrun og kennslu barna.

Enda er margt vel gert í Hafnarfirði þegar kemur að fjölmenningu. Öflug móttaka nemenda með annað móðurmál fer fram í Lækjarskóla, bókasafnið státar af góðum bókakosti á þýsku og pólsku og starfrækir á þeim grunni m.a. líflegt barnastarf. Nýverið tók bærinn síðan á móti flóttamönnum í samstarfi við Rauða krossinn og félagsmálaráðuneyti.

Fjölmenningarráð, stefnumótun í málefnum innflytjenda og bætt aðgengi að upplýsingum

Alltaf má hins vegar bæta og efla það sem vel er gert, ekki síst ef grunnurinn er góður. Fyrir liggur að stofnsett verður fjölmenningarráð í Hafnarfirði og verður í þeim efnum byggt á góðri reynslu af öldungaráði, ungmennaráði og ráðgjafaráði í málefnum fatlaðs fólks.

Þjónustuviðmót bæjarins gagnvart fólki með annað móðurmál en íslensku þarf tvímælalaust að bæta, ekki síst á heimasíðu og á þeim samskiptaleiðum sem bæjarbúar nýta gagnvart sveitarfélaginu. Þörf fyrir móðurmálskennslu tvítyngdra barna eykst sífellt. Heildstæð stefna í málefnum innflytjenda, þvert á málaflokka, er líka mikilvægt verkefni sem þarf að vinna.

Þegar þjónusta er mótuð er fyrst og síðast brýnt að hafa samráð við notendur hennar, ekki síst þegar um er að ræða minnihlutahópa. Sama gildir um stefnumótun, þar þarf að hafa í heiðri slagorðið góða „ekkert um okkur án okkar“.

Því er það mikið kappsmál að vel takist til við stofnun fjölmenningarráðsins. Sérfræðingarnir í málefnum innflytjenda eru nefnilega innflytjendurnir sjálfir og mikilvægt að þeirra raddir fái að heyrast. Liður í því að svo verði er m.a. að fyrirhugað Gaflarakaffi (hafnfirska orðið yfir íbúafund) um málefni innflytjenda verði haldið í haust. Til stendur að tengja fundinn við evrópsku lýðræðisvikuna, enda smellpassar efnið við yfirskrift hennar.

Það sem einkennir samfélög þar sem vel hefur tekist til að sameina ólíka menningarheima, er það viðhorf að fjölbreytileiki sé verðmæti í sjálfu sér. Að aðflutt fólk sem kemur til lands til að lifa og starfa sé auðlind sem beri að virkja, frekar en vandi sem þarf að leysa.

Björt framtíð er fjölbreytt – allskonar er best

Í yfirlýsingu Bjartrar framtíðar segir: „Fjölbreytni er verðmæti í sjálfu sér“. Sú grundvallarafstaða er leiðarljós okkar sem störfum undir merkjum flokksins hvar sem við erum. Undir þeim formerkjum viljum við gera gagn.

Hafnarfjörður á þess kost að nýta ríkulega fjölbreytni í bænum. Gaflarar, aðfluttir, innflytjendur og fólk sem sagt er hafa brotnað af bergi, öll eigum við okkar þátt í að halda samfélaginu gangandi.

Fjölmenning er ekki aðeins vettvangur erlendra einstaklinga í bænum, heldur vísun í hve ólík við erum öll og misjafna menningaþætti sem við komum með inn í fjölbreytt samfélag. Bærinn verður ríkur af þeim ólíku hefðum, þekkingu og siðum sem ólíkt fólk ber með sér til samfélagsins.

Ég trúi því og vona að fjölmenningarráð verði öflug og góð viðbót við starfið á vegum sveitarfélagsins og að tilkoma þess hjálpi til við að gera þjónustu í góðum bæ enn betri.

Allskonar er best.

Grein þessi birtist í blaðinu Hafnarfjörður vikublað þann 15. mai 2015

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur