Miðvikudagur 18.02.2015 - 23:34 - FB ummæli ()

Byrjað á öfugum enda

Hefði ekki verið eðlilegt að búið væri að gefa grænt ljós á að loka flugbraut 06/24, svokallaðri neyðarbraut, áður en brautin er tekin af skipulagi og áður en framkvæmdir hefjast á Hlíðarendasvæðinu? Nei það finnst Samfylkingunni, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, ekki vera málið. Í þeirra huga er brautin ekki lengur til.

Hinn 1. apríl 2014 samþykktu Samfylkingin, Besti flokkurinn og Vinstri grænir að taka neyðarbautina af skipulagi. Því voru svör borgarinnar til þeirra sem gerðu athugasemdir við breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda þær að flugbrautin væri ekki lengur á skipulagi. M.ö.o. brautin er ekki til.

Eins og allir vita gerir uppbyggingin á Hlíðarenda ráð fyrir því að flugbraut 06/24 sé ekki lengur til. Niðurstaða áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautarinnar liggur hins vegar ekki fyrir og því liggur ekki fyrir afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs, almannavarna, sjúkraflugs og líffæraflutninga. Er því órökrétt og óábyrgt að ganga út frá því að brautin sé ekki lengur til áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum.

Það er hins vegar staðreynd að flugbraut 06/24 hefur verið notuð í vetur í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs, m.a. í sjúkraflutningum og því ljóst að verði hún lögð niður getur m.a. sjúkraflugi og líffæraflutningum verið stefnt í hættu. Nauðsynlegt er að tryggja flugöryggi og það verður ekki gert nema brautin sé opin eins og sannast hefur ítrekað undanfarnar vikur og var hún m.a. notuð tvisvar á mánudaginn í sjúkraflugi. Ef svokallaðri neyðarbraut verður lokað munu koma upp tilvik þar sem ekki verður hægt að lenda í Reykjavík án brautarinnar. Það er staðreynd.

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur