Á sveitarfélögum hvílir sú skylda að tryggja framboð á húsnæði til handa þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Félagsbústaðir sem eru í eigu Reykjavíkurborgar eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík.
Eins og fram kemur á heimasíðu Félagsbústaða er markmið félagsins að auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Í sumar voru um 850 umsækjendur á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík þar af um 550 í brýnni þörf.
Sú stefna var hjá Félagsbústöðum að kaupa eða byggja 100 íbúðir á ári. Horfið var frá þeirri stefnu í byrjun síðasta kjörtímabils meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins enda eiga Félagsbústaðir færri félagslegar leiguíbúðir í dag en á árinu 2009. Ef meirihlutinn í borginni hefði fylgt þessari stefnu og keypt 100 íbúðir á ári frá 2010 þá ættu Félagsbústaðir um 450 fleiri félagslegar leiguíbúðir í dag.
Forgangsröðun fjármuna skiptir máli. Framkvæmdirnar í Borgartúninu kostuðu um 280.000.000. Hefði sá peningur verið notaður til að kaupa leiguíbúðir með 90% láni hefði verið hægt að kaupa um 140 félagslegar leiguíbúðir í staðinn fyrir framkvæmdirnar í Borgartúninu.