Sunnudagur 18.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Friðhelgi alþingismanna (49. gr.)

Í 49. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Ekki má setja alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða sakamál á hendur honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.

Alþingismaður verður ekki krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.

Alþingismanni er heimilt að afsala sér friðhelgi.

Óbreytt efnislega

Ákvæðið er algerlega sama efnis og gildandi stjórnarskrá að öðru leyti en að þingmanni er nú heimilað í 3. mgr. – án þess að Alþingi allt veiti atbeina sinn til þess – að afsala sér þessari „friðhelgi.“

Um 1. mgr.

Um 1. mgr. er það að segja að aðeins þessar tvær ráðstafanir eru óheimilar gagnvart alþingismanni:

  • ákæra í sakamáli
  • gæsluvarðhald við rannsókn sakamáls.

Samkvæmt þessu er málshöfðun í einkamáli í fyrsta lagi vitaskuld heimil hverjum sem er gagnvart þingmönnum sem öðrum – enda er um að ræða vernd gegn hugsanlegu ofríki handhafa framkvæmdarvalds (áður konungsvalds) en ekki frávik frá jafnræði þegnanna; sögulegar ástæður eru fyrir þessu – sem kunna að hafa minna vægi eftir að sjálfstæði dómstóla og einkum handhafa ákæruvalds var aukið.

Það að vera „staðinn að“ glæp bera að skilja bókstaflega – t.d. maður sem gengur út úr bú með fullt af gripdeildargóssi, að öðrum ásjáandi.

Í öðru lagi eru aðrar rannsóknarráðstafanir í sakamálarannsókn en gæsluvarðhald ekki berum orðum bannaðar; að mínu mati er handtaka þingmanns samkvæmt þessu augljóslega heimil eftir almennum reglum. Á hinn bóginn hef ég haldið því fram að símhlerun gagnvart þingmönnum sé stjórnarskrárbrot samkvæmt rýmkandi túlkun á þessu ákvæði.

Hvað varðar hugtakið „glæp“ er það að segja að það er í lögfræði skilið sem meiriháttar ásetningsbrot gegn almennum hegningarlögum; sem dæmi má nefna rán eða morð. Á hinn bóginn væri ekki hægt að setja alþingismann í gæsluvarðhald vegna gruns um skattsvik.

Um 2. mgr.

Ákvæðið sem verndar alþingismenn fyrir því að standa reikningsskap „utan þings“ fyrir orð sín „í þinginu“ er rakið til þrískiptingar ríkisvaldsins; hugsunin er sú að dómstólar (eða andstæðingar þingmanna með aðstoð þeirra) eigi ekki að geta klekkt á þingmönnum vegna þess sem þeir segja á þjóðþinginu. Það tel ég raunar enn mjög mikilvægt.

Fyrir þessu liggja lýðræðis- og tjáningarfrelsisástæður sem vonandi þarf ekki að rekja frekar; ef þingmenn misnota þetta er ekkert vandamál að aflétta þinghelginni skv. 2. mgr. Þá tíðkaðist það lengi að þingmenn endurtækju ummæli sín „í þinginu“ „utan þings“ til að einkaaðilar gætu höfðað einkameiðyrðamál ef við ætti vegna þeirra ummæla.

Um 3. mgr.

Eina nýmælið frá okkur í stjórnlagaráði er að leyfa einstökum alþingismönnum að ákveða sjálfir – án atbeina alls þingsins – að þeir vilji verjast og taka slaginn, hvort sem er í sakamáli eða meiðyrðamáli. Þeir geta verið sannfærðir um „sakleysi“ sitt og viljað verja það fyrir dómi óháð afstöðu Alþingis og jafnvel handhafa ákæruvalds – í því skyni að hreinsa mannorð sitt.

Hættan er að vísu að pressan verði mikil á slíkt afsal að eigin ákvörðun en við treystum á réttarkerfið í því efni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Laugardagur 17.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Sjálfstæði alþingismanna (48. gr.)

Í 48. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en ekki við nein fyrirmæli frá öðrum.

Alþingismenn óháðir hagsmunaöflum

Í gildandi stjórnarskrá er sams konar ákvæði að finna nema hvað þar er í niðurlagi rætt um að alþingismenn séu „eigi [bundnir] við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Vildum við í stjórnlagaráði f.o.f. árétta þetta en um leið rýmka regluna þannig að ljóst væri að hvorki kjósendur né „aðrir“ – t.d. hagsmunaaðilar sem hafa stutt við kjör þingmanns eða flokks – hefðu tangarhald á þingmanni eftir að hann hefði verið kjörinn á Alþingi.

Þetta er mikilvægt til þess að hindra spillingu.

Breytt regla myndi auka foringjaræði

Opinber umræða um þessa reglu er að mínu mati oft á villigötum þar sem stundum er rætt um þingmenn (frekar en flokka) sem „svíkja“ kosningaloforð þannig að þeir eigi að segja af sér ef þeir breyta um afstöðu – eða eru taldir gera það – og einkum ef þeir skipta um (þing)flokk. Mér virðist sú gagnrýni byggjast á misskilningi; ég held að umrætt stjórnarskrárákvæði hafi ríkar sögulegar ástæður til þess að hindra atkvæðakaup og endurgjald til handa hagsmunaöflum.

Algengast er að málið komi til umræðu þegar þingmaður yfirgefur flokk – og einkum þingflokk – vegna stefnuágreinings og eftir atvikum sökum ágreinings við forystu (þing)flokks eða meirihluta hans.

Ég held að gagnrýnendur þessa gamla og margreynda ákvæðis, sem var lítið umdeilt í stjórnlagaráði, átti sig ekki á því að ef sú krafa yrði gerð að „flokkaflakkarar“ segðu af sér þá myndu völd meirihluta flokka og einkum flokksforystu og jafnvel flokksformanna aukast til muna; það er hins vegar ekki í samræmi við afstöðu mína og – að ég held – ekki í samræmi við réttarvitund almennings.

Ég held því að breyting í þá veru að þingmaður, sem yfirgæfi (þing)flokk skyldi samkvæmt stjórnarskrá yfirgefa Alþingi, myndi hafa þveröfug áhrif miðað við hvers krafist er og hefur verið. Slík regla myndi auka mjög foringjaræði í íslenskum stjórnmálum; með því mæli ég vitaskuld ekki gegn heilbrigðum flokksaga og stefnufestu og trúnaði við flokksfélaga og kjósendur.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Föstudagur 16.9.2011 - 06:59 - FB ummæli ()

Eiðstafur (þingmanna) (47. gr.)

Í 47. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Sérhver nýr alþingismaður undirritar eiðstaf að stjórnarskránni þegar kosning hans hefur verið tekin gild.

Í gildandi stjórnarskrá er sams konar ákvæði nema að þar er í stað eiðstafs rætt um að „vinna drengskaparheit að stjórnarskránni“ – sem mörgum feministum í stjórnlagaráði þótti of karllægt. Þarna tókust á feminismi, lögfræði og hefðir – svo og sú skoðun að eiður eða eiðstafur lyti að trú sem mætti ekki krefja fólk – jafnvel lýðkjörið – um.

Niðurstaðan varð þessi – sbr. eftirfarandi rök:

Á meðal ráðsfulltrúa var bent á að orðið drengskapur væri karllægt. Orðið eiður kom til um­ ræðu og var talið ákveðnara en „heit“ og vera viðeigandi í þessu samhengi. Hins vegar barst athugasemd um að orðið eiður hefði öðlast fasta merkingu í lagamáli. Samkvæmt Íslenskri orðabók merkir orðið eiður hátíðleg yfirlýsing sem maður gefur og vísar um leið til e-s sem honum er dýrmætt, t.d. guðs síns eða drengskapar síns, svardagi. Ráðið taldi orðið eiður samkvæmt þessu ekki endilega vísa til trúar og þóttu því vera meiri hagsmunir að fella óþarf­ lega karllæg orð út úr stjórnarskrá. Slíkt væri betra.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

Fimmtudagur 15.9.2011 - 11:59 - FB ummæli ()

Þingsetning (46. gr.)

Í 46. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Forseti Íslands stefnir saman Alþingi að loknum alþingiskosningum og setur reglulegt Alþingi ár hvert.
Forseti stefnir einnig saman og setur Alþingi að tillögu forseta þess eða 1/3 hluta þingmanna.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta hið sama og í fyrri málsgrein utan þess að 10 vikna hámarksfrestur til þess að stefna þingi saman er afnuminn – með þessari skýringu:

Stjórnlagaráð fór að tillögu stjórnlaganefndar fyrir utan að lækka kröfu um meirihluta alþing­ismanna niður í þriðjung. Sú breyting var gerð í ljósi álits frá sérfræðingi sem taldi að samspil þessa ákvæðis og 43. gr. gæti leitt til þess að minnihluti þingmanna gæti ekki krafist þess að þing komi saman né væri slík krafa í stjórnarskrá, nema strax eftir kosningar. [Nmgr. 126] Að þessu virtu taldi ráðið rétt að minnihluti þingmanna ætti kröfu til að kalla þing saman ef meirihlutinn léti það hjá líða og er því um minnihlutavernd að ræða. Að öðru leyti eigi þingið sjálfdæmi um starfstíma sinn og samkomudag.

Þá kemur fram í sömu skýringum að eðlilegt sé að sami aðili stefni saman Alþingi og rjúfi það.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Miðvikudagur 14.9.2011 - 15:59 - FB ummæli ()

Samkomustaður (Alþingis) (45. gr.)

Í 45. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingi kemur að jafnaði saman í Reykjavík en getur þó ákveðið að koma saman á öðrum stað.

Hver ákveður?

Gildandi stjórnarskrá er sama efnis – nema hvað

  • efnisskilyrði um að „sérstaklega [sé] ástatt“ er fellt brott (sem mér finnst raunar heldur verra) og að
  • ákvörðunarvald um annan þingstað í undantekningartilvikum er flutt frá forseta (í raun ríkisstjórn) til Alþingis sjálfs.

Þetta hefur kosti og galla.

Kostirnir við þessa breytingu er að

  1. ef forseti forfallast er unnt að ákveða nýjan þingstað,
  2. komist er hjá geðþóttákvörðun ríkisstjórnar f.h. forseta gagnvart sjálfstæði þingsins og
  3. ekki er vegið að sjálfstæði þingsins.

Ókosturinn við þessa breytingu er að

  1. ef erfitt er að kalla saman þing í Reykjavík er eðli málsins erfitt að koma því saman til þess að það geti „þó ákveðið að koma saman á öðrum stað.“

„á Íslandi“

Lykilatriðið er þó að skilyrðið um að Alþingi þurfi að koma saman „á Íslandi“ er numið brott en þar má hafa hliðsjón af reynslu Norðmanna sem fyrir aðeins mannsaldri þurftu að senda ríkisstjórn og konung úr landi en ekki er útilokað að „útlagaþing“ starfi á stríðstíma eins og dæmi eru um að „útlagastjórnir“ starfi utanlands þegar land er  hernumið.

Um þetta segir í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með ákvæðinu:

Stjórnlagaráð telur rétt að Alþingi geti sjálft ákveðið annan fundarstað en í Reykjavík við sér­ stakar kringumstæður. Sá staður einskorðist ekki við Ísland. Ómögulegt er að segja fyrir um hvaða kringumstæður gætu réttlætt í framtíðinni að þingið komi saman annars staðar en hér á landi, en ætla má að það yrði aðeins í ýtrustu undantekningar­ og neyðartilvikum, svo sem vegna stríðsástands eða mikilla náttúruhamfara.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Þriðjudagur 13.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Starfstími (Alþingis) (44. gr.)

Í 44. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingi kemur saman eigi síðar en tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar.

Í lögum skal kveðið á um samkomudag reglulegs Alþingis og skiptingu starfstíma þess í löggjafarþing.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að reglulegt Alþingi skuli koma saman 1. október nema sá dagur sé helgidagur. Þar segir einnig að þingið standi „til jafnlengdar næsta árs“ nema kjörtímabil hafi áður runnið út eða þing verið rofið.

Alþingi fær sjálfræði um samkomudag…

Með tillögu okkar í stjórnlagaráði er því slakað á kröfunum um hvenær Alþingi skuli koma saman nákvæmlega – og þinginu treyst til að setja almennar reglur um það í lögum enda er ekki stjórnskipuleg hætta sjáanleg við það en sú er gjarnan ástæðan fyrir nákvæmari útfærslu í stjórnarskrá á því sem virðist tæknilegt.

… en þó ekki algert sjálfdæmi

Sá fyrirvari er þó settur að Alþingi skuli koma saman ekki síðar en tveimur vikum eftir kjördag; sá – tiltölulega rúmi – frestur er m.a. ákveðinn með hliðsjón af því að ráðrúm þarf að gefast fyrir landskjörstjórn og eftir atvikum dómstóla (væntanlega með flýtimeðferð) að úrskurða um gildi kosninga enda er sú regla, sem sagt, afnumin að Alþingi úrskurði sjálft um lögmæti kosningar til sjálfs sín.

Einnig er sú ástæða fyrir þessum hámarksfresti frá kjördegi til samkomudags þings að koma í veg fyrir að þingmeirihluti láti hjá líða að kalla þing saman; um þetta segir í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með ákvæðinu:

Talið var óþarfi að skilgreina samkomudag reglulegs Alþingis nákvæmlega í stjórnarskrá sem og starfstíma, heldur væri nægjanlegt að það yrði gert í þingskapalögum. Þingið hefur sjálf­dæmi í þeim efnum. Hins vegar var bent á að meirihluti þings gæti beitt minnihluta ofríki með breytingum á starfsfyrirkomulagi Alþingis. Eigi að síður var valin sú leið að mæla skuli nánar fyrir um starfstíma þingsins í lögum en þess í stað sett heimild í ákvæði [46. gr.] um þingsetn­ingu að þriðjungur þingmanna gæti óskað eftir að þing yrði kallað saman og sett.

Alþingi falið að útfæra nánar í lögum

Í síðari málsgrein 44. gr. frumvarpsins er Alþingi svo falið að útfæra samkomudag „og skiptingu starfstíma þess í löggjafarþing“ í lögum og er það eitt af um 80 tilvikum þar sem Alþingi er falið eða heimilað að útfæra eitthvað nánar í lögum. Samkvæmt því er skylt að skipta kjörtímabilinu í löggjafarþing eins og raunar er raunin nú.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Mánudagur 12.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Gildi kosninga (til Alþingis) (43. gr.)

Með 43. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er leitast við að koma í veg fyrir valdarán Alþingis – eða öllu heldur landskjörstjórnar, í samsæri við (fyrra) Alþingi!

Möguleiki á valdaráni landskjörstjórnar (og fráfarandi þings) að gildandi stjórnarskrá

Þetta er ekkert grín; á fyrsta námsári mínu í laganámi – þá í Kaupmannahafnarháskóla 1990-1991 (sem var lagaskóli Íslendinga til 1908) – var þetta ein minnisstæðasta ábending míns góða stundakennara í stjórnskipunarrétti, Per Hansen:

Ekki aðeins fræðilegur möguleiki

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta:

Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.

Ákvæði felur í sér að úrlausnarefnið er skýrlega undanþegið lögsögu dómstóla – sem annars hafa úrlausnarvald um allan ágreining samkvæmt stjórnarskránni.  Í þvi felst að ný“kjörið“ þing gæti svo úrskurðað sér í hag – og staðfest úthlutun landskjörstjórnar á kjörbréfum sér til handa – ef upp kæmu kosningakærur, eins og gerðist t.a.m. 2007 eftir því sem fram kom í stjórnlagaráði. Því hefur verið haldið fram að Alþingi hafi þá úrskurðað á umdeilanlegan hátt vegna kosningakærumála sem hefðu breytt úrslitum alþingiskosninga. Breytingin er því ekki einungis af algerlega fræðilegum ástæðum – eins og halda mætti við fyrstu sýn.

Ákvæði 43. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins hljóðar svo:

Alþingi kýs landskjörstjórn til þess að úrskurða um gildi forsetakosningar, kosninga til Alþingis svo og þjóðaratkvæðagreiðslna.

Landskjörstjórn gefur út kjörbréf forseta og alþingismanna og úrskurðar hvort þingmaður hafi misst kjörgengi. Um störf landskjörstjórnar fer eftir nánari fyrirmælum í lögum.

Úrskurðum landskjörstjórnar má skjóta til dómstóla.

Í lagi að réttkjörið Alþingi úrskurði um missi kjörgengis einstakra þingmanna…

Niðurlagið tel ég ekki óeðlilegt – þ.e. að sitjandi og löglega kjörið (eftir úrlausn til þess bærra aðila eftir atvikum) Alþingi úrskurði hvort einstakir þingmenn hafi misst kjörgengi, sbr. efnisumfjöllun í síðasta pistli mínum og viðbót við hann í niðurlagi um það álitamál hver hafi úrskurðarvaldið í því efni.

… en ekki að Alþingi hafi sjálfdæmi um eigið kjör

Hitt gengur ekki að áður en óháður aðili hefur staðfest kjörið og leyst úr hugsanlegum ágreiningi um lögmæti kosningar úrskurði sá aðili sjálfur, Alþingi, um lögmæti eigin kjörs.

Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi var á sínum tíma eðlileg að mínu mati, þ.e. þrígreining ríkisvaldsins, lýðræðisástæður og réttmætur ótti við að dómstólar – undir handarjaðri handhafa framkvæmdarvalds og fram til þess einvalda konungs – gætu með óeðlilegum hætti hlutast til um kjör handgenginna manna fremur en fulltrúa alþýðunnar sem áttu loks að komast til valda með dönsku stjórnarskránni frá 1849.

Traust á þrígreiningu ríkisvalds og sjálfstæði dómstóla

Þetta fyrirkomulag gengur ekki lengur enda er traust á þrígreiningu ríkisvalds mun meira nú og sjálfstæði dómstóla víðast hvar og í æ ríkari mæli yfir verulegan vafa hafið þótt undantekningar séu vitaskuld á því – hvað Ísland varðar, að mínum dómi.

Því leggur stjórnlagaráð til að landskjörstjórn úrskurði um kosningar til Alþingis – sem og aðrar kosningar, svo og þjóðaratkvæðagreiðslur – og að dómstólum (en ekki Alþingi í tilviki sjálfs sín) sé treyst til þess að endurmeta úrskurði landskjörstjórnar eins og allra annarra stjórnvalda.

Vonandi standa dómstólar undir því trausti.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Sunnudagur 11.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Kjörgengi (til Alþingis) (42. gr.)

Í 42. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.

Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.

Glati alþingismaður kjörgengi missir hann þann rétt sem þingkosningin veitti honum. Varamaður tekur þá sæti hans á þingi.

Aðeins hæstaréttardómarar ókjörgengir

Um fyrri tvær málsgreinarnar er fyrst að segja að þær eru samhljóða gildandi stjórnarskrá.

Vafalaust er lítt umdeilt að hæstaréttardómarar skuli ekki kjörgengir til Alþingis; þeir þurfa því að segja af sér áður en þeir taka sæti á framboðslista eins og væntanlega er dæmi um frá 1971 er Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi alþingismaður til áratuga og fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi sendiherra, sagði af sér nýfengnu embætti hæstaréttardómara og var aftur kjörinn á þing – og varð svo síðar forsætisráðherra 1980. Héraðsdómari gæti hins vegar væntanlega boðið sig fram til Alþingis og látið nægja að láta af embætti yrði hann kjörinn – þótt deila mætti um hvort það þætti heppilegt.

Umdeildara kann að vera hvort fleiri embættismenn ættu að vera undanþegnir kjörgengi til Alþingis en lýðræðis- og jafnræðisástæður hafa væntanlega þótt standa því í vegi svo og sú langa saga áður fyrr að prestar, sýslumenn og fleiri embættismenn ríkisins voru meðal algengustu stétta á Alþingi.

Þó er væntanlega undirskilið að sitjandi forseti Íslands geti ekki boðið sig fram til Alþingis – eða hvað; er e.t.v. nóg að hann segi af sér embætti nái hann kjöri?

Engar efnisbreytingar

Fyrri málsliður 3. mgr. er sömuleiðis sama efnis og ákvæði í stjórnarskránni. Síðari málslið 3. mgr. er ekki að finna í stjórnarskrá og byggist sú sjálfsagða regla að varamaður taki sæti alþingismanns sem glatar kjörgengi – sem fylgt hefur verið í framkvæmd – væntanlega á

  • eðli máls,
  • rýmkandi skýringum á lögum og
  • venju.

Hvað þýðir óflekkað mannorð?

Athyglisvert er að hugtakið „óflekkað mannorð“ – sem er samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skilyrði þess að vera kjörgengur til Alþingis og að geta setið sem alþingismaður – er ekki skilgreint í lögum; í lögfræðiumfjöllun er hins vegar sammæli um að skýra það svo að í því felist eftirfarandi:*

Það að hafa ekki verið fundinn sekur um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti.

Hvað er „svívirðislegt að almenningsáliti“?

Það vekur svo aftur upp spurninguna hvað teljist „svívirðislegt að almenningsáliti.“ Ég get ekki svarað því í stuttu máli en sem dæmi má nefna þá myndi fjárdráttur í opinberu starfi, nauðgun og manndráp falla undir það en ekki minniháttar brot á umferðarlögum.

Uppreist æra

Hið flekkaða mannorð verður svo óflekkað að nýju með svonefndri uppreisn æru eða með því að fá uppreist æru; æra fæst uppreist eftir tiltekinn tíma og að tilteknum skilyrðum upfylltum – mismunandi eftir því hvert brotið var og og hverjar aðstæður hlutaðeigandi eru. Sem dæmi má nefna fékk fyrrverandi alþingismaður, sem sagt hafði af sér þingmennsku vegna ásakana um refsivert athæfi (sbr. 3. mgr. ákvæðsins), uppreist æru eftir afplánun refsidóms fyrir allnokkrum árum – að tillögu þáverandi dómsmálaráðherra sem handhafar forsetavalds féllust á; var hann í kjölfarið endurkjörinn til þings og situr á Alþingi.

[Hver sker úr kjörgengi?

Við lestur á næsta ákvæði, 43. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs, og samlestur þess við það ákvæði stjórnarskrár sem sú grein leysir af hólmi, virðist mér að láðst hafi að geta þess í frumvarpinu hver skeri úr ágreiningi um kjörgengi þingmannsefnis – sem væntanlega er þó landskjörstjórn og svo dómstólar eftir atvikum – en öllu heldur hver skeri úr um hvort sitjandi þingmaður hafi misst kjörgengi; eiga það að vera sömu aðilar eða Alþingi sjálft? Í gildandi stjórnarskrá er nefnilega kveðið á um að Alþingi skeri úr um eigið kjör – en því breytir 43. gr. – og um missi kjörgengis hjá sitjandi þingmanni; til greina kemur að svo verði áfram en úr þessu þarf væntanlega að bæta enda geta skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpinu hvorki bætt úr þeirri þögn stjórnlagaráðs né gera það.]**

* Hér úr Páll Sigurðsson (ritstj.): Lögfræðiorðabók með skýringum, Reykjavík, 2008, bls. 314.

** Viðbót 12. september 2011.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Laugardagur 10.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Kosningaréttur (til Alþingis) (41. gr.)

Í 41. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Kosningarétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi, þegar kosning fer fram, er einnig skilyrði kosningaréttar, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis.

Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í lögum.

Hér er (kannski fullsjaldgæft) dæmi um gildandi stjórnarskrárákvæði sem stjórnlagaráð stillti sig um að leggja til breytingar á – a.m.k. efnislega; við gátum ekki stillt okkur um að samræma lokaorðið öðrum ákvæðum í gildandi stjórnarskrá og í stjórnarskrárfrumvarpinu þar sem rætt er um „lög“ í stað þess að nefna þau „kosningalög.“

Beinum lagaáskilnaðarreglum stjórnarskrárinnar fjölgað í um 80

Hér er Alþingi annars vegar veitt sértæk heimild til þess að víkja frá lögheimilisskilyrðinu og hins vegar er lögð almenn skylda á löggjafann til þess að útfæra kosningareglur nánar í lögum. Þetta dæmi er eitt af á fjórða tug tilvika í gildandi stjórnarskrá þar sem sú skylda er lögð á löggjafann að útfæra eitthvað með lögum eða að Alþingi er veitt heimild til þess að víkja frá einhverrri meginreglu með lögum.

Við lauslega talningu á sambærilegum ákvæðum í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs virðist mér í fljótu bragði að slík lagaáskilnaðarákvæði séu ríflega tvöfölduð – og séu því um eða jafnvel yfir 80 talsins; er það vel því að það

Lítið rætt hér um aldursskilyrðið

Þess má geta að lítið var hér rætt um breytingu á kosningaaldri – sem lengi hefur verið 18 ár – en var löngum hærri (og þar áður bundinn við karla og enn áður tiltekna „mikilvæga“ karla); einhver minntist þó í þessu sambandi á 16 ár en breyting í þá veru var lítið sem ekkert rædd.

Meira var rætt um kjörgengisaldur forseta (35 ár) eins og síðar verður vikið að.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Föstudagur 9.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Kjörtímabil (Alþingis) (40. gr.)

Í 40. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils.

Kjörtímabil er fjögur ár.

Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum.

Þingrof!

Ákvæðið er samhljóða gildandi stjórnarskrá að því frátöldu að lengd kjörtímabils, sem fram kemur í ákvæðinu á undan, er áréttuð í nýrri 2. mgr. Ákvæði um 4ra ára kjörtímabil og áðurnefnt frumvarpsákvæði um kosningu til 4ra ára kemur vitaskuld ekki í veg fyrir almenna styttingu kjörtímabils – svonefnt þingrof, sem mælt er fyrir um í öðru frumvarpsákvæði og gildandi stjórnarskrá og síðar verður fjallað um.

Er til „óreglulegt“ Alþingi?

Í samræmi við það mælir 40. gr. frumvarpsins fyrir um að reglulegar alþingiskosningar skuli fara fram „eigi síðar en við lok kjörtímabils“ en í því felst að kosningar til Alþingis geti átt sér stað fyrr – vegna áðurnefnds þingrofs.

Alþingiskosningar í kjölfar þingrofs eru þá óreglulegar í skilningi stjórnarskrárinnar og þau þing sem í kjölfarið koma óregluleg í stjórnskipulegum skilningi en hugtakið „reglulegt“ Alþingi eða „reglulegar“ kosningar er nefnt sex sinnum í gildandi stjórnarskrá í þessu sambandi og fjórum sinnum í stjórnarskrárfumvarpi stjórnlagaráðs í sama skilningi. Merking hugtaksins er t.d. sú að ekki er skylda að leggja fjárlagafrumvarp strax fyrir nýkjörið „óreglulegt“ Alþingi, sem kæmi t.d. saman í maí eins og 2009; sú skylda hvílir samkvæmt gildandi stjórnarskrá aðeins á fjármálaráðherra þegar reglulegt Alþingi kemur saman – nú í októberbyrjun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur