Föstudagur 14.12.2012 - 14:35 - FB ummæli ()

Að ljá hatursáróðri fræðilegt yfirbragð

Í gærkvöld og dag hef ég séð þessari mynd dreift á Snjáldrinu.  Mynd sem í fljótu bragði lítur út fyrir að sýna tölfræðilegar staðreyndir en er þó ekkert annað en áróðursmynd sem er ætlað að telja áhorfandanum trú um:

a) Að það sé ofboðslega hættulegt að vera kona.
b) Að karlar séu konum stórkostlega hættulegir.
c) Að ástarsambönd séu konum hættulegri en hernaður og hryðjuverk körlum.
d) Að kvennamorð séu viðurkennd hegðun í Ameríku.

Með því að tengja saman hryðjuverk, stríð og kvennamorð skapar áróðursmeistarinn þau áhrif að heimilisofbeldi sé sambærilegt við hryðjuverk og hernað. Hvort tveggja séu aðgerðir voldugra þjóðfélagsafla, ætlaðar til þess að undiroka stóra hópa fólks með ofbeldi og morðum.

Yfirskriftinni What War on Women? er ætlað að vekja okkur þá tilfinningu að við séum öll í ægilegri afneitun gegn stóru vandamáli, stríðinu gegn konum. Að í rauninni sé hér um að ræða hatursfullt samsæri gegn helmingi mannkynsins. Að karlmenn sem hópur herji á konur og líti þær sömu augum og óvinaþjóð. Að markmið karla sé að drepa sem flestar konur. Að makar okkar gegni beinlínis hlutverki í þessu stríði; hlutverki böðulsins. Að heimilisofbeldi sé þjóðarmorð í dulargervi. Þjóðarmorð sem við afneitum eða látum viðgangast af einskæru kvenhatri.

Augljósar rökvillur

Auðvitað sjá allir í gegnum þetta sem á annað borð hafa greindarvístölu yfir sjávarmáli. Langflestar konur eiga einhverntíma á ævinni í ástarsamböndum. Stór meirihluti kvenna á í nánum samböndum við karlmenn árum saman. Hinsvegar gegnir örlítill minnihluti bandarískra karla herþjónustu í Afghanistan árum saman, auk þess sem það eru fyrst og fremst óbreyttir borgarar sem falla í stríði en ekki hermenn.

Samkvæmt þessari mynd falla 1000 amerískar konur fyrir hendi maka síns árlega. Það samsvarar einni íslenskri konu. Enginn heilvita maður telur það ásættanlegt. Það er þó lítið vit í því að bera saman þá sem falla í stríðsátökum og þá sem falla fyrir hendi maka síns og með þessari aðferðafræði er hægt að sanna hvaða vitleysu sem er. Árlega deyja 10-12 manns í  bílslysi á Íslandi. Það hlýtur þá samkvæmt þessu að vera „stríð gegn vegfarendum“.  Fleiri nauðganir eiga sér stað í heimahúsum en fangelsum, þar með hlýtur fangelsi að vera mun öruggari staður en heimili.

Hálfsannleikur er lygi

Afbökunin á sannleikanum kemur ekki aðeins fram í þessum fjarstæðukenndu tengingum. Myndin felur líka í sér lygar sem eru mjög dæmigerðar fyrir haturshreyfingar. Lygar sem er komið til skila með því að segja aðeins hálfan sannleikann. Hálfur sannleikur er nefnilega oftar en ekki lygi. Það er t.d. meiri lygi en sannleikur að kalla sjálfsvörn líkamsárás og ég nota því hiklaust orðið lygi um slíkan hálfsannleika.

Lygin í þessari mynd er sú að aðeins konur séu myrtar. Að karlar falli í stríði og hinir sem ekki eru í stríði séu heima að drepa konurnar sínar. Nei það er ekki sagt hreint út en það er gefið í skyn með hálfsannleika. Með því að gefa aðeins upp tölu þeirra kvenna sem hafa verið myrtar af mökum sínum en láta eins og það sé algerlega óþekkt að karlar séu myrtir hvað þá að konur drepi maka sína. Það er lygi. Samkvæmt þessari skýrslu  eru konur 41% makamorðingja og karlar 47% þeirra sem falla fyrir hendi maka síns.

Karlar drepa oftar en konur og karlar eru mun líklegri til að falla fyrir hendi annars karls en fyrir hendi konu. Samkvæmt þessari samantektarrannsókn voru tæplega 33% þeirra kvenna sem voru myrtar í Bandaríkjunum árið 2004 fórnarlömb karlkyns maka sinna en aðeins 3% þeirra karla sem voru myrtir féllu fyrir hendi konu sinnar eða kærustu. Það að konur myrði karla sjaldnar en karlar konur segir þó ekki allt. Hátt á  sautjánda þúsund morða eru framin í Bandaríkjunum árlega og þegar haft er í huga að milli 70% og 80% manndrápsfórnarlamba eru karlar er hugmyndin um „stríð gegn konum“ fremur langsótt.

Heimskan sem handbendi

Enda þótt allir sem kæra sig um það sjái í gegnum hatursáróður af þessu tagi er hann síður en svo skaðlaus. Þótt við gerum okkur röklega grein fyrir lyginni situr tilfinningin eftir; tilfinningin um konuna sem hið eilífa fórnarlamb og karlinn sem ofdekraðan ofbeldismann. Látum það vera, okkur hlýtur að vera til þess treystandi sem hugsandi verum að stjórnast ekki af tilfinningu sem við vitum að er afleiðing af  sóðalegum áróðri. En það er bara ekkert við því að búast í því flóði rangra upplýsinga og áróðurs sem á okkur dynur að allir sem sjá heimsku af þessu tagi staldri við og hugsi.

Myndin hefur nefnilega fræðilegt yfirbragð sem getur auðveldlega blekkt grunnhyggið fólk og hrekklaust. Hún lítur út eins og samantekt á tölfræðilegum staðreyndum. Eins og hún tilheyri rannsóknarskýrslu. Og það er einmitt þannig sem haturshreyfingar vinna; þær gera heimskuna að handbendi sínu, með því að ljá þvælunni úr sér fræðilegt yfirbragð.

 

 

 

Flokkar: Allt efni
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 13.12.2012 - 18:13 - FB ummæli ()

Rónaþversögnin

Ég er búin að fá nokkrar rukkanir um umfjöllun um það sem stendur í leyniskjölum kynjafræðinnar við HÍ (en kynjafræði eru kynlegar skýringar nokkurra kynjadýra á stöðu kvenna í samfélaginu.)  Ég biðst afsökunar á takmarkaðri afkastagetu minni. Ég er að sjálfsögðu með skyggnulýsingar á pistlaplaninu en þar sem ég reikna með að aðeins lítill hluti lesenda minna hafi áhuga á því fimbulfambi sem hin „akademiska grein feminismans“ er (með orðum Þorgerðar Einarsdóttur) og þar sem skyggnulýsingarnar verða litaðar af persónulegum reynslusögum, tel ég persónulegu vefbókina mína betri vettvang fyrir þá umfjöllun. Hér er fyrsta færslan í þeim flokki, fyrir þá sem hafa áhuga.

Enda þótt ástríðufull andúð mín á dólgafeminisma fari síður en svo rénandi, langar mig að skjóta inn umfjöllun um annað efni, það er afstaðan til útigangsfólks.

 

Skilgreindir sem sjúklingar en krafist heilbrigðrar hegðunar

Merkilegur tvískinnungur hefur ríkt gagnvart ofdrykkjufólki og öðrum fíklum. Annarsvegar eru fíklar flokkaðir sem sjúklingar; hinsvegar er bati og batavilji gerður að skilyrði fyrir því að þeir fái umönnun.

Ímyndum okkur krabbameinssjúkiling sem hefur undirgengist erfiða meðferð. Ef meðferðin ber ekki árangur ætti þá heilbrigðiskerfið að láta hann róa? Og ef hann gæfist upp og harðneitaði að undirgangast fleiri meðferðir, væri þá réttlætanlegt að velferðarsamfélagið henti honum út á gaddinn? Væri ekki líklegra að honum yrði veitt þjónusta til þess að gera líðan hans sem skársta á meðan hann lægi banaleguna? Af hverju í ósköpunum ætti annað að gilda um fíknsjúkdóma? Við vitum að sumir hætta ekki í neyslu, sama hversu oft þeir fara inn á Vog og sama hversu mörg ár þeir eru á útigangi, hírast í köldum geymsluskúrum og yfirgefnum húsum.

Forræðishyggjan  og ábyrgðarleysið

Almennt ríkir töluverð forræðishyggja gagnvart útigangsfólki. Hegðun sem þetta fólk hefur engan hug á að láta af, þótt það sé meðvitað um að hún geti verið skaðleg, er skilgreind sem sjúkdómur og fólk er hálfþvingað til að undirgangast meðferð. Þegar það hættir meðferð er talað um að það hafi „strokið“ og það orðalag afhjúpar þá afstöðu að þetta fólk sé ekki sjálfu sér ráðandi.
Sjálfsákvörðunarréttur fíkla þykir nógu léttvægur til þess að allskyns boð og bönn, eftirlit og ritskoðun er ástunduð með þeim rökum að verið sé að vernda fólk sem kærir sig ekkert um það. Frægt dæmi er þegar fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur lagðist gegn því að bjórkælir yrði settur upp í vínbúðinni við Austurstræti af því að það mætti ekki auðvelda rónum aðgengi að bjór.
Það er undarleg þversögn að á sama tíma og fíklar eru taldir ófærir um að taka ábyrgð á sjálfum sér, gætir nokkurs ábyrgðarleysis af hálfu yfirvalda. Fyrrum borgarstjóri sýndi þannig meiri áhyggjur af því að róninn næði í bjór en að hann hefði öruggt næturskjól. Þessa tvískinnungs gætir því miður víða. Í stað þess að hið opinbera sjái þeim sem missa tök á lífi sínu og þurfa á langtímaumönnun að halda (og kæra sig um hana) fyrir faglegri þjónustu, treysta ríki og sveitarfélög á hreyfingar áhugafólks, stundum hreyfingar sem byggja á trúarlegum eða pólitískum grunni. Þannig afsalar ríkisvaldið sér annarri ábyrgð á þessum hópum en þeirri sem nemur fjárhagsstuðningi. Oft er blindur að leiða haltan og afleiðingarnar geta orðið í ætt við Byrgismálið.
Misskiljið mig ekki. Ég er ekki að setja út á það að fíklum sé hjálpað til að hætta. Það er gott mál að til séu áfangaheimili fyrir þá sem eru að koma úr meðferð. Það sem ég er ósátt við er tvennt; að hið opinbera skuli leggja meiri áherslu á þjónustusamninga við mishæfar hreyfingar (ég tek skýrt fram að ég er ekki að draga í efna hæfni þeirra sem ætla að reka áfangaheimilið) og það að hjálpin er svo oft fólgin í því að „lækna“ fólk, hvort sem það kærir sig um þá hjálp eða ekki. Það er ekkert hægt að setja út á áhugafólk fyrir þá áherslu en það er slæmt að hið opinbera skuli ekki bjóða upp á mannúðlegar aðstæður fyrir þá sem taka ekki meðferð. Þá sem geta ekki hætt í neyslu eða vilja það ekki. Það er sem betur fer dálítið að lagast eins og ég kem að á eftir.

Hlutverk yfirvalda er ekki að stjórna fólki heldur þjóna því 

Þegar hinn mannréttindasinnaði borgarstjóri Reykjvíkur, Jón Gnarr, bauð sig fram til þeirrar stöðu, gekk hann í bol með áletrun þess efnis að hann áttaði sig á því að annað fólk væri ekki hans eign. Þetta hlýtur að skiljast sem stuðningur við þá hugmynd að hlutverk borgarstjórnar sé ekki að stjórna fólki heldur að koma á skipulagi sem þjónar borgurunum.  Slagorðið er að vísu engin skilgreining á anarkisma en það lýsir anarkískri afstöðu og þótt aðrir borgarfulltrúar og þeir sem áður sátu í borgarstjórn, hafi ekki skreytt sig með anarkískum slagorðum, sjást þess víða merki að nokkuð stór hópur fólks hugsi á þessum nótum.

Þessi afstaða sést t.d. í þeim framförum sem hafa orðið í málefnum útigangsfólks í Reykjavík á síðustu árum og hófust reyndar áður en Besti tók við borginni. Auðvitað þarf að gera betur og enn er mikill hluti starfseminnar í höndum áhugafólks en þó rekur borgin heimili þar sem ekki er sett skilyrði um að íbúar séu hættir neyslu. Það verður að teljast mikil framför.

 

Betur má ef duga skal

Jón Gnarr veit eins og aðrir borgarfulltrúar og við öll að sumir þeirra sem koma inn á nýja áfangaheimilið munu fljótlega fara í neyslu aftur, hversu frábær sem þjónustan verður. Hann veit líka eins og við öll að sumt útigangsfólk vill  ekkert fara í meðferð.

Útigangsfólk sem ekki tekur meðferð þarf umönnun sem felst ekki í því að reyna að lækna það, heldur í viðurkenningu á því að það tekur ekki lækningu. Borgaryfirvöld hafa að einhverju marki fylgt þeirri stefnu í nokkur ár en í sumar voru meira en 80 manns í bókstaflegri merkingu heimilslausir og hátt í 100 bjuggu við ótryggar aðstæður. Það þarf  því að gera betur og þótt sé frábært að áhugafólk opni áfangaheimili má borgin ekki líta fram hjá þessum 80 sem líklegt er að muni aldrei verða færir um að annast sig sjálfir. Ég vona að borgin leiti betri lausna á húsnæðisvanda þeirra en að koma upp fleiri neyðarskýlum.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , , ,

Fimmtudagur 13.12.2012 - 12:50 - FB ummæli ()

Skyggnulýsing 1

Nýverið frétti ég að skrif mín væru til umfjöllunar við kynjafræðina í HÍ. Ég varð að vonum afskaplega ánægð með að heyra að kennslan byði upp á fleiri sjónarhorn á dólgafeminisma en eitt allsherjar Halleljújah en þar sem ég hef ekki séð annað en fúsk frá svokölluðum kynjafræðingum, langaði mig að fá að skoða glærur sem notaðar eru við kennsluna. Gyða Margrét Pétursdóttir hafnaði þeirri beiðni með þeim rökum að glærurnar væru nemendaverkefni.

Kennslugögn en ekki vinnuskjöl nemenda

Um er að ræða kennslu á BA stigi, sem MA nemendur í kynjafræði sjá um. Í námskeiðslýsingu stendur:

Verkefni III (15%): Hópverkefni staðnema. Framhaldsnemar, tvö eða þrjú vinna saman og velja námsefni (í samráði við kennara) og sjá um kennslu (40-60 mínútur hver hópur).

Samkvæmt þessu er um kennslu að ræða og þannig var það lagt upp fyrir BA nemana. Hér var því ekki um nemendafyrirlestur að ræða í þeirri venjulegu merkingu að nemendur væru að æfa sig og hópurinn fengi viðbrögð kennara við hugsanlegum misskilningi heldur voru þetta fullunnin verkefni, framhaldsnemar voru að kenna byrjendum.

Glærurnar eru ekki “vinnuskjöl nemenda” eins og margir hafa haldið fram. Þetta eru fullfrágengin gögn sem hafa staðist kröfur kennara að því marki að þær eru notaðar til kennslu við Háskóla Íslands. Þær eru aukinheldur vistaðar með öðrum kennslugögnum námskeiðsins án nokkurrar aðgreiningar. Það er því út í hött að tala um þær sem eitthvað annað en kennslugögn.

Hversvegna er ég óánægð með þetta?

Ég fjallaði nánar um forsendurnar fyrir kröfu minni um að fá aðgang að glærunum í þessum pistlum. Nokkurs misskilnings hefur gætt um það hvað vakir fyrir mér, ég er ekki, eins og einhverjir halda óánægð með að fjallað sé um skrif mín, heldur vildi ég leiðrétta rangfærslur og benda á villandi tengingar. Það hefði verið eðilegast að koma ábendingum mínum á framfæri við nemendur beint en boð mitt um að mæta sjálf eða svara skriflega var afþakkað með þeim orðum að sjónarmið mín séu vel þekkt og sérstök kynning myndi ekki bæta miklu þar við.

Ég hef skrifað hátt á annað hundrað pistla um feminisma svo það verður að teljast frábær árangur ef MA nemendum hefur tekist að kynna allt sem skiptir máli í þeim skrifum í einni kennslustund. Svo er auðvitað ekki og nú þegar ég hef fengið aðgang að þessum gögnum eftir krókaleiðum og sannreynt að glærurnar gefa ekki rétta mynd af gagnrýni minni, ætla ég að benda á það helsta sem skiptir máli á hverri glæru fyrir sig.

Inngangsskyggnan

Einhver gæti haldið að inngangsglæran sem sýnir tiltil fyrirlestrarins, “Frá fórnarlambsfeministum til fasystra” bjóði ekki upp á umfjöllun en þessi titill er góður og reyndar mun betri en þeir sem eiga heiðurinn af honum gera sér grein fyrir.

Ég efast um að ég hafi verið fyrst Íslendinga til að nota hugtakiðfórnarlambsfeminismi en sennilega hefur enginn notað það jafn mikið í opinberum skrifum og ég. Fasystur er hugtak úr minni smiðju. Bæði hugtökin eru lýsandi fyrir gagnrýni mína þar sem áherslan hefur annarsvegar verið á þann skaða sem kvenhyggjusinnar valda jafnréttisstöðu kvenna með því að útmála okkur sem fórnarlömb og hinsvegar einkennist kvenhyggjan af yfirvaldstilburðum og eftirlitsstefnu sem vekur áhyggjur og óbeit með öllu lýðræðissinnuðu fólki.

Hin ómeðvitaða snilld

Ómeðvitaða snilldin við þennan tiltil liggur í mínu eigin ferðalagi um drullupytti  feminískrar orðræðu. Fram til ársins 2009 leit ég á femínista sem saklausa kjána. Ég skrifaði stundum pistla þegar þvælan í þeim gekk fram af mér en var almennt sammála því sem ég taldi víst að væri málstaður þeirra; þ.e. að nauðsynlegt sé að samfélagið sé þess meðvitað að konur eigi á sumum sviðum erfiðara uppdráttar en karlar og séu berskjaldaðri fyrir ákveðnum tegundum yfirgangs og ofbeldis.

Smámsaman rann upp fyrir mér að áherslan á veika stöðu kvenna hafði yfirtekið alla umræðu um kynjamál. Það var orðið markmið í sjálfu sér að draga upp mynd af konunni sem fórnarlambi og í því skyni beittu meintir feministar ýkjum, rannsóknum sem stóðust ekki vísindalegar kröfur, blekkingum og hreinum og klárum lygum. Lengi fylgdist ég með án þess að leggja mikið til umræðunnar. Það var ekki fyrr en 2011 sem ég byrjaði að gagnrýna feminista af alvöru og þá fyrst og fremst fyrirýkjur og lygar annars vegar og hinsvegar fyrir píslarvættisblætið sem mér finnst niðurlægjandi fyrir konur og vinnur okkur á engan hátt gagn. Á þeim tíma hélt ég þó í einlægni að aðeins lítill hópur hegðaði sér svona og því aðgreindi ég fórnarlambsfeminsta frá því sem ég taldi heiðarlega feminista.

Þegar ég uppgötvaði hversu mikið feministar beita lygum og falsvísindum í málflutningi sínum, fór ég að kynna mér skrif svokallaðra “kynjafræðinga”. Mér varð ljóst að þarna var um samfélagsvandamál að ræða en ég gerði mér enga grein fyrir því hversu djúprætt og ljótt það var orðið. Eftirlitsástin, baráttan gegn tjáningarfrelsi og gegn kynfrelsi kvenna gekk fram af mér en ennþá trúði ég því þó að femínistum gengi gott til og að þeir gerðu jafnréttisstefnunni gagn. Það var ekki fyrr en síðla árs 2011 sem mér varð ljóst hversu mikill fasimi einkennir þennan söfnuð. Sá fasismi opinberaðist í gjörningi Stóru systur og orðið fasystur varð til.

Fæðing andfeminsma á Íslandi

Fasystrauppákoman markaði straumhvörf í skrifum mínum um feminisma. Áður hafði ég gagnrýnt ýmislegt í málflutningi þeirra og áherslum, en það var fyrst þarna sem mig fór að gruna að það væru ekki bara nokkrar manneskjur sem þyrfti að leiðrrétta, heldur þyrfti að uppræta hugmyndafræðina sjálfa. Enginn hafði áður, svo ég viti, skrifað beinlínis gegn feminisma nema Sigurður Jónsson sem hefur skrifað um forréttindafemnisma frá 2009. Síðan þá hefur margt orðið til þess að staðfesta þá skoðun mína að feminismi sé ekkert annað en fasismi með píku. Ég áttaði mig á því að kvenhyggjusinnar hafa háð virka baráttu gegn mannréttindum og ég reis gegn viðbjóðslegu mannhatri þeirra.

Það má því með sanni segja að mín þroskasaga frá umburðarlyndi gagnvart því sem ég áleit ómarktækt fimbulfamb örfárra kjána, til einarðrar andstöðu gegn stórri og hættulegri hreyfingu ofstækisfólks, hafi legið frá kynnum mínum af fórnarlambsfemnistum til fasystra.  MA nemar í kynjafræði hittu því sannarlega  naglann á höfuðið í þetta sinn.

 

———————

Pistillinn var upphaflega birtur hér og við þá slóð má sjá ummæli lesenda.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , , ,

Miðvikudagur 12.12.2012 - 21:31 - FB ummæli ()

Að taka á ofbeldi í eigin röðum

Í dag ætla ég að kenna ykkur að skapa réttarkerfi. Eða ekki.

Ég þekki þrjú ólík mál þar sem fólk sem hefur verið órétti beitt telur réttarkerfið ekki góðan farveg til að rétta sinn hlut. Í einu tilviki er um að ræða hrottalega líkamsárás. Í einu tilviki varð kona fyrir nauðgun. Í síðasta tilfellinu býr þolandinn við kúgun, veit að honum verður komið í vandræði ef hann hegðar sér ekki eins og kúgaranum þóknast. Ekkert þessara mála hefur verið kært til lögreglu.

 

Af hverju kærir fólk ekki bara?

Margar ástæður geta verið fyrir því að fólk kærir ekki ofbeldi og aðra glæpi. Brotaþoli kynferðisbrots, sem hefur engin sönnunargögn og engin vitni, sér ekki fram á að kæra skili neinu nema meiri þjáningum. Fólk sem hefur sjálft komist í kast við lögin ber oft lítið traust til lögreglunnar, einkum þeir sem hafa orðið fyrir hrottalegri meðferð af hálfu lögreglu. Sumir hafa sjálfir eitthvað að fela og geta ekki leitað réttar síns nema taka áhættu á að komist upp um þá eða einhvern þeim nákominn. Ég þekki þess einnig dæmi að manneskju finnist hafa verið brotið á sér þótt lögin nái ekki yfir það brot.

Það er algeng skoðun meðal þeirra sem hafa lítið álit á réttarkerfinu að þar sem ekki sé neins réttlætis að vænta úr þeirri átt, ættu vinir þeirra sem órétti eru beittir að taka skýra afstöðu með þolandanum og helst að hjálpa honum að ná fram hefndum. Þetta er góð hugmynd fyrir þá sem eru til í gengjastríð með tilheyrandi ofbeldi á báða bóga en þeir sem telja stríð ekki farsæla leið til þess að leysa vandamál ættu að hugsa sig um tvisvar. Málin verða svo enn erfiðari þegar skúrkurinn tilheyrir vinahópnum. Maður hefði kannski haldið að það sé sjálfsagt að taka skýra afstöðu gegn ofbeldi, útskúfa skíthælnum og refsa honum en ofbeldismál eru ekkert alltaf einföld. Hvernig tekur hópurinn t.d. á ofbeldi í eigin röðum ef orð stendur gegn orði? Eða ef kemur í ljós að gerandinn hefur búið við stöðugar ofsóknir af hálfu þolanda lengi og þolandi hefur áður verið staðinn að því að fegra sinn hlut? Það réttlætir ekki glæpinn en dregur hugsanlega úr refsigleðinni.

 

Anarkismi og réttarkerfi

Í gær talaði ég við konu sem fannst það undarleg afstaða hjá mér að tiltekið mál ætti heima fyrir dómstólum en ekki hjá amatörum. Hún spurði mig hvort ég væri ekki anarkisti og hvernig það samrýmdist eiginlega anarkisma að treysta réttarkerfinu. Semsagt, ef ég er ekki hrifin af ríkisvaldi þá hlýt ég að vilja blóðhefndasamfélag eða eitthvað í þá veru. Nei, auðvitað á hún ekki við refsingar og hefndir, hópurinn á bara að sjá til þess að „big asshole“ axli ábyrgð og þá verða öll dýrin í skóginum vinir.

Andúð mín á yfirvaldi og sú sannfæring mín að ríkisvald sé afleitt stjórnarfyrirkomulag (af því að yfirvald, hervald, auðvald og kennivald þrífst í skjóli þess) er anarkísk afstaða. Sú afstaða merkir ekki að ég hafi undirgengist reglur einhvers sértrúarsafnaðar og afsalað mér rétti mínum til að gagnrýna þau heimskupör sem framin eru í nafni anarkisma. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá sitjum við uppi með ríkisvald og þar sem ríkisvald þrífst þar er réttarkerfi nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt vegna þess að stundum náum við ekki samkomulagi um það hvort einhver sé „big asshole“ eða hvað eigi að gera við „big asshole“.

Réttarkerfi okkar er ófullkomið. Það er neyðarúrræði samfélags sem er of fjölmennt og sundurleitt til að leysa öll ágreiningsmál í bróðerni. Aldrei hefur mannkynið skapað réttarkerfi sem er óumdeilanlega réttlátt og mörg mál ræður réttarkerfið einfaldlega ekki við. Þar eru kynferðisbrot stærsti flokkurinn en í þeim málum standa ákæruvald og dómstólar iðulega frammi fyrir því að þurfa annaðhvort að sleppa manni sem hugsanlega er sekur eða sakfella mann án sannana. Allir sjá þennan vanda en hvergi sé ég neina viðleitni hins opinbera til að finna slíkum málum annan farveg en réttarkerfið.

 

Að skapa eigið réttarkerfi

Og er þá ekki bara fínt að vinahópar taki málin að sér sjálfir, í stað þess að leita til þessa ófullkomna réttarkerfis? Jú, það er fín lausn þar sem raunhæft er að ná sáttum. Það er hinsvegar flóknara í tilfellum þar sem „sá seki“ kannast ekki við að hafa gert neitt rangt. Hugmyndin er sú að hópurinn hjálpi gerandanum að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Hugmyndin er líka sú að „okkar fólk“ ráði betur við það en réttarkerfið. Hugsanlega hefur þetta fyrirkomulag gefist vel einhversstaðar en hvað ef sá seki neitar alfarið að axla ábyrgð? Jú þá er honum „hjálpað“ gegn vilja sínum og í því skyni grípa menn til refsinga. Það var reyndar líka hugmyndin með réttarkerfi miðalda. Refsingar áttu að hjálpa þeim seku að iðrast og auka þar með líkur þeirra á himnavist. Ætli sé svipuð hugsun að baki þegar Hamas-liðar lífláta meinta svikara án aðkomu dómskerfisins?

Ef þú stendur í þeim hræðilegu sporum að geta ekki treyst réttarkerfinu, hugsaðu þig samt tvisvar um áður en þú stillir vinum og vandamönnum upp við vegg og lýsir þá svikara sem ekki vilja hafa bein afskipti af málinu. Ég get því miður ekki bent á betri lausn en stundum er verr af stað farið en heima setið. Gerðu þér grein fyrir því að það gæti orðið til þess að kljúfa þinn eigin hóp og ýta af stað löngu ferli hatrammra átaka og gagnhefnda, hugsanlega án þess að þér líði neitt betur fyrir vikið.

Ég tek undir þá skoðun að réttarkerfið sé gallað og ég kann enga leið til að taka á málum sem réttarkerfið ræður ekki við. Hitt veit ég að þegar leikmenn reyna sjálfit að taka á ofbeldi í eigin röðum, getur niðurstaðan orðið sú að þeir hrófla upp lélegri eftirlíkingu af réttarkerfi. Fámennur hópur tekur í senn að sér hlutverk löggjafa, rannsóknaraðila, ákæranda, saksóknara, dómara og böðuls. Stundum eru reglur settar eftir á og meintur gerandi fær hvorki verjanda né andmælarétt. Og það á ekkert skylt við anarkisma. Það er bara venjulegur fasismi.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 11.12.2012 - 20:22 - FB ummæli ()

Fánaberar fávísinnar

Ég þakka lesendum skjót viðbrögð við beiðni minni um afrit af glærum sem ég nefndi í pistli gærdagsins. Ég fékk póst frá fólki sem ætlaði að útvega umrædd gögn en greip í tómt þar sem búið var að fjarlægja allt efni námskeiðsins af vefnum og einnig frá lesanda sem gat engu að síður gefið mér miklar og gagnlegar upplýsingar. Einnig heyrði ég frá fólki sem hefur á sama hátt og ég frétt af því að verk þess séu til umfjöllunar í kynjafræðinámskeiðum en á þess ekki kost að skoða hvort sú umfjöllun er fagleg og sanngjörn.

Aðalefni pistilsins var aðgengi að upplýsingum. Glærurnar sem mér var synjað um skipta kannski litlu máli fyrir aðra en sjálfa mig, það skiptir hinsvegar máli hvort almenningur hafi tök á að fylgjast með því sem er að gerast innan vísindasamfélagsins og hvort ríkisrekinn háskóli á að gegna menntunarskyldu gagnvart samfélaginu öllu. Ég hefði gjarnan viljað fá álit lesenda á því en umræður á tjásukerfinu og facebook snerust að mestu um höfundarétt að kennslugögnum.

Tilgangur höfundaréttar

Höfundalög snúa að rétti til birtingar og dreifingar jafnframt því sem þeim er ætlað að verja heiður höfunda. Áherslurnar eru þrjár:

– Réttur höfundar til að heiðurs af eigin verki.  Það er t.d. brot gegn höfundarétti ef ég birti ljóð eftir Sigurð Pálsson undir mínu nafni.

– Réttur höfundar til tekna af eigin verki. Það væri brot gegn höfundarétti ef ég seldi eftirprentanir af ljósmyndum Ingólfs Júlíussonar án samráðs við hann jafnvel þótt ég birti nafn hans.

– Að vernda höfund gegn því að verk hans sé misnotað, t.d. nýtt í því skyni að varpa rýrð á hann. Þetta getur verið snúið, það er t.d. ekki hægt að hindra fólk í að gera grín að verkum annarra en það sem skiptir mestu máli er að ef verk er sett í nýtt samhengi, þá sé augljóst að það samhengi sé ekki frá upprunalegum höfundi komið. Það væri t.d. eðlilegt að Gyða Margrét Pétursdóttir léti reyna á það hvort það væri brot gegn höfundalögum ef ég fengi leyfi hennar til að birta grein eftir hana í safnriti sem ég kynnti fyrir henni sem safnrit í tilefni af afmæli Feministafélagsins en gæfi svo ritið út undir heitinu „Fánaberar fávísinnar.“

Það sem höfundaréttur er ekki 

Höfundarétti er ekki ætlað að hindra aðgengi almennings að upplýsingum enda skerðir birting ekki höfundarétt. Kennari sem setur fyrirlestra sína á netið heldur að sjálfsögðu sínum höfundarétti. Höfundaréttarlög hindra háskóla þannig alls ekki í því að gera allt námsefni sem framleitt er við skólann aðgengilegt. Einkaréttur höfundar á heldur ekki við um gerð eintaka sem hafa enga fjárhagslega þýðingu og því er það ekki brot gegn höfundarétti að afrita eintak af fyrirlestri eða önnur slík gögn til einkanota.

Höfundaréttur ógildir ekki upplýsingalög. Samkvæmt upplýsingalögum á einstaklingur rétt á því að fá aðgang að skjölum sem varða hann sjálfan. Hugsanlegur höfundaréttur að þeim skjölum breytir engu þar um. Þessi lög eiga við rafræn skjöl sem ekki eru birt opinberlega en því fremur á maður rétt á að fá upplýsingar um það sem sagt hefur verið um hann opinberlega á vegum ríkisstofnunar. Það telst opinber birting ef verk er flutt í útvarpi eða á annan hátt dreift til almennings.  Það er einnig opinber birting ef verk er flutt eða sýnt á atvinnustöðvum, þar sem 10 manns eða fleiri vinna. Andi laganna býður því engan veginn upp á þá túlkun að hugsanlegur höfundaréttur kennara eða nemanda að glærum eða öðrum kennslugögnum sem hafa verið birt á innra neti háskólans og flutt í fyrirlestraformi fyrir fjölda manns, ógildi rétt almennings til að fá aðgang að þessum verkum, hvað þá að þau ógildi rétt einstaklings til þess að sjá hvernig um hann er fjallað innan ríkisstofnunar.

Hvenær eru glærur höfundarverk? 

En það er önnur hlið á þessu glærumáli sem er ekki síður áhugaverð og það er spurningin um það hvenær gögn teljist höfundarverk.

Setjum sem svo að ég flytji fyrirlestur við Háskóla Íslands um hugmyndafræði og vinnubrögð kynjafræðinga, undir heitinu Fánaberar fávísinnar. Væri inngangsglæra sem liti svona út varin af höfundaréttarlögum?

Gerum ráð fyrir glæru þar sem ég nota mynd sem ég fann á netinu, af Þorgerði Einarsdóttur, og tengi hana skoðun sem Þorgerði var eignuð, á tjásukerfi Forréttindafeministans. Ég á ekki höfundarétt að myndinni. Málsgreinin er ekki mitt hugverk. Er glæran þá mitt hugverk?

Reiknum með að á þriðju glærunni væri bein tilvitnun í Þorgerði Einarsdóttur. Ætti ég höfundarétt að þessari tilvitnun eða fælist höfundarverk mitt í því að slá hana inn í glæruforrit?

Á fjórðu glærunni notaði ég orð Gyðu Margrétar Pétursdóttur til að sýna fram á ranghugmyndir hennar um þá mynd sem samfélagið hefur af drengjum. Væri ástæða til að verja þessa útkomu með höfundarétti?

Ímyndum okkur að á fimmtu glærunni tengdi ég saman kynjafræði og karlhatur með því að skeyta mynd sem kynjafræðin á enga aðild að, við tvö kvennapólitísk slagorð, en annað þeirra er einnig titill á ritgerð Þorgerðar Einarsdóttur. Hvaða höfundarétt hef ég? Á ég höfundarétt að slagorðunum, titlinum á ritgerð Þorgerðar eða jólakortinu af Askasleiki? Eða fellur „hugverkið“ í þessari samsetningu undir höfundalög?

Fúsk í skjóli leyndarhyggju

Á glærum þeim sem mér er synjað um aðgang að koma fram fullyrðingar og tengingar sem ég er síður en svo sátt við. Það sem vakir fyrir mér er þó ekki að skerða „akademískt frelsi“ neins til þess að bera rangfærslur og rangtúlkanir á borð fyrir stúdenta, heldur vil ég fá að svara fyrir mig og til þess er lágmark að skólinn veiti mér aðgang að gögnunum.

Rétt er að komi fram að ég álít Þorgerði Einarsdóttur og Gyðu Margréti Pétursdóttur vissulega fánabera fávísinnar. Allt sem ég hef séð frá þeim er í skársta falli vafasamt en oftar þó óstjórnleg þvæla. Hvort væri viðeigandi að kynna háskólastúdentum það álit mitt með glærum af þessu tagi er svo allt annað mál og það væri ekki í anda gagnsæis og fagmennsku að neita þeim Þorgerði og Gyðu Margréti um aðgang að slíkum kennslugögnum. Slík vinnubrögð yrðu að flokkast sem fúsk í skjóli leyndarhyggju og það gengi allavega ekki upp að synja þeim um aðgang á grundvelli höfundaréttar.

Að síðustu er rétt að ítreka að þessi skrif mín um höfundarétt eru viðbrögð við ummælum lesenda minna. Hvorki Gyða Margrét né neinn annar á vegum kynjafræðideildar HÍ hefur synjað mér um aðgang að gögnum á grundvelli höfundalaga. Mér sýnist helst að í þeim fílabeinsturni fúsks og fávísi tíðkist ekki að rökstyðja eitt eða neitt.

————————–

Nokkrir pistlar um höfundarétt

Nei, Facebook getur ekki selt eða gefið myndirnar þínar
Stal amma hönnun Baldrúnar og Rebekku?
Borðar Siv SS pylsur?
Að tengja á heimildir
Hver á að greiða listamönnum laun?

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Lög og réttur
Efnisorð: , , , ,

Mánudagur 10.12.2012 - 16:03 - FB ummæli ()

Vill einhver leka í mig leyniskjölum úr kynjafræðinni?

Ég stend í þeim undarlegu sporum að vera synjað um aðgang að námsefni þar sem vitnað er í skrif mín. Þessi staða varð mér tilefni hugrenninga um hlutverk háskóla og eignarhald á þekkingu.

Hlutverk háskóla

Hlutverk háskóla er tvíþætt; að afla þekkingar og dreifa henni. Hugmyndin með rekstri háskóla er sú að þekking sé áhugaverð sem slík en einnig lykill að meiri lífsgæðum. Þekkingar er aflað með rannsóknum. Henni er komið áleiðis með birtingu rannsókna í vísindatímaritum, með málþingum og með háskólakennslu og útgáfu námsefnis.

Vísindasamfélagið nýtur að vonum virðingar en vert er þó að hafa hugfast að meirihluti rannsókna leiðir ekkert nýtt í ljós og skilar engum hagsbótum. Við rekum háskóla vegna þess að oft þarf langa leit til að finna það sem skiptir máli og það er talið nógu mikilvægt til þess að fórnarkostnaðurinn sé ásættanlegur. Við hættum t.d. ekkert að leita að lækningu við krabbameini þótt miklir fjármunir fari í rannsóknir sem ekki skila gagnlegum niðurstöðum.

Hverjir eiga þekkinguna?

Það er almenningur sem ber kostnaðinn af starfi háskóla. Án fólks sem greiðir skatta og vinnur láglaunastörf væri ekki hægt að halda háskólum uppi. Þar með á almenningur líka rétt á því að njóta afrakstursins.  Það er því óþolandi að leikmenn skuli ekki hafa óhindraðan aðgang að þeim rannsóknum sem birtar eru í vísindatímaritum. Íslenskur almenningur er svo vel settur að  hafa landsaðgang að rafrænum vísindatímaritum og fleiri gögnum en þegar leikmaður utan háskólasamfélagsins, í t.d. Bretlandi, vill kynna sér rannsókn, getur hann aðeins séð stutt yfirlit yfir helstu niðurstöður. Ef hann vill sjá t.d. hvernig úrtak var valið og hvernig spurningar voru orðaðar, þarf hann að borga mörg þúsund krónur fyrir hverja einustu grein.

Áskriftir að ritrýndum vísindatímaritum eru fokdýrar. Íslenska ríkið borgar t.d um 200 milljónir á ári fyrir landsaðganginn. Utan Íslands er það aðallega háskólafólk sem hefur aðgang að þessum gögnum. Fólkið sem rekur háskólana, borgar laun vísindamanna, kostar útgáfu tímaritanna og borgar aðgang háskólanna að þeim, hefur víðast hvar engin tök á að fylgjast með því hvað er eiginlega verið að bardúsa í þessu blessaða vísindasamfélagi. Það er svo ennþá ömurlegra að þessi mikli kostnaður skýrist aðallega af einkahagsmunum útgefendanna. Höfundar greinanna fá ekki aukagreiðslur fyrir birtingu enda eru þeir á prýðisgóðum launum (hjá almenningi) við rannsóknarstörf og eiga ekkert að fá meira. Einhver kostnaður fer í prentun en á tímum internetsins er óþarfi að gefa út pappírstímarit. Aðalástæðan fyrir verðinu er eignarhald útgáfufyrirtækja á þekkingu sem almenningur á með réttu.

Hver á kennslugögnin?

Það er svo ennþá fáránlegra þegar lítill skóli eins og Háskóli Íslands, takmarkar aðgang almennings að námsefni. Um daginn frétti ég að skrif mín um feminisma væru tekin til umræðu við kynjafræðina í HÍ og að textadæmi væru á glærum sem birtar eru á Uglunni.  Auðvitað langar mig að vita hvernig mín skrif eru kynnt en þessar glærur eru ekki aðgengilegar almenningi og ekki einu sinni öllum nemendum skólans. Ég sendi því hlutaðeigandi kennara, Gyðu Margréti Pétursdóttur, tölvupóst og bað um afrit af glærunum. Jafnframt bauðst ég til að mæta og kynna gagnrýni mína á feminsma og einnig að svara spurningum skriflega. Svarið sem ég fékk var að þar sem nemandi hefði unnið glærurnar gæti ég ekki fengið aðgang að þeim. Boði  mínu um að kynna mitt mál og sitja fyrir svörum var hafnað.

Það verður að teljast athyglisverð afstaða að kennslugögn í háskóla séu trúnaðarmál. Sem betur fer hegða ekki allir háskólar sér á þennan hátt. MIT, sem er einkarekinn háskóli, hefur t.d. í mörg ár birt námsefni sem framleitt er við skólann á þessum opna vef. Mér er alveg sama hver vann glærurnar, það hlýtur að vera sanngjörn krafa að gögn sem eru notuð til kennslu við ríkisrekinn skóla séu vinnuveitanda meintra vísindamanna (þ.e. almenningi) aðgengileg. Þessi leyndarhyggja þekkist í fleiri greinum en kynjafræði. Í tengslum við Vantrúarmálið heyrðist sú skoðun að Vantrúarfólk hefði ekki haft rétt til að skoða glærur Bjarna Randvers, þar sem þær hefðu verið vistaðar á „lokuðu svæði innan HÍ“ og í skýrslu siðanefndar kemur fram að nefndin hafi fengið aðgang að vefsvæðinu „með leyfi Bjarna Randvers“ rétt eins og þau gögn sem vistuð eru á vefsvæðinu séu hans persónulega eign. Háskóladeildir virðast þannig litnar svipuðum augum og Frímúrarareglur og kennslugögn þeirra skoðaðar sem leyniskjöl.

Af hverju skiptir þetta máli?

Við þurfum að breyta þeim hugsunarhætti að þeir sem standa utan háskólasamfélagsins eigi að sætta sig við að aðrir skammti þeim þekkinguna úr hnefa. Sú stefna er afleit vegna þess að einsleitur lesendahópur skapar og viðheldur kennivaldi innan vísindanna og ef vísindasamfélagið lýtur ekki aðhaldi og eftirliti getur það snúist gegn akademísku frelsi. Auk þess er það réttlætismál gagnvart þeim sem bera kostnaðinn af þekkingaröflun að þeir hafi óheftan aðgang að upplýsingum.

Þetta skiptir líka máli vegna þess að kostnaðurinn er svo gífurlegur að hann stofnar jafnvel aðgangi háskólafólks að þekkingu í voða. Ástæðan fyrir því að allir Íslendingar hafa aðgang að landsnetinu er sú að í svo litlu samfélagi myndi lítið sparast ef aðeins háskólasamfélagið hefði aðgang. Það þarf ekki mikið út af að bera til þess að kostnaðurinn verði óviðráðanlegur.  Íslendingar eru ekkert þeir einu sem eiga það á hættu að ráða ekki við að kaupa áskriftir að tímaritum því jafnvel forríkir háskólar á borð við Harvard eru farnir að kvarta undan þessari fjárkúgun.

Vísindasamfélagið ræðir nú leiðir til að rísa gegn fjárkúgun útgefandanna.  Ömurlegt er til þess að vita að á sama tíma stundar Háskóli Íslands einhverja smásálarlegustu þekkingareinokun sem fyrirfinnst í vestrænum háskólum; að neita almenningi um aðgang að kennslugögnum. Svo langt gengur þessi afdalamennska að mér persónulega er synjað um aðgang að efni þar sem fjallað er um mín eigin skrif. Finnst ykkur þetta í lagi?

Akademían á ekki að vera leyniregla heldur gegnir hún þjónustuhlutverki og ætti því að standa húsbónda sínum skil gerða sinna. Sá húsbóndi er ekki útgáfufyrirtæki eða nemendur í tiltekinni háskóladeild, heldur almenningur sem borgar brúsann. Ég leita því til almennings, í von um að einhver lesandi sem hefur aðgang að vefsvæði kynjafræðinnar á Uglunni, sé tilbúinn til að leka í mig þessum „leyniskjölum“.

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Lög og réttur
Efnisorð: , ,

Sunnudagur 9.12.2012 - 19:20 - FB ummæli ()

Grýla gamla og feðraveldið

 

Ef þjóðtrúin segir okkur eitthvað um samfélagið sem hún er sprottin úr þá segja breytingarnar á henni væntanlega eitthvað líka. Það er ekki lengur viðurkennd uppeldisaðferð að hræða börn til hlýðni með því að siga á þau óvættum og með breyttum viðhorfum breyttust jólaskrímslin. Það er áhugavert að skoða ímyndir óvætta eins og Grýlu og jólasveinanna fyrr og nú.

Grýla fyrri alda var sólgin í smábörn en lagðist aðallega á búpening og vinnumenn, sem oft voru unglingar eða jafnvel á barnsaldri. Á 17. öld lýsir Stefán í Vallanesi henni sem marghöfða skrímsli í  Grýlukvæði sínu. Lýsingin á Grýlu er óhugnanleg.

 

 

 

Í kvæði Stefáns í Vallanesi er einnig talað um Grýlu sem móður jólasveinanna og konu Leppalúða en Þrjú á palli flytja aðeins hluta þulunnar. Í kvæði Jóhannesar úr Kötlum er Grýla tröllkerling í mannsmynd. Hún er sögð hafa étið börn en Jóhannes tekur af allan vafa um að hún sé dauð. Allt kvæðið er í þátíð en í lokin ábending um að hjúin gætu hugsanlega lifnað við en það sé undir börnunum komið. Í grýlukvæði Ómars Ragnarssonar er Grýla svo orðin kómísk. Hún er ófrýnilegt kerlingarhró sem hrærir skyr í steypuhrærivél en lyst hennar á óþægum börnum er ekki einu sinni nefnd.

Jólasveinarnir voru áðurfyrr þrjótar sem rændu matnum og léku sér að því að hrella saklaust fólk. Þeir voru sveinar, ekki karlar heldur ungmenni, en unglingsstrákar hafa jafnan þótt öðru fólki líklegri til margvíslegra óknytta. Jólameyjar þekkjast ekki og þótt fáeinar tröllatelpur séu nefndar í kvæðinu Grýla kallar á börnin sín, er ekkert meira um þær vitað en örfá nöfn.  Í dag eru jólasveinar undir sterkum áhrifum hins ameríska jólakarls, þeir gefa í stað þess að stela og skrípalátum þeirra er ætlað að skemmta börnum en ekki hræða þau. Eitt hefur þó ekki breyst þótt þeir séu nú ekki lengur unglingar heldur karlar á óræðum aldri og það er samband þeirra við móður sína. Hún hýðir þá ennþá og skammar og algengt er að jólasveinar sem mæta á jólaskemmtanir barna segi frá því hvað hún sé ströng og þeir sjálfir lafhræddir við hana þótt hún sé reyndar löngu hætt að éta börn.

Og Leppalúði, hann var frekar viðhengi við Grýlu en sjálfstætt tröll. Ljótur karl og ógnvekjandi en fyrst og fremst óttalegur leppalúði. Hann át vissulega börn í gamla daga en Grýla virðist hafa verið fyrirvinnan á þeirra heimili. Í Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum veslast Leppalúði upp þegar Grýla deyr, ekki er að sjá að hann hafi gert minnstu tilraun til að bjarga sér. Í dag er hann bara vesalingur. Í Leppalúðasöng Brunaliðsins frá 1978 er Grýla dauð og Leppalúði gjörsamlega ósjálfbjarga. Baggalútur dregur jafnvel upp ennþá aumingjalegri mynd af honum í þeim jólalega söng: Veslings litli Leppalúði. Þegar Grýla er á förum skammar hún hann og niðurlægir. Karlgreyið dúsir svo einn í hellinum á jólanótt, þjáður af aðskilnaðarkvíða og hræddur við jólaköttinn.

Hvað segja þessar þjóðsagnapersónur um menningu okkar og hugarheim? Skiptir það máli að hræðilegasta barnafæla allra tíma var kvengerð og henni ætlað  móðurvald yfir öðrum óvættum? Skiptir það máli að virkustu ófétin voru ungir, einhleypir karlar og að engum sögum fer af systrum þeirra? Skiptir það máli að Leppalúði var aukapersóna og er jafnvel ennþá vesælli í samanburði við konu sína nú en áður fyrr? Og hvar eru hin karllægu yfirráð og hin undirskipaða, hlutgerða kona í þessari fjölskyldu? Hvar er feðraveldið? Ég bara spyr?

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Menning og listir
Efnisorð:

Föstudagur 7.12.2012 - 23:58 - FB ummæli ()

Gestapistill um lögleiðingu vímuefna

Here is the English version of this article, written by Thorkell Ottarsson.

Þetta er gestapistill eftir Þorkel Ágúst Óttarsson. Þorkell hefur starfað í gistiskýli fyrir útigangsfólk í Drammen í Noregi í sex ár. Það áður vann hann í eitt ár á heimili fyrir geðfatlaða þar sem flestir voru í neyslu.

—————

Hvers vegna ég vil lögleiða vímuefni þótt mér sé illa við þau

 

Áður en ég fór að vinna við að sinna fólki sem á við vímuefnavandamál að stríða var ég alfarið á móti því að lögleiða fleiri vímugjafa. Viðhorf mitt breyttist hinsvegar gjörsamlega þegar ég fór að horfa á vandann út frá sjónarhóli skjólstæðinga minna. Ekki það að ég hafi orðið frjálslyndur af því að vinna við að hjálpa fíklum. Þvert á móti. Ég tel fíkniefni vera mjög skaðleg og vildi óska þess að þau væru ekki til (nema þá sem læknislyf). En þau eru á götum úti og verða það um aldur og ævi. Með því að láta sem við getum sigrað þetta stríð gegn dópi völdum við bara enn meiri hörmungum og aukum á vandann.

 

Ég vil lögleiða dóp af eftirfarandi ástæðum:

1) Bann við sölu vímugjafa fjármagnar glæpi. Það gerði það á bannárunum í Bandaríkjunum (gerði Al Capone og aðra glæpamenn vellauðuga) og það gerir það einnig í dag. Sala dóps fjármagnar glæpagengi. Lítið bara á Mexíkó. Stríðið gegn dópi þar hefur kostað fleiri líf en þann fjölda Bandaríkjamanna sem féllu í Víetnamstríðinu.

2) Það að fangelsa fólk fyrir að hafa fíkniefni undir höndum eyðileggur fjölskyldur og líf neytendanna. Það kostar samfélagið heilmikið og hjálpar engum.

3) Það veldur meiri heilsuskaða að banna dóp. Þegar fólk kaupir dóp ólöglega veit það ekki hverju er búið að blanda saman við það. Einföld Google leit að „Crocodile drug“ ætti að gefa smá hugmynd um þann skaða sem óhrein efni valda. Það er ekki óalgengt að dópsalar blandi rottueitri og öðrum stórhættulegum efnum í dóp svo neytandinn haldi að það sé hreinna en það raunverulega er. Þessi efni éta fólk upp að innan og geta leitt til dauða innan 3ja ára. Aðrir hljóta varanlegan líkamlegan skaða. Við bönnum heimabruggað áfengi vegna þess að kaupandinn veit ekki hvað er í því og getur dáið eða blindast af drykkju þess. Hvers vegna ættum við að líta öðruvísi á þau vímuefni sem nú eru ólögleg? Væri ekki betra ef fólk væri öruggt um að dópið sem það keypti væri hreint í stað þess að eiga á hættu að kaupa eitthvað sem getur valdið enn meiri skaða og jafnvel dauða?

4) Það að banna dóp gefur glæpagengjum vald yfir neytendum. Það leiðir annars vegar til þess að þeir neyðast til að stela til að greiða skuldir sínar og hinsvegar til þess að þeir verða fyrir grófu ofbeldi. Neyandinn verður fyrir hópnauðgun (hver nauðgari greiðir fyrir og þannig er skuld dópistans greidd upp) eða hann er barinn til óbóta svo hann skilji að hann hefur ekkert val. Þetta bætir á andlega vanlíðan sjúklingsins en staðreyndin er sú að mjög margir fíklar eiga þegar við andleg vandamál að stríða (sem oft var ástæðan fyrir því að leir leiddust út í neyslu). Það er því verið að auka vanlíðan hjá fólki sem hafði það nógu skítt fyrir.

Það að lögleiða dóp myndi spara fjármagn og skapa inntekt sem hægt væri að nota til að reka áróðursstarfsemi gegn vínuefnanotkun og til að fjármagna meðferð fyrir fíkla. Það myndi einnig
gera lögreglunni kleyft að beina sjónum sínum að alvarlegri glæpum.

 

Neikvæða hliðin

Það er ein neikvæð hlið á því að lögleiða dóp. Það myndi lækka aðgengisþröskuldinn. Flestir vita ekki hvar þeir geta keypt dóp og þora ekki að gera það vegna þess að það er ólöglegt. Ef dóp væri selt í ákveðnum ríkisreknum búðum er hætta á því að fleirii yrðu viljugir til að prufa það. Það er einmitt þess vegna sem það er svo mikilvægt að upplýsa fólk um hættur dópneyslu. Sígarettur eru löglegar en samt reykja alltaf færri og færri. Og við sjáum að það dregur úr tóbaksneyslu þegar peningum er veitt í áróðursherferðir. Um leið og þeim er hætt eykst oft neyslan á ný. Það er því mikilvægt að minna fólk stöðugt á hættur þess að nota vímugjafa.

 

Stríðið hefur ekki skilað neinum árangri

Nú segja kannski sumir að fólk myndi hvort sem er halda áfram að kaupa dóp út á götu, jafnvel þótt það væri fáanlegt í ríkisreknum búðum. Ég er ekki svo viss um það. Það er dýrt að smygla dópi og því fylgir mikil hætta. Og jafnvel þótt dóp væri enn selt á götum úti þá er ég nokkuð viss um að dópistinn velji frekar hreint dóp frá ríkinu en óhreint dóp á götunni.

Já, lögleiðing fíkniefna veldur skaða en það er einnig skaðlegt að banna þau. Það er ekki eins og við höfum góða og slæma kosti. Báðir eru slæmir. Það er fyrir löngu kominn tími á að við lítum vímuefnaneyslu raunsæjum augum í stað þess að eltast við hugmyndafræði sem eykur bara á vandann.

Flokkar: Allt efni · Gestapistlar · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Lög og réttur
Efnisorð: , , , ,

Fimmtudagur 6.12.2012 - 23:43 - FB ummæli ()

Trúboð í skólum er ekkert skaðlegt

Hvernig getur það skaðað börn þótt prestar heimsæki skólann, tali um kærleika og miskunnsemi og kenni börnunum að spenna greipar? Hafa þau eitthvað illt af því að læra að syngja Jesús er besti vinur barnanna? Ef þetta flokkast sem trúboð, hvernig stendur þá á því að mörg þessara barna verða samt trúleysingjar?

Svarið er: Börn hafa ekkert illt af því að fá prest í heimsókn eða fara í kirkju og ef þau eiga meðvitaða foreldra og alast upp í gagnrýnu samfélagi að öðru leyti, þá eru litlar líkur á að samstarf kirkju og skóla hafi þau áhrif að börnin vaxi upp sem trúarnöttarar.

Nú? Og er þá ekki allt í lagi að halda trúboðinu áfram?
Nei, það er ekki í lagi.

Börn hafa ekkert illt af því að heyra fallegar sögur af Jesússi og læra umbuðarlyndi og kærleika. Þau hefðu heldur ekkert illt af því að heyra skoðanir Vantrúarmanna á Jesússi eða heyra boðskap anarkista um yfirvaldslaust samfélag. Sennilega hefðu þau gott af því.

Þar með hlýtur að vera alveg sjálfsagt að Vantrúarmenn gangi í skólana og útskýri fyrir börnunum hvernig heimurinn yrði betri og kærleiksríkari ef fólk hætti mylja undir stofnanir sem berjast gegn mannréttindum minnihlutahópa. Þeir gætu líka gefið þeim bók Richard’s Dawkins The GOD Delusion og ef eitthvert þeirra myndi nenna að lesa hana þá yrði það allavega til þess að viðkomandi pottormur bætti við orðaforða sinn í ensku. Allavega myndi það ekki skaða neinn.

Þar með væri líka bara gott mál að anarkistakórinn heimsæki alla leikskóla á landinu nú fyrir jólin, kenndi börnunum slagorð á borð við yfirvald er ofbeldi! og syngi með þeim kók er kúkur kapítalsins og fleiri pólitíska jólasöngva. Börnin hefðu bara gaman af því og ekki trúi ég að nokkrum foreldrum þætti verra ef börnin færu að líta kókdrykkju gagnrýnum augum.

Nú viljið þið ekki fá okkur í skólana? Í alvöru? Haldið þið að börnin ykkar verði þá anarkistar? Eða að þau hætti í skóla til að útbreiða boðskap Vantrúarmanna?

Nei ég hélt ekki. Það eru allt aðrar ástæður fyrir því að þið viljið ekki hleypa stjórnmálaöflum og grasrótarhreyfingum inn í skólana. Af sömu ástæðum kærum við hin okkur ekki um að kirkjan komi að skólastarfi. Ekki heldur fyrir jólin.

Nú skilst mér að mörgum finnist hið erfiðasta mál að greina á milli fræða og trúboðs. Er það t.d. trúboð ef skólakórinn syngur jólasálm á litlu jólunum?

Í flestum tilvikum er einfalt að meta þetta, með því að setja pólitík í stað trúar. Ef skólinn ætlaði að halda hátíðadagskrá þann 1. maí, hvernig yrði staðið að því? Væri hann að boða kommúnisma ef skólakórinn syngi Maístjörnuna? Varla held ég að margir tækju undir það. Hinsvegar er ég nokkuð viss um að ef Steingrímur J. Sigfússon yrði fenginn til að heimsækja skólana og útskýra valda kafla úr Rauða kverinu, yrði mörgum heitt í hamsi.

Það er ekkert svo erfitt að greina á milli fræðslu og trúboðs. Þarf bara að hugsa pínulítið. Og halda í heiðri meginregluna; ef þú ert ekki viss um að þú megir það, láttu það þá bara eiga sig. Það er allavega ágæt leið til að forðast vesen.

 

Þennan pistil skrifaði ég reyndar fyrir tveimur árum en hann á alveg jafn vel við núna. Um það sannfærðist ég þegar ég sá umræðuhalann við þessa umfjöllun DV.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 6.12.2012 - 10:32 - FB ummæli ()

Hengjum rasistann!

Töluverðar umræður hafa skapast á netinu um myndband sem sýnir fullorðinn mann veitast að fyrstu kynslóðar Íslendingum með svívirðingum og ógnandi framkomu. Að vonum þykir mörgum framkoma mannsins fyrir neðan allar hellur og ég skal svo sannarlega taka undir það. Mér finnst hinsvegar ömurlegt að sjá nokkra umræðuþræði á fb þar sem fullorðið fólk eys úr sér slíkum skít yfir manninn að framkoma hans við krakkana verður sem englasöngur í samanburði. Einnig hef ég séð umræður um að svona fólk eigi bara að dæma í tveggja ára  fangelsi. Mér finnst rétt að maður sem sýnir ógnandi framkomu fái tiltal en ég sé ekki hvernig sú ráðstöfun að fangelsa vitleysinga ætti að vinna gegn kynþáttahyggju. Dómstólar kæmust ekki yfir að rétta yfir öllum sem sýna dónaskap sem gæti varðað við lög og ég vildi gjarnan sjá umræðu um farsælli leiðir til að takast á við hatur í garð minnihlutahópa.

Umræðan endurspeglar auk þess undarlega tilhneigingu til þess að reyna að afgreiða samfélagsleg vandamál með því að finna sökudólg. Þarna er rasistinn, kvenhatarinn, hrunvaldurinn, barnamorðinginn, dýraníðingurinn o.s.frv. lifandi fundinn. Bendum á hann, níðum hann, jörðum hann! Ég hef aldrei séð þessa aðferð leiða neitt gott af sér en hinsvegar margt illt. Á dögunum var tamningakona t.d. tekin af lífi í fjölmiðlum vegna grimmúðlegrar meðferðar á hrossi. Svo kom í ljós að átt hafði verið við myndbandið.  Þá var hún þegar búin að missa vinnuna og mannorð hennar stórskaddað. Finnst ykkur þetta í lagi?

Jafnvel þótt þessi bjánakeppur sem angraði krakkana yrði hálshöggvinn á Austurvelli og höfuðið sett á stjaka, myndi það ekki uppræta kynþáttahyggju á Íslandi. Við skulum athuga að hættulegasti rasisminn er ekki sá sem ælir hatri sínu yfir unglinga eða neitar að sitja með svörtum manni til borðs. Hættulegasti rasisminn er sá sem alla tíð og enn í dag er praktiseraður í stjórnkerfinu sjálfu, hjá útlendingastofnun hjá Nató og birtist m.a. í þeirri staðreynd að lögreglan í Bandaríkjunum er þrisvar sinnum líklegri til að skjóta svartan, óvopnaðan mann en hvítan. Kynþáttahyggja er í hnotskurn sú hugmynd að „við“ séum betri og merkilegri en „þetta fólk“. Að þægindi „okkar fólks“ séu mikilvægari en réttur „hinna“ til að lifa við frelsi, öryggi og mannlega reisn. Það er sú hugmynd sem er undirrót aðskilnaðarstefnu og hinar kurteislegustu birtingarmyndir kynþáttahyggju eru langt frá því að vera skaðlausar.

Það fólk sem vill nota réttarkerfið sem farveg fyrir öll hugsanleg vandamál í samskiptum og hugarfari ætti kannski að hlusta á viðtalið við stúlkuna sem tók myndskeiðið. Þarna talar ung stúlka af skynsemi og hófstillingu. Hún tekur fram að hún leggi ekki mikla merkingu í orð mannsins þar sem hann hafi verið í annarlegu ástandi. Markmið hennar er aðeins að sýna þá framkomu sem innflytjendur og fyrstu kynslóðar Íslendingar mæta allt of oft og biðja fólk að taka fordóma sína til endurskoðunar. Þeir refsiglöðu gætu lært nokkuð af þessari stúlku ekki síður en þeir sem telja sig öðru fólki merkilegri sakir uppruna síns.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics