Þriðjudagur 02.02.2016 - 08:53 - Lokað fyrir ummæli

Heilbrigðismál og sjúkrahótel

Í dag, 2. febrúar 2016, birtist grein eftir formann Samfylkingarinnar í Fréttablaðinu. Á forsíðu sama blaðs kemur í ljós að opinberir embættismenn, ekkjur eða ekklar þeirra fái nú 26% hækkun á eftirlaun. Hér er um embættismenn að ræða og stétt sem formaður flokks með undir 10% fylgi í skoðanakönnunum vill ýta frekar undir. Hann telur sjúkrahótel eiga að vera í opinberum rekstri og að best sé að slíkt sé í algjörum forgangi. Á meðan fá aldraðir og öryrkjar mun minni hækkanir undir ríkjandi stjórn en minna en ekkert í þeirri stjórn sem formaður Samfylkingarinnar vann fyrir á síðasta kjörtímabili. Það er ekki nema von að Píratar séu orðnir vinsælir.

Hræsnin

Samhliða þessu útspili fulltrúa einnar minnstu stjórnmálahreyfingu landsins, sem vissulega á rétt á sér, kemur gamall vinstri maður úr heilbrigðiskerfinu fram og skipuleggur undirskriftarsöfnun er byggir á álíka hæpnum forsendum og þeim er stuðst var við þegar pistlahöfundur fjárfesti í deCode hér á árum áður. Þetta var um sviptað leyti og þegar ríkissjóður hafði gengist í milljarða ríkisábyrgð fyrir það sama félag. Óþægilegt að fá þetta ryk í augun svona trekk í trekk. Þá var sótt í áhættustýringu sem byggðist á því að færi deCode á hausinn myndu skattgreiðendur borga. Sama virðist með lífeyristryggingar fyrrum opinberra starfsmanna sem Samfylking og VG styður út í eitt, út í rauðan dauðann. Það er sjálfsagt enda samningsbundið.

Á þessu heilbrigðiskerfi höfum við byggt frá því að Svavar Gestsson var heilbrigðisráðherra. Er ekki tími kominn til breytinga eftir að þetta kerfi er gengið sér til húðar, afkastar litlu og á sér ekki viðreisnar von? Þar er ekki að sakast við frábæra starfsmenn sjúkrahúsa og heilsugæslu. Það er kerfið sem þetta góða fólk starfar undir, yfirbygging og flækjustig, smákóngakerfi og óskilvirkni sem er að drepa kerfið.

Upprifjun

Þegar fólk kemur fram með margvíslegar tillögur af þeim toga að opinber rekstur er það besta verður viðkomandi að líta í eigin barm. Hvað kostar að reka húsnæði, viðhalda því, greiða af því skatta og gjöld er tengjast margvíslegum þáttum er ríkið og sveitarfélög óska eftir til að sinna innviðum?

Við vitum vel að hið opinbera kerfi kann vart að halda við eignum. Það er pistlahöfundi minnistæður fundur með Friðriki Sophussyni  þáverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar frá árinu 1991. Sá fundur var haldinn á Hótel Borg og gat Friðrik þess að stærsti skuldabagginn frá vinstri stjórninni þar á undan var viðhaldssleysi á fasteignum hins opinbera. Vinstri menn halda ekki við eignum, taka ekki til, moka götur seint og illa og sækja ekki sorpílát fyrir fólk innfyrir lóðamörk öryrkja eða aldraða sbr. í Reykjavík í dag undir forystu Samfylkingarinnar. Vinstri menn ganga ávallt á ,,yfirdrátt“ þess sem kom á undan, lagði inn, hélt við eignum og brást ekki skyldum sínum. Fjármunir sem annars færu í viðhald fara í að halda partý af margvíslegum toga.

Sjá má má nýja frétt um ástand húsnæðis sem ætlað er öldruðum á Landakoti hér.

Góður rekstur og ríkisrekstur

Hvað er að því að góður rekstur skili hagnaði og arði? Það þekkist vel í opinberum rekstri að þar kalla forstöðumenn (getið hér hvort heldur sem menn vilja kannast við þetta eða ekki) til innanhúsarkitekta, markaðsmenn og hlaupatíkur af margvíslegum toga til að klára fjármagn viðkomandi árs sem þeim var skammtað svo tryggt sé að sama fjármagn fáist á næsta ári. Sumir segja þetta vera óskaplega sniðugt. Þeir sem fengnir eru til að eyða eru í umboðsvanda enda vilja þeir fá verkið og báðir aðilar þaga yfir þessu og þegar á reynir sannfæra þeir sjálfa sig og aðra að þetta hafi í raun verið bráðnauðsynlegt. Þetta ætti að flokkast undir sama flokk og skattsvik í refsirétti í raun og sann.

Hvers vegna má ekki fremur nýta skynsemi góðra stjórnenda í einkarekstri og treysta þeim fyrir sjúkrahóteli en að setja það í opinberan rekstur? Er það vegna þess að eitt atvik fór úr skorðum, einn samningur og ein tilraun til að breyta? Á nú að markaðssetja málið þannig pólitíkst að vegna þess að svo fór má alls ekki endurtaka leikinn? Hvað með allt klúðrið hjá Samfylkingunni? Er í lagi að endurtaka það allt aftur?

Afkastageta ríkisfyrirtækja um allan heim er vel þekkt. Má þess geta að sagan segir að þegar Bjarni heitinn Benediktsson, þá fjármálaráðherra, var inntur eftir því hve margir innu í ráðuneyti hans svaraði hann um hæl: ,,Um helmingur.“.

Vandaðir embættismenn

Fjölmargir embættismenn eru afar vandaðir en þeir eru undir þá sök seldir að þurfa að eyða fjármunum skattgreiðenda. Ef þeir gera það ekki og klára ekki allt fjármagnið fyrir hver áramót, sem þeim var skammtað í fjárlögum, verður þeim og stofnuninni, sem þeir heyra undir, refsað.

Það er gert með minna fjárframlagi næsta ár þar á eftir. Vandaður embættismaður þrífst illa í kerfi af þessum toga. Vonleysið er algjört og hvatinn lítill eða enginn. Lítið um hrós eða hvatningu þegar vel er gert.

Niðurlag

Það að reka heilsugæslu eða sjúkrahótel er nákvæmlega það sama og að reka hótel, sinna gestum og gera það vel, af dugnaði, af elju og væntumþykju. Það er ekkert vont við það að skila hagnaði en það er skelfilegt að eyða opinberu fé í tóma vitleysu. Það sem þarna greinir á milli er að annað er skynsamt, hitt er óskynsamt. Það þarf ekki að vera slæmt að einkaaðilar sinni öldruðum. Aðstandendur þeirra eru líklega öflugustu einkaaðilarnir í dag sem eru að sinna öldruðum best á meðan hið opinbera virðist eiga erfitt um vik.

Sjálfsagt er að reka sjúkrahús og skóla á vegum hins opinbera en það hefur sést hér á landi að það er bruðlað í þessu kerfi. Er ekki hægt að huga að blönduðum rekstri í heilbirgðismálum? Það þarf að lagfæra hvatana í kerfinu og fara að koma á móts við venjulegt fólk, öryrkja og aldraða.

Skynsama leið Samfylkingarinnar er að hugsa skýrt um þessar mundir, ekki óskýrt.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur