Sunnudagur 21.2.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Sjálftaka er ekki lögvarin

Á Sprengisandi í morgun var að vanda góð og þörf umræða um þjóðfélagsmál. Í lok þáttarins undraðist Eiríkur Bergmann Einarsson hvernig réttnefnd sjálftaka gæti staðist. Samfélagið ólgar í kjölfar þess að skilanefndarfólk, skiptastjórar og lögmenn virðast geta skammtað sér – ef ekki verkefnin sjálf þá greiðslur fyrir þau.

 

Fyrsta árs laganemi veit betur

Svo er ekki – eins og ég ætla að rekja hér út frá þremur vel þekktum meginreglum lögfræðinnar. Það sem ég undrast er að stjórnendur hjá hinu opinbera og kjörnir fulltrúar virðast ekki vita betur; þó er þetta eitthvað sem laganemar læra yfirleitt strax á fyrsta ári!

 

Dómarar, stjórnendur og kjörnir fulltrúar eiga lögum samkvæmt að gæta þess f.h. almennings og eftir atvikum kröfuhafa að ekki sé farið á svig við eftirfarandi reglur.

 

Vanhæfi

Fyrst vil ég nefna svonefndar hæfisreglur – sem gilda um alla opinbera starfsemi, bæði stjórnendur og starfsmenn ríkis samkvæmt stjórnsýslulögum, dómara og skiptastjóra samkvæmt réttarfarslögum og aðra opinbera sýslunarmenn – t.d. lögmenn – skv. öðrum lögum. Ekki ætti að þurfa að eyða löngu púðri í að rökstyðja frekar að slíkir aðilar geti ekki samið við sjálfa sig eða sína um verk eða verðmæti – enda hafa forstjórar misst starfið fyrir þvíumlíkt. Ekki stenst heldur að þeir sem hafa komið að viðskiptum stjórni uppgjöri þrotabús eða öðru uppgjöri. 

 

Samningsfrelsi?

Ummæli efnahags- og viðskiptaráðherra í vikunni er hann var spurður um þessi mál – um að afskipti handhafa ríkisvalds af „launum“ á frjálsum markaði séu liðin tíð – virðast á misskilningi byggð. Annars vegar í ljósi vanhæfis samkvæmt ofangreindu; menn geta ekki samið við sjálfa sig eða tengda aðila. Hins vegar er ljóst að einhver sjálfstæður aðili þarf að

  • panta verk eða semja um það og
  • meta og samþykkja greiðslur fyrir það.

Almennt hljóta stjórnendur og kjörnir fulltrúar hjá ríki og sveitarfélögum að gæta þess að gerðir séu verksamningar – gjarnan og í stærri tilvikum að undangengnu útboði eða auglýsingu – um inntak og umfang verks; þar má ekki láta staðar numið því væntanlega er samið um heildarverð eða tímagjald og fjölda stunda eða áætlun um tímafjölda! Þetta geri ég jafnan – í smáu og einkum stóru – bæði sem almennur neytandi, stjórnandi o.s.frv. Á að gera minni kröfur til hins opinbera?

Samningsfrelsið er nefnilega tvíhliða – ekki einhliða; slíkt héti sjálftaka – og stenst ekki lög.

 

Reglan um sanngjarnt endurgjald

Í einhverjum tilvikum kann – af einhverjum ástæðum, í undantekningartilvikum og þá t.d. vegna hraða atvika – að hafa farist fyrir að semja um endurgjald fyrir verk; sem dæmi má nefna að kvöldið sem neyðarlögin svonefndu voru sett 6. október 2008 og nóttina á eftir gafst ekki tími til þess að semja um tímagjald við sérfræðinga sem skyndilega voru kallaðir til. Fljótlega í kjölfarið hefði hins vegar átt að ganga frá verksamningi – til lengri eða skemmri tíma. Ég trúi ekki að sjálftaka líðist án athugasemda meðan á verkinu stendur. Víða í íslenskum lögum er sú lagaregla staðfest sem hefur verið við lýði í aldir, kemur úr svonefndum Rómarrétti og er kennd við sanngjarnt endurgjald, precium justum; svona er hún t.d. í einum íslenskum lagabálki:

Ef kaup eru gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skal kaupandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti.

 

 Yfir 2000 ára gömul regla gleymd?

Þetta er ekki „bara“ einhver siðaregla; þetta er gildandi og bindandi lagaregla sem er að finna bæði í fjölmörgum lagabálkum og er einnig óumdeild sem óskráð meginregla. Hún gildir ekki aðeins í svonefndum neytendamarkaðsrétti. Stjórnendur – bæði hjá hinu opinbera og á frjálsum markaði – og ekki síður kjörnir fulltrúar eiga að þekkja þessa reglu – og framfylgja henni. Allir lögfræðingar, sem væntanlega gefa ólöglærðum stjórnendum og kjörnum fulltrúum ráð, þekkja þessa reglu. Ef ekki er farið eftir henni í samskiptum við verksala (t.d lögmenn og skilanefndir) framfylgja dómstólar henni ef málið er réttilega borið undir þá. Auk þess er þessi regla, sem sagt, búin að vera í gildi í yfir 200o ár og er kennd á fyrsta ári í lagadeild.

Ég segi bara:

Hvað er málið?

***

Sjá hér nýlega færslu um svipað efni:

http://eyjan.is/blog/2010/02/21/framferdi-jons-asgeirs-og-felaga-ohugsandi-an-studnings-logmanna-og-endurskodenda/

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.2.2010 - 23:58 - FB ummæli ()

Ármaður íhaldsins

Ármaður þýðir forystumaður eða samkvæmt orðabók „umboðsmaður konungs eða stórhöfðingja“ – væntanlega á hverjum stað. Það er því vel við hæfi að nýr forystumaður Sjálfstæðismanna hér í Kópavogi heitir Ármann Kr. Ólafsson.

 

Sjálfstæðismenn ákváðu breytingu á forystu

Um leið og ég óska honum til hamingju get ég ekki stillt mig um að benda á að þar með hafa Sjálfstæðismenn ákveðið með nokkuð afgerandi hætti að skipta um forystumann. Rúm 52% þátttakenda í prófkjöri þeirra greiddu Ármanni atkvæði sitt til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor. Um 40% kusu Gunnar I. Birgisson, fráfarandi oddvita listans. Aðra efst á listanum þekki ég flesta ágætlega og líst nokkuð vel á. Ármann hef ég þekkt í aldarfjórðung og af góðu einu.

 

Ný forysta til Framsóknar?

Báðir meirihlutaflokkarnir hljóta að vera í svolítilli vörn miðað við stöðu bæjarmála og einkum fjármála eftir þróun undanfarinna ára (sjá næsta pistil minn, á morgun). Eftir farsælt samstarf lengst af í 20 ár er þörf á að snúa vörn í sókn – eins og Sjálfstæðismenn hafa ákveðið nú. Spennandi verður að sjá hvort Framsóknarfólk ákveður líka að skipta um forystu fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor en prófkjör okkar fer fram eftir viku. Ég gef sem kunnugt er kost á mér sem oddviti í því skyni að gefa val um nýja forystu til Framsóknar.

 

Verður Framsókn aftur fyrst til að skipta alveg um forystu

Áhugavert verður að sjá hvað Framsóknarfólk gerir – því nú hafa stóru flokkarnir tveir, S-flokkarnir, valið sitjandi bæjarfulltrúa sem oddvita sinna lista. Ef enginn breyting verður á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs – eftir rétta viku eins og að líkum lætur er Framsóknarflokkurinn því eini flokkurinn af fjórum sem á þess kost að skipta alveg um forystu; þar erum við tveir sem skorum á hólm sitjandi oddvita, bæjarfulltrúa okkar. Hinir flokkarnir þrír stefna, sem sagt, fram með sitjandi bæjarfulltrúa sem oddvita.

 

Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem þessi gamli frjálslyndi flokkur okkar yrði fyrstur til umbóta; nýlegustu dæmin um það eru þegar Framsóknarflokkurinn var fyrsti flokkurinn eftir hrunið til þess að skipta alveg um forystusveit í janúar í fyrra er við kusum nýjan formann, nýjan varaformann og nýjan ritara – auk þess að leggja fyrst til stjórnlagaþing. Endurnýjuninni var haldið áfram í Reykjavík í nóvemberlok er farsælum oddvita okkar var skipt út fyrir annan ferskari; skyldi endurreisnin ná til Kópavogs?

 

Hverjum viltu vinna með?

 Ekki er úr vegi að birta hér spurningu oddvita Samfylkingarinnar í athugasemd frá í gær við færslu mína fyrir réttri viku og svar mitt:

Í lokin er ástæða til að spyrja oddvitaefni Framsóknarflokksins í Kópavogi: Með hverjum kýst þú að vinna að loknum kosningum í vor? Ætlar þú að feta í fótspor forvera þinna og horfa til vinstri fram að kjördag, en starfa svo til hægri?

Svar mitt var þetta:

Forsendan er að vísu röng, Guðríður, því é[g] þarf ekki að horfa til vinstri fyrir kosningar, sbr. ofangreindan bakgrunn minn – heldur bara beint áfram. Ég get unnið til hægri eins og þarf að vissu leyti vegna óráðsíðu undanfarinna ára, t.d. Glaðheima. Ég get og þarf líka að vinna til vinstri vegna hags fjölskyldna og ef vinstrimenn eigna sér siðbót. Vissulega skipta málefni miklu máli en í sveitarstjórn skipta ekki síður máli persónur og leikendur enda á orkan að fara í að vinna að hag bæjarbúa fremur en innbyrðis (jafnvel persónulegar) deilur. Ég er – ólíkt sumu núverandi forystufólki flokka í Kópavogi – fær um að vinna með öllum; sjáum til hvernig fer í kvöld hjá íhaldinu. Ármann hef ég þekkt af góðu einu í 25 ár og Gunnari hef ég reyndar góðar reynslu af samstarfi við sem fulltrúi lóðareigenda við Lindasmára (meira um það síðar). Þér gæti ég líka vel hugsað mér að vinna með Guðríður. Núverandi oddvita VG þekki ég minnst en hann er mikill hjólamaður eins og ég svo það lofar góðu.

Sjá nánar hér:

http://blog.eyjan.is/gislit/2010/02/13/enginn-er-domari-i-eigin-sok/#comment-31

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.2.2010 - 13:30 - FB ummæli ()

Tíu klukkustundir til stefnu – ef þú vilt taka þátt í samvinnufélaginu Kópavogi

Nú á miðnætti rennur út frestur til þess að skrá sig í Framsóknarflokkinn fyrir prófkjörið laugardaginn 27. febrúar.

 

„Sami rassinn undir þeim öllum“

Komist ég til forystu í Framsóknarflokknum mun misbeiting valds ekki líðast í Kópavogi. Hví skyldu lesendur vilja skrá sig í flokkinn – í þeirri trú að ég vilji breytingar? Svarið við slíkum spurningum má lesa í pistli mínum á hér á Eyjunni sl. miðvikudag, 17. febrúar.

 

Undanfarið hefur Kópavogur fetað sömu braut og Ísland almennt – og er dæmigerður fyrir okkur Íslendinga: uppbyggingin hefur farið of geyst – og í sumum tilvikum er hún án nægrar innistæðu. Það má laga eins og ég lýsi í þessum stutta pistli. Fleira þarf að laga í stjórn Kópavogsbæjar eins og ég hef lýst í pistlum mínum á hér.

 

Traust fjárhagsstjórn forsenda þjónustu

Ýmsu hefur verið áorkað í 20 ára stjórnartíð Framsóknarflokksins í Kópavogi; uppbygging innviða og þjónustu gekk vel og fjölskyldubærinn Kópavogur sinnir þörfum íbúa vel, t.d. með sundlaugum, félagsstarfi aldraðra og stuðningi við hin fjölmörgu íþróttafélög og annað tómstundastarf.

 

En hvernig skyldi þjónustuhlutverkið ganga í framtíðinni? Það fer ekki síst eftir því hvort fjárhagsstjórn verður traust, meiri samvinna næst við nágrannasveitarfélög Kópavogs og heilindi verða í störfum bæjarstjórnar.

 

Vinnum saman á fleiri sviðum

Framsókn hefur lengst af staðið fyrir samvinnu. Oft gleymist að sveitarfélag er fyrst og fremst samvinnufélag – samvinna við íbúa, nágrannasveitarfélög, atvinnulíf og ríkisvald. Ef sveitarfélög eiga ekki að fara sömu leið og nágrannasveitarfélag okkar á Álftanesi og ef íbúar vilja skoða aðra kosti en sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er aðalsmerki okkar Framsóknarfólks svarið: samvinna.

 

Ýmis ágæt dæmi eru um samvinnu milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, svo sem byggðasamlögin Strætó og Sorpa. Betur má ef duga skal í því efni. Einnig mætti fjölga málum sem við vinnum saman að því að leysa á hagkvæman hátt. Sem dæmi má nefna gamalt kosningamál Framsóknar: sundlaug í Fossvogi. Þá má spyrja hvers vegna Kópavogur þurfi sérstaka vatnsveitu. Enn fremur gætu falist tækifæri í samstarfi í félags- og velferðarmálum, t.d. um Félagsbústaði sem borgin rekur. Loks er öllum augljóst að aukin samvinna í skipulags- og umferðarmálum er brýn nauðsyn.

 

Endurreisum samvinnurekstur

Kópavogur gæti líka ýtt undir að samvinnufélög kæmu að félagslegum rekstri á borð við leikskóla og öldrunarþjónustu. Slíkt á frekar að vera í samfélagslegum rekstri en í einkarekstri eins og farið er að tíðkast.

 

 

Skráðu þig hér fyrir miðnætti ef þú vilt hafa áhrif á mannvalið: http://www.framsokn.is/Forsida/Taka_thatt

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.2.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Áskorun um breytingar í Kópavogi

Á morgun, föstudag 19. febrúar, rennur út frestur til þess að skrá sig í Framsóknarflokkinn fyrir þá sem vilja hafa áhrif á mannval í prófkjöri okkar Framsóknarfólks laugardaginn 27. febrúar nk. Þetta er ykkar persónukjör.

 

Traust

Ég býð mig fram til þess að leiða lista Framsóknarflokksins í bæjarstjórnarkosningum í vor. Þörf er á að efla forystu flokksins í Kópavogi og breyta starfsháttum í stjórn bæjarins. Til þess að slík breyting verði þurfa flokksfélagar að íhuga – hver fyrir sig – hvernig best sé að skipa 1. sætið svo að stjórn Kópavogsbæjar sé traust. Kosningarnar fela í sér tækifæri fyrir Framsóknarflokkinn – ef okkur tekst að ná trausti Kópavogsbúa.

 

Ég er fertugur þriggja barna faðir, fæddur í Noregi, sonur Tryggva Gíslasonar, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri, og Margrétar Eggertsdóttur, fyrrverandi grunnskólakennara. Ég er stúdent af íþróttabraut frá Danmörku, lögfræðingur og með MBA í mannauðsstjórnun. Undanfarin fimm ár hef ég verið talsmaður neytenda. Áður var ég í sjö ár framkvæmdarstjóri BHM og lögmaður. Ég hef búið í Kópavogi í áratug og verið í forystu í félögum foreldra, skógræktarfólks og lóðareigenda. Í 15 ár hef ég verið í Framsóknarflokknum og gegnt þar trúnaðarstörfum, nú síðast sem formaður laganefndar. Einnig átti ég frumkvæði að því að Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir stjórnlagaþingi.

 

Samvinna

Kraftar mínir geta nýst Kópavogsbúum – einkum reynsla mín af stjórnun, félagsstarfi og opinberum rekstri. Þá mun áralöng vinna mín að réttindamálum stúdenta, launafólks og neytenda nýtast í bæjarmálum þar sem sífellt þarf að forgangsraða í þágu grunnþjónustu, forvarnarstarfs og velferðar heimilanna. Í störfum mínum hef ég séð hversu mikilvægt er að leita lausna í samvinnu við fólk með ólík sjónarmið.

Hlutverk sveitarstjórnarfólks á miðju stjórnmálanna hefur aldrei verið mikilvægara. Sú skuldborg sem ríkisstjórn vinstriflokkanna hefur haldið heimilum og fyrirtækjum í eykur enn þörf á skilvirkni og gæðum opinberrar þjónustu fremur en að hækka frekar álögur á skattgreiðendur. Lykillinn að því er aukin þátttaka íbúa og samvinna í stað samkeppni milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu – ekki síst í skipulags- og samgöngumálum.

 

Heilindi

Ég býð ykkur öll velkomin til þess ræða af heilindum hverju þið teljið að þurfi að breyta í Kópavogi og kynnast áherslum mínum frekar. Kosningamiðstöðin er að Smiðjuvegi 6 (rauð gata) – gislit@ru.is, sími 517 07 04, GSM 897 3314. Lesa má um áherslur mínar á fasbók og á http://blog.eyjan.is/gislit/.

Ég vil hag Kópavogs sem mestan, mun sýna málefnafestu og starfa í hvívetna með hagsmuni Kópavogsbúa að leiðarljósi. Sækjum fram saman.

 

Grein sem birtist í Kópavogs-

póstinum / Framsýn í dag.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.2.2010 - 22:30 - FB ummæli ()

„Spyrjið þá, sem voru á vakt“

Þessi fleygu orð Bubba koma í hugann:

Ekki benda á mig, … Spyrjið þá, sem voru á vakt.

Deilt er um hvort kjörnir fulltrúar megi hafa geðsjúkdóm – og þurfi heilbrigðisvottorð. Hvað með siðspillingu – þurfum við ekki vottorð til þess að mega þjóna kjósendum? Svar mitt er:

Jú.

 

Ég er líka með tillögu um hvernig megi tryggja þetta – a.m.k. fram að alvöru stjórnlagaþingi.

 

Frá „búsáhaldabyltingu“ til stjórnlagaþings

Hvað hefur breyst frá búsáhaldabyltingunni? Þá tókst að koma duglausri ríkisstjórn S-flokkanna frá; í óformlegri könnun á www.visir.is í vikunni töldu 84% svarenda íslenska stjórnmálamenn þó enn „upp til hópa“ spillta. Ég er ekki hissa.

 

Reglur og aðhald – án afleiðinga

Kjörnir bæjarfulltrúar í þremur af fjórum flokkum í bæjarstjórn Kópavogs virðast halda að bara sá spilltasti beri ábyrgð á að trúnaðarmaður íbúanna, skoðunarmaður reikninga (en um leið helsti stuðningsmaður fyrrverandi bæjarstjóra og forystumaður í stærri meirihlutaflokknum), fékk að meðaltali 14 millj. kr. á ári í þóknun fyrir ýmis verk í fimm ár – alls yfir 70 millj. kr.; bæjarfulltrúar segja eitthvað á þessa leið:

Ég vissi þetta ekki, gat ekki vitað þetta; ég skoða ekki hvern reikning, rýni ekki í hverja krónu.

 

Þeir eru á villgötum; til hvers eru þá siðareglur, stjórnsýslueftirlit, fjölmiðlar og stjórnarandstaða?

 

Lausnin er til – fyrir aðra en stjórnmálamennina! 

Nú er að verða ár síðan íhaldið þæfði tillögu okkar Framsóknarfólks um stjórnlagaþing – sem vinstristjórnin féllst á en virðist nú hafa gefist upp á. Við munum koma á alvöru stjórnlagaþingi – en hvað á að gera þangað til?

Ég þekki af eigin reynslu að framkvæmdarstjóri á litlum vinnustað og forstöðumenn ríkisstofnana bera virkari ábyrgð en yfirmenn þeirra – kjörnir fulltrúar og ráðherrar.

 

Kerfi sem virkar – en ekki flöskuháls

Þegar ég var í sjö ár framkvæmdarstjóri í hagsmunasamtökum – með fremur fáa starfsmenn en nokkur hundruð milljón króna árlega veltu – reyndi ég að tryggja að kerfið væri þannig að fjáraustur væri útilokaður og spilling ekki til. Þó skoðaði ég ekki hvern einasta reikning sjálfur. Enn síður fóru sjö manna stjórn samtakanna eða sjálfsstæðar sjóðstjórnir yfir alla reikninga – en við komum á og héldum við kerfi sem virkaði og veitti aðhald.

 

Ríkisforstjórar bera virkari ábyrgð en ráðherrar

Ef forstöðumaður ríkisstofnunar eða annar embættismaður brýtur tilteknar reglur um fjárreiður eða þvíumlíkt víkur ráðherra honum úr embætti um stundarsakir. Þriggja manna nefnd rannsakar svo málið á nokkrum vikum og ákveður hvort hann geti snúið aftur eða víki varanlega úr embætti. Þetta þekki ég vel enda hef ég nokkrum sinnum setið sem fulltrúi ríkisstarfsmanna í slíkri úrskurðarnefnd og kveðið upp úrskurð í slíkum málum.

Ég legg til að við látum ekki sitja við tómar siðareglur og yfirlýsta ábyrgð á nýja Íslandi. Ég hef fengið þá spurningu hvers vegna kjósendur skyldu frekar treysta mér en hinum – enda þekkja ekki allir störf mín og bakgrunn. Ég fengið að heyra:

Við viljum ekki loforð – við viljum virka ábyrgð.

 

Framsóknarflokkurinn hefur komið sér upp siðanefnd. Kópavogsbær hefur sett kjörnum fulltrúum siðareglur. Enn vantar virknina í kerfið. Fyrirmyndin er þó til eins og ég lýsti hér að ofan. Ekki gengur að næsti „undirmaður“ ráðherra beri virkari ábyrgð en ráðherrann.

 

Úrskurðarnefnd kjósenda

Ég legg til eftirfarandi lausn:

Ef kjörinn fulltrúi er sakaður um misbeitingu valds, spillingu eða annað, sem kjósendur eiga að geta treyst að viðgangist ekki en geta ekki gengið sjálfir úr skugga um, taki sjálfstæður aðili málið til úrlausnar.

Þetta gæti t.d. verið þriggja manna nefnd eins og reynst hefur ágætlega í tilviki embættismanna ríkisins sem ég lýsti hér að ofan. Þá er kannski aukaatriði hvort nefndin er kölluð úrskurðarnefnd, málskotsnefnd, siðanefnd eða annað og hvernig hún er skipuð – svo fremi að nefndarfulltrúar eru sjálfstæðir og koma úr ólíkum áttum. Fulltrúar þurfa að hafa forsendur til þess að (endur)meta gjörðir eða athafnarleysi hins kjörna fulltrúa. Ekki er heldur aðalatriði hvort slík nefnd er á vegum hvers flokks, hvers sveitarfélags, samtaka sveitarfélaga eða – í tilviki Alþingis – á vettvangi þingsins. Fyrirmyndir má finna víða erlendis, t.d. á þingi Bandaríkjanna. Þegar stjórnlagaþing kemur saman er unnt að hafa eina nefnd fyrir alla kjörna fulltrúa ef vilji stendur til.

 

Pólitísk ábyrgð verði skjótvirkari en lagaleg ábyrgð

Slíkur pólitískur úrlausnaraðili þarf að vinna hratt og örugglega – hraðar en það tekur að koma fram lagalegri ábyrgð á hruninu; nú hefur rannsóknarnefnd Alþingis starfað í rúmt ár. Þegar skýrsla hennar liggur fyrir eftir fáar vikur þarf Alþingi að taka afstöðu til þess hvort ráðherrar verði ákærðir – og Landsdómur að dæma. Það getur tekið ár í viðbót eða fleiri ár – enda er þar um lagalega ábyrgð að ræða.

Nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar (http://www.althingi.is/altext/138/s/0676.html) um siðareglur nær aðeins til starfsmanna ráðuneyta en gerir að vísu ráð fyrir að forsætisráðherra setji ráðherrum – en Landsdómur á að dæma um það; það er alltof seinvirkt.

Ég er að leggja til skjótvirkara og viðurhlutaminna kerfi varðandi pólitísku ábyrgðina sem kjörnir fulltrúar bera. Aðalatriðið er að endurvinna traust kjósenda; annað er aukaatriði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.2.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Misbeiting valds

Ein tegund spillingar eða misbeitingar valds felst í að skara eld að eigin köku eða til handa vinum eða vandamönnum. Um það nefndi ég gróft dæmi um úr Kópavogi í pistli mínum sl. laugardag. Ég benti þó einnig á nýjar siðareglur fyrir stjórnendur og kjörna fulltrúa Kópavogsbæjar – sem eiga að fyrirbyggja spillingu í framtíðinni eins og þörf er á.

 

Pólitísk misnotkun valds vitaskuld einnig bönnuð

Önnur tegund spillingar er misbeiting valds – öðrum til tjóns, stundum nefnd valdníðsla. Siðareglurnar taka ekki eins skýrt á slíku, t.d. hótunum gagnvart stjórnendum eða starfsmönnum bæjarfélags eða trúnaðarmönnum íþróttafélaga í pólitískum tilgangi. Þó að æskilegt væri að siðareglurnar tækju beinlínis á slíku til þess að ná betur yfir sviðið ætti það í raun að vera óþarft því óskráðar og settar lagareglur leggja skýrt bann við misbeitingu valds til þess að ná flokkspólitískum hagsmunum eða persónulegum pólitískum ávinningi.

 Vil ég nefna nokkur dæmi til áréttingar.

 

Valdníðsla 

Óskráðar reglur stjórnsýsluréttar banna svonefnda valdníðslu, þ.e. að vald sé notað í öðru skyni en til þess að ná fram lögmætu markmiði. Afleiðing af valdníðslu getur verið ógilding ákvörðunar eða skaðabætur.

 

 Hótun í pólitískum tilgangi

Þá er atvinnurekendum, stjórnendum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stjórnmálaflokkum með

uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn

eða

fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.

Brot gegn þessu geta varðað sektum og skaðabótum en athyglisvert er að þessar lagareglur hafa verið óbreyttar frá 1938 er sett voru lög til þess að verja hagsmuni launafólks gegn ofríki atvinnurekenda.

 

Kosningamútur og hótanir

Einnig er lagt bann við því í lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna að múta eða hóta, þ.e.

ef maður ber fé eða fríðindi á mann eða heitir manni fé eða fríðindum til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, eða ef maður sviptir mann eða ógnar manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni,

 en slíkt varðar refsingu, yfirleitt sektum.

 

Önnur misbeiting valds

Loks er í XIV. kafla almennra hegningarlaga í nokkrum greinum lögð refsing við ýmis konar misbeitingu valds af hálfu opinberra starfsmanna, t.d. að neyða einhvern til einhvers.

 

Brot verða að hafa afleiðingar

Þessi dæmi nefndi ég m.a. til þess að sýna að til eru ágætar reglur sem eiga að hindra spillingu eða misbeitingu valds – hvort sem er sér og sínum til hagsbóta eða öðrum til tjóns. Ástæða þess að slíkar reglur eiga að virka er m.a. að brot gegn þeim getur haft afleiðingar – eins og ég tiltók – einkum:

  • ógilding,
  • skaðabætur eða
  • refsing.

 

Þessi dæmi má hafa í huga þegar aðrar reglur koma til skoðunar sem ekki eru að virka nægilega vel – vegna þess að litlar eða engar afleiðingar eru af því að brjóta þær.

Um það ætla ég að fjalla í næsta pistli mínum hér, á morgun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Mánudagur 15.2.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Hver hagnast á skutlinu?

Enn setja foreldrar fram þá spurningu hvers vegna þurfi að rjúfa vinnudaginn síðdegis til þess að skutla yngri börnum fram og til baka milli hverfa í íþróttir og aðrar tómstundir. Í kjölfarið koma svo tímar fyrir eldri börn og rjúfa heimilisfriðinn í stað þess að fjölskyldan eigi þess kost að safnast saman að loknum vinnudegi flestra.

 

Lausn á þessu vandamáli er eitt af því sem ég set á oddinn í prófkjörsviðureign í febrúar um fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í Kópvogi í vor.

 

Enginn hefur hag af sífelldu rofi

Ljóst er að núverandi fyrirkomulag er engum í hag – nema ef vera skyldi bensínsölum. Atvinnurekendur hafa ekki hag af því að starfsmenn – sem búa ekki alltaf nærri vinnustað – séu sífellt að skreppa frá vinnu til að sinna erindum á borð við að skutla börnum. Yngri börn njóta yfirleitt ekki góðs af því að þeirra „vinnudagur“ sé rofinn þannig að eftir skóla komi töf og svo komi skutl í kjölfarið; betra er fyrir þau að ljúka skipulögðu skóla- og tómstundastarfi á svipuðum tíma og vinnudegi foreldra lýkur og eigi svo óslitnar samverustundir með þeim í kringum matmálstíma. Foreldrar hafa ekki hag af því að draga úr vinnuafköstum og samfellu áður en vinnudegi lýkur enda dregur það úr framleiðni þeirra og þar með mögulegu sannvirði launa og getur seinkað vinnulokum eða flutt vinnuna heim í stofu að kvöldi í stað þess að eiga frí þegar heim er komið. Við Íslendingar þurfum að huga að leiðum til þess að auka framleiðni í öllum greinum. Sérstaklega bitnar þetta á konum þar sem mæður bera enn frekar meginþunga ábyrgðar á heimili og börnum þrátt fyrir ýmsar umbætur á undanförnum árum – einkum í kjölfar laga um fæðingarorlof fyrir 10 árum sem ég tók virkan þátt í að semja og koma á í fyrra starfi. Þá verður ekki séð að sveitarfélagið eða stofnanir þess, t.d. grunnskólarnir hagnist á þessu sundurslitna fyrirkomulagi enda gæti ein lausnin beinlínis falið í sér tekjumöguleika fyrir lítt nýttar almenningssamgöngur. Loks veit ég ekki til þess að íþróttafélög hafi hagsmuni af því að yngri börnin séu í þjálfun svo seint enda ætti breyting fremur að gagnast hinum eldri að loknum vinnudegi þeirra. Ekki þarf að ræða óhagræðið sem umferðarmannvirki og umhverfi hafa af þessu fyrirkomulagi okkar íbúa í Kópavogi og nágrenni.

 

Markmiðið er skýrt: samfella; lausnin er til umræðu

Fyrirfram vil ég ekki gefa mér að ein lausn sé betri en önnur – hvað þá sú eina færa – heldur vil ég í sönnum samvinnuanda setja fram skýrt markmið um samfellu í þágu barna, foreldra, atvinnurekenda og annarra hagsmunaaðila. Ein lausnin, sem nefnd hefur verið, er frístundaakstur eins og kynntur hefur verið af hálfu varaborgarfulltrúa í Reykjavík og þegar hefur verið hrint í framkvæmd í Hafnarfirði í samvinnu við nokkur lykilfyrirtæki þar í bæ. Önnur lausn tíðkast í Skandinavíu – frístundaheimili sem sér um að koma börnum frá skóla í íþróttir og aðrar tómstundir. Þriðja lausnin gæti verið eitthvað á þá leið að sveitarfélagið Kópavogur hefði forgöngu um að foreldrar, skólastjórnendur og ekki síst forsvarsaðilar íþróttafélaga og annarra, sem bjóða upp á tómstundir með stuðningi bæjarins, kæmu saman og fyndu lausn fyrir tiltekinn tíma, svo sem að ræða hvort ekki megi skipuleggja íþróttaþjálfun yngri barna í auknum mæli í eða nærri skólahúsnæði strax að loknum skóladegi þeirra. Þá gætu eldri börn, unglingar og fullorðnir nýtt tímann síðdegis og í kringum kvöldverð betur.

 

Samráð við foreldra lykilatriði

Ég legg mikla áherslu á samráð við hagsmunaaðila í öllum málum sem ég á þátt í að ráða til lykta og tel samtök foreldra lykilaðila í þessu sambandi enda hef ég góða reynslu af slíku foreldrasamstarfi frá því að ég var meðal stofnenda og fyrsti formaður foreldrafélags nýs leikskóla hér í Kópavogi fyrir tæpum áratug.

 

Enginn hagnast á núverandi fyrirkomulagi; samvinnulausn í anda markmiðs um samfellu gagnast öllum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.2.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Kynjakvóti og mismunun örvhentra

Í tengslum við niðurstöður prófkjara þessar vikurnar vakna oft spurningar um kynjaskiptingu og jafnvel kynjakvóta. Í fyrra starfi mínu hjá heildarsamtökum háskólamenntaðs launafólks, BHM – þar sem meirihluti félagsmanna er konur – vann ég í nær sjö ár að því að rétta hlut kvenna. Stærsti áfanginn í því var þegar fallist var á kröfu BHM varðandi ný lög um launatengt fæðingarorlof. Þá féllust stjórnvöld ekki aðeins á kröfu okkar um formlegt jafnrétti milli kynjanna. Þrír mánuðir skyldu koma í hlut móður og þrír mánuðir í hlut föður en þrír mánuðir vera til skiptanna milli foreldra. Einnig var tekið undir það meginatriði í málflutningi okkar að hluti föður yrði bundinn við hann.

 

Krafa um að fæðingarorlof föður væri bundið við hann var ekki aðeins af umhyggju við blessuð börnin, sem eiga rétt á jöfnum samvistum við feður frá fæðingu. Þetta skilyrði af hálfu heildarsamtaka launafólks var heldur ekki einungis sett til þess að leiðrétta hlut feðra – sem fram að því höfðu oft farið á mis við þá einstöku reynslu að hugsa um börn sín frá blautu barnsbeini.

 

Raunverulegt jafnrétti á vinnumarkaði – og heima

Ein aðalástæðan fyrir bundnum hlut feðra var sú að við vildum jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði – með því að feður yrðu jafn ”óöruggur” vinnukraftur og konur á barnseignaraldri. Örfáar raddir töldu – réttilega – að við og stjórnvöld værum með þessari reglu að skerða frjálst val eða samningsfrelsi foreldranna innbyrðis um verkaskiptingu. Við töldum á hinn bóginn mikilvægara að kjör kvenna næðu þannig fremur sannvirði og yrðu því fyrr jöfn kjörum karlanna sem höfðu fram að því betri kjör – m.a. í krafti meiri sveigjanleika og ”öryggis” frá óvissu vegna barna og vegna ábyrgðar á heimili. Þetta tókst – jafnvel þó að enn sé nokkuð í land og enda þótt enn nýti konur frekar þá þrjá mánuði sem foreldrar geta skipt á milli sín. Það breytist ekki fyrr en ábyrgðin verður jafnari á heimilinu líka.

 

Hví kynjakvóti?

En hvað með kynjakvóta? Sumir telja – eins og í feðraorlofsmálinu – að kynjakvótar feli í sér óhæfileg afskipti af frjálsu vali og segja að konur eigi að komast áfram á eigin verðleikum – rétt eins og verðleikaleysi sé ástæða ójafnréttis í garð kvenna hingað til! Ég hef verið fylgjandi kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga og hef rökstutt þá skoðun mína opinberlega. Þá er það engin tilviljun að ég hef í 15 ár verið félagsmaður í stjórnmálaflokki sem hefur um árabil haft það í lögum sínum að við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista hans skuli hlutur hvors kyns ekki vera lægra en 40% nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu. Sem formaður laganefndar Framsóknarflokksins hef ég tekið þátt í að framfylgja þessari skýru reglu okkar Framsóknarfólks.

 

Virkar aðgerðar – þær virka

Í stuttu máli tel ég ekki hægt að bíða önnur 50 ár eftir jafnrétti – en u.þ.b. hálf öld er nú liðin frá því að löggjafinn hóf regluleg afskipti af kynja(ó)jafnrétti með því að setja lög um jöfn laun og jöfn réttindi karla og kvenna; slík lög dugðu skammt þegar félagslegur veruleiki kvenna á heimili og á vinnumarkaði hélst að mestu óbreyttur. Á næsta ári eru að vísu 100 ár frá því að sett voru lög um jafnan rétt kvenna og karla sem lykju embættisprófi frá Háskóla Íslands enda á hann aldarafmæli 2011. Við lögfræðingar vitum hins vegar af eigin reynslu að almenn lagasetning dugar ekki ein og sér; virkari aðgerðir þarf til.

 

Fæðingarorlof feðra er vel heppnuð aðgerð sem þegar er farin að virka – eins og ég gerði ráð fyrir þegar ég tók þátt í að berjast fyrir þeim og semja um inntak og texta laganna í mjög góðu samráðsferli sem stjórnvöld áttu þá við fulltrúa launafólks. Enn er þó nokkuð í land til þess að jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði og heima fyrir.

 

Kynjakvóti í þágu betra samfélags

Kynjakvóti er önnur slík virk aðgerð – sem ég styð. Stundum heyrir maður þá mótbáru frá andstæðingum virkra aðgerða til þess að ná jafnrétti: hvers vegna er þá ekki settur kvóti fyrir sköllótta eða fyrir örvhenta o.s.frv.? Svarið við því er einfalt. Kynjakvóti er settur eins og aðrar virkar aðgerðir eru ákveðnar til þess að rétta hlut hópa sem hafa – t.d. af félagslegum ástæðum – ekki notið fulls jafnréttis eins og saga 20. aldar geymir fleiri dæmi um.

 

Ég veit ekki dæmi þess að sköllóttum eða örvhentum hafi sem hópi verið mismunað kerfisbundið eða óbeint. Ég þekki hins vegar – bæði af eigin stjórnunarreynslu og námi mínu í mannauðsstjórnun – að konur eru ekki ávallt metnar að verðleikum en eru þó ekki síður hæfir starfsmenn og stjórnendur. Auk þess hafa konur almennt eiginleika sem karlar hafa yfirleitt ekki. Þessir eiginleikar mega ekki missa sín – eins og við höfum orðið áþreifanlega vör við hér á Íslandi.

 

Þetta – og annað sem hvílir á konum – vil ég gjarnan ræða frekar við þær sjálfar í konukaffi á bolludag, á morgun, mánudag 15. febrúar, kl. 17:15, á kosningamiðstöð minni að Smiðjuvegi 6 (rauð gata). Verið velkomnar.

 

Framsókn í forystu

Þess má til gamans geta að þegar lög um fæðingar- og foreldraorlof voru sett var félagsmálráðherra, sem flutti málið á Alþingi, framsóknarmaðurinn Páll Pétursson.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.2.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Enginn er dómari í eigin sök

Að gefnu tilefni vil ég gera grein fyrir gráum svæðum – og svörtum – að því er varðar hagsmunaárekstra – m.a. hér í Kópavogi.

 

Frá því að ég hóf laganám fyrir um 20 árum hefur mér verið sérlega umhugað um að greina á milli andstæðra hlutverka og gæta þess að ekki komi upp hagsmunaárekstrar – hvorki hjá mér né öðrum. Sumum félögum mínum hefur reyndar stundum þótt ég vera „kaþólskari en páfinn“ í slíkum efnum en mér finnst betra að vera ekki á gráu svæði. Í öllum störfum mínum síðan hef ég leitast við að gæta þessa. Gildir það hvort sem er í kjörnum félagsstörfum – nú síðast sem formaður laganefndar Framsóknarflokksins undanfarin ár – eða í launuðum störfum – svo sem nú sem talsmaður neytenda sem er embætti sem ég hef gegnt um nær fimm ára skeið. Hef ég því vikið úr sviðsljósi þessara hlutverka fram að prófkjöri okkar Framsóknarfólks í Kópavogi sem er eftir réttar tvær vikur, 27. febrúar nk. Sjálfur get ég auðvitað ekki metið hvort mér hefur alltaf tekist að forðast hagsmunaárekstra eða vantraust en víst er að í störfum mínum sem framkvæmdarstjóri og lögmaður BHM og svo sem talsmaður neytenda í yfir áratug samtals hef ég nokkrum sinnum vikið sæti að eigin frumkvæði vegna svonefndra vanhæfissjónarmiða eins og sjálfsagt er, t.d. þegar bræður mínir hafa átt hlut að máli sem ég kem að álitsgerð um.

 

Skýringar á sérstöðu

Ekki veit ég hvort það er vegna uppeldis, lagamenntunar eða langdvalar í Danmörku að ég hef þessa sýn – sem mér hefur oft þótt skorta á hér á Íslandi. Nú sjá þetta margir í öðru ljósi – eftir hrunið, því miður. Slík sjónarmið þykja sjálfsögð í ríkjum sem við viljum bera okkur saman við. Ég hefði haldið að sátt væri um að maður getur ekki gætt andstæðra hagsmuna á sama tíma – enda segir gamalt íslenskt máltæki að enginn sé dómari í eigin sök.

 

Þó eru enn mörg – og sum gróf – dæmi um frávik frá eðlilegum hæfis- og traustsjónarmiðum áberandi á Íslandi. Vonandi er það vegna skemmri reynslu okkar af borgaralegu samfélagi en ekki inngróinnar siðvillu hjá okkur Íslendingum. T.a.m. er aðeins hálfur annar áratugur síðan settar lagareglur tóku gildi um svokallað vanhæfi en áður áttu lögfræðingar að þekkja óskráðar lagareglur um það efni. Nýlega varði dr. Páll Hreinsson, nú hæstaréttardómari og sem stendur formaður Rannsóknarnefndar Alþingis, afar ítarlega og trausta doktorsritgerð um hæfisreglur stjórnsýslulaga. Því horfir þetta vonandi til betri vegar.

 

Fasteignasali á að gera hið ómögulega

Eitt dæmi vil ég fyrst nefna sem ég hef áður vakið athygli á. Lengi hefur mér þótt hæpið að sami aðilinn, maðurinn, sérfræðingurinn, atvinnurekandinn gæti andstæðra hagsmuna tveggja í stærstu viðskiptum flestra á lífsleiðinni. Þó er það þannig hér á landi að þegar eigandi fasteignar vill selja hana velur hann sérfræðing til þess að miðla henni en sá er oftast nefndur fasteignasali. Sá sem sýnir áhuga verður a.m.k. óbeint fyrir þrýstingi um að þiggja ráðgjöf frá sama sérfræðingi og er jafnvel settur í þá aðstöðu að neyðast til að greiða honum þóknun fyrir tiltekna umsýslu. Lög um fasteignaviðskipti og starfsemi svonefndra fasteignasala og allt umhverfi þeirra viðskipta og slíkrar starfsemi ýta á væntanlegan kaupanda að láta bjóða sér þetta – enda þótt ekkert sé í sjálfu sér því til fyrirstöðu að hugsanlegur kaupandi leiti sér sérfræðiráðgjafar annars staðar eins og ég hef jafnan gert í slíkum tilvikum. Báðir aðilar málsins (og sérfræðingurinn) hafa að vísu þá hagsmuni sameiginlega að samningur takist en hagsmunir þeirra eru að öðru leyti andstæðir; kaupandinn vill væntanlega fá eignina á sem hagstæðustum kjörum og seljandi vill fá sem hæst verð og skjóta greiðslu fyrir. Við það bætast andstæðir hagsmunir varðandi skoðun fasteignar, ástand hennar o.s.frv. Þetta kannast margir við af eigin reynslu þegar á reynir – eftir að ágreiningur rís; þá gætir fasteignasalinn vitaskuld frekar hagsmuna þess sem réð hann til starfa og greiðir honum þóknun.

 

Löggjafinn hefur hingað til látið nægja að kveða á um að fasteignasali eigi að leitast við að gæta réttmætra hagsmuna beggja – sem er ómögulegt ef þeir eru andstæðir. Ég hef vakið athygli á þessum vanda og til eru sérfræðingar á sviði fasteignaviðskipta sem eru tilbúnir til þess að veita væntanlegum kaupendum óháða ráðgjöf og aðstoð við þessi mikilvægu og vandasömu viðskipti.

 

Fjögur dæmi úr Kópavogi

Í tilefni af framboði mínu til oddvitasætis í prófkjöri 27. febrúar nk. fyrir lista Framsóknarflokksins í kosningum til bæjarstjórnar Kópavogs í vor vil ég halda uppteknum hætti. Því vil ég hér á eftir nefna fjögur nýleg dæmi er tengjast þessu álitamáli um hagsmunaárekstra í stjórn Kópavogsbæjar – bæði fyrirbyggjandi reglur, síðbúnar lausnir, kerfisbundinn annmarka og gróft brot á hæfissjónarmiðum.

  1. Siðareglur kjörinna bæjarfulltrúa og stjórnenda hjá Kópavogsbæ. Fyrst vil ég nefna siðareglur sem Kópavogur hefur – fyrstur íslenskra sveitarfélaga – sett sér og einkum sínum stjórnendum, kjörnum sem ráðnum. Þær voru samþykktar 12. maí í fyrra og eru einfaldar og skýrar í 14 greinum og verða vonandi til þess að fyrirbyggja frekar en hingað til hagsmunaárekstra og spillingu í stjórn og fjármálum Kópavogsbæjar. Það er til fyrirmyndar.
  2. Stjórnarfyrirkomulag Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Nýverið sömdu stjórnir Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK) og Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) um að LSS tæki við rekstri LSK. Ég þekki vel til LSS enda var hann stofnaður sama ár og ég tók við sem framkvæmdarstjóri Bandalags háskólamanna 1998 en BHM, var einn stofnaðila LSS. Var ég þar varafulltrúi í stjórn um skeið. Fylgdist ég því vel með uppbyggingu LSS og rekstri fyrstu sjö árin. Nokkrir eldri lífeyrissjóðir sveitarfélaga sömdu fljótt við LSS um rekstur auk þess sem nýir starfsmenn eiga beina aðild að LSS. Illu heili var það ekki gert af hálfu LSK en þá hefði e.t.v. mátt forðast misfellur og hugsanleg lögbrot af hálfu stjórnenda hans – sem voru sumir báðum megin borðsins þó að sami maður geti að mínu mati t.a.m. ekki verið bæði bæjarfulltrúi og fulltrúi starfsmanna í stjórn. Eins og kunnugt er er starfsemi LSK og stjórn undir opinberri rannsókn eftir að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við reksturinn, vék stjórn LSK frá og tók yfir stjórn sjóðsins um mitt ár í fyrra en í kjölfarið voru stjórn og framkvæmdarstjóri LSK kærð til lögreglu fyrir brot á lögum í kjölfarið; ég hef ekki upplýsingar um hver staða þess máls er nú.
  3. Háttsettir stjórnendur bæjarins sitja í bæjarstjórn.  Eitt af því sem ég hef undrast mest eftir að ég flutti í Kópavoginn fyrir um 10 árum og hóf að taka þátt í félagsstarfi og fylgjast með bæjarmálum er að nær helmingur ellefu manna bæjarstjórnar er í vinnu hjá sjálfum sér. Ekki er aðeins um að ræða almenna bæjarstarfsmenn eins og vart verður komist hjá – einkum í smærri sveitarfélögum en Kópavogur er reyndar stærsti bær landsins, með yfir 30.000 íbúa, fjölmennasta sveitarfélagið á eftir sjálfri höfuðborginni. Vitaskuld er hvorki rétt né fært að banna opinberum starfsmönnum að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa í sínu sveitarfélagi en kannski þarf einhverja frekari umræðu hvar mörkin liggi í þessu efni. Staðan hjá Kópavogi undanfarið kjörtímabil var sú að þrír af fjórum flokkum, sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs, eru með bæjarfulltrúa sem samtímis eru hátt settir stjórnendur eða millistjórnendur hjá bænum! Ímyndið ykkur hvort ekki myndi heyrast hljóð úr strokki ef sviðsstjórar hjá Reykjavíkurborg væru samtímis borgarfulltrúar eða ráðuneytisstjórar sætu á Alþingi. Eigum við Kópavogsbúar eitthvað síðra skilið?
  4. Skoðunarmaður skoðar (ekki) eigin mál. Grófasta dæmið er nýtt – nei; afsakið – það er nýframkomið í fjölmiðlum en hefur varað við árum saman en af einhverjum ástæðum kemur það ekki í DV fyrr en í gær og á forsíðu Fréttablaðsins í dag – viku fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Kópavogi. Þar kemur fram að skoðunarmaður reikninga hjá Kópavogsbæ – og jafnframt einn helsti stuðningsmaður fyrrverandi bæjarstjóra – hafi á fimm árum þegið yfir 70 millj. kr. í greiðslur fyrir rúmlega 70 verk. Þetta gengur ekki lengur – eða réttara sagt: svona hefur aldrei gengið. Ekki er fært að segja – eins og einhverjir gera í Fréttablaðinu í dag – „ég vissi þetta ekki.“ Í þessu máli hafa allir brugðist – bæjarfulltrúar meirihluta og minnihluta, stjórnendur, fjölmiðlar og við í baklandinu. Vonandi bregðast kjósendur ekki – sjálfum sér sem skattgreiðendum og börnum sínum.

 

Færum til betri vegar 

Vonandi verða umræður um þessi mál til þess að bæði Ísland í heild og stjórn Kópavogsbæjar færist til betri vegar í þessu efni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Föstudagur 12.2.2010 - 14:45 - FB ummæli ()

Með Blik í augum

Fyrsta minning mín frá Kópavogi – frá því fyrir um 30 árum – er sjónræn. Ég hafði gengið upp frá Kársnesbraut – þar sem frænka mín bjó í áratugi og ég heimsótti nær árlega er við ókum „suður“ á sumrin frá heimabæ mínum, Akureyri. Eftir að hafa gengið nærri klöppunum við Kópavogskirkju og túninu, þar sem nú standa menningarhús á borð við safnaðarheimilið, Gerðarsafn, Salinn, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Bókasafn Kópavogs, stóðum við frændurnir og horfðum niður í Smárann. Þar var allt grænt – enda þykir mér vænt um þessa minningu.

 

Fögnum sextugsafmæli Breiðabliks

Það voru ekki aðeins engin sem voru græn og óbyggðar hlíðarnar á móti þar sem nú eru Smárahverfi, Lindahverfi og Salahverfi og enn nýrri hverfi uppaf. Niðri á vellinum hlupu græn- og hvítklæddir krakkar: Blikar – sem eiga afmæli í dag, 12. febrúar 2010. Til hamingju Breiðablik; hafið þökk, Blikar, fyrir allt sem þið hafið gert fyrir Kópavogsbúa undanfarin 60 ár; Kópavogur er grænni og vænni fyrir vikið.

 

Kynni mín af Breiðablik

Frændi minn var – eins og flestir Kópavogsbúar á þeim tíma, einkum í grónari hverfum – stoltur Bliki; HK var þá aðeins 10 ára gamalt félag en ég tók einmitt þátt í að fagna 40 ára afmæli þess öfluga félags fyrir þremur vikum. Aldarfjórðungi eftir þessa upphafsminningu mína af Blikunum grænu kynntist ég Breiðabliki fyrir alvöru og af eigin raun. Ég hafði reyndar í kringum aldamótin 2000 – skömmu eftir að ég flutti í Kópavoginn – verið beðinn um það af gömlum kunningja að taka að mér formennsku í Breiðabliki en taldi að stúdentspróf af íþróttabraut og reynsla af félagsmálum væri ekki nægilega breiður bakgrunnur til þess að taka að sér það mikilvæga trúnaðarstarf. Því var það þegar sonur minn var enn í leikskóla að ég fór að fylgja honum á völlinn og kynntist bæði Breiðabliki og boltanum á nýjan hátt. Frá unglingsárum hafði ég að vísu um árabil verið blaðaljósmyndari á Akureyri og myndað ófáa handknattleiks- og knattspyrnuleiki og aðrar íþróttir en lítið stundað þær sjálfur.  Segja má að sjónarhorn mitt á íþróttir framan af ævi hafi að mestu verið fræðilegt og fréttatengt.

 

Ég átti eftir að sjá aftur þetta blik í augum iðkenda sem ég minnist er frændi minn sagði mér stoltur frá afrekum Blikanna þegar við gengum niður í Smárann um árið.

 

Áfram Breiðablik!

Því kom það mér jafnvel meira á óvart en fólkinu í kringum mig þegar ég – algerlega upp úr þurru og í fyrsta skipti á ævinni – hrópaði upp á knattspyrnuleik úr eins manns hljóði eftir að hafa hvatt son minn með nafni:

 

Áfram Breiðablik!

 

Síðan hef ég – bæði í Breiðablik og öðrum íþróttafélögum og í fjölbreyttum íþróttagreinum – fylgt börnunum þremur á ótal æfingar, keppnisleiki og íþróttamót víða um land. Þetta hefur ekki aðeins verið ómetanlegur þáttur í þroska barna minna – heldur ný og skemmtileg reynsla fyrir mig, nýtt foreldri og nýbúa til 10 ára í Kópavogi. Þar hef ég ekki aðeins kynnst nýjum greinum, keppnisanda, félagsstarfi og félögum barnanna heldur fjölda foreldra og eldhuga sem stýra íþróttastarfinu og styðja það með ráðum og dáð. Þar sem ég bjó fyrst í Smárahverfi kemur ekki á óvart að þáttur Breiðabliks er þar stærstur. Íþróttastarfið er einn veigamesti þátturinn í að skapa tryggð við hverfið sitt og trausta umgjörð um lífið í hverjum bæ. Hafið þökk fyrir Blikar;

 

áfram svona!

Flokkar: Íþróttir · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur