Miðvikudagur 2.4.2014 - 18:27 - FB ummæli ()

Nú máttu heita það sem þú heitir!

Loksins getur fólk skráð fullt nafn sitt í Þjóðskrá án tillits til stafafjölda. Innleiðing þessa mun þó taka einhvern tíma.  Fram til þessa hafa þeir sem heita lengri nöfnum en sem nemur 31 bókstaf orðið að notast við skammstafanir á nafni sínu í þjóðskrá eða sleppa nöfnum til að passa inn í kerfið, samkvæmt fyrirmælum frá hinu opinbera. Þetta er dæmgert mál þar sem búið er að snúa hlutunum á hvolf.  Auðvitað á kerfið að vera fyrir fólkið en ekki öfugt. Þetta er etv. ekki stórt mál, en samt svo dæmigert fyrir þá hugsanaskekkju sem getur lætt sér inn smásaman, þ.e. að fólkið sé til fyrir kerfið, en ekki öfugt.  Menn verða stöðugt að vera að minna sig á hver er fyrir hvern og að það eru  skattgreiðendur/ þjóðin, sem framlögum sínum sem gerir hinu opinbera kleift að reka hin ýmsu kerfi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.3.2014 - 17:46 - FB ummæli ()

Landnám norrænna manna á Vínlandi

Ég fór á frábæran fyrirlestur í hádeginu með fornleifafræðingnum Birgittu Wallace, en hún var ein þeirra sem tók þátt í hinum fræga fornleifauppgreftri á L´Anse aux Meadows á sjötta áratug síðustu aldar sem talinn er hafa fært sönnur á landnám norrænna manna í Vesturheimi líklega í kringum 970. Vona að einhver fjölmiðill sjái sér fært að taka ítarlegt viðtal við hana því þetta er saga sem má ekki týnast, þ.e. frumheimildarfrásögnin af þessum fræga uppgreftri. Meðal þeirra sem tóku þátt í uppgreftrinum á sínum tíma voru fornleifafræðingarnir dr. Kristján Eldjárn og Gísli Gestsson. Fyrirlesturinn var haldinn í Þjóðminjasafninu og var fullt út úr dyrum. Ég gæti vel séð flottan sjónvarpsmann eins og Boga Ágústsson taka viðtal við þennan merkilega fræðimann þannig að almenningur fái að njóta.  Mér hefur verið bent á Vínlandsdagbók dr. Kristjáns sem væri auðvitað frábært að glugga í líka í þessum þætti.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.2.2014 - 19:13 - FB ummæli ()

Innflytjendur eru tækifæri ekki ógn

Hvar sem komið er í heiminum, og spurt hverjir standi best að málefnum hælisleitenda er Noregur nefndur til sögunnar. Íslensk stjórnvöld hafa nú leitað í smiðju Norðmanna hvað varðar málefni hælisleitenda og er það vel. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti nýlega fyrir breytingum á útlendingalögum á Alþingi, að norskri fyrirmynd sem er að mínum dómi afar metnaðarfull og skynsamleg lagabót.

Frumvarpið felur meðal annars í sér að stofnuð verði sjálfstæð kærunefnd sem taki til meðferðar kærur á úrskurðum Útlendingastofnunar vegna mála er varða komu, dvöl eða hælisumsókn útlendinga. Fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, réðst í mikið átak til styttingar málsmeðferðartíma hælisumsókna vorið 2013 og á hann einnig hrós skilið fyrir það.

Afar mikilvægt er að sá mikli fjöldi sem sækir um að fá hér pólitískt hæli fái skýr og rökstudd svör eins fljótt og kostur er. Því miður fæst aldrei jákvætt svar við öllum beiðnum. Við búum við alþjóðlega löggjöf samhliða þeirri íslensku og þar sem rammi hefur verið settur í kringum þá alþjóðlegu vernd sem felst í pólitísku hæli. Enn fremur að það beri að forgangsraða í þágu þeirra sem mest eru taldir þurfa á slíkri hjálp að halda, eins og kom fram í máli Hönnu Birnu á Alþingi.

Það kvað einnig við góðan tón í máli innanríkisráðherra. Hún hvatti okkur Íslendinga til að sýna umburðarlyndi og skilning og líta á það fremur sem tækifæri en ekki ógn að fá innflytjendur hingað til lands.

Sérstaka athygli mína vöktu orð innanríkisráðherra um að ráðherrar í nágrannalöndum okkar líti nú á það sem eina helstu ógnina við Evrópu, ekki síst efnahagslega, að innflytjendur sniðgangi í vaxandi mæli álfuna. Þar með fari Evrópa á mis við þekkingu, dugnað og ný viðhorf fólks úr ólíkum áttum.

Við Íslendingar eigum að fagna því að þeir sýni áhuga á að bæta mannlíf á Íslandi eins og Hanna Birna boðaði í ræðu sinni.

(Grein sem birtist í Fréttablaðinu 30. janúar 2014)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.1.2014 - 20:49 - FB ummæli ()

Ríkissjóður undir smásjá

Árið 2014 verður afar mikilvægt og stefnumarkandi í ríkisbúskapnum. Búið er að samþykkja það sem lög frá Alþingi að ríkissjóður skuli rekinn hallalaus. Í fyrsta skipti í mörg ár stíga menn á bremsuna og segja: „Hingað og ekki lengra í hallarekstri og skuldasöfnun.“
Við vitum orðið öll að með hallarekstri erum við í reynd að halda niðri lífskjörum þegar fram í sækir. Þegar við lifum um efni fram eins og íslenska ríkið gerir lendir það á fólkinu í landinu að borga brúsann. Nú þegar greiðum við 70 milljarða í vexti af lánum árlega sem tekin hafa verið til að mæta halla ríkissjóðs á undanförnum árum. Hugsa má hvernig þeir fjármunir myndu nýtast inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæsluna, fyrir fatlaða og svo framvegis. Þess vegna er það afar mikilvægt skref sem ríkisstjórnin stígur með þessu að skila ríkissjóði hallalausum árið 2014.
Ég vona svo sannarlega að það gangi eftir. Ríkisreikningur fyrir árið 2014 á líka að vera hallalaus. Það er ekki nóg að gleðjast yfir hallalausum fjárlögum nú í ársbyrjun, því verkefnið er rétt að byrja og því er ekki lokið fyrr en ríkisreikningur fyrir árið liggur fyrir. Ég skora því á ríkisstjórnina að fylgja málinu allt til enda og svo tekur við nýtt ár 2015 og þá þarf að halda áfram á sömu braut þannig að áfram verði haldið á braut ábyrgrar efnahagsstjórnar.
Á næstu vikum og mánuðum þarf að fylgjast gaumgæfilega með rekstri á hverjum einasta lið fjárlaganna og um leið og einhver frávik verða eiga rauð viðvörunarljós strax að byrja að blikka í stjórnarráðinu. Þá þarf að grípa til viðeigandi ráðstafana. Ekki er lengur hægt að líða það að eytt sé um efni fram í stofnunum ríkisins þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar og þvert á þau lög sem gilda í landinu.
(Grein sem birtist í Fréttablaðinu 24. janúar 2014)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.12.2013 - 14:01 - FB ummæli ()

Stolt af mínu fólki!

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót.  Nú er hægt að halda gleðileg jól.  Ég er stolt af mínu fólki.  Fjárlagafrumvarp 2014 lagt fram hallalaust sem er algert grundvallaratriði, skuldaleiðréttingin í höfn fyrir heimilin, LSH fær nægilega fjármuni til að snúa þar þróuninni við og margt fleira sem framfarastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur komið til leiðar síðan í sumar. Nú er að byggja upp atvinnulífið á ný, auka hagvöxt og þar með hag allra landsmanna. Ég vil líka nota tækifærið til að nefna líka sérstaklega áhugamál mitt og fleiri sem var að fatlaðir fengju endurgreiðslu virðisaukaskatts af íþróttatækjum, en þetta eru oftast rándýr tæki sem þarf að hanna sérstaklega t.d. skíði fyrir lamaða o.s.fv., en reynast afar vel og gera fólki kleift að njóta gæða lífsins. Það er nú bæði inn í fjáraukalögum fyrir 2013 og fjárlögum 2014 en hafði áður verið fellt út úr fjárlögum líklega í kringum árið 2010, en enginn skilur af hverju.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.11.2013 - 18:28 - FB ummæli ()

Góðmennska í Bolungarvík

Ég er mjög stolt af því að önnur bók mín Barnið þitt er á lífi er að fara í dreifingu í verslanir.  Árið 2011 kom út eftir mig saga Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur, Ekki líta undan, bók sem ég er ekki síður stolt af að hafa skrifað.
Nýjan bókin segir frá miklum hörmungum sögupersónanna í fyrrum Júgóslavíu og ótrúlegri góðmennsku fólks í Bolungarvík.  Í stuttu mál fjallar bókin um Rönku sem fæðir langþráð barn rétt eftir að stríð skellur á í Júgóslavíu.  Henni er sagt að barnið sé dáið. Hún og maður hennar Zdravko hrekjast til Belgrad þar sem þau lifa við hörmuleg kjör sem flóttamenn, en þá kemur Kastljós Sjónvarpsins til sögunnar. Þegar Ranka lýsir neyð sinni grátandi í viðtali sem flestir Íslendingar sjá árið 1997 bregðast Ingibjörg Vagnsdóttir úr Bolungarvík og móðir hennar Birna Hjaltalín Pálsdóttir við og ákveða að bjarga Rönku. Nokkrum mánuðum síðar stendur Ranka skjálfandi á beinunum á flugvellinum á Ísafirði. Fólkið í Bolungarvík styður Rönku á alla lund og umvefur hana og fjölskyldu hennar ást sinni og vináttu. Þannig öðlast Ranka smá saman sálarfrið í nýju landi en sá friður er rofinn þegar óvænt símtal berst frá fyrrum Júgóslavíu og vekur upp brennandi spurningar. Barnið þittbak kapaMeð RÖnku í Kringlunni og Zdravko

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.11.2013 - 10:01 - FB ummæli ()

Börn, sykur og mjólkurafurðir

Ræða sem ég flutti á Alþingi 12. nóvember 2013

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á mjólkurfyrirtækin í landinu sem framleiða mat sem sérstaklega höfðar til barna. Þar á ég við alls konar jógúrt og tengdar afurðir. Þessi matvæli eru í afar flottum og sölulegum umbúðum, sérstaklega hönnuðum fyrir börn; ein þeirra heitir t.d. hreint út sagt  Skólajógúrt.

Þegar maður bragðar á þessum matvörum eiga þær lítið skylt við þá súrmjólk eða það hreina skyr sem ég borðaði  með bestu lyst sem krakki en þá var reyndar boðið upp á lítið annað. Ekki er hægt að segja að allt hafi verið hollt og gott í gamla daga, en  ég hef áhyggjur af tannheilsu barna okkar  og  heilsu þeirra almennt í ljósi þess á  hverju þau nærast á hverjum degi. Þetta er ekkert nema góðgæti og í raun  mjólkurafurð með viðbættum sykri. Ég horfði einu sinni á sjónvarpsþátt þar sem  verið var að skoða þetta.  Sykurmolunum var raðað upp við hverja jógúrtdós og það var ófögur sjón að sjá sykurmolana sem stóðu við hverja þeirra.

Reyndar hef ég lesið að sama þróun sé við lýði í mörgum öðrum löndum og erlent heilsujógúrt, sem er auglýst sem slíkt, hafi  miklu fleiri hitaeiningar en til dæmis súkkulaðikaka. Þarna tel ég að  verið sé að leiða neytendur á villigötur og  hef ég sérstaklega áhyggjur af börnunum okkar  í því sambandi. Ég bið íslensk fyrirtæki á sviði mjólkurafurða að hugsa sinn gang og venda sínu kvæði almennilega í kross og bjóða börnum, og náttúrlega fullorðnum, upp á hollari mat og betri mat, og burt með allan þennan sykur.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.11.2013 - 20:34 - FB ummæli ()

Þakklát börn fyrir þjóðargjöf

 

 

 

afmæli þrjú afmæli tvö afmæli fjögur afmæli fimm afmæli sex afmæli sjö

,,Það er ótrúlegt að heilt ár sé liðið síðan við opnuðum stuðningsmiðstöðina Leiðarljós fyrir börn með sjaldgæfa, alvarlega, langvinna sjúkdóma hér við Austurströnd, en eins og allir vita var það þjóðin sem gaf okkur fé til að reka stöðina í fjögur ár. Þvílíkt þakklæti sem ég fann streyma í dag frá foreldrum og börnum sem eru okkar skjólstæðingar.  Takk þjóð!

Við erum líka stolt yfir því að kynna okkar persónulegu og hlýju nálgun þar sem skjólstæðingurinn, hið veika barn, er í algeru fyrirrúmi, innan heilbrigðiskerfisins, ef óskað er eftir, en þar er reyndar þessi hugmyndafræði í hávegum höfð en ekki úr vegi að skerpa á línunum sem er framtíðin í þjónustu okkar við þá sem eiga um sárt að binda.

Við vorum líka svo heppinn að ráða strax til okkar topp starfsfólk þær Guðrúnu Eygló Guðmundsdóttur hjúkrunarfræðing, Helgu Einarsdóttur hjúkrunarfræðing og Ástu Guðrúnu Guðbrandsdóttur ráðgjafaþroskaþjálfa, undir forystu Báru Sigurjónsdóttur forstöðumanns Leiðarljóss.

Við erum líka ánægð með að hafa mjög öfluga stjórn í þessu félagi sem hittist mánaðarlega og leggur línur en í stjórninni eiga sæti auk undirritaðrar, Ragnar Bjarnason sérfræðingur á Barnaspítala Hringsins, Sigurð Marelsson einnig sérfræðingur frá Barnaspítalanum, Sigurður Jóhannesson fulltrúi foreldra og Leifur Bárðarsson læknir frá Umhyggju.

Í dag 6. nóvember hefði Svanfríður Bryanna Rómant orðið 14 ára, en hún lést í maí í fyrra vegna sjúkdóms, en það var einmitt móðir hennar Hanna Sigurrós Ásmundsdóttir sem kom af stað þessu verkefni, fékk Báru Sigurjónsdóttur hjúkrunarfræðing til liðs við sig og undirritaða og síðan kvennateymið öfluga á Allra Vörum; þær Gróu Ásgeirsdóttur, Elísabetu Sveinsdóttur og Guðnýju Pálsdóttur.  Síðan vatt þetta enn upp á sig þegar við fengum RÚV til að hafa söfnunina í beinni útsendingu í september fyrir rúmu ári þar sem Þórhallur Gunnarsson og Egill Eðvarðsson voru við stjórnvölinn.

Og það hafa fleiri lagt okkur lið

Foreldrar Sindra Dags Garðarssonar og Þórhildur Nætur Jónsdóttur, langveikra barna sem nú eru látin, leyfðu okkur að nota nöfn barna sinna til að stofna sjálfseignarfélagið Nótt og Dag en þetta félag rekur stuðningsmiðstöðina Leiðarljós.

Það er líka gleðilegt að á fyrsta fjárhagsári erum við algerlega á áætlun og gott betur ef eitthvað er.

Ég vona svo sannarlega að börnin okkar 52 og fjölskyldur þeirra séu ánægð með þá þjónustu sem við höfum veitt þeim á því ári sem liðið er frá því að við hófum störf.  Við erum hér fyrir þau.

Með þessum orðum þá vil ég óska Leiðarljósi til hamingju með eins árs afmælið og óska félaginu langrar og gjöfullar ævi og bið viðstadda um að taka undir með mér í afmælissöngnum og hrópa þrefalt húrra að honum loknum.“

 

(Ræða mín á afmæli Leiðarljóss, stuðningsmiðstöðvar fyrir börn með sjaldgæfa, alvarlega, langvinna sjúkdóma í dag 6. nóvember 2013).

Meira um Leiðarljós

Stuðningsmiðstöðin starfar samkvæmt nýrri hugmyndafræði um þjónustuleið á Íslandi við alvarlega langveik börn og fjölskyldur þeirra. Miðstöðin veitir ráðgjöf varðandi heilbrigðis-og félagsþjónustu út frá einum vísum stað og hefur það hlutverk að skipuleggja og samræma þjónustu við fjölskyldur sem byggist á þeirra forgangsröðun og þörfum. Markmið Leiðarljóss er að samhæfa þjónustuna til að geta fundið bestu mögulegu lausnir fyrir hverja fjölskyldu fyrir sig, svo hægt sé að skapa henni bestu mögulegu skilyrði til góðra lífsgæða, þrátt fyrir veikindi barnsins. Auk þess er starfandi sorgarhópur fyrir þá sem hafa misst börn eftir langvarandi veikindi.

Reynslan eftir fyrsta árið í rekstri sýnir að full þörf var á því að skapa vettvang til að halda betur utan um þessar fjölskyldur sem eru oft að sinna flókinni umönnun barna sinna og jafnvel hálfgerðri gjörgæslu yfir börnum inni á heimilunum. Greiða götu þeirra í kerfinu, vísa þeim leiðina og útvega og kynna úrræði og finna leiðir til lausna ef engar eru fyrir hendi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.10.2013 - 16:49 - FB ummæli ()

Ég ætla að tala íslensku

 

 

Ég tala nokkuð góða norsku.  Eiginlega mjög góða.  Enda var ég hér í Osló í háskóla á yngri árum.  Ég er hins vegar staðráðin í að tala mitt móðurmál eins og aðrir fulltrúar á 65. þingi Norðurlandaráðs.  Mér er það alveg ljóst að annars ríkir ekki fullt jafnræði milli mín og annarra fulltrúa hér sem tala sitt móðurmál.  Sit nú og hlusta á forsætisráðherra Sigmund Davíð flytja hörkuræðu á Stórþinginu/Norðurlandaráði á íslensku og Helgi Hjörvar stjórnar fundi sem einn af forsetum Norðurlandaráðs á íslensku.  Jóhanna María Sigmundsdóttir bar fram fyrirspurn á íslensku hér áðan.  Ánægð með mitt fólk.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.10.2013 - 20:38 - FB ummæli ()

Handtaka Ómars-minnir á Söguöld

Að Ómar Ragnarsson minn kæri samstarfsmaður til margra ára og föðurlandsvinur yrði handtekinn á Íslandi fyrir að standa fast á skoðun sinni sem umhverfissinni hefði ég aldrei ímyndað mér.  Þetta fer ekki vel í mig.  Ekki endilega sammála mínum góða vini Ómari en við verðum að leysa málin hér á landi í friði og með rökræðu.  Þetta minnir á atburði á Söguöld.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur