Þriðjudagur 23.09.2014 - 15:01 - FB ummæli ()

Skortur á félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík

Félagsbústaðir eiga í dag færri félagslegar leiguíbúðir en félagið átti á árunum 2009 og 2010. Á árunum 2009-2010 voru þær 1842 en í dag eru þær 1804. Horfið hefur verið frá þeirri stefnu að Félagsbústaðir kaupi eða byggi 100 íbúðir á ári og er stefnan að byggðar verði eða keyptar 30 íbúðir á ári. Þá er stefnan að Félagsbústaðir komi að þróun og byggingu svokallaðra Reykjavíkurhúsa sem til stendur að byggja næstu árin á þéttingarreitum víðs vegar um borgina. Gert er ráð fyrir á bilinu 400-800 íbúðum í svokölluðum Reykjavíkurhúsum og að Félagsbústaðir fái til úthlutunar 25% af þeim, þ.e. 100-200 íbúðir á næstu árum. Eðli málsins samkvæmt mun það taka nokkur ár að byggja þessi hús og því ljóst að mörg ár munu líða þar til biðlistinn eftir félagslegum leiguíbúðum minnki.

Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir félagslegu leiguhúsnæði vegna lagaskyldu sveitarfélaga að tryggja framboð slíks húsnæðis til handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna, kemur fram að um 840 umsækjendur séu á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum, þar af um 550 umsækjendur í brýnni þörf. Miðað við þá stefnu að bæta við 30 íbúðum á ári þá tekur það 18 ár að mæta þörf þeirra 550 sem eru í brýnni þörf í dag. Þó svo að 100-200 íbúðir bætist við í svokölluð Reykjavíkurhúsum næstu árin eða áratuginn þá dugar það engan veginn og tekur alltof langan tíma.

Ljóst er að verulega skortir á að Reykjavíkurborg uppfylli skyldur sínar í húsnæðismálum gagnvart þeim íbúum sem vegna félagslegra aðstæðna eru ekki færir um að sjá sér sjálfir fyrir húsnæði. Verður Reykjavíkurborg að setja í forgang fjölgun á félagslegum leiguíbúðum til að mæta skyldu sinni. Það verður ekki gert með því að stofna fleiri nefndir heldur með því að kaupa húsnæði.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur