Mánudagur 17.11.2014 - 16:50 - FB ummæli ()

Fyrirspurn um kaup á félagslegum íbúðum

Félagsbústaðir áttu á árinu 2009 samtals 1842 félagslegar leiguíbúðir. Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í sumar við fyrirspurn félags- og húsnæðismálaráðherra kemur fram að fjöldi félagslegra leiguíbúða í eigu Félagsbústaða sé 1804 og um 850 umsækjendur séu á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík þar af um 550 í brýnni þörf.

Sú stefna var hjá Félagsbústöðum að kaupa eða byggja 100 íbúðir á ári. Horfið var frá þeirri stefnu í byrjun síðasta kjörtímabils meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins enda áttu Félagsbústaðir í sumar 38 færri félagslegar leiguíbúðir en á árinu 2009. Ef meirihlutinn í borginni hefði fylgt þessari stefnu og keypt 100 íbúðir á ári á árunum 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 þá ættu Félagsbústaðir 538 fleiri félagslegar leiguíbúðir í árslok 2014 en félagið átti á árinu 2009. Eins og fram kom á upplýsingafundi Dags borgarstjóra í síðustu viku um kosningaloforðið hans um 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir er hluti af því loforði að fjölga félagslegum leiguíbúðum hjá Félagsbústöðum um 500 næstu árin. Kosningaloforðið snýst því um að bæta upp aðgerðarleysi síðustu ára á næstu árum en ekki taka tillit til þess fjölda sem mun bætast við á biðlistann eftir félagslegum leiguíbúðum.

Í desember 2013 var samþykkt í borgarstjórn að kaupa 30 félagslegar leiguíbúðir á þessu ári. Þar sem ljóst er að verulega vantar upp á þau kaup með svari velferðarsviðs í sumar lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram fyrirspurn í borgarráði fyrir um 5 vikum síðan eða 9. október sl. þar sem við óskuðum eftir upplýsingum um það hvort og þá hve margar eignir Félagsbústaðir hafa keypt og selt af almennum leiguíbúðum frá 1. janúar til 1. október 2014. Þar sem fyrirspurninni hafði ekki verið svarað í lok október sl. lögðu við fram viðbótarfyrirspurn 31. október sl. hvort Félagsbústaðir hafi keypt eða selt fasteignir í október 2014. Ennþá hefur ekkert svar borist. Á næsta fundi verðum við væntanlega að leggja fram fyrirspurn hvað hafi verið keypt í nóvember.

Þarf það í alvörunni að taka 6 vikur að svara svona fyrirspurn eða er málið kannski það að Félagsbústaðir hafi stokkið til og keypt eitthvað af íbúðum eftir 8. október sl.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur