Sunnudagur 3.2.2013 - 20:17 - FB ummæli ()

Að finna karlrembu sinni farveg í feminisma

Ég hef oft fundið fyrir því viðhorfi að konur séu í eðli sínu ósjálfstæðar og vanhæfar. Ég finn t.d. fyrir því þegar fólk telur víst að ég hafi áhuga á því að láta karlmann ritstýra mér.

Oftast hefur þetta gerst með þeim hætti að karlar hafa óbeðnir gefið mér „góð ráð“ varðandi ritstíl og það hvernig ég kynni sjálfa mig.  Ég hef fengið slík hollráð frá kærustum mínum og bólfélögum, en þó – merkilegt nokk, eingöngu þeim sem sjálfir ráða tæpast við að skrifa stöðulínu á fb án þess að verða sér til skammar. Ég hef líka fengið „góð ráð“ frá bláókunnugum mönnum sem hvorki eru þekktir fyrir áhugaverð skrif né markaðssetningu. Ég er ekki að tala um þá sem benda mér á áhugavert lesefni, koma með uppástungur um umfjöllunarefni eða benda mér á óvirkan tengil eða villur í textanum mínum. Slíkar ábendingar eru vel þegnar. Ég á við þá sem segja mér að ég þurfi að vera fyndnari, skrifa styttri pistla eða gefa dúllulegri mynd af sjálfri mér.

Ég fékk óumbeðna ráðgjafarþjónustu af þessu tagi reglulega á meðan ég var einhleyp en nú hefur þetta ekki gerst meira en ár. Hinsvegar hefur komið fyrir að fólk hefur látið að því liggja eða jafnvel fullyrt að maðurinn minn ritstýri mér. Einn kommentarinn hélt því m.a.s. fram að Einar hugsaði fyrir mig. Um miðjan janúar varð ég síðast fyrir aðdróttunum um að maðurinn minn skrifi í gegnum mig en í þetta sinn af hálfu konu, yfirlýsts feminista og kynjafræðings.

Það var á hinu indæla tjásukerfi knuz.is sem téður feministi hélt  því fram að við Einar hefðum farið saman í gegnum dóma héraðsdóms, sem ég skrifaði um hér. Hún sagði einnig að Einar hefði farið með mér í heimsókn til Kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.  Hún spurði að vísu hvort sig misminnti og ég leiðrétti þetta að sjálfsögðu en líklega hefur mér mistekist að pósta því þau ummæli sjást ekki á Knúzinu. Ummælin sem ég á við eru eftirfarandi:

Það er kannski ekki skrítið að ég spyrði ykkur sambúðaraðilum saman í ljósi þess að Einar er alltaf mættur við hlið þér í “rökræður” í hvert skipti sem einhver gagnrýnir tittrædda heimildarvinnu þína. Að auki fór Einar með þér í “rannsóknarvinnu” eða úttekt ykkar á lögreglustöðina, Eða misminnir mig?

og

Ég held ég verði að´ústkýra þetta aðeins betur. Einar og Eva fóru saman í úttekt á kynferðisbrotadeild lögreglunnar til að kanna verklag hennar. Út frá því skrifaði Eva grein þar sem þetta kemur fram og Einar var mættur við hlið hennar í hverri umræður um málið.

Einar og Eva fóru saman í gegnum dóma héraðsdóm í kynferðibrotamálum og Eva skrifaði um það nokkrar greinar þar sem hún deildi þeirri sýn sinni að ekkert væri að réttarkerfinu. Einar var mættur við hlið hennar í hverri umræður um málið.

 

Þessi kona hefur enga ástæðu til að halda að Einar hafi farið með mér í þessa vettvangsferð eða legið yfir dómum með mér en heimsókn mín til Kynferðisbrotadeildar hefur farið óskaplega fyrir brjóstið á ákveðnum dólgafeministum. Þeir kvenhyggjusinnar sem hafa tjáð sig um viðtalið halda því fram að ekki sé hægt að taka neitt mark á upplýsingum sem lögreglan gefur um verklagsreglur sínar. Ekki fékk ég þó nein svör við þeim spurningunum sem ég beindi til gagnrýnenda minna í þessum örstutta pistli.

Þessi tilefnislausa ágiskun, um að Einar taki beinan þátt í heimildaöflun minni, afhjúpar þá hugmynd að ef kona noti almennilegar heimildir hljóti skýringin að vera sú að karl standi á bak við hana. Heitir þetta viðhorf ekki karlremba?

Og ekki nóg með það að Einar hljóti að eiga hlut í skrifum mínum, heldur hefur hann líka gerst svo mikill fantur að taka undir með mér í umræðum á netinu. Ég bý í fyrsta sinn á ævinni við þann lúxus að eiga maka sem bæði er oft sammála mér og tekur þess vegna þátt í sömu umræðum og ég og hefur einnig varið mig þegar ráðist er á mig. Þótt ég sé einfær um að svara fyrir mig kann ég vel að meta það að fleiri bendi á rökvillur í málflutningi þeirra sem sjá heiminn með svokölluðum „kynjagleraugum“. Mér þykir líka notalegt að finna að maki minn standi með mér. Það er auðvitað um að gera að reyna að nota það til að gera lítið úr mér og ef það dugar ekki til þá má alltaf skálda upp sögur um það að Einar hafi verið með mér í verkefnum sem hann kom hvergi nálægt. Hér er hugmyndin um karlinn sem hið ráðandi afl notuð til þess að reyna að þagga niður í konu fyrir þá andfeminísku stórsök að skoða gögn í stað þess að gleypa bara fullyrðingar feminista um karllægt réttarkerfi hráar.

Þetta er aðeins eitt dæmi um það hvernig karlremban finnur sér farveg í feminisma. Kvenhyggjusinnar beita óhikað þeim karlrembuhugmyndum sem þeir gagnrýna aðra fyrir þegar það hentar þeim sjálfum. Ef maðurinn minn tekur undir það sem ég segi, sér karlrembufeminstinn það sem tækifæri til að reyna að þagga niður í öðru hvoru okkar eða báðum. Á sama tíma er riddararegla feministahreyfingarinnar sjaldan langt undan þegar kvenhyggjukona málar sig inn í horn með rökvillum, útúrsnúningum og vísunum í rannsóknir sem sýna eitthvað allt annað en hún segir.

Það er annars athyglisvert hvað samband okkar Einars virðist fara í taugarnar á feministum. Hér er krúttlegt dæmi frá riddarareglunni:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eins og sjá má er það sem fer fyrir brjóstið á öðlingunum þessi frekjulega krafa „skoska rannsóknarréttarins“ um gögn og vísindalegar aðferðir. Nú hef ég verið að gagnrýna gervirannsóknir feminista og órökstuddar fullyrðingar þeirra í mörg ár en sú gagnrýni var að mestu leyti hundsuð þar til við Einar fórum að draga okkur saman. Einar hefur hinsvegar lítið tjáð sig um þessi mál fyrr en síðasta árið. Það skyldi þó ekki vera að krafan um að fólk styðji fullyrðingar sínar með gögnum sé óþægilegri þegar karlmaður setur hana fram? Hvað segja lesendur um þá tilgátu?

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Laugardagur 2.2.2013 - 16:53 - FB ummæli ()

Kynjakerfi kvenhyggjunnar (Skyggnulýsing 3c)

 

Kvenhyggjusinnar telja sig vera að uppræta kynjakerfið. Í raun og veru eru þeir aðeins að útfæra það á aðeins annan hátt, sem heldur konum í hlutverki súkkulaðikleinunnar. Þessi færsla tilheyrir pistlaröð sem heitir „Skyggnulýsingar“. Tenglar á fyrri færslur eru fyrir neðan textann.

Til upprifjunar: Á þriðju glærunni eru settir upp tveir dálkar sem eiga að skýra ólík sjónarmið; „Eva Hauks“ og „Við“. Ég hef þegar leiðrétt þá vitleysu að ég sé frjálshyggjusinni og skýrt nánar hugmyndir mínar um kynjakerfið.  Í næstu línu á glærunni er því haldið fram að ég álíti að valdatengsl kynjanna sem ólíkra hópa séu ekki til staðar. Þetta er rangtúlkun og í þessum pistli mun ég fjalla um það hvernig feministar ýta undir það valdaójafnvægi sem samkvæmt þeirra eigin kenningum er grundvöllur „kynjakerfisins“.

Valdatengsl eru ekki það sama og valdaójafnvægi

Valdatengsl eru til staðar í öllum samskiptum. Þeir sem halda að ég viðurkenni ekki valdatengsl kynjanna þekkja skrif mín ekki neitt. Í mörg ár hélt ég úti bloggi sem ég kallaði Sápuóperu, þar sem valdatengsl í samskipum kynjanna voru mitt helsta viðfangsefni. (Sumar af færslunum eru komnar inn á þessa slóð og fleiri væntanlegar.) Valdatengsl merkja hinsvegar ekki það sama og ójafnvægi. Sápuóperan mín lýsti ekki kúgun karla á konum heldur því ógnarjafnvægi sem myndast í samböndum sem eru byggð á vantrausti, blekkingum og sársauka.

Ég hef oft orðið fyrir fordómum vegna kynferðis míns. Ég hef stundum orðið nett pirruð og stöku sinnum bálreið vegna slíkra fordóma en vitiði hvað – ég hef líka notið góðs af því að vera af „veikara kyninu“. Það hefur m.a.s. komið fyrir að ég hef beinlínis spilað á vilja karlmanna til að gera mér til hæfis sem konu.  Á morgun ætla ég að segja ykkur frá slíku dæmi og ég ætla líka að segja ykkur reynslusögu af því hvernig fólk getur fundið karlrembu sinni farveg í feminisma.

 

Kynjakerfi kvenhyggjunnar

Konur hafa í gegnum tíðina verið álitnar veikara kynið og það á sér rökréttar skýringar. Í óiðnvæddu samfélagi þar sem flestir þurfa að reiða sig á líkamsstyrk til að komast af og ekkert velferðarkerfi annast veika og sjúka, er í sjálfu sér eðlilegt að konum sé hlíft við þeim verkefnum sem útheimta líkamlegt erfiði og stofna lífi þeirra í hættu.  Ábyrgðin á því að framfleyta fjölskyldunni og verja föðurlandið með vopnaburði gaf körlum ákveðin forréttindi. Þeir höfðu ákvörðunarvald sem konur höfðu ekki. En konur nutu líka ákveðinna forréttinda. Líf kvenna var verðmætara en líf karla því þær komu börnum á legg, þær fengu því forgang ef hópur fólks var í lífshættu. Valdleysi þeirra gaf þeim líka ákveðin forréttindi; þær fengu t.d. mildilegri meðhöndlun en karlar í dómskerfinu og áttu rétt á því að maki þeirra bæri meginábyrgð á því að afla heimilnu tekna.

Í dag hefur þetta breyst. Konur hafa nú aðgang að þeirri menntun og störfum sem þær kæra sig um og þær eru ekki lengur álitnar veikara kynið. Eða hvað?

Jú, konum standa allar dyr opnar en við erum samt ennþá álitnar veikara kynið. Ekki vegna þess að hið illa feðraveldi haldi okkur niðri, heldur vegna þess að kvenhyggjufólk vinnur að því hörðum höndum að viðhalda þeirri hugmynd. Ekki bara með því að hlífa konum við erfiðleikum, heldur með því að útmála okkur sem fórnarlömb og kerfjast sérstakrar meðhöndlunar af hálfu hins opinbera. Það eru feministar sem róa að því öllum árum að koma á formlegu kynjakerfi sem er ekkert skárra en hið gamla og úrelta. Í stað þess að konur standi jafnfætis körlum skulu þær njóta forgangs, hvatningar, styrkja, stuðnings og sérstakar nærgætni.

Kynjakerfi kvenhyggjunnar miðar í orði kveðnu að valdeflingu kvenna. Það snýst um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Sérstaka styrki og lánveitingar til atvinnumála kvenna. Sérstaka námsstyrki sem ætlað er að hvetja konur til náms í greinum þar sem konur eru í minnihluta. Hér er t.d. gert ráð fyrir slíkum styrkjum til kvenna en ekki til karla sem vilja fara í nám í kvennagreinum. Sérstök bókmenntaverðlaun fyrir konur,  jú neim itt. Og á sama tíma tekur dómskerfið mun mildilegar á konum en körlum. Skilaboðin eru þau að konur séu að vísu veikara kynið en að í stað þess að fá peninga, vernd og stuðning hjá maka sínum, eigi konan að fá peninga, vernd og stuðning hjá kerfinu.

Hin eilífa súkkulaðikleina


Ég var mjög smávaxin sem barn. Ég gat ekki hlaupið jafn hratt eða lyft sömu þyngd og hinir krakkarnir og átti í vandræðum með að grípa bolta (og það hefur ekki breyst.)  Hópurinn tók á þessu vandamáli með því að veita mér forskot í leikjum. Ég fékk að vera „súkkulaðikleina“. Aðrir krakkar fengu að vera súkkulaðikleinur á meðan þeir voru að læra leikinn. Ég var hinsvegar á sérdíl sem einhvernveginn framlengdist í hverri viku án þess að þyrfti að ræða það sérstaklega.

Að lokum braut ég þetta mynstur upp sjálf og neitaði að vera súkkulaðikleina nema ég væri að læra nýjan leik. Það kostaði það að ég tapaði alltaf í þeim leikjum sem reyndu á krafta og úthald og þegar ég var orðin leið á því að tapa, hætti ég að taka þátt í leikjum þar sem ég stóð hinum langt að baki.

Sjálfsagt finnst einhverjum það ægilega sorglegt að ég hafi aldrei orðið íþróttaálfur en mér hefur aldrei þótt það slæmt. Ég blómstraði á öðrum sviðum, sviðum sem voru mér eðlileg og þar sem ég þurfti ekki að vera súkkulaðikleina. Ég naut mín í bóklegum greinum í skóla, ég skrifaði sögur og ljóð og var oft beðin að hafa orð fyrir hópnum. Ég naut virðingar fyrir það sem ég gat gert vel. Ég hafði hinsvegar aldrei fundið til mín með því að vinna spretthlaup með forskoti og þegar það gerðist vissi sá sem „tapaði“ fyrir mér ósköp vel að það var ekkert að marka þessháttar sigur.

Það eru þessháttar sigrar sem kynjakvótar og önnur sérmeðferð á að afla konum. Sigrar sem jafnvel smábörn sjá í gegnum. Kynjakerfi kvenhyggjunnar gerir konur að súkkulaðikleinum. Og það er ekkert valdeflandi við það.

————————————————

 

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst

Er kynjakerfið til?
Skyggnulýsing 3a
Skyggnulýsing 2
Skyggnulýsing 1
Fánaberar fávísinnar
Vill einhver leka í mig leyniskjölum úr kynjafræðinni?

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Föstudagur 1.2.2013 - 16:35 - FB ummæli ()

Er kynjakerfið til? (Skyggnulýsing 3b)

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:


Skyggnulýsing 3a
Skyggnulýsing 2
Skyggnulýsing 1
Fánaberar fávísinnar
Vill einhver leka í mig leyniskjölum úr kynjafræðinni?

Tilefni þessarar pistlaraðar eru skyggnur með fyrirlestri sem tilheyrir grunnnámskeiði í kynjafræði. Þar er ég réttilega kynnt sem „kyndilberi andfeminisma“ en andfeminismi er, ólíkt kvenhyggjunni, jafnréttisstefna. Glærurnar vekja þó grunsemdir um að sú kynning sem kynjafræðinemar fá á sjónarmiðum mínum sé alltof yfirborðsleg til að gefa rétta mynd og jafnvel lituð af pólitískum rétttrúnaði. Ég ákvað því að skoða glærurnar og skýra betur eða eftir atvikum leiðrétta það sem þar kemur fram.

Ég var byrjuð á þriðju glærunni en þar eru settir upp tveir dálkar  „Eva Hauks“ annars vegar og „Við“ hinsvegar, í þeim tilgangi að sýna helstu áherslur þar sem jafnréttissinna og kvenhyggjusinna greinir á. Í næstu línu segir að ég telji kynjakerfið ekki vera til en þessi „við“ segi að kynjakerfið sé til.

 

Er kynjakerfið til?

 

Hugtakið kynjakerfi er samofið hugmyndinni um feðraveldi, svo kyrfilega að þau verða vart aðskilin. Áhugasamir geta séð skoðun mína á feðraveldishugmyndinni t.d. hér.

Með „kynjakerfi“ er átt við það hvernig fólki er kerfisbundið stýrt inn á ákveðin svið á forsendum kynferðis og það hvernig kyn hefur áhrif á valdatengsl og samskipti. Það er mikil einföldun að halda því fram að ég álíti kynjakerfið ekki vera til. Sýn mín á kynjakerfið og orsakir þess er hinsvegar gerólík hinni dólgafeminísku sýn.

Formlegt kynjakerfi

Stór hluti jarðarbúa býr við formlegt kynjakerfi þar sem möguleikar fólks ráðast af kyni og það er jafnvel bundið í lög. Í Sádi Arabíu ríkir formlegt kynjakerfi. Þar mega konur t.d. ekki aka bíl. Kynjakerfið er þó flóknara en svo að hægt sé að uppræta það með einfaldri lagabreytingu því um 80% kvenna í Sádi Arabíu eru því mótfallnar að konur fái ökuréttindi. Kynjakerfið birtist því líka í almennri sannfæringu um það hvað sé við hæfi.

Kerfislæg kynjamismunun viðgekkst á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Amma mín vann í fiski. Hún var öllum fljótari að flaka og þessvegna var henni boðið karlakaup. Hana munaði um krónurnar en þegar hún sagði mér frá þessu mörgum áratugum síðar, mundi hún ekki hversu mikið launin hennar hækkuðu. Hún mundi hinsvegar hvað henni hafði þótt þetta mikill heiður.

Kynjakerfið á Íslandi birtist einnig í því hvaða möguleikar stóðu fólki opnir. Í bók sinni „Hvunndagshetjan“ segir Auður Haralds frá því þegar hún, ung að árum, hafði áhuga á matseld og sótti um inngöngu í Kokkaskólann. Skólinn tók ekki stúlkur.

 

Óformlegt kynjakerfi

Íslendingar búa ekki lengur við kynjakerfi sem stýrir fólki í kynhlutverk með því að neita því beinlínis um aðgang að ákveðunum sviðum. Lagakerfið mismunar reyndar körlum ennþá hvað varðar rétt þeirra sem foreldra en konur þurfa ekki að kvarta undan lögbundinni mismunun lengur. Ef launamisrétti á grundvelli kynferðis viðgengst, eða ef karl er tekinn fram yfir konu á grundvelli kynferðis, þá er að skýrt lögbrot.

Við búum þó ennþá við kynjaímyndir sem hafa bæði áhrif á okkar eigið val og það hvernig við komum fram við hvert annað. Munurinn á mér og kvenhyggjusinnum er sá að ég sé það ekki eingöngu sem vandamál. Kynjaímyndir geta haft neikvæð áhrif fyrir einstaklinga en ég held að staðalmyndir muni alltaf þrífast að einhverju leyti og ég tel augljóst að það sé í raun og sannleika ákveðinn munur á körlum og konum sem hópum, sem skýri hluta af þessum kynjaímyndum.

 

Þarf að uppræta kynjakerfið?

Í okkar samfélagi hefur hið formlega kynjakerfi verið afnumið. Rétt eins í Sádi Arabíu einkennast þó almennar hugmyndir um kynhlutverk og valdatengsl af nokkurri íhaldssemi. Það má vel halda því fram að óformlegt kynjakerfi sé enn við lýði. Hvort slíkt „kerfi“ er umflýjanlegt og hvort þjónar tilgangi að reyna að uppræta það að fullu,  má svo endalaust deila um.

Ég held að það sé raunhæfara að kalla eftir virðingu og sanngirni gagnvart þeim sem víkja frá norminu en að uppræta staðalmyndir.

Ef við ætlum að uppræta fordóma gagnvart innflytjendum er ekki skynsamlegt að afneita því að munur sé á menningu araba og Evrópubúa. Við hindrum formlega aðgreiningu með banni við mismunun á grundvelli kynþáttar og stuðlum að menningarblöndun með niðurgreiðslu á íslenskunámskeiðum. En við sökum ekki kaupmenn um rasisma þótt matvöruverslanir setji upp sérstakar hillur með vörum sem eru vinsælar í Mið-Austurlöndum, heldur prófum við þessar vörur sjálf og sum okkar taka ástfóstri við sumar þeirra.

Í stað þess að reyna að útrýma þeirri hugmynd að bleikt sé stelpulitur og blátt strákalitur, væri reynandi að halda þeirri hugmynd að börnum að það sé barasta allt í lagi þótt sumir strákar séu stelpulegir og sumar stelpur strákalegar. Ég held að flest börn séu of skynsöm til að trúa okkur ef við segjum þeim að stríðsleikföng séu stelpudót og bleikar brúður strákadót. Þau gætu hinsvegar trúað því að fólk sem fellur ekki í ákveðið form eigi rétt á því að lifa sínu eigin lífi á sínum eigin forsendum og njóta sömu virðingar og aðrir.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , ,

Fimmtudagur 31.1.2013 - 16:04 - FB ummæli ()

Veit fangelsisstjórinn hvað orðið barnauppeldi merkir?

Varúð! Þessi pistill er ekki við hæfi lesenda sem eru nógu vitlausir til að túlka ósk um mannúðlega meðferð á föngum sem réttlætingu fyrir glæpum.

——————

Yfirvöld tala oft eins og þau gegni foreldrahlutverki gagnvart viðföngum sínum. Margrét Frímansdóttir, fangelsisstjóri segir t.d. vistun fanga ekki ósvipaða barnauppeldi. Þetta er athyglisverð sýn á barnauppeldi og bendir í skársta falli til hugsunarleysis en versta falli til algers skilningsleysis á upplifun fanga af fangelsi og fangavörðum. Margréti til upplýsingar bendi ég á að foreldri sem refsar barni sínu með því að einangra það vikum saman yrði tæpast álitið hæft til að sinna hlutverki sínu.

 

Hér fer fram uppeldi

 

Vissulega hafa foreldrar vald yfir börnum sínum en þessi líking valdastofnana við foreldra felur í sér mikil ósannindi því foreldravald er í grundvallaratriðum frábrugðið yfirvaldi.

 

Munurinn á foreldravaldi og yfirvaldi

Foreldravald er persónulegt. Yfirvald er ópersónulegt.

Foreldravald er náttúrulegt. Það sprettur af eðlishvöt til að koma genum sínum áfram og viðhalda þannig stofninum. Yfirvald er menningarlegt. Það sprettur af hvöt til að drottna yfir öðrum og sölsa undir sig gæði.

Foreldravald snýst um að vernda og leiðbeina óvita sem er algerlega háður forsjá og vernd annarra. Yfirvald snýst um að verja hagsmuni samfélags (og stundum yfirvaldsins sjálfs) gegn viðföngum valdsins.

Foreldravald beinist að einstaklingi sem foreldrið ber persónulega umhyggju fyrir.  Yfirvald beinist að staki í mengi; kennitölu eða fanganúmeri fremur en persónu.

Foreldri hefur beina, persónulega hagsmuni af því að barninu líði vel. Valdastofnunin hefur enga sérstaka hagsmuni af því að viðfangi valdisins líði vel. Starfsmönnum stofnunarinnar getur þótt það kostur en þeir fara heim eftir vaktina og geta sagt upp störfum ef álagið verður of mikið. Foreldrið situr hinsvegar uppi með barnið í 18 ár.

Foreldri getur sveigt reglur ef dómgreind þess býður svo. Starfsmaður stofnunar setur reglurnar ekki sjálfur og tekur því persónulega áhættu ef hann sveigir reglur.

Foreldri er ábyrgt fyrir því hvernig það framkvæmir vald sitt og þarf því stöðugt að beita dómgreind sinni. Starfsmanni stofnunar er skylt fara að fyrirmælum fólks sem stundum er ekkert í aðstæðunum sjálft, hann getur því varpað ábyrgðinni á gjörðum sínum yfir á aðra.

Endanlegt markmið uppeldis er að gera barnið óháð sér; gera foreldrið óþarft í lífi barnsins (þótt það vilji auðvitað halda tengslum ef allt er eðlilegt.) Endanlegt markmið valdhafans er að gera sjálfan sig og sína stofnun ómissandi.

Refsing (ef þeim á annað borð er beitt) er verkfæri barnauppeldis en ekki tilgangur. Refsing er eini tilgangur fangelsisvistar, það er hægt að setja fleiri markmið en það fer enginn í fangelsi í öðrum tilgangi en að þeim taka út refsingu.

 

Hvernig þjóna refsireglur fangelsis markmiðum uppeldis?

Jú það eru ákveðin líkindi með fangelsi og barnauppeldi. Fanginn er jafn mikill leiksoppur varðstjórans og barn foreldris. Illa innrættur varðstjóri á auðvelt með að misbeita valdi sínu, rétt eins og vanhæft foreldri og ef hann er óhóflega eftirlátur er hætta á að fanginn komist upp með óþolandi hegðun. Meiri samsvaranir er varla að finna því þótt eitt af markmiðum barnauppeldis sé að fyrirbyggja að barnið skaði aðra, er tilgangur fangavistar fullnusta refsingar fyrir skaða sem fanginn hefur þegar valdið. Fyrirbyggjandi aðgerðir og allt sem fallið getur undir betrun er í öðru sæti ef því er þá yfirhöfuð sinnt.

Barnauppeldi snýst um að gera börn sjálfstæð og það er ekki gert með því að svipta börn tengslum við ástvini sína og takmarka möguleika þeirra til náms og vinnu, heldur með því að veita þeim öryggi og opna þeim tækifæri. Þegar maður elur upp börn myndar maður tilfinningatengsl við þau. Maður sinnir tilfinningalegum þörfum þeirra og býr þeim aðstæður til að sinna félagslegum þörfum sínum. Maður lætur undan sanngjörnum óskum þeirra og spyr þau álits á ákvörðunum sem hafa áhrif á líf þeirra. Maður leyfir þeim að hafa áhrif á ákvarðanir eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir og veitir þeim frelsi að því marki að það ógni ekki öryggi þeirra eða annarra. Maður á með þeim góðar stundir.  Maður tekur virkan þátt í lífi þeirra, sýnir þeim ástúð og veitir þeim persónulega athygli.

Ef það er uppeldi sem fer fram á Litla Hrauni hrópa ég húrra fyrir Margréti. En hún verður þá að útskýra hvernig uppeldisaðferðir á borð við heimsóknabann,  símabann og einangrunarvist veita fanganum öryggi og hvernig þessar uppeldisaðferðir endurspegla umhyggju yfirvaldsins fyrir velferð hans.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 30.1.2013 - 12:20 - FB ummæli ()

Vinstri handar villan

Á fyrri hluta 20. aldar stóðu barnakennarar frammi fyrir erfiðu vandamáli. Sum börnin þráuðust við að læra rétt vinnubrögð. Þau höfðu óeðlilega tilhneigingu til að skrifa og teikna með vinstri hendinni. Skýringin á þessu var ekki einber óþekkt, þau virtust hreinlega ekki ráða við þetta.

Ýmis ráð voru reynd til að uppræta vinstri handar villuna. Sumsstaðar reyndu kennarar það ráð að binda vinstri handlegg örvhenta barnsins niður, mér skilst að dæmi hafi þekkst um það á Íslandi. Ekkert ráð dugði til að uppræta tilhneiginguna en með þessari aðferð var  hægt að kenna örvhentum börnum að nota hægri höndina og lifa nokkurnveginn eðlilegu lífi, allavega á meðan þau voru undir eftirliti.

Í eyrum nútímamannsins hljóma þessar aðferðir forneskjulega. Við höfum vanist þeirri hugsun að það skaði engan þótt sumir skrifi með vinstri höndinni. Við lítum svo á að ef barn vilji frekar nota vinstri höndina sé því sjálfu fyrir bestu að fá að nota verkfæri sem eru hönnuð fyrir örvhenta, auk þess sem tilraunir til að reyna að uppræta þessa hneigð hafi ekkert upp á sig nema leiðindi. En kannski er skýrining á tilraunum til uppræta vinstri handar villuna ekki bara fáfræði og fordómar. Þegar nánar er að gætt er ekki útilokað að tilraunir langfeðga okkar til að ná tökum á örvhendu eigi sér skynsamlegar skýringar sem blygðunarsemi þess tíma bannaði þeim að orða upphátt.

Aðalorsök barnagirndar

Barnanauðganir og barnagirnd hafa verið áberandi í samfélagsumræðu janúarmánaðar. Við höfum rætt ráðaleysi samfélagsins gegn þessari óheppilegu hneigð og líkunum á því að hún leiði til voðaverka. Við höfum rætt dugleysi kerfisins til að bregðast við kynferðisglæpum gegn börnum og við höfum rætt leiðir til að fyrirbyggja brot. Ekki síst höfum við leitað skýringa.

Nærtækasta skýringin á barnagirnd er klámneysla. Það hefur sérfræðingur í barnagirnd staðfest. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart því lengi hefur verið vitað að barnaníðingar sækja í barnaklám. Orsakasamhengið blasir því við; klám, einkum barnaklám og annað ofbeldisklám, leiðir til barnagirndar.

Innanríkisráðherra hefur brugðist við kallinu um að fyrirbyggja kynferðisofbeldi með því að leggja drög að Klámstofu sem á að stýra því að hvaða efni verði almenningi aðgengilegt á  internetinu. Standa vonir til þess að þannig verði hægt að koma böndum á kynhvöt landans og endureisa siðinn í landinu. En það er fleira en klámið sem barnhneigðir eiga sameiginlegt og ekki er síður mikilvægt að huga að þeim þáttum.

 

Fleiri orsakir barnagirndar

Rannsóknirnar sem þessi Wikipediugrein vísar til, sýna að barnhneigðir hafa að jafnaði lága greindarvísitölu og gengur illa í skóla. Þeir eru öðrum líklegri til að hafa fengið höfuðhögg í æsku og heili þeirra er jafnvel frábrugðinn eðlilegum heila. Hæð þeirra er ennfremur undir meðallagi. Það sem er þó mest sláandi er að um 30% þeirra eru örvhentir, sem er mun hærra hlutfall en hjá öðru fólki.

Ekki verða allir sem horfa á klám barnaníðingar og þeir sem skrifa með vinstri hendinni verða heldur ekki allir barnaníðingar. En fylgnin leiðir þó í ljós að hér er um áhrifaþætti að ræða. Klám veldur ekki alltaf barnagirnd en það gerir það stundum. Sömuleiðis höfuðhögg í æsku, lág greindarvísitala, lágur líkamsvöxtur og ekki síst vinstri handar villan. Ég veit ekki hversu raunhæft er að fyrirbyggja barnagirnd með heilalækningum en samt sem áður er ýmislegt sem við getum gert, til viðbótar við það þjóðþrifaverk að ritskoða internetið. Við getum t.d. eflt slysavarnir. Við getum sent öll börn í greindarpróf og komið þeim sem eru undir meðallagi í sérkennslu. Við getum gefið þeim lágvöxnu vaxtarhormón.

Það sem þó er einna auðveldast og öruggast er að uppræta vinstri handar villuna. Í því skyni getum við litið til forfeðra okkar. Hver veit nema örvæntingarfullar tilraunir kennara til að fá börn til að nota hægri höndina eigi sér þá skýringu að menn hafi áttað sig á þessum orsakatengslum? Við vitum reyndar að þeim tókst ekki að uppræta tilhneiginguna með því að binda vinstri handlegginn niður en þó náðist oft sá árangur að þessi börn urðu jafnvíg á báðar hendur.

 

Byrgjum brunninn

Vera má að barnagirnd eigi sér fleiri orsakir en þær sem hér hafa verið nefndar. Það verður tíminn að leiða í ljós en þar sem við vitum um þær helstu er engin ástæða til annars en að bregðast við. Uppræta þarf klám og koma á almennri ritskoðun og hefur innanríkisráðherra nú þegar tekið mikilvægt skref í þá átt. Vakta þarf heimsk börn, lágvaxin og þau sem verða fyrir höfuðhöggum. Nauðsynlegt er að banna öll vinstri handar verkfæri og reyna með öllum ráðum að sjá til þess að örvhent börn fái bót meina sinna.

Ennfremur er rétt að snúa vörn í sókn með því að nota sömu meðöl og þau sem valda barnagirnd til að vinna gegn henni. Vitað er að fólk hermir jafnan eftir því sem það sér á myndböndum og það er ekki bundið við klám. Því væri ráð að skylda börn jafnt sem fullorðna til að horfa á efni sem gott er og fagurt. Efni þar sem fólk hegðar sér sómasamlega og hefur í heiðri rétt lífsgildi, svo sem sjálfbæra ritskoðun í lýðræðissamhengi. Rétt er að svokallaðir kynjafræðingar hafi eftirlit með gerð og dreifingu alls efnis sem dreift er meðal almennings, því þeir hafa til þess menntun og skilning á mannlegu eðli að hafa vit fyrir okkur hinum. Okkur hinum sem sakir heimsku og líkamssmæðar, örvhendu, karlmennsku og klámfíknar, kunnum ekki fótum okkar forráð.

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Lög og réttur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , ,

Sunnudagur 27.1.2013 - 21:31 - FB ummæli ()

Lögmundur og Langholtsskóli

 

Í Silfrinu í dag kveinaði innanríkisráðherra um að almenningur í landinu væri að beita hann „þöggun“ í Klámstofumálinu. Þeir sem leggjast gegn ritskoðun eru að hans sögn í „hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn“. Lögmundur heldur væntanlega að þetta snúist um umhyggju okkar fyrir klámframleiðendum. Að sami hópur tæki því þegjandi ef ætti að banna efni sem sýnir óæskilegar stjórnmálaskoðanir eða niðurlægjandi húmor.

Ennfremur líkti ráðherrann frjálsum aðgangi að klámi við það að grunnskóli smalaði börnum saman og léti þau horfa á ofbeldisklám. Það þarf m.ö.o. að koma á fót Klámstofu til að hindra að fullorðnir geti nálgast klám af því að netfrelsi jafngildir klámsýningum í Langholtsskóla.

 

Hvað annað myndi Langholtsskóli ekki bjóða nemendum upp á?

Ætli Lögmundi þætti viðeigandi að Langholtsskóli sýndi litlu börnunum okkar hrollvekjur? Hversu gömlum börnum myndi Langholtsskóli sýna heimildamynd um hryllilegt ofbeldi gegn dýrum? Væri verjandi að sýna þættina um Dexter í skólastofu? Eða grófustu atriðin úr Fóstbræðraþáttunum? Hvað myndi Lögmundur segja ef skólastjóri smalaði börnum saman og léti þau hlusta á úrval úr ræðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins?

Ef Lögmundur kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert af þessu væri réttlætanlegt að sýna litlu börnunum okkar í skólanum, ætlar hann þá að líka að setja netsíur á ljótar kvikmyndir, ruddahúmor, ræður Bjarna Ben og allt annað sem ylli mikilli reiði ef það væri sýnt í skólastofu?

 

Hvar eru öll þessi sakamál sem spretta af klámneyslu?

Lögmundur hefur talað um að ekki standi til að sía út allt erótískt efni heldur einungis það sem hann kallar klám; gróft ofbeldi sem á meira skylt við pyntingar en kynlíf.  Rökin fyrir nauðsyn þess að hindra aðgengi að slíku efni eru þau að áhrifa ofbeldiskláms gæti í sakamálum.

Nú eru dæmi um að níðingar hafi pyntað fórnarlömb sín og ógnað lífi þeirra frá því löngu fyrir daga internetsins svo ráðherrann hlýtur að eiga við að áhrifanna verði vart í mikilli fjölgun slíkra mála. Kynferðisbrotamál sem bera keim af pyntingum eru ekki áberandi í þeim dómum sem aðgengilegir eru á netinu og mál þar sem gerendur eru fleiri en einn eru blessunarlega sjaldgæf. Engum fréttum hefur heldur farið af þessum málum í fjölmiðlum. Þetta hljóta því að vera mál sem dómstólar halda leyndum en dómar í sakamálum eru lögum samkvæmt opinber gögn. Gagnlegt væri því ef fréttamenn krefðu Lögmund svara við því hvaða mál hann eigi við og hvar hægt sé að afla upplýsinga um þau.

 

Hverjir munu skipa Klámstofu í framtíðinni?

Enn hefur ekki fundist skilgreining á klámi sem almenn sátt ríkir um en jafnvel þótt við gætum öll sameinast um þá skoðun að hindra þurfi aðgang að ofbeldisklámi, hvar á þá að draga mörkin? Lögmundur ætlar að setja það í hendur Klámstofu en hana skipa sem stendur meðlimir refsiréttarnefndar;

  • Róbert R. Spanó, forseti lagadeildar HÍ, formaður
  • Egill Stephensen saksóknari
  • Símon Sigvaldason, héraðdómari
  • Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari
  • Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar

 

Spurningin er hvort Róbert Spanó og félagar muni sjálfir ákveða hvaða efni ég má skoða á netinu eða hvort „sérfræðingar“ verði ráðnir til starfa fyrir Klámstofu. E.t.v. kynjafræðingar? Hvort vil ég frekar að stjórni því hvað ég má sjá á netinu; Róbert Spanó eða Katrín Anna Guðmundsdóttir? Það skiptir svosem ekki máli því Lögmundur mun áreiðanlega ekki spyrja mig álits.

Og þegar Klámstofa er búin að skilgreina klám, hvernig á að tryggja að netsíur ráði við skilgreininguna og geri greinarmun á t.d. ofbeldisklámi og fræðsluefni um kynferðisofbeldi?

 

             

Ekkert ofbeldi hér = ekki klám?                                                   Er þetta ofbeldisklám?

.

 

Hvernig verður eftirliti með fjölmiðlum og listamönnum háttað?

Vafasamt er að almenn sátt muni nást um hina nýju skilgreiningu innanríkisráðherra á klámi.

Flest okkar skilgreina ýmislegt sem klám sem á ekkert skylt við ofbeldi. Hvað ætlar Lögmundur að gera við það efni? Hvað ætlar hann að gera við gróf tímarit á borð við Penthouse og Hustler? Hvað ætlar hann að gera við klámbókmenntir á borð við Fimmtíu Litbrigði Grámans? Verður þetta efni bannað á internetinu og ef svo er þarf þá ekki að moka því út úr bókabúðum líka? Á Klámstofa að sjá um það?


Hvor myndin er nær því að vera klám?
Trúir því einhver í alvöru að það sé gerlegt að koma upp netsíum sem síar réttu myndirnar út?

 

Og ef hin nýja skilgreining Lögmundar verður ofan á, verður þá í lagi að sýna það sem ég myndi kalla klámmynd í Langholtsskóla? Eða þarf að loka á það efni líka af því að við viljum ekki sýna það litlu börnunum í Langholtsskóla?

Vandinn afhjúpast þó fyrst fyrir alvöru þegar við horfumst í augu við að klapplið Lögmundar talar um vinsæl tónlistarmyndbönd sem klám. Verður þá líka lokað á tónlistarmyndbönd? Eða má sýna þau í Langholtsskóla?

 

Þjónusta við varnarlausa netverja sem vilja vernda börnin?

Þeir sem ekki vilja sjá klám eða vilja koma í veg fyrir að börnin rekist á klám, geta að sjálfsögðu sett upp netsíur heima hjá sér. Það er stór munur á því hvort ég ákveð sjálf að setja upp síu eða hvor Róbert Spanó eða klámpostular ákveða það fyrir mig.

Þau rök að takmarka þurfi aðgengi almennings að efni á netinu af því að ofbeldisklám poppi óvart upp á skjáinn eru afleit. Sjálfsagt gefa ungir netnotendur þá skýringu þegar þeir eru staðnir að verki við að skoða klám, en allir sem nota internetið daglega vita að þetta er jafn ótrúverðugt og þegar unglingur gefur þá skýringu á sígarettu í úlpuvasanum sínum að einhver hljóti að hafa misst hana ofan í vasann.

Ég efast um að innanríkisráðherra trúi því í alvöru að unglingur sem sér myndband með pyntingum, hópnaugunum og dýraníði, haldi að slíkt myndband endurspegli það sem fer fram í svefnherbergi foreldra hans. Ég efast líka um að hann telji í alvöru að hann sé að gera foreldrum greiða með því að setja upp netsíur, í stað þess að treysta almenningi í landinu sjálfu fyrir uppeldi barna sinna. Líklegra er að tilgangurinn með njósnafrumvarpinu, Happdrættisstofu og Klámstofu sé sá að höfða til þeirra kjósenda sem eru veikir fyrir fasískum hugmyndum. Það er út af fyrir sig skynsamlegt hjá Lögmundi því flestir þeirra sem fögnuðu því að fá meintan mannréttindasinna í Dóms- og mannréttindaráðuneytið sáluga, eru löngu búnir að sjá í gegnum hann.

 

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík · Lög og réttur
Efnisorð: ,

Laugardagur 26.1.2013 - 13:25 - FB ummæli ()

Af öfgastefnu vinstri grænna

Undarleg finnst mér umræðan um Vg sem róttækan vinstri flokk eða jafnvel öfgasinnaðan vinstri flokk.

Ég bý í Bretlandi. Hér borgar almenningur ekki eitt penný fyrir komu á heilsugæslustöð. Ekki heldur fyrir komu á bráðamóttöku. Ég fór í krabbameinsskoðun nýlega, þurfti ekkert að borga þar og ekki fyrir blóðrannsókn heldur. Og nei, það er ekki af því að ég borgi í einhvern sérstakan sjóð, þetta eru bara þau kjör sem almenningur í Bretlandi nýtur. Hér borgar fólk  heldur ekkert fyrir þjónustu augnlækna eða húðlækna, ég veit ekki um aðra sérfræðiþjónustu. Ég borga ekkert fyrir lyf sem læknir skrifar upp á og í næstu matvörubúð get ég keypt 16 stykkja pakka af 500 gr parasetamóltöflum á 15 pence sem samsvarar 30 íslenskum krónum.

Ég fór til tannlæknis í haust. Hann skoðaði mig og prentaði svo út yfirlit yfir það sem þyrfti að gera og kostnað fyrir hverja aðgerð um sig. Ég spurði hvort þetta væri bara gróf áætlun og hætta á að ég þyrfti að borga meira, hann skildi ekki hvað ég var að tala um. Hann rukkaði mig ekkert fyrir skoðunina og vegna niðurgreiðslu hins opinbera var kostnaðurinn við viðgerðirnar um 65% lægri en það sem Íslendingar greiða fyrir samskonar þjónustu.

Ég er ekki að segja að velferðarkerfið í Bretlandi sé betra en á Íslandi. Ég þekki það ekki nógu vel til að geta lagt mat á það og hér er ég bara að tala um heilbrigðismál. Vel má vera að Íslendingar standi sig betur í t.d. húsnæðismálum og skólamálum. En heilsugæsla er mjög mikilvægt velferðarmál og fyrst Bretar geta niðurgreitt heilbrigðisþjónustu og lyf að því marki sem raun ber vitni, ætti íslensk ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir vera vinstrisinnuð, í það minnsta að afnema gjöld fyrir komu á heilsugæslustöð og bráðamóttöku. Ég hef ekki séð Vg taka eitt einasta skref í þá átt á þessum tíma sem þau hafa setið í ríkisstjórn. Það hefur hugsanlega farið fram hjá mér svo endilega leiðréttið mig ef svo er.

Vg hafa beitt sér í umhverfismálum. Sumar þeirra aðgerða eru umdeilanlegar en þar hafa þau þó allavega fylgt stefnu sinni. En ég hef ekki séð Vg taka nein mikilvæg framfaraskref í velferðarmálum fyrir utan fæðingarorlofið. Ekkert markvert hefur gerst í húsnæðismálum (nema ef 110% reglan er talin velferðarmál) né heldur í heilbrigðismálum. Helsta afrek ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum er ekki það að koma fólki á atvinnuleysisskrá í aðlögunarvinnu, eins og tíðkast í nágrannalöndunum, heldur að hætta að veita flóttamönnum atvinnuleyfi.  Þrátt fyrir yfirlýsingar um endurskipulagningu háskólakerfisins hefur ekkert gerst í þeim málum og helsta afrekið í málum grunnskóla er samningur við fulltrúa kapítalismans (samtaka fjármálafyrirtækja, þessara sem settu landið á hausinn, muniði) um kennslu í „fjármálalæsi“.

Hvar í ósköpunum liggur þessi margumtalaða vinstri róttækni Vg? Liggur hún í njósnafrumvarpinu, happdrættisstofu og klámstofu? Ef svo er þá snúast öfgar vinstri manna um eitthvað allt annað en velferðarmál.

 

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 24.1.2013 - 15:48 - FB ummæli ()

Þessvegna þarf kynjakvóta í „Gettu betur“

 

Af hverju þarf að jafna kynjahlutföllin í spurningakeppni framhaldsskólanna?

Að sögn Stefáns Pálssonar þarf kynjakvóta af því að Gettu betur er ekki nógu gott sjónvarpsefni eins og er. Af pistli hans á Knúzinu í gær má einnig ráða að hann þjáist af samviskubiti yfir því að hafa skapað strákamenningu. Eins og hann orðar það; „ég skapaði skrímsli“. Strákamenning er „skrímsli“.

Stefáni gengur gott eitt til en þessar forsendur hans eru ekki trúverðugar. Keppnin hefur frá upphafi notið mikilla vinsælda og það getur varla talist aðkallandi að auka áhorfið á þáttinn. Þar fyrir utan eru jafnari kynjahlutföll engin trygging fyrir auknum gæðum. Það er líka mótsagnakennt að Stefán vilji endilega innvígja stúlkur í menningu sem hann sjálfur kallar „skrímsli“. Ætli það séu ekki, þegar upp er staðið, fyrst og fremst jafnréttissjónarmið, sem vaka fyrir Stefáni? Honum fannst gaman að vera með í þessari keppni og vill ekki að stelpur fari þess á mis.

Jafnrétti er gott og fagurt en ástæðan fyrir kynjahallanum er bara ekkert sú að stelpum sé meinaður aðgangur að keppninni, heldur sú að fáar stelpur sýna áhuga á þátttöku. Það þykir mikið vandamál og kynjakvótaumræða síðustu daga endurómar sjónarmið þeirrar hreyfingar sem stal kvenfrelsishugtakinu. Feminismi merkir ekki lengur jöfn tækifæri fyrir bæði kynin heldur að karla- og kvennamenningu skuli útrýmt.

Strákamenning er merkilegri en stelpnamenning

Helsta ástæðan fyrir því að kvenhyggjufólki finnst nauðsynlegt að fleiri stelpur taki þátt í Gettu betur er sú að strákamenning er í eðli sínu svo miklu eftirsóknarverðari en hugðarefni stúlkna. Ég verð allavega ekki vör við neinar áhyggjur af því að fáir strákar taki þátt í söngkeppni framhaldsskólanna eða Skrekk.

Þetta viðhorf er líka áberandi í umræðum um vinnumarkaðinn. Í stað þess að hefja kvennastörf til vegs og virðingar, er stefnt að því að auka hlut kvenna í hefðbundnum karlagreinum og efla  þátttöku þeirra í valdakerfinu. Valdakerfi sem viðheldur misrétti. Mikilvægi þess að stelpur tileinki sér strákamenningu er angi af þessu viðhorfi og athyglisvert er að það hefur ekki gert keppnina neitt kvenvænni þótt konur hafi samið spurningarnar og verið dómarar og spyrlar. Konur hafa þannig gengið inn í skrímslamenningu Stefáns en ekki breytt henni.

 

Ef stelpur taka ekki þátt í strákamenningu þá er eitthvað að þeim

Skýringin á áhugaleysi stelpna er ekki sú að þær hafi eitthvað þarfara við tíma sinn að gera. Stelpurnar hljóta að vera svona kúgaðar. Þær skortir sjálfstraust og hugrekki til að láta ljós sitt skína.

Spyrja má hvort unglingur sem þorir ekki að taka þátt í keppni, af ótta við kynjafordóma, hefur burði til að takast á við ósigur en auk þess er þessi hugmynd niðrandi fyrir stúlkur. Ekki er að sjá að óframfærni og ragmennska hái þeim stelpum sem taka þátt í Skrekk, söngkeppni framhaldsskólanna, fimleikamótum eða free style danskeppnum.

Lágt sjálfsmat kvenna er einnig vinsæl skýring á slakri þáttöku kvenna í stjórnmálum, raunvísindum o.fl. Mér finnst þessi hugmynd kvenfjandsamleg. Það er ekki galli á tegundinni að hafa minna keppnisskap eða önnur áhugasvið en karlar og mér finnst það ekki boðleg umræða að stelpur séu svo litlar í sér að þær þori ekki inn í þessa keppni.

 

Stelpur eru vanhæfar til að taka sjálfstæðar ákvarðanir

Stelpur vita ekki hvað þær vilja. Þessvegna þurfa þær sérstaka hvatningu til að skrá sig í þessa keppni. Já, einmitt! Hversvegna ætti klár stelpa frekar að vilja mæta á kóræfingar á kvöldin, verja helgunum með vinum sínum eða lesa undir próf? Hver trúir því í alvöru að hún sjái meiri tilgang í því að lesa eitthvað í samhengi, sjálfri sér til ánægju, en að læra smásmugulegar staðreyndir utan að og þjálfa sig í að ryðja þeim út úr sér á ógnarhraða?

Það viðhorf að gildismat kvenna sé gallað, og þessvegna þurfi að stýra þeim inn á réttar brautir, er ekki bundið við unglinga. Það þykir t.d. merki um kynjamisrétti hve fáar menntakonur sækjast eftir frama innan vísindasamfélagsins. Það er ekki snjöll ákvörðun að ráða sig í vel launað starf í einkageiranum heldur hljóta konur að eiga erfitt uppdráttar í háskólasamfélaginu. Það hlýtur að vera svo ógurlega merkilegt að geta sér nafn innan akademíunnar að það er útilokað að menntaðar konur sjái hagsmunum sínum betur borgið annarsstaðar.

Ég sé ekkert dapurlegt við það að vilja ekki fórna öllum frítíma sínum í marga mánuði fyrir  fimmtán mínútna frægð og vert væri að spyrja hvaðan sú hugmynd er sprottin að stúlkur séu ekki einfærar um að ákveða hvað þeim finnist eftirsóknarvert. Af hverju halda feministar slíkri tryggð við það sem þeir kalla [ranglega] „feðraveldi“. Af hverju vilja þeir yfirtaka „feðraveldið“; taka sjálfir að sér að stjórna stelpum? Af hverju ekki bara láta stelpur í friði eða jafnvel stuðla að því að þeirra eigin menning fái meira vægi í fjölmiðlum?

Strákamenning og valdakerfið

Enn ein rök fyrir nauðsyn þess að taka upp kynjakvóta í unglingakeppnum eru þau að Gettu betur og Morfís, séu áfangar á leið að pólitískum frama.

Já, stúlka sem stefnir á valdabrölt  ætti endilega að taka þátt í Gettu betur. Þá fær hún völd. Kannski verður hún jafn voldug og Stefán Pálsson sem oft hefur, í krafti valdastöðu sinnar innan Samtaka hernaðarandstæðinga, sent út frétttilkynningar og allt. Hugsið ykkur bara hver örlög Stefáns hefðu orðið ef hann hefði verið stelpa. Þá hefði hann sennilega aldrei tekið þátt í Gettu betur og hefði aldrei öðlast þau völd sem hann  hefur í dag.

 

En skaðar það einhvern að taka upp kynjakvóta?

Nei, ég held ekki að það sé í sjálfu sér slæmt að taka upp kynjakvóta í þessum spurningaþætti og það væri m.a.s. áhugavert. Kannski myndi Gettu betur breytast í stelpnakeppni á nokkrum árum. Strákaklíkur og stelpnaklíkur hafa alltaf verið til og ekkert ólíklegt að klárar stelpur hefðu meiri áhuga á að rotta sig saman með stelpum en strákum.

Svo nei, kynjakvótar í ómerkilegum sjónvarpsþætti eru ekki skaðlegir (þótt þeir geti verið það í öðru samhengi) en viðhorfin sem búa að baki þeirri hugmynd að þeirra sé þörf; þau viðhorf að stelpur eigi ekki að skilgreina hvað sé eftirsóknarvert, heldur hasla sér völl á sviðum þar sem strákar eru ríkjandi; þau eru skaðleg. Ég hef viðrað þá hugmynd að kannski væri ráð að spyrja stelpur í hverskonar sjónvarpsefni þær vildu vera í aðalhlutverki en sú hugmynd hefur ekki fengið neinar undirtektir. Rétta formið er til, stelpur skulu vessgú ganga inn í það og ef þær vilja það ekki þá þarf að „laga viðhorfin hjá þeim“ og „sækja þær inn í bekkina“.

Þið sem standið að spurningakeppni framhaldsskólanna, endilega takið upp kynjakvóta. Gettu betur er ágætur vettvangur fyrir slíka tilraun. En gerið það heiðarlega. Viðurkennið að sú ráðstöfun hafi sáralítið með kynjajafnrétti að gera en snúist öllu fremur um pólitískt ímyndarrunk. Viðurkennið að markmiðið sé ekki að stelpur fái að blómstra á sínum eigin forsendum heldur að sveigja þáttinn að kröfum systraveldisins. Systraveldisins sem þvert á allar hugmyndir um valdeflingu kvenna, hangir vælandi í buxnaskálmum þeirra öðlinga sem enn í dag skilgreina hið eftirsóknarverða, bæði hvað varðar inntak og form.

 

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík
Efnisorð:

Þriðjudagur 22.1.2013 - 13:46 - FB ummæli ()

Múslimaplágan

Í tilefni af umræðu síðustu daga, þar sem nokkuð hefur borið á því viðhorfi að margháttuð vandamál fylgi „þessu fólki“, ætla ég að birta pistil sem ég skrifaði í febrúar 2011.

 

 

Múslimaplágan

Múslimar eru að yfirtaka heiminn. Í alvöru. Þetta fjölgar sér eins og kanínur og eins og fram kemur hér, má reikna með að fólk, upprunnið í löndum þar sem meirihlutinn játar islam, og afkomendur þeirra, nái meirihluta á nokkrum áratugum.

Jamm. Þeir verða í meirihluta og hvað með það? Er eitthvað verra að vera undir skíthæl Múhammeðs en skíthæl Krists? Algengustu rökin fyrir því að þessi þróun sé „hættuleg“ eru þau að múslimir séu svo afskaplega grimmt og frumstætt fólk. Æðsta hugsjón þeirra sé sú að fremja sem flest hryðjuverk og sú næstæðsta að útrýma skopmyndateiknurum. Svo láta þeir líka konurnar sínar ganga í búrkum og nauðga þeim (sennilega er það klámvæðingunni ógurlegu að kenna) og grýta þær svo til bana. Nú eða þeir flytja til Vesturlanda og halda áfram að lemja konurnar sínar þar og konurnar neita að læra tungumálið og lemja börnin sín með inniskóm.

Fokk já. Það er margt í menningu múslima sem er verulega ógeðfellt. Kvennakúgun er staðreynd og það þykir ekki bara sjálfsagt heldur nauðsynlegt að berja börn. Og það mun sko ekkert breytast.

 

Hvað hefur breyst í okkar heimshluta?

Eða hvað? Mun það kannski breytast? Getur kannski verið að enn séu á lífi Íslendingar sem muna þá tíð þegar þótti bara í góðu lagi að flengja börn? Getur jafnvel verið að það hafi aðeins þurft dálitla upplýsingu til að fá eina kynslóð til að líta á líkamlegar hirtingar sem neyðarúrræði fremur en uppeldisaðferð og þá næstu til að líta á þær sem merki um að eitthvað væri að foreldrunum fremur en börnunum?

Englendingar bönnuðu ekki líkamlegar refsingar í ríkisskólum fyrr en 1987 og þær tíðkuðust í einkaskólum fram til 1999. Samt þekki ég engan sem er haldinn ótta við Breta vegna grimmdar þeirra. Stjórn Bandaríkjanna er ekki alsaklaus af pyntingum á föngum og almenningur í Bandaríkjunum er mun umburðarlyndari en Norðurlandabúar gagnvart líkamlegum refsingum í barnauppeldi. Samt þekki ég engan sem óttast Bandaríkjamenn. Ég þekki fólk sem óttast bandarísk stjórnvöld, vissulega, enda ástæða til að óttast heimsvaldastefnu hvort sem það eru Bandaríkjamenn, arabar eða einhverjir aðrir sem reka hana. Ótti við bandaríska menningu eða nábýli við fólk sem þar er upprunnið er aftur á móti ekki algengur.

Múslimir eru ekkert öðruvísi innréttaðir en Bretar, Bandaríkjamenn eða Íslendingar. Umburðarlyndi gagnvart ofbeldi er meira meðal múslima en Vesturlandabúa, ennþá, en það er ekkert sem bendir til þess að þeirra viðhorf muni þróast á annan hátt en okkar. Það er nefnilega goðsögn að ofbeldi sé að aukast í heiminum. Þvert á móti dregur stöðugt úr því.

[ted id=163]

 

Minnihluti múslima er bókstafstrúarfólk

Trúarbrögð múslima eru skelfileg. Full af misrétti og ofbeldi. Rétt eins og trúarbrögð kristinna manna. En sem betur fer eru flestir kristnir menn ákaflega illa kristnir og nota trúna fremur sem haldreipi í sálarangist og umgjörð utan um hátíðir en sem siðferðilegan leiðarvísi. Það sama á við um múslimi. Þeir múslimir sem ég þekki sniðganga svínakjöt og halda hátíðir samkvæmt Kóraninum en þegar kemur að siðferðilegum efnum, mótast skoðanir þeirra af heilbrigðri skynsemi, uppeldi og menningu. Neinei, auðvitað myndu þeir ekki viðurkenna að þeir séu illa trúaðir, ekki fremur en kristnir menn en svona er það nú samt. Ég þekki líbýska konu sem býr í Bretlandi. Hún prentar út greinar af netinu, fjölritar feminísk skilaboð og laumar þeim inn á staði þar sem múslimakonur koma saman. Hún staðhæfir að hún sé að gera það sem Gvuð ætlist til af henni, leiðrétta viðhorf sem séu of forneskjuleg og heimskuleg til að geta mögulega verið frá Gvuði komin. Hún fullyrðir að hún sé sannur múslimi, rétt eins og þau þúsund karla og kvenna sem í nafni islam berjast gegn grýtingum og öðrum ódæðisverkum yfirvalda. Múslimir tileinka sér nefnilega siðferðisskoðanir eins og annað fólk; með hugsun sinni, út frá nýjum upplýsingum og út frá þeim viðhorfum sem ríkja í kringum þá. Ekki út frá mörg hundruð ára gömlum ritningargreinum, nema þar sem ritskoðun og önnur kúgun er mikil.

Það er tilgangslaust að reyna að berjast gegn fjölmenningu. Múslimir munu halda áfram að fjölga sér eins og kanínur á meðan þeir sjálfir sjá tilgang með því og ef þeir sjá tilgang í því að berjast gegn vestrænni menningu þá munu þeir gera það. Besta vörnin gegn „múslimaplágunni“ er því sú að hætta að líta á innflytjendur sem óvini. Bjóða innflytjendum til umræðunnar, hlusta á þeirra rök og útskýra okkar, í stað þess að reyna að stjórna klæðaburði þeirra. Halda áfram að reka áróður gegn hvers kyns kúgun. Hafna ofbeldi. Styrkja mannréttindi og ganga harðar fram í því að framfylgja þeim, hvar sem er í veröldinni. Framfylgja lögum gegn ofbeldi en láta fólk að öðru leyti í friði með sínar menningartinktúrur.

Menningin er í stöðugri þróun

Við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því að menning okkar deyi út þótt múslimum fjölgi. Hún mun breytast hvort sem múslimum fjölgar eður ei. Ekki í þá veru að í stað heróínfíkla í netasokkum (þannig sá margir múslimir vestrænar konur fyrir sér), muni götur stórborganna skarta búrkuklæddum konum, lemjandi börn með inniskóm. Ekki heldur í þá veru að enska verði upprætt, svínakjöt bannað og ærumorð lögleidd. Þótt elsta kynslóð múslimakvenna læri kannski aldrei málið í nýja landinu, munu dætur þeirra læra það og margar þeirra munu aldrei klæðast búrku eða bera höfuðklút nema til að mótmæla trúarbragða- og menningarofsóknum.

Það sem við þurfum að óttast er ofríki yfirvalda, hvar sem er og hvort sem þau skilgreina sig til hægri eða vinstri. Við skulum óttast tilraunir þeirra til að banna búrkuna í stað þess að vantreysta getu búrkukvenna til að tileinka sér kvenfrelsissjónarmið. Við skulum óttast yfirvöld sem handtaka fólk sem segir „stríð er glæpur“ en ekki vantreysta arabiskum unglingum til að tileinka sér hugmyndir um tjáningarfrelsi, jafnvel þótt feður þeirra skeggræði sjálfsmorðsárás á Jyllandposten í kaffihlénu. Þróunin er í rétta átt. Umburðarlyndi gagnvart ofbeldi minnkar stöðugt og við færumst æ nær því að ná jafnrétti kynjanna. Okkur finnst ganga hægt á meðan við stöndum í baráttunni og horfum á fólk sem okkur er annt um verða fyrir kúgun og óréttlæti. Þegar við hinsvegar horfum nokkra áratugi aftur í tímann sjáum við að viðhorfsbreytingar eiga sér stað, ekki bara hjá einstaklingum heldur samfélaginu öllu, ekki hægt og bítandi heldur hratt og örugglega. Best gæti ég trúað því að fjölmenning flýti fyrir því ferli.

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , ,

Sunnudagur 20.1.2013 - 16:08 - FB ummæli ()

Má ekki segja sannleikann um flóttamenn?

 

 

Orð Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, um flóttatúrisma (5. mín) vöktu að vonum almenna hneykslun. Slæmt er ef fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur tekið orð hennar úr samhengi. Kristín þyrfti að útskýra hvernig það var gert og hvað hún sagði eiginlega „í samhengi“ því hún virðist vera ein um að átta sig á því.

Einhverjir telja þó að Kristín sé bara að ræða staðreyndir um flóttamenn og benda á að stofnunin sé of fjársvelt og undirmönnuð til að sinna hlutverki sínu. Þetta sé ekkert öðruvísi en þegar talsmenn Vinnumálastofnunar eða Tryggingastofnunar bendi á að bótakerfið sé misnotað.

 

En er ekki í lagi að benda á að kerfið sé misnotað?

Hlutverk Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar, er að þjóna skjólstæðingum sínum en ekki að kasta rýrð á þá. Það er fullkomlega  óviðeigandi að þessir aðilar leggi áherslu á misnotkun skjólstæðinga sinna á kerfinu, nema fyrir liggi að það sé umfangsmikið vandamál sem hafi afdrifarík áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Ef fólk í slíkum stöðum getur ekki sinnt starfi sínu vegna fjárskorts eða manneklu, væri eðlilegast að það segði af sér, á þeirri forsendu að ríkið útvegi því ekki eðlileg vinnuskilyrði, í stað þess að varpa ábyrgðinni yfir á þá skjólstæðinga sem spila ekki eftir réttum leikreglum.

Auk þess eru orð Kristínar alvarlegri en almenn umræða um misnotkun á kerfinu. Það verður að teljast stór ákvörðun að yfirgefa fjölskyldu sína og leggjast í margra ára heimsreisu að ástæðulausu. Ósennilegra er að fólk geri það í stórum stíl en að það misnoti bótakerfið í heimalandi sínu. Þetta er sambærilegt við það að forstjóri Tryggingastofnunar segði opinberlega að það væri svolítið aðlaðandi fyrir þá sem ekki nenna að sjá um sig sjálfir að gerast „atvinnuöryrkjar“ og leggjast inn á hjúkrunarheimili þar sem þeir fái heitan mat og aðstoð við að baða sig, auk þess að komast í bingó á laugardögum.

 

Hvernig talar innanríkisráðherra um flóttamenn?

Forstjóri Útlendingastofnunar getur ekki leyft sér að tala eins og hún gerði nema benda á gögn sem sýna fram á að ekki sé aðeins um fágætar undantekningar að ræða. Ég er ekki ein um þá skoðun því aldrei þessu vant er innanríkisráðherra sammála mér og hyggst nú taka Kristínu Völundardóttur á teppið. Það er reyndar hlálegt þar sem Ögmundur er ekki hótinu skárri sjálfur. Hann hefur bæði skrifað og látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að meðal flóttafólks séu „glæpamenn á flótta undan réttvísinni“. Það efast enginn um en Ögmundur veit mæta vel að glæpamenn, í þeim skilningi sem flest okkar leggja í orðið, eru aðeins lítill hluti flóttamanna. Það að innanríkisráðherra skuli tala á þennan hátt er svipað og ef forstjóri Vinnumálastofnunar segði það stóran vanda að á atvinnuleysisskrá sé margur glæpamaðurinn. Ögmundur ætti því að biðjast afsökunar á sínum eigin orðum um leið og hann skammar Kristínu.

 

Má þá ekki segja sannleikann?

Auðvitað má ræða misnotkun á kerfinu. Spurningin er hinsvegar hver á að gera það, á hvaða vettvangi og í hvaða samhengi. Reiði almennings í garð forstjóra Útlendingastofnunar stafar ekki af því að fólk sem misnotar kerfið sé tabú, heldur af því að undantekningar eru notaðar sem réttlæting fyrir seinagangi og vondum vinnubrögðum. Þau vandamál eru á ábyrgð stofnunarinnar en stafa ekki af því að mikill fjöldi ævintýramanna sé í heimsreisu á kostnað skattgreiðenda. Það er einnig smekkleysa að setja þá sem flýja örbirgð í sama flokk og svikahrappa. Þótt fæði og lyf hafi enn ekki verið skilgreind sem mannréttindi er það ekki vegna þess að þær þarfir séu léttvægar, að mati stofnana Sameinuðu þjóðanna, heldur vegna þess að ekki þykir raunhæft að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau tryggi afkomu allra þegar stríð og náttúruhamfarir leiða til hungursneyðar.

 

Leysið raunveruleg vandamál í stað þess að eltast við undantekningar

Ég hef horft upp á Útlendingastofnun eyða svívirðilega löngum tíma í mál manna sem augljóslega eru flóttamenn og hefði átt að afgreiða í hvelli. Þrjá þeirra nefndi ég í þessum pistli en dæmin eru miklu fleiri. Ég þekki persónulega fólk sem bíður ennþá eftir afgreiðslu mánuð eftir mánuð en fær engin svör. Hvað á það t.d. að þýða að láta Mouhamed Lo ennþá bíða eftir meðferð? Útlendingastofnun hefur aldrei dregið sögu hans í efa svo af hverju fær maðurinn ekki hæli?

Mér finnst sorglegt að sjá Útlendingastofnun bera fyrir sig fjárskort og tala eins og helsta viðfangsefni hennar sé að afhjúpa svikahrappa á sama tíma og við horfum upp á brottvísanir sem geta ekki flokkast sem neitt annað en mannréttindabrot. Það hlýtur að vera hagkvæmara að afgreiða umsóknir og búa flóttamönnum aðstæður til að sjá fyrir sér sjálfir en að verja mörgum árum í það að reyna að finna afsökun til að losna við þá.

Hugtakið flóttatúrismi

Þessi mynd (sem ég fann hér) er frá flóttamannafangabúðum í Grikklandi. Þetta fólk bíður þess að vera sent „heim“ aftur. Það er vegna þessara aðstæðna sem mannréttindadómstóll Evrópu skikkaði innanríkisráðuneytið til að hætta að endursenda fólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglunnar. Misnotkunin á því ákvæði hefur m.a. leitt til þess að vandanum er velt yfir á Grikkland og Ítalíu.

Fjölgun hælisleitenda á Íslandi skýrist e.t.v. að einhverju leyti af því að Útlendingastofnun getur ekki lengur sent fólk til Grikklands en auk þess hefur hælisumsóknum fjölgað í flestum ef ekki öllum vestrænum ríkjum. Það er ömurlegt af forstöðumanni Útlendingastofnunar að tala eins og þeir sem hafa sótt um hæli í fleiri en einu landi líti sérstaklega til möguleikans á að misnota íslenska veferðarkerfið. Þótt flóttamönnum hafi fjölgað er mun lægra hlutfall hælisleitenda á Íslandi (miðað við Íbúatölu) en gerist í mörgum öðrum Evrópulöndum. Auk þess höfðu fáir þeirra sem nú bíða afgreiðslu Útlendingastofnunar hugsað um Ísland sem valkost. Flestir þeirra voru á leið til Kanada eða Bandaríkjanna en voru stöðvaðir þegar þeir millilentu í Keflavík.

Það sem forstjóri Útlendingastofnunar kallar „asylum shopping“ á ekkert skylt við það þegar Íslendingur sest niður með ferðabæklinga til að velja sér dvalarstað í sumarleyfinu, heldur er um að ræða fólk sem leitar að betri aðstæðum og skilvirkara kerfi. Þessi mynd (tekin héðan) sýnir t.d. aðstæður sem sumir flóttamenn búa við á Ítalíu.

Telja verður líklegt að það sem Kristín kallar „asylum tourism“, í þessari yfirlýsingu, eigi fyrst og fremst við um fólk sem flýr ofsóknir og örbirgð en ekki ævintýramenn á einhverskonar skemmtireisu. Ólíklegt er að þessi tegund „ferðamennsku“ sé jafn útbreitt vandamál og forstöðumaður Útlendingastofnunar telur, því samkvæmt leitarvél google.com hefur orðið „asylum tourism“ aðallega verið notað um skoðunarferðir á geðveikrahæli sem hafa verið lögð niður. Flóttatúristar eru undantekningar. Flótti vegna styrjalda ofsókna og örbirgðar er hinsvegar mjög raunverulegt vandamál og það þarf enga „fræðimennsku“ til að komast að því.

Útlendingastofnun ætti að einbeita sér að því að leysa vandamál hælisleitenda fremur en að eyða tíma sínum í að vekja athygli á fólki sem gerir tilkall til stöðu flóttamanna á fölskum forsendum. Útlendingastofnun sem og Innanríkisráðuneytinu er óhætt að láta aðra um að útbreiða fordóma gegn flóttamönnum, því hvað rasista varðar búa Íslendingar ekki við neina manneklu.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Flóttamenn og innflytjendur · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics