Miðvikudagur 14.11.2012 - 01:36 - FB ummæli ()

Hvað hafið þið á móti eigindlegum rannsóknum?

Í félagsvísindum eru til tveir flokkar rannsókna, megindlegar rannsóknir og eigindlegar. Í umræðu um aðferðafræði kynjafræðinga ber á því viðhorfi að eigindlegar rannsóknaraðferðir komi í staðinn fyrir eða séu jafnvel betri en megindlegar rannsóknir og því sé fráleitt að tala um að kynjafræðirannsóknir standist ekki vísindalegar kröfur. Spurt er hvað þeir sem gagnrýna kynjafræðina hafi á móti eigindlegum rannsóknum. Mitt svar er þetta; ég veit ekki um neinn sem er á móti eigindlegum rannsóknum. Það er hinsvegar eitthvað mikið að því að nota eigindlega rannsókn eins og hún væri megindleg. Þetta tvennt er nefnilega ólíkt. Eigindleg rannsókn segir aðeins til um viðhorf og/eða reynslu þeirra sem tóku þátt og það er í mörgum tilfellum hrein og klár fölsun að draga almennar niðurstöður af eigindlegri rannsókn.

Hver er munurinn á þessum rannsóknaraðferðum?

Megindleg rannsókn leitar svara við hinu almenna. Valið er úrtak sem endurspeglar eins vel og hægt er það þýði sem á að heimfæra niðurstöðurnar á. Sömu spurningar eru lagðar fyrir alla þáttakendur og gengið þannig frá að svarmöguleikar séu takmarkaðir svo hægt sé að flokka svörin saman t.d. oft, stundum, sjaldan, aldrei.

Eigindleg rannsókn, ef hún er rétt unnin, þjónar allt öðrum tilgangi, nefnilega þeim að draga fram persónulega reynslu fremur en hið almenna. Slíkar rannsóknir byggja á viðtölum sem gefa dýpri sýn á viðhorf og reynslu og rannsakandanum gefst færi á að spyrja nánar út í reynslu þátttakenda um leið og spurningar vakna. Eigindlegar rannsóknir eru oft áhugaverðar því þær geta dregið fram sjónarhorn sem ekki koma fram í megindlegum rannsóknum og vakið spurningar sem er þá jafnvel hægt að leita svara við með megindlegum rannsóknum. Eigindlegar rannsóknir gefa hinsvegar ekki tölfræðilegar upplýsingar sem heimfæra má á allt þýðið.

Tvö dæmi um eigindlegar rannsóknir

Ég hef nefnt þessa rannsókn Thomasar Brörsen Smith sem dæmi um ævintýralegt fúsk. Tekin voru viðtöl við fimm handvalda einstaklinga og þeir lýstu reynslu af framkomu sem má flokka sem ósæmilegt áreiti. Í apríl sl spunnust umræður um þessa rannsókn og eigindlegar rannsóknir út frá þessum pistli Einars Steingrímssonar. Einn lesenda benti á úttekt The Guardian og London School of Economics á uppþotunum í Englandi í ágúst 2011, úttekt sem byggðist á eigindlegri rannsókn, og velti upp spurningu um hversu stórt úrtak þyrfti að vera til að draga mætti almennar ályktanir af rannsókn.

Ég tel að umrædd rannsókn sé dæmi um það hvernig eigindlegar rannsóknir koma að gagni. Markmiðið með henni var alls ekki að finna hlutfall þeirra sem tóku þátt í uppþotunum eða að sýna fram á almenna andúð Englendinga á lögreglunni heldur að skoða þá afstöðu og reynslu sem var undirrót þessara óeirða. Reyndar var aðferðunum beitt samhliða því þátttakendur fengu einnig spurningalista með stöðluðum svörum. Þátttakendur voru 300 eða 2% þeirra sem tóku beinan þátt í uppreisninni. Ég hef ekki þekkingu til að meta það hversu stórt úrtak er viðunandi þótt ég leyfi mér að fullyrða að fimm manneskjur af 7.000 starfsmönnum Reykjavíkurborgar gefi ekki einu sinni vísbendingu um almenna reynslu. Ég tel þó annan mikilvægan mun á þessum tveimur rannsóknum og svaraði því þessari ágætu spurningu þannig:

Ólíkar forsendur

Munurinn á þessari klámvæðingarrannsókn og uppþotarannsókninni er sá að það er ekkert umdeilt að uppþot og gripdeildir áttu sér stað í London sumarið 2011. Það er hinsvegar skoðun fárra en ekki óumdeild staðreynd að vinnustaðir Reykjavíkurborgar séu „gegnsýrðir af klámi“.

Til þess að komast að því hvort vinnustaðir Reykjavíkurborgar séu gegnsýrðir af klámi, þyrfti að leggja spurningakönnun fyrir stórt úrtak sem er þannig samsett að það endurspegli þýðið sem best. Þannig ætti t.d. hlutfall kynja og aldurshópa sem taka þátt í rannsókninni að vera í samræmi við hlutföll innan heildarhópsins. Ef niðurstaðan yrði t.d. sú að 35% kvenna undir þrítugu segðust verða fyrir óþægindum í vinnunni vegna kláms en aðeins 0,2% karla yfir fimmtugu, þá væri mjög áhugavert að taka viðtöl til þess að varpa ljósi á það hvernig klámið kemur fram og hversvegna það angrar ungar konur meira en gamla karlmenn.

Svör 300 Breta um upplifun sína af atburðum sem koma heim og saman við raunveruleika okkar flestra, segja okkur eitthvað um þau viðhorf sem voru undirrót og afleiðing raunverulegra atburða. Flestir myndu þó telja að svör 300 Breta um upplifun sína af geimverum segðu meira um Breta sem trúa á geimverur en um geimverur. Á sama hátt segir klámrannsóknin meira um fólk sem er upptekið af klámi en klám á vinnustöðum borgarinnar. Það er út af fyrir sig áhugavert en bæklingurinn ætti þá að vera kynntur sem rannsókn á fólki sem er með klám á heilanum, en ekki sem rannsókn á klámi á vinnustöðum.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 13.11.2012 - 13:06 - FB ummæli ()

Anna Bentína og gervivísindin

Kynjafræðingur skrifar Smugugrein og hafnar því að kynjafræðin séu gervivísindi. Við skulum skoða rökin:

Kynjafræðin skýlir sér aldrei á bak við yfirvarp „hlutleysis“, hún setur einmitt spurningarmerki við hlutleysi og segir það vart vera til. Kynjafræðin hafnar að hægt sé að framleiða „hlutlausa“ og „réttmæta“ þekkingu.

Við erum semsagt að tala um „vísindi“ sem hafna því að hægt sé að komast að réttum niðurstöðum. Markmið vísinda er að skapa raunverulega þekkingu út frá aðferðum sem hægt er að prófa. Tilgáta telst ekki sönnuð nema niðurstaðan sé alltaf sú sama, óháð óskum rannsakandans. Þar með er grein sem gefur skít í hlutleysi EKKI vísindagrein.

 Að setja sig á stall sem hlutlausan rannsakanda og líta á þátttakendur í rannsóknum sem „viðföng“ setur rannsakandann og hennar markmið ofar þátttakendunum.

Á manneskjan við að með því að hafa vísindaleg vinnubrögð í heiðri sé rannsakandinn að „setja sig á stall“? Markmið rannsóknar er ekki að geðjast þátttakendum heldur að finna áreiðanlega þekkingu. Rannsakendur sem vita það ekki ættu að halda sig við mannúðarstarf og hætta að þykjast vera vísindamenn. Þeir eru það nefnilega ekki.

Að nota kynjafræði sem greiningartæki á samfélaginu er ein leið sem hægt er að fara, en hún er ekki eina leiðin. Það gerir hvorki lítið úr aðferð kynjafræðinnar eða gerir hana að gervivísindum.

Hér er ég loksins sammála Önnu Bentínu, þ.e.a.s. um fyrri málsgreinina. Það er hægt að nota kynjafræði sem aðferð til að skoða samfélagið. Rétt eins og hægt er að nota bókmenntamódel til þess að skoða bókmenntir. Munurinn er sá að bókmenntafræðin gefur sig ekki út fyrir að vera raunvísindi en kynjafræðingar tala hinsvegar iðulega eins og hugmyndir þeirra séu jafn óvéfengjanlegar og stærðfræði. Þegar bókmenntafræðingar kynna rannsóknir sínar getur verið um tvennt að ræða. Annarsvegar hefur fræðimaðurinn uppgötvað eitthvað sem fellur undir þekkingu, t.d. getur samanburður á handritum leitt í ljós eitthvað um aldur frásagna og ævisaga höfundar getur skýrt eitthvað í skáldskap hans. Hinsvegar er um að ræða túlkun og bókmenntamódel eru einmitt dæmi um túlkun. Þá erum við að tala um aðferðir eins og t.d. að bera saman Stjörnustríð og Grimmsævintýri til að skoða hvort samskonar týpur koma fyrir og hvort sögurnar fylgja samskonar mynstri. Ég veit ekki dæmi þess að bókmenntafræðingur haldi því fram að hann hafi komist að einhverjum vísindalegum niðurstöðum með því að beita bókmenntamódeli en það sem kynjafræðingar gera er einmitt það, þeir setja túlkun fram sem staðreynd.

Ég viðurkenni samt vissa aðdáun mína á fólki sem treystir sér til að afgreiða hvað sé „skynsamlegt“ og „vísindalegt“.

Hér gefur höfundur til kynna að það sé voðalega flókið að skera úr um það hvað teljist vísindalegt og hvað ekki. Nú er ekkert um það deilt að einstaka rannsókn er sjaldan ef nokkurntíma fullkomin og það að margra ára háskólanám þurfi til þess að tileinka sér vísindaleg vinnubrögð segir okkur auðvitað að vísindi eru flókin og í stöðugri þróun. Það breytir því ekki að grundvallarlögmál vísinda eru einmitt þau sem Anna Bentína og aðrir kynjafærðingar hafna. Til þess að uppfylla vísindalegar kröfur þarf rannsakandinn að ganga út frá því að hann viti ekki svarið. Hann hefur auðvitað ákveðna tilgátu en rannsóknin þarf að vera unnin á þann hátt að hún leiði í ljós hvernig hlutirnir eru en ekki hvernig rannsakandinn telur að þeir séu. Rannsókn sem er gerð í þeim tilgangi að staðfesta hugmyndir rannsakandans, t.d. með því að handvelja þátttakendur sem eru líklegir til að gefa „æskileg“ svör, stenst ekki vísindalegar kröfur. Ég treysti mér ekki alltaf til að segja til það hvort rannsókn er vel unnin en í þeim kynjafræðirannsóknum sem ég hef séð er fúskið augljóst.

Vísindalegur rétttrúnaður hefur haft mikinn hljómgrunn meðal almennings sem kom í stað ofurvald kirkjunnar á tilgangi og tilurð heimsins.

Nú veit ég ekki hvað Anna Bentína á við með „vísindalegum rétttrúnaði“. Sjálf hef ég skilgreint rétttrúnað á þann veg að hollusta við málstaðinn verði heilbrigðri skynsemi yfirsterkari. Eitt af einkennum áreiðanlegra vísindarannsókna er það að þegar þær eru endurteknar sýna þær sömu niðurstöðu. Ef sama niðurstaða kemur fram aftur og aftur, óháð persónulegum skoðunum rannsakandans, getum við sett fram kenningu eða jafnvel sönnun. Það er ekki óskynsamlegt og því ekki um neinn“rétttrúnað“ að ræða. Það mætti hinsvegar kalla það vísindalegan réttrúnað að flagga niðurstöðum hlutdrægrar rannsóknar sem sannleika. Það er ekki vísindahyggjufólk sem gerir það, heldur einmitt áhangendur kynjafræðinnar.

Hugmyndin um gervivísindi styðst ekki við nein hlutlæg gögn og virðist hvíla á huglægu mati um hvað er skynsamlegt/vísindalegt og hvað ekki.

Þetta er bara einfaldlega rangt. Ég hef sennilega skrifað meira en nokkur annar Íslendingur um það fúsk sem einkennir kynjafræðina og hef margsinnis vísað í svokallaðar kynjafræðirannsóknir sem augljóslega standast engar vísindalegar kröfur.   Slíkar rannsóknir eru „hlutlæg gögn“ í þeim skilning að þær gefa mjög nákvæma mynd af vinnubröðgum kynjafræðinga. Ég hef margsinnis auglýst eftir vel unnum feminiskum rannsóknum en enginn hefur ennþá bent á eina einustu sem uppfyllir lágmarksskilyrði þess að teljast vísindaleg.

Þær [þ.e. feminiskar rannsóknir] rýna í líf kyjanna út frá hefðbundnum viðhorfum sem mótuð eru af kynjakerfinu, þar sem þær hafa lært hefðbundinn menningarlegan skilning á aðstæðum kynjanna. Á sama tíma rannsaka þær veröldina undir hinu nýja sjónarhorni femínismans og gagnrýna þennan opinbera og lærða skilning sem við höfum öll fengið í arf.

Hérna viðurkennir kynjafræðingurinn hreint út að „rannsóknir“ feminsta gangi út frá pólitísku sjónarhorni og byggi á hugmyndinni um „kynjakerfið“. Þetta er ósköp svipað því og ef yfirlýstur frjálshyggjumaður tæki að sér að rannsaka áhrif hátekjuskatts á velferð borgaranna. Hann myndi ganga út frá brauðmolakenningunni (þeirri hugmynd að fátæklingar græði á því að hafa ríka yfirstétt.) Hann tæki svo viðtöl við fimm kunningja sína sem allir teldu sig finna fyrir því á einhvern óljósan hátt að fjárhagsstaða almennings væri verri eftir að hátekjuskattar hefðu verið teknir upp. Rannsóknarniðurstaðan yrði sú að hátekjuskattur væri hið mesta böl, eins og allir hefðu nú svosem vitað fyrir þar sem brauðmolakenningin sé augljós sannindi.

Væri slík rannsókn góð aðferð til þess að skoða áhrif hátekjuskatts? Gæfi hún áreiðanlega mynd af orsakasambandi hátekjuskatta og eymdar almúgans? Eða gætum við afskrifað hana sem gervivísindi?

Grein Önnu Bentínu er að því leyti ágæt að hún varpar enn frekara ljósi á áhugaleysi kynjafræðinnar á vönduðum vinnubrögðum og áreiðanlegum niðurstöðum. Það er Háskóla Íslands til háðungar að halda verndarhendi yfir slíku fúski.

————–
Hér eru nokkrir tenglar á greinar sem ég hef skrifað um feminisma, gervirannsóknir og rangfærslur, ég á miklu fleiri pistla en hef ekki tíma til að taka saman alla tenglana í dag

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Mánudagur 12.11.2012 - 20:27 - FB ummæli ()

Dómstjórinn sem kom af fjöllum

Fréttablaðið hefur birt grein okkar Aðalheiðar Ámundadóttur um upplýsingamál og samskipti við Héraðsdóm Reykjaness.  Nú hefur Þorgeir Ingi Njálsson sótt um stöðu Hæstaréttardómara. Við erum að tala um mann sem fyrir nokkrum mánuðum vissi ekki, eða þóttist ekki vita, að almenningur ætti rétt á aðgangi að dómum í opinberum málum. Hér er greinin sem birtist í Fréttablaðinu:

Opinberar upplýsingar eru ekki eign stofnana

Í júlí síðastliðnum sátu undirritaðar stofnfund félags áhugamanna um málefni flóttafólks. Eitt verkefna félagsins er að kanna hvort grunur um að útlendingum sé mismunað í réttarkerfinu sé á rökum reistur en af þeim dómum sem aðgengilegir eru á vefsíðu dómstólanna, er helst að sjá að dómar í skjalafalsmálum séu þyngri þegar útlendingar eiga í hlut. Til að draga þá ályktun þurfa þó meiri gögn að liggja fyrir og var því send beiðni á Þorgeir Inga Njálsson dómsstjóra Héraðsdóms Reykjaness, um afrit af öllum dómum sem fallið hefðu í skjalafalsmálum við dómstólinn á árunum 2002-2005. Tekið skal fram að þessi beiðni var ekki sett fram í nafni félagsins.

Þremur vikum síðar var erindinu svarað á þá leið að sá sem óskaði eftir afriti af dómum yrði að sýna fram á að hann hefði lögvarinna hagsmuna að gæta, auk þess sem greiða þyrfti 250 kr fyrir hvert blað. Sendandi bréfsins mótmælti með þeim rökum að dómar séu opinber gögn og eigi því að vera öllum aðgengilegir. Auk þess var farið fram á rökstuðning fyrir þessari upphæð, þar sem ekkert í lögum bendir til þess að þessi gjaldtaka sé heimil. Dómstjórinn féllst að lokum á að ekki þyrfti að sýna fram á lögvarða hagsmuni en hélt fast við gjaldtöku upp á 250 kr á blað með vísan í lög um aukatekjur ríkissjóðs.

Hvað segja lögin?

Í umræddum lögum er þó ekki vikið einu orði að dómum í sakamálum, heldur er fjallað um dómgerðir í einkamálum og fullnusturétti svosem aðfararbeiðnir, gjaldþrotaskipti, skilnaðarmál, forsjármál og matsbeiðnir. Við höfnuðum því þess vegna að gjaldtakan ætti við um sakamál auk þess að benda á að samkvæmt anda laganna og stjórnarskrárinnar væri eðlilegast að líta á dóma sem grunngögn lýðræðisins og þeir ættu því að falla undir upplýsingalög. Þessi túlkun fær stuðning í ýmsum gögnum meðal annars í gjaldskránni sem héraðsdómur vísar í, en þar er sérstaklega tekið fram að engin gjöld skuli taka í einkarefsimálum. Hvorki dómstjórinn né aðrir starfsmenn Héraðsdóms Reykjaness hafa svarað þessum rökum, heldur vísa enn og aftur í reglur dómstólaráðs og lög um aukatekjur ríkissjóðs; gögn sem fjalla alls ekki um dóma í sakamálum.

Hverskonar vinnubrögð eru þetta?

Þessi samskipti við Héraðsdóm Reykjaness vekja margar spurningar, þar á meðal þessar:
-Hvers vegna segir dómstjóri leikmanni sem biður um afrit af dómum að hann eigi ekki rétt á slíkum gögnum nema geta sýnt fram á lögvarða hagsmuni?
-Hversu margir hafa gefist upp á því að kynna sér dóma eftir að hafa fengið þessar röngu upplýsingar hjá dómstólum?
-Hvernig samræmast þessi vinnubrögð leiðbeiningarskyldu dómsstjóra?
-Hvers vegna telja starfsmenn dómstólsins sér ekki skylt að útskýra með hvaða rökum þeir álíta að lög um aukatekjur ríkissjóðs nái yfir mál sem hvergi eru nefnd í þeim lögum?
-Ef dómar falla ekki undir upplýsingalög eins og önnur grunngögn sem talin eru mikilvæg fyrir lýðræðið, hvernig í ósköpunum eru þeir þá flokkaðir?

Mikilvægasta spurningin er þó þessi:
-Hvernig ber að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar um að sakamálaréttarfar skuli vera opinbert ef ekki á þann veg að allir skuli, óháð fjárhagsstöðu sinni, eiga jafnan rétt til upplýsinga um opinber mál?

Hver á þessi gögn?

Það samræmist ekki lýðræðislegri stjórnsýslu að almenningur þurfi að greiða meira en prentkostnað fyrir grunngögn sem skipta máli fyrir lýðræðið í landinu. Ef til vill eru 250 kr ekki há fjárhæð fyrir þá sem biðja um afrit af örfáum blaðsíðum en þegar um er að ræða umfangsmikil mál getur upphæðin hlaupið á tugum þúsunda. Ætla má að flestir hafi hingað til sætt sig gagnrýnislaust við þetta gjald en hér er um að ræða slíkt hagsmunamál fyrir almenning að við höfum einsett okkur að fá botn í það hver réttur dómstóla til gjaldtöku er í raun. Málið var því kært til Fjármálaráðuneytisins um miðjan september þar sem það er nú til skoðunar.

Mikilvægt er að stjórnvöld og embættismenn átti sig á því að opinberar upplýsingar eru ekki eign stofnana. Þær eru eign almennings og í lýðræðisríki eiga leikmenn sem óska eftir afritum af opinberum gögnum að fá þau afhent undanbragðalaust. Þeir eiga ekki að þurfa að leggjast í lagalestur eða leita sér lögfræðiaðstoðar til þess að fá rétti sínum framgengt og það er með öllu óþolandi að slík vinnubrögð skuli viðgangast hjá dómstólum.

 

—————-

Hér má sjá bréfin sem fóru á milli mín og dómstjórans:

Finnst ykkur þetta í lagi? Ekki mér og þessvegna kærði ég ákvörðunina en í kærunni er gerð nánari grein fyrir rökstuðningi okkar.

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál
Efnisorð: ,

Sunnudagur 11.11.2012 - 14:19 - FB ummæli ()

Spurðu bara fræðingana

Það er sorglega lítið um að íslenskir blaðamenn bjóði upp á vandaðar fréttaskýringar. Oft virðist eina hlutverk þeirra vera það að halda á hljóðnemanum og láta „fræðimenn“ um að skýra mál sem þeir hafa enga sérstaka þekkingu á umfram þá sem almenningur hefur.

Nú hef ég síður en svo neitt á móti því að sérfræðingar séu spurðir út í það sem þeir hafa vit á, en oft eru sérfræðingar, einkum hagfræðingar og stjórnmálafræðingar, fengnir til að tjá sig um mál sem sérfræðiþekking þeirra varpar engu sérstöku ljósi á. Þessi undarlega aðdáun á fræðimannstitlinum gefur þeim jafnvel tækifæri til að koma sínum eigin pólitísku skilaboðum á framfæri. Til hvers er t.d. verið að spyrja hagfræðinga um horfurnar í þróun efnahagsmála? Man einhver til þess að hagfræðingar hafi varað við efnahagshruninu? Bendir yfirhöfuð eitthvað til þess að hagfræðiþekking geri menn að efnahagsspámönnum? Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að hagfræðingar eru sjaldnast sammála um horfur í efnahagsmálum og bara það ætti að segja okkur að hæpið sé að líta á álit þeirra sem vísindi.

Sérfræðingadýrkunin er sérlega áberandi í stjórnmálaumræðu. Stjórnmálafræðingum er stillt upp fyrir framan hljóðnema, til þess eins að segja hið augljósa eða fabúlera um hluti sem koma þeirra fræðasviði aðeins lauslega við. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig tilgangslausu bulli er ljáð fræðilegt yfirbragð með því að setja stjórnmálafræðing fyrir framan hljóðnemann:

Stjórnmálafræðingur rekur skoðnanir sínar á því hvernig forsetaframbjóðendur hafi staðið sig í sjónvarpsþætti. Hvað er það í menntun stjórnmálafræðinga sem gerir þá hæfari til þess en pípulagningarmenn, hjúkrunarfræðinga og öryrkja að meta svör forsetaframbjóðenda? Er það ekki hinn óstjórnmálamenntaði almenningur sem mun greiða atkvæði á kjördag?

Stjórnmálafræðingur útskýrir fylgistap ríkisstjórnarinnar. Hvernig eru það „fræði“ að fullyrða hvað fólkið í landinu er að hugsa? Hefur maðurinn eitthvað fyrir sér annað en sínar eigin pólitísku skoðanir og ef ekki, hversvegna er verið að kynna hann sem einhverskonar kennivald í þessu samhengi?

Stjórnmálafræðingur segir átökin í Framsóknarflokknum opinber. Af hverju var ég ekki bara alveg eins fengin til að lýsa því yfir fyrst blaðamenn sáu það ekki sjálfir?

Stjórnmálafræðingur gefur álit sitt á því hvað Jóhanna er að hugsa. Læra menn huglestur í stjórnmálafræði? Hvaða erindi eiga svona vangaveltur „sérfræðinga“ við almenning?

Stjórnmálafræðingur staðfestir að við getum reiknað með að niðurstöður kosninga verði í takt við viðhorfskannanir. Var einhver í vafa um það? Erum við einhverju nær þótt „sérfræðingur“ dragi þessa ályktun?

Stjórnmálafræðingur rekur það hverjir koma til greina sem formenn Samfylkingarinnar. Hann tekur m.a.s. fram að þess megi vænta að arftaki Jóhönnu muni hafa áhrif á gengi flokksins. Það var nú aldeilis fínt að „sérfræðingur“ skuli hafa bent okkur á það, ekki hefði mér dottið það í hug án fulltingis fræðimanns.

Ofangreind dæmi komu upp þegar ég sló „stjórnmálafræðingur telur“ inn í leitina hjá google. Þetta eru bara örfá dæmi um þá fáránlegu sérfræðingaþjónkun sem einkennir íslenska fjölmiðla. Þess væri óskandi að blaðamenn spyrðu sig að því, áður en þeir birta fréttir, hvort álit stjórnmálafræðinga skipti yfirhöfuð máli og hvort menntun þeirra og staða geri þá eitthvað hæfari til þess en hvern annan bloggara eða kassadömu að spá fyrir um niðurstöður kosninga og útskýra hversvegna hlutirnir hafi farið á tiltekinn veg. Ef ekki, þá er þessi stöðuga umleitan eftir áliti sérfræðinga til þess fallin að gefa þessu fólki pólitískt áhrifavald. Ef það er ekki tilgangurinn þá eiga hugrenningar þeirra ekkert erindi í fréttir sem ætlað er að varpa ljósi á stjórnmál líðandi stundar.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Laugardagur 10.11.2012 - 14:18 - FB ummæli ()

Pistill sem Sighvatur má taka til sín

Sighvatur Björgvinsson hraunar hressilega yfir mína kynslóð í Fréttablaðinu í dag. Ég það tók mig fimm vikur að fá birta grein um upplýsingamál í því merka blaði en Sighvatur hefur væntanlega beðið lengur eftir að koma þessu þjóðþrifamáli sínu á framfæri. Jæja það er allavega komið til skila. Ég nenni ómögulega að eyða laugardegi í að svara heimsósómaraunsinu í Sighvati en það vill svo skemmtilega til að ég á í fórum mínum grein sem ég birti á blogginu mínu í apríl 2005, þar sem þessi kynslóðamál eru reifuð.

 

Til heiðurs verðbólgukynslóðinni

 

Kaldastríðskynslóðin

Kynslóð mín er firrt.

Kaldastríðskynslóðin hafði hvorki pólitíska vitund né tónlistarsmekk á táningsárunum. Við sáum enga ástæðu til að fara í mótmælagöngur því það var engin heimsstyrjöld í gangi bara gjöreyðing yfirvofandi. Lítið við því að gera svo við fórum bara á diskótek. Kunnum ekki einu sinni að nota fíkniefni að ráði. Í dag erum við kortakynslóðin og ennþá jafn veruleikafirrt. Lifum á pizzum. Ölum börn okkar upp við efnishyggju sem gengur geðbilun næst og skuldum meira en við eigum nokkurn tíma eftir að afla. Ljótu lúðarnir.

Börnin okkar eru náttúrulega bara slys. Eða náttúruhamfarir. Ýmist ofvirk, þunglynd eða með sértæka óþekktarrröskun. Reyndar hefur það nú verið svo frá dögum Sókratesar og sjálfsagt lengur að unglingar hafa verið óalandi og óferjandi, vanþakklátir, kröfuharðir og rífandi kjaft við sér eldra og viturra fólk en okkar börn eru i þokkabót meðvituð um réttindi sín og Guð má vita hvaða hörmungar það mun hafa í för með sér.

Já, þetta er býsna slæmt ástand. Unga fólkið veruleikafirrt og börnin óþæg. Hvar skyldi þetta eiginlega enda?

 

Það var nú eitthvað annað þegar þau voru ung

Annars hef ég verið að hugsa dálítið um verðbólgukynslóðina, þessa sem ól okkur upp þið vitið, þessa sem er öllu skynsamari þegar kemur að fjármálum og veit miklu betur en við hvernig á að ala börnin okkar upp. Þetta fólk er miklu klárara í fjármálum en við. Það á sumarbústaðina sína skuldlausa. Það tekur ekki yfirdrátt til að fara til Kanarí. Það baslaði með sín börn án þess að hafa tök á að labba inn í banka í skítugum gallabuxum, heimta lán og prútta um vextina. Það átti ekki kost á neinum félagsmálastyrk ef það nennti ekki að vinna. Í þá daga var skömm og neyðarúrræði að segja sig til sveitar.

Já, verðbólgukynslóðin hefur sannarlega ástæðu til að hneykslast á bruðlinu í okkur. Kynslóðin sem ólst upp hjá fólkinu sem nú er á níræðisaldri. Afar okkar og ömmur ólust upp í fátækt og fengu sinn skerf af kreppunni. Jafnvel ríkar fjölskyldur muldu ekki undir börnin sín. Lífið var einfalt, viðhorfin skýr:
-vinnan göfgar manninn
-nýtni er dyggð.
Stóru markmiðin í lífinu voru þau að skulda engum neitt, koma börnum sínum á legg og helst til mennta og eiga fyrir útförinni sinni.

Svo kom Bretinn og þá fór nú allt að skána svona smátt og smátt. Ennþá var unnið myrkranna á milli, nýtt og sparað og börnin send í sveit á sumrin en nú var líka afgangur af peningunum, allavega stundum. Afi og amma fóru að safna sjóðum og það þótti ekki sérlega flott að eiga bara fyrir útförinni sinni. Börnin áttu rétt á arfi. Seinna meir auðvitað og engin ástæða til að missa sig í bruðl en foreldrar okkur fengu allavega fermingargjafir. Sumir afar höfðu kannski fengið úr og sumar ömmur saumakassa en þó því aðeins að til væru peningar og það var ekkert alltaf. Verðbólgukynslóðin fékk auðvitað ekki myndbandsupptökuvélar eða hesthús með öllu tilheyrandi en þetta fólk var þrátt fyrir allt fyrsta kynslóð Íslandssögunnar sem gat beinlínis reiknað með að fá fermingargjöf.

Svo kom að því að pabbarnir okkar kvæntust mömmunum. Það var ekki mulið undir þau en brúðkaupið var haldið á kostnað afa og ömmu og oft kom þá í ljós bankabók með einhverju smáræði. Afi og amma voru nefnilega að átta sig á því að brátt krefðist vinnumarkaðurinn menntunar og svo var heldur enginn íbúðalánasjóður til staðar. Auðvitað þurfti unga parið aðstoð.

 

Verðbólgukynslóðin

Svo kom blessuð verðbólgan og stjórnvöld sáu ekki við henni. Pabbarnir fóru í langskólanám og verðbólgan át lánin sem þeir tóku upp. Þeir unnu baki brotnu, fóru á sjóinn í sumarfríinu, kvenfrelsið brast á og amma passaði börnin á meðan mamman var að vinna fyrir ennþá meiri péningum. Pabbi fór í jakkafötin og sleikti skó bankastjórans til að fá lán og loksins gátu þau önglað saman fyrir útborgun í íbúð. Verðbólgan var að vísu hinn mesti skaðvaldur, svo slæm að mömmurnar keyptu frystkistu til að geta eytt öllu kaupinu sínu í mat strax á útborgunardegi því hálfum mánuði seinna hafði allt hækkað í verði. En verðbólgan át ekki bara börnin sín. Hún át líka skuldirnar þeirra. Það var ekkert óyfirstíganlegt að borga íbúðina og námslánið og auk þess höfðu mörg hjón ókeypis barnagæslu hjá ömmu. Það varð þrátt fyrir allt afgangur, þrældómurinn borgaði sig.

 


Bankarnir reyndu auðvitað, en pabbi og mamma vissu betur 

Og verðbólgukynslóðin gaf börnunum sínum reiðhjól þegar þau urðu 8 ára og kenndi þeim að eyða öllum peningum sem þau fengu í hendurnar eins hratt og þau gætu, annars kæmi verðbólgan og æti þá. Við fengum líka flottari fermingargjafir og enginn nema amma fríkaði út þótt hálfétnu epli væri hent í ruslið. Verðbólgukynslóðin var nefnilega ekkert heima til að gæta þess að unglingarnir sýndu matarafgöngum tilhlýðilega virðingu. Á hinn bóginn áttaði verðbólgukynslóðin sig á því að ungt fólk á enga heimtingu á því að hlaðið sé undir það. Sá siður að foreldrar greiddu brúðkaup barna sinna og að þau byggju í foreldahúsum á meðan þau væru í námi (jafnvel með barnahóp) komst úr tísku enda miklu auðveldara fyrir kaldastríðskynslóðina að fá lán og leikskólapláss.

 

Laun dyggðarinnar eru áhyggjulaust ævikvöld

Núna er verðbólgukynslóðin orðin að ömmum og öfum. Að vísu allt öðruvísi ömmum og öfum en kreppukynslóðin. Í dag hafa ömmur engan tíma til að steikja kleinur og prjóna vettlinga, þær eru uppteknar við að vera skvísur og alltaf í ljósum eða útlöndum eða í Kringlunni. Og afarnir eru ekkert á sjónum eða á eyrinni, þeir eru bara hangandi í tölvunni að reyna að botna í verðbréfaviðskiptum, nú eða þá á Kanarí.

Í dag á verðbólgukynslóðin húsin sín, bílana og sumarbústaðina skuldlaust. Margir eiga líka einhvern sjóð í bankanum. Þau eiga auðvitað skilið að hafa það þokkalegt, þegar allt kemur til alls vann þetta fólk myrkranna á milli og kynntist aldrei börnunum sínum almennilega. Auk þess ætti það ekkert svona mikið nema vegna þess að afi er dauður og amma vildi endilega greiða þeim föðurarfinn strax. Það er nú aldeilis heppilegt að þetta fólk skuli eiga einhverjar eignir því heilbrigðiskerfið er orðið svo fullkomið að þetta á eftir að lifa von úr viti.

Annars er svosem ekki víst að eignirnar dugi til þess að halda því uppi til hundrað ára aldurs. Það er nefnilega ákveðin vakning í gangi meðal verðbólgukynslóðarinnar. Hún er semsé að átta sig á því að hún á peningana sína sjálf og að henni ber engin skylda til að skilja eftir sig arf handa börnunum sem kunna hvort sem er ekkert með peninga að fara. Þessvegna selur verðbólgukynslóðin einbýlishúsin sín, kaupir litlar íbúðir í staðinn og leggst í ferðalög fyrir mismuninn. Býsna snjallt. Laun dyggðarinnar eru áhyggjulaust ævikvöld og sennilega eiga flestir samt fyrir útförinni sinni þegar upp er staðið.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: ,

Föstudagur 9.11.2012 - 12:52 - FB ummæli ()

Lokaorð um jafnréttisfræðslu (í bili)

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Hugtakaskýringar Kynungabókar
Sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi
Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

 ——————–
Þessi grein tilheyrir pistlaröð um kennivald kvenhyggjunnar sem nú er að ryðja sér til rúms á Íslandi. Ég hef fjallað ítarlega um Kynungabók, jafnréttisnámsefni fyrir unglinga. Útgáfa hennar þykir svo mikilvægur áfangi í menntamálum þjóðarinnar að Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, skrifar formálann sjálf. Í næstu pistlum mun ég ræða það hvernig feministar hafa, með endurtúlkun bókmennta og annarra lista, og viðbrögðum sínum við gagnrýni, reynt að eigna sér opinbera umræðu um kynjamál. Áður en ég skil við viðfangsefnið kvenhyggjutrúboð í skólum, tel ég nauðsynlegt tæpa á hugmyndum sem ekki eru ræddar í Kynungabók en er þó líklegt að muni skipa stóran sess í meintri jafnréttisfræðslu.
Feðraveldi

Það vekur nokkra undrun að orðið feðraveldi kemur hvergi nokkursstaðar fyrir í Kynungabók, ekki einu sinni í hugtakaskýringum. Þetta kemur á óvart vegna þess að hugmyndin um feðraveldið er miðlæg í nálgun feminista á öll samfélagsmál og rímar fullkomlega við þá hugmynd sem lagt er upp með í inngangi bókarinnar; að kynjamisrétti í nútímanum sé afleiðing þess að samfélag og menning hafi áður fyrr mótast af hagsmunum karla.

Aðgreiningin milli ofbeldis og kynbundins ofbeldis byggir einmitt á feðraveldishugmyndinni og þar sem kynbundið ofbeldi er, ásamt meintri klámvæðingu, uppáhaldsviðfangsefni kynjafræðinga, er líklegt að það fái mikla athygli í „jafnréttisfræðslunni“. Í vissu samhengi eiga þessi hugtök rétt á sér. Feðraveldi er t.d. við lýði í Mið-Austurlöndum, þar sem karlar hafa formlegt vald til að stjórna örlögum barna sinna, einkum dætra. Þar sem feðraveldi ríkir er kynjamismunun kerfisbundin. Sumstaðar er útilokað fyrir konur að hafna hjónabandi. Einhleypar konur og ekkjur eru upp á bræður sína komar og lúta þeirra stjórn. Fólki er refsað grimmilega ef það varpar rýrð á heiður fjölskyldunnar, m.a. fyrir ástarglæpi.  Nýlegt dæmi frá Pakistan er saga unglingsstúlku sem var staðin að því að horfa á pilta en í Pakistan þykir það hinn mesti hórlifnaður og klámsýki. Móðir telpunnar brást við eins og góðum púrítana sæmir og drap hana með því að skvetta á hana sýru. Piltur hefði ekki hlotið sömu örlög, þetta er því kynbundið ofbeldi.

Þar sem alvöru feðraveldi viðgengst eru konur kúgaðar. Í Afghanistan varðar það allt að 15 ára fangelsi fyrir konu að hlaupast að heiman í óþökk fjölskyldunnar. Það er feðraveldi. Yfirvöld skipta sér ekki að því þótt fólk myrði dóttur sína eða systur til þess að verja heiður fjölskyldunnar og yfirvaldið tekur sjálft að sér að hýða konur, fangelsa og jafnvel grýta þær til bana, það er feðraveldi. Að bera kerfisbundin mannréttindabrot saman við tilviljanakennda glæpi og halda því fram að allt ofbeldi gagnvart konum megi skýra á sama hátt, þ.e. út frá feðraveldinu, er frekleg afskræming á þeim veruleika sem flest okkar lifa við, veruleika þar sem ofbeldi er ekki aðeins ólöglegt heldur því harðar fordæmt ef karlmaður ræðst á konu.

Þessi heimildamynd um glæpakonur í Afghanistan gefur dálitla innsýn í heim þeirra kvenna sem búa við feðraveldi. Vinsamlegast horfið á hana og segið mér svo hvort ykkur finnst viðeigandi að tala um íslenskar konur sem fórnarlömb „feðraveldisins“ af því að einhver bókaútgáfa gefur út bleika bók (ekki lögboðna uppeldishandbók) þar sem telpur eru sýndar við húsverk.

 

Nauðgunarmenning

Álíka ógeðfelld afskræming feminista á veruleikanum birtist í öðru hugtaki sem merkilegt nokk er ekki er að finna í Kynungabók. Það er orðið „nauðgunarmenning“, sem merkir að kynferðisofbeldi þyki bara alveg sjálfsagt og eðlilegt. Orðið „nauðgunarmenning“ er nánast eins og mantra í munni feminista. Ef konu er nauðgað er það sönnun þess að við búum við nauðgunarmenningu. Ósmekklegur húmor er merki um „nauðgunarmenningu“ og sömuleiðis tónlistarmyndbönd og auglýsingar þar sem gert er út á kynþokka og kynferði.

Á hverju ári eru bílstjórar í tugatali staðnir að ölvunarakstri. Engum dytti þó í hug að tala um ölvunarakstursmenningu. Til þess að það væri réttlætanlegt þyrfti ölvunarakstur að tíðkast almennt og vera viðurkennd hegðun sem réttarkerfið liti mildum augum.  Öðru gegnir um „nauðgunarmenningu“, það orð notar kvenhyggjufólk hiklaust enda þótt þótt fordæming almennings á kynferðisofbeldi sé slík að menn sem einu sinni hafa fengið á sig slíka ásökun eiga sér ekki viðreisnar von. Jafnvel þótt málið fari aldrei fyrir dóm er orðsporið ónýtt, menn hafa misst æruna, vinnuna og neyðst til að flýja land, þrátt fyrir að hafa verið sýknaðir, en nei, kvenhyggjufólk sér menningu okkar ekki sem menningu sem fordæmir nauðganir heldur sem menningu sem hefur kynferðisofbeldi til vegs og virðingar. Engu skiptir heldur þótt dómar í kynferðisbrotamálum hafi þyngst verulega á fáum árum og þótt minni sönnunarkröfur séu gerðiar í kynferðisbrotamálum en nokkrum öðrum málaflokki, áfram er þessu orði þjösnað inn í umræðuna og iðulega gefið til kynna að réttarkerfið sé einnig gegnsýrt af umburðarlyndi gagnvart nauðgunum.

Á þessari mynd sem birtist í DV, má sjá hugmynd feminista um það hverskonar hegðun sé talin eðlileg í okkar samfélagi

Myndin hér að ofan er ágætt dæmi um ranghugmyndir feminista um samfélag sitt. Myndin sýnir jakkafataauglýsingu sem er svo ósmekkleg og svo langt frá því sem fellur undir eðlilega hegðun að jafnvel umsjónarmenn tískusíðu New York Magazine, sem seint verður talin málsvari femniskra gilda, sáu ástæðu til að benda á viðbjóðinn:

Most Disturbing Ad – Duncan Quinn

We came across this in City and were immediately disturbed. Duncan Quinn makes bespoke suits, but who’s looking at that when the woman looks like she was drugged and dragged to the woods for strangling?

Réttupphend sem telur að myndin sýni eðlilega hegðun.

Karlar nauðga

Er þá ekki bara gott mál að hugmyndir um feðraveldi og nauðgunarmenningu skuli ekki vera kynntar sérstaklega í Kynungabók? Jú, ef við gætum treyst því að jafnréttisfræðslan hvikaði hvergi frá Kynungabók þá hefði ég ekki áhyggjur. Kynungabók er að vísu skelfing vond sem jafnréttisnámsbók því hún lítur fram hjá jafnréttismálum karla en varla beinlínis skaðleg ein og sér. Hún gefur sig út fyrir að vera hlutlæg skrá yfir tölfræðilegar upplýsingar (ekki tölfræðilegar staðreyndir heldur upplýsingar frá feministahreyfingum og kynjafræðingum) og eins og ég tók fram í fyrsta pistli mínum um Kynungabók, er hvergi ráðist beint á karlmenn.

En horfumst í augu við staðreyndir. Kynungabók er óbærilega leiðinleg. Enginn kennari fengi unglinga til að lesa hana nema bjóða líka upp á krassandi umræður og aukaefni. Kvenhyggjusinnar hafa flaggað orðunum feðraveldi og nauðgunarmenning við öll möguleg tækifæri síðustu árin og enginn sem hefur fylgst með umræðunni velkist í vafa um löngun þeirra til að þessi hugtök verði almennt viðurkennd. Það er m.a.s. hæpið að hægt sé að fjalla um feminiskan skilning á kynbundnu ofbeldi án þess að draga nauðunarmenninguna og feðraveldið inn í umræðuna. Ef kynjafræðingum verður gefinn aðgangur að skólabörnum MUNU mýturnar um feðraveldi og nauðgunarmenningu verða predikaðar í skólum landins. Og þar með erum við farin að nálgast kenninguna um að karlar nauðgi. Ekki að til séu karlar sem nauðgi, heldur að kynferðisofbeldi sé hegðun sem ávallt megi vænta af körlum.

Nú býst ég við að einhverjir lesenda séu komnir með nafn Sóleyjar Tómasdóttur fram á varirnar en við skulum athuga að það er ekki nein einkaskoðun Sóleyjar að karlar séu upp til hópa líklegir til að beita kynferðisofbeldi. Þetta er algeng skoðun innan feminstahreyfingarinnar, Sóley hefur bara vakið athygli fyrir að orða það hispurlaust. Þessi hugmynd endurspeglast m.a. í „rannsóknarniðurstöðunni“ sem Guðrún Margrét Guðmundsdóttir kemst að í MA ritgerð sinni, þegar hún gerir orð Diane Russell að sínum:

Hún segir að fyrir marga karla séu árásargirni og kynlíf nátengd fyrirbæri. Því hugsa margir ómeðvitað: Það að vera árásargjarn er karlmannlegt, það að vera kynferðislega árásargjarn er karlmannlegt, nauðgun er kynferðislega árásargjörn, þar að leiðandi er nauðgun karlmannleg.

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, sú sem kemst að þeirri niðurstöðu að karlar nauðgi af því að það þyki karlmannlegt, er einn af höfundum Kynungabókar. Hér má sjá fyrirlestur byggðan á  MA ritgerð hennar, sem heitir einmitt: Af hverju nauðga karlar?  Við getum víst reiknað með því að innan skamms verði skóladrengjum gefin ofangreind skýring á því.

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 8.11.2012 - 15:14 - FB ummæli ()

Góður prinsessuskóli

Í dag ræða netverjar nýútkomnar föndurbækur fyrir börn. Bláa bókin er með myndum af drengjum sem stefna á að verða geimfarar og bleika bókin sýnir stúlkur að ryksuga. Ég hef ekki séð meira af þessum bókum en myndirnar sem sjá má hér en ef þetta er allt í þessum dúr þá er ég svosem ekkert hissa á því að sjá ummæli um að jafnréttisbaráttan hafi engu skilað.

Ég hef gaman af að skoða staðalmyndir, ekki síst í barnabókum og dægurlagatextum. Staðalmyndir í listum má oft nota til að vekja athygli á forneskjulegum viðhorfum og sá er nú tilgangurinn hjá þessari konu.

Hvort það skilar svo tilætluðum árangri að ganga fram af heilagri vandlætingu, án þess að virða höfundum það til vorkunnar að vera börn síns tíma, það er svo önnur saga. Það er ekki svo í dag að hann fái bók en hún nál og tvinna og þó glymur „Hátíð í bæ“ allsstaðar í desember. Ólíklegt er því að fjöldinn hafni gömlum jólasöngvum vegna karlrembunnar í þeim og sennilega finnst flestum þetta bara óþægilegt tuð, helst til þess ætlað að eyðileggja jólin.

En þeir sem eru að gefa út barnabækur í dag, eru þeir börn síns tíma? Eða einhverrar allt annarrar kynslóðar? Af hverju lifa staðalmyndir frá 1950 svona góðu lífi þrátt fyrir þrotlausa gagnrýni og fordæmingu? Getur verið að sú taktík sé bara ekkert sérstaklega árangursrík?

Ef áratuga reiði og hneykslun skilar ekki þeim árangri að almenningi finnist eitthvað athugavert við kynjaímyndir og aðrar staðalmyndir, væri þá kannski ráð að prófa aðra nálgun? Hér er ein hugmynd, góðlátlegt grín sem er afhjúpandi en þó laust við predikunartón. Mér finnst það aldeilis ágætt.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Miðvikudagur 7.11.2012 - 21:27 - FB ummæli ()

Hugtakaskýringar Kynungabókar

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi
Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

—–

Í pistlunum sem ég tengi á hér að ofan ræði ég Kynungabók og kynjafræðikennslu í skólum sem tilraun til að koma á nýju kennivaldi. Lokakafli Kynungabókar fjallar um stjórnkerfi og lagaumhverfi jafnréttismála. Ég hef ekkert við hann að athuga og að sinni ætla ég heldur ekki að gera athugasemdir við annálinn yfir áfanga í jafnréttismálum,sem fylgir. Hinsvegar hef ég ýmislegt við hugtakalistann aftast í bókinni að athuga. Ég ræddi hina víðáttuvitlausu skilgreiningu á feminisma í þessum pistli. Auk þess að vera ónothæf er hún ekki í neinu samræmi við almennar skilgreiningar á feminisma sem finna má víða t.d. hér. Ég ætla ekki að tíunda allt sem betur mætti fara í hugtakaskýringunum en aðeins að nefna nokkur dæmi til viðbótar.

Eðlishyggja 

Skýring Kynungabókar á eðlishyggju er svohljóðandi:

Eðlishyggja í tengslum við kynferði felur í sér þá hugmynd að kynin fæðist með ólíka eiginleika og skapgerð. Kynjunum er þá stillt upp sem andstæðum og alhæft um eiginleika þeirra sem eru af sama kyni oft út frá staðalmyndum sem byggir á gömlum hugmyndum um kynhlutverk. Sem dæmi er algengt að tala um móðureðli kvenna, að konur fæðist tilfinninganæmari og umhyggjusamari frá náttúrunnar hendi en karlar séu árásargjarnari og virkari í eðli sínu.

Það er beinlínis óheiðarlegt að halda því fram að þeir sem aðhyllast eðlishyggju stilli kynjunum upp sem andstæðum og alhæfi um eiginleika þeirra. Ég hef aldrei séð fræðilega greiningu sem gengur út frá eðlishyggju án þess að reiknað sé með að umhverfi hafi mótandi áhrif líka. Hið rétta er að fjölmargir vísindamenn telja ótvírætt að sterkari tilhneigingar í ákveðna átt séu líffræðilega kynbundnar. Það sem við köllum „móðureðli“ og „árásarhneigð“ megi að nokkru leyti skýra með ólíkri hormónastarfsemi kynjanna.

Kynhlutverk

Fleiri rangfærslur koma fyrir í hugtakaskýringum Kynungabókar. Í skýringunni á hefðbundnum kynhlutverkum er m.a. þetta:

Hugmyndir um sérstök kynhlutverk fyrirfinnast alls staðar en þau eru breytileg frá einu samfélagi til annars og frá einu tímabili til annars.

Þetta er mjög vafasamt. Konur hafa nánast alltaf og allsstaðar borið meginábyrgðina á umönnun ungra barna og sjúkra. Karlar hafa nánast alltaf og allsstaðar borið meginábygð á vernd samfélagsins gegn hættum. Það heyrir til algerra undantekninga ef þessu er öðruvísi farið. Konur taka vissulega við karlmannsstörfum ef samfélagsaðstæður krefjast þess, t.d. á stríðstímum en þeim er umsvifalaust húrrað í fyrri hlutverk um leið og ástandið breytist aftur. Karlastörf verða ekki kvennastörf, heldur gegna konur karlastörfum í neyð og það er út af fyrir sig áhugavert viðfangsefni jafnréttisfræðslu. Eftir stendur að menningarmunur á hugmyndum um kynhlutverk birtist fyrst og fremst í því hver ber ábyrgð á einstaka verkefnum, en heildarmyndin er á flestum stöðum afskaplega lík.

Klám og klámvæðing

Skilgreiningin á klámi gæti verið nothæf til að benda unglingum á að til er klám sem sérstök ástæða er til að líta gagnrýnum augum. Hún nær þó enganveginn yfir allt klám:

Klám hefur verið skilgreint á þann hátt að það sé efni sem sýnir kynlíf og/eða afhjúpuð kynfæri í tengslum við misnotkun og niðurlægingu þannig að slík hegðun sé studd, látin óátalin eða jafnvel hvatt til hennar.

Væri hægt að taka mark á feministum, yrði ég manna fyrst til að fagna þessari skilgreiningu. Það er ekkert einfalt að skilgreina klám, og þótt sé fullkomlega óraunhæft að meirihluti unglinga hafni kynferðislegu efni með öllu, væri kannski hægt að fá einhverja til að vanda valið, eins og ég hvatti til hér. Gallinn við skilgreininguna er sá að hún er ekki í neinu samræmi við það sem almenningur skilgreinir sem klám, sem er hreint ekki alltaf niðurlægjandi eða tengt misnotkun. Hún er heldur ekki í samræmi við það sem kvenhyggjufólk skilgreinir raunverulega sem klám, sem er allt frá legófígúrum með kvenleg útlitseinkenni og upp í myndbönd af raunverulegri barnanauðgun. Ef á að kenna kynjafræði í skólum, væri lágmark að sett yrði fram skilgreining sem lýsir raunverulegri afstöðu kynjafræðinga, sem er þessi:

Klám er allt sem feministum dettur í hug að tengja við eitthvað kynferðislegt, hversu langsótt sem það er.


Misræmið í hugtakanotkun birtist svo strax í næstu hugtakaskýringu sem er þessi:

Klámvæðing er heiti á því menningarferli þegar klám og hlutverk, myndmál, táknmyndir og orðfæri úr kláminu smeygja sér inn í okkar daglega líf sem normaliserað, samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri.

Samkvæmt þessu er „klámvæðing“ t.d. það þegar orðfæri eins og píka, böllur og ríða, orð sem fyrir 35 árum þóttu dónaleg og sáust ekki á prenti nema þá í Tígulgosanum, eru tekin upp í daglegri orðræðu. Auðvitað er það ekki það sem þær eiga við með þessu en hvern fjandann eiga þær þá við? Og hvernig rímar sú skoðun við misnotkun og niðurlægingu að það sé „klámvæðing“ að lofa stelpum að læra um tísku? Í alvöru talað, finnst ykkur vera heil brú í þessu?

 

Kynbundið ofbeldi – misræmi í skýringum

Ég hef þegar fjallað um sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi. Athygli vekur misræmi milli þeirrar skýringar sem gefin er í lesefninu sjálfu og svo í hugtakalistanum. Í kaflanum um kynbundið ofbeldi (bls 33) er skilgreiningin þessi;

Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislega áreitni og klám. Ofbeldið miðar að því að lítillækka, hlutgera og/eða ráða yfir öðrum einstaklingi án tillits til vilja eða líðan þess sem fyrir því verður.

Í hugtakakaflanum er það aftur á móti skilgreint sem:

Ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáningar brotaþola. Einnig á það við um hótanir um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Þessi skilgreining er öllu ásættanlegri því lykilatriði til þess að flokka ofbeldi sem kynbundið er að það beinist að öðru kyninu og sé á grundvelli kynferðis. Ég efast þó um kosti þess að flokka ofbeldi í kynbundið og ókynbundið enda er ofbeldi óásættanlegt hvernig sem á það er litið.  Bent hefur verið á að algengnara sé að nauðganir á konum en körlum séu notaðar sem vopn í stríði. Algengara er að karlar séu pyntaðir og látnir hverfa. Talað er um kynferðislega stríðsglæpi sem kynbundið ofbeldi en af einhverjum ástæðum er aldrei rætt um stríðsglæpi gegn körlum sem kynbundna. Hvernig stendur á þessu misræmi og hvaða kosti hefur þessi kyngreining á ofbeldi?

Undrun vekur að sum af lykilhugtökum kvenhyggjunnar koma hvergi fyrir í Kynungabók, hvorki í hugtakalistanum né meginmálinu. Þetta eru hugtök eins og „feðraveldi“ og „nauðgunarmenning“, hugtök sem sannarlega stendur til að troða upp á skólabörn. Ég mun gera þeim skil í næsta pistli í þessari röð, sem jafnframt verður sá síðasti um fyrirhugaða jafnréttisfræðslu í skólum.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 7.11.2012 - 12:55 - FB ummæli ()

Hver vill borga fyrir sérvisku annarra?

SUS vill skera niður fjárframlög til ýmissa stofnana, svo sem Veðurstofunnar og Árnastofnunar. Hugmyndin er væntanlega sú að þessar stofnanir skili ekki hagvexti og séu þar með til óþurftar, eða sinni í skársta falli afþreyingarhlutverki fyrir sérvitringa.

Ég get skilið það sjónarmið að þeir sem nota þjónustuna eigi að borga fyrir hana og er að nokkru leyti sammála. Mér finnst t.d. sjálfsagt að skattar á bensín séu notaðir til að standa straum af kostnaði við vegagerð. Ég sé heldur ekki þörfina á því að ríkisútvarpið sjái almenningi fyrir afþreyingarefni sem nóg framboð er af annarsstaðar. Framar öllu finnst mér að þeir sem vilja standa í styrjöldum greiði kostnaðinn við stríðsrekstur sjálfir í stað þess að seilast í vasa friðarsinna.

Þá hugmynd að þeir eigi að borga fyrir þjónustuna sem nota hana, má svo yfirfæra á allt annað með misgáfulegum árangri. Þannig ættu þeir sem af einhverjum sérviskulegum ástæðum reikna með að fara út úr húsi næstu daga að borga fyrir þjónustu Veðurstofu sjálfir. T.d. þeir sem eru að plana skíðaferðir. Ennfremur flugmenn, bílstjórar, sjúkraflutningamenn og bændur og þeir sem eru að hugsa um hvort sé óhætt að að láta börnin ganga í skólann. Veðurfræðingar gætu bara komið upp verktakaþjónustu til að sinna þeim almannavörnum sem felast í veðurathugunum og öðrum gæluverkefnum veðuráhugamanna.

Ennfremur er rétt að þeir sem hafa áhuga á að grúska í gömlum handritum greiði sjálfir fyrir varðveislu þeirra enda er miklu ódýrara að láta Sorpu sjá um handritin en að halda Árnastofnun uppi. Ég segi nú bara eins og amma mín sáluga „og hvað er með þetta gamla handritarusl að gera? Er ekki löngu búið að setja Íslendingasögurnar í tölvu?“

Flokkar: Allt efni · Menning og listir

Þriðjudagur 6.11.2012 - 13:40 - FB ummæli ()

Af hverju eru konur ekki hagyrðingar?

Fyrir daga internetsins lá ég stundum andvaka af áhyggjum af því að brageyra þjóðarinnar væri að fara til fjandans. Þeir  einu sem mér vitanlega ortu undir hefðbundnum bragarháttum voru svokallaðir hagyrðingar. Þetta voru mishnyttnir karlar, flestir komnir yfir fertugt, sennilega bændur eða a.m.k. hestamenn, sem köstuðu milli sín kersknivísum á þorrablótum og létu einstaka ferskeytlu fylgja kjörseðlinum í kosningum.

Svo kom elsku internetið. Óðara spruttu upp spjallsíður og sjá; ungir menn ortu, ekki bara einfaldar ferhendur, heldur einnig þríhendur, limrur og ýmis flóknari ferhenduafbrigði, svosem oddhendur, hringhendur og samhendur, margir bara mjög snoturlega. Ekki sá maður mikla tilburði í þessa veru hjá konum. Og sér ekki enn.

Brageyrað dó ekki, það lifir góðu lífi og ný kynslóð hagyrðinga  kastar á milli sín vísum á netinu. Hagyrðingar Baggalúts nota dulnefni og ef eru konur í hópnum þá koma þær fram sem karlar og nota karlkynsnöfn og myndir af körlum. Ég verð stundum vör við það á facebook að menn séu að kveðast á. Af þeim sem ég fylgist með er það einkum Gísli Ásgeirsson sem stofnar til vísnaleikja við mikinn fögnuð en ég minnist þess ekki að hafa séð nema eina konu kveðast á við aðra netverja.

Það sama á við um kvæði sem menn taka upp sem söngtexta. Kvæðaskáldin okkar heita Hörður, Kristján, Karl Ágúst, Hallgrímur, Bubbi, Bragi Valdimar… Jújú, það eru til konur sem yrkja mikil ósköp, Gerður Kristný ber höfuð og herðar yfir ljóðskáld sinnar kynslóðar og Heiða Eiríks og Birgitta skrifa popptexta (og áreiðanlega einhverjar fleiri konur líka) en þeir sem yrkja undir hefðbundnum bragarháttum í dag eru flestir karlar, í það minnsta þeir sem birta vísur á opinberum vettvangi.

Hvernig stendur á þessum kynjahalla? Stúlkur alast upp við söng og kveðskap ekkert síður en drengir. Það er ekkert sem bendir til þess að konur hafi verra brageyra eða að það liggi neitt betur við karlheilanum að raða saman orðum. Er skýringin sú að konur birti síður það sem þær skrifa eða hafa þær minni áhuga á þessari kvæðahefð?

Ég freistast til þess að álykta að skýringin á fjarveru kvenna frá hagyrðingaþráðum sé ekki sú að þær séu með allar skúffur fullar af ferskeytlum. Ég verð oft vör við aðra ljóðagerð kvenna, á bókamarkaðnum, á netinu og meðal félaga minna en ekki þekki ég neina konu sem yrkir undir hefðbundnum bragarháttum eingöngu fyrir vini og fjölskyldu. Ég held að konur hafi bara síður áhuga á þessari hefð.

Bara svo það sé á hreinu þá lít ég ekki á þetta sem neitt vandamál, mér finnst allt í lagi að konur hafi ekki áhuga á að yrkja hringhendur. Mér finnst þetta hinsvegar forvitnilegt, svo ef einhver kann skýringar á þessum kynjamun eða er með tilgátu, þá hefði ég gaman af að heyra hana.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Menning og listir
Efnisorð: ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics