Laugardagur 07.02.2015 - 16:04 - FB ummæli ()

Verður deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar fellt úr gildi?

Á borgarstjórnarfundi sem haldinn var síðasta þriðjudag settum við í Framsókn og flugvallarvinum á dagskrá fundarins umræður um deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar (sem samþykkt var af Samfylkingu, Besta flokknum og VG í lok síðasta kjörtímabils) en við teljum líkur á því að ákvæðum skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við meðferð málsins þar sem deiliskipulagið var samþykkt á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs sem síðan var breytt eftir að borgarstjórn hafði samþykkt deiliskipulagið og því spurning hvort það verði fellt úr gildi en deiliskipulagið hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka NA-SV flugbrautina (06/24) eða svokallaða neyðarbraut út af skipulagi var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 og tók gildi 6. júní 2014 með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Hinn 2. desember 2014 samþykkti borgarstjórn (þ.e. meirihlutinn) síðan breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda. Um er að ræða sitt hvort málið sem hvort fyrir sig lýtur ákveðnum málsmeðferðarreglum, form- og efnisskilyrðum.

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar var samþykkt á borgarstjórnarfundi 1. apríl 2014 með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagsssviðs, dags. 10. mars 2014, en umsögnin byggði m.a. á bréfi forstjóra Isavia til Innanríkisráðherra, dags. 13. desember 2013. Eftir að borgarstjórn samþykkti deiliskipulagið sendi forstjóri Isavia hins vegar bréf til borgarinnar, dags. 23. apríl 2014, þar sem hann leiðréttir rangfærslur í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014. Í kjölfarið var umsögninni breytt, eða tæpum tveimur mánuðum eftir að borgarstjórn hafði samþykkt deiliskipulagið á grundvelli umsagnarinnar frá 10. mars 2014 án þess að borgarstjórn fjallaði aftur um málið.

Með bréfi umhverfis- og skipulagssvið, dags 26. maí 2014, var Skipulagsstofnun sent minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014, á grundvelli bréfs Isavia, dags. 23. apríl 2014, sbr. bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, án þess að gögnin væru lögð fram eða umsögnin samþykkt breytt af borgarstjórn.

Af fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar verður hvorki ráðið að framangreind gögn hafi verið lögð fram né að þær breytingar sem gerðar voru á umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014, hafi verið samþykktar í tengslum við breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014. Hins vegar var bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, lögð fram á fundi borgarráðs 5. júní 2014 undir dagskrárlið um breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda. Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar og breytingar deiliskipulagi Hlíðarenda eru hins vegar sitt hvort málið.

Meirihluti borgarstjórnar hefur borið það fyrir sig að nægilegt hafi verið að leggja framangreind tvö bréf fyrir á fund borgarráðs 5. júní 2014 vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda þar sem Skipulagsstofnun hafi með bréfi, dags. 4. júní 2014, ekki gert athugasemdir við að deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 yrði auglýst.

Í því sambandi er rétt að benda á að Skipulagsstofnun hafði engar forsendur til að ætla að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins enda má Skipulagsstofnun gera ráð fyrir því að upplýsingar frá borginni og breytingar hafi verið afgreiddar á lögmætan hátt.

Umrætt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og ætti því fljótlega að koma í ljós hvort framangreind málsmeðferð er í samræmi við lög.

Á borgarstjórnarfundinum lögðum við fram svohljóðandi bókun:

„Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka NA-SV flugbrautina af skipulagi var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014. Tæpum tveimur mánuðum síðar breytti umhverfis- og skipulagssvið umsögninni og sendi hana breytta til Skipulagsstofnunar. Af fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar verður hvorki ráðið að þau gögn sem fylgdu bréfi umhverfis- og skipulagssviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. maí 2014, þ.e. minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, hafi verið lögð fram né þær breytingar sem gerðar voru á umsögninni frá 10. mars 2014 hafi verið samþykktar vegna breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Hins vegar var bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, lögð fram á fundi borgarráðs 5. júní 2014 vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda sem er annað mál. Hafði Skipulagsstofnun engar forsendur til að ætla að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins enda má stofnunin gera ráð fyrir því að upplýsingar frá borginni og breytingar hafi verið afgreiddar á lögmætan hátt.“

  

 

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur