Föstudagur 15.01.2016 - 08:56 - FB ummæli ()

Engar lóðir til sölu

Engar fjölbýlishúsalóðir eru til sölu eða hafa verið til sölu í mörg ár með fleiri en 5 íbúðum. Það er hins vegar stefnt að því að úthluta lóðum á næstu misserum. Það tók Dag 8 vikur að svara þessu.

8 vikum síðar

Á fundi borgarráðs í gær 14. janúar lagði Dagur borgarstjóri loksins fram svör við tveimur fyrirspurnum sem Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram í borgarráði 19. nóvember sl. Fyrirspurnirnar eru svohljóðandi:

1. Óskað er eftir upplýsingum um það hvenær og hvaða 10 lóðir það eru sem borgin úthlutaði síðast/seldi byggingarrétt á undir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum og þá hversu mörgum íbúðum.

2. Óskað er eftir yfirliti yfir þær lóðir sem borgin hefur nú til sölu byggingarrétt á fyrir fjölbýlishús með fleiri en fjórum íbúðum.

Þrátt fyrir allan þennan tíma þá svaraði hann ekki annarri fyrirspurninni í samræmi við það sem spurt var um.

Fyrirspurn um úthlutun á síðustu 10 lóðum fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum

Í svari borgarstjóra er einungis upplýst um tvær lóðir sem úthlutað var með fleiri en 5 íbúðum. Var þeim úthlutað á síðasta kjörtímabili. Annars vegar lóð fyrir 8 íbúða raðhús og hins vegar lóð fyrir 95 stúdentaíbúðir.

Þá bendir borgarstjóri í það að úthlutað hafi verið 5 lóðum fyrir 5 íbúða raðhús og þremur lóðum til viðbótar hafi verið úthlutað en upplýsir ekki um fjölda íbúða á þeim.

Fyrirspurn um lóðir til sölu fyrir fjölbýlishús með fleiri en 4 íbúðum

Í svari borgarstjóra kemur fram að engar slíkar lóðir séu til sölu. Hann bendir hins vegar á að það standi til að úthluta eða ráðstafa lóðum undir 1200 íbúðir á þessu og næstu misserum. Það er svo spurning hvort sú úthlutun taki jafn langan tíma og að efna kosningloforðið um 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir.

Fáránleg vinnubrögð

Það er auðvitað út í hött að það taki borgarstjóra svona langan tíma að svara og þegar hann svarar loks þá svarar hann ekki því sem hann er spurður að. Þurfti því að ítreka fyrirspurnina. Þá var óskað eftir upplýsingum um það hvort til stendur að úthluta þessum lóðum til ákveðinni hópa eða aðila eða hvort hver sem er geti boðið í þær.

Það getur auðvitað ekki gengið og varla í anda „opinnar og gagnsæjar stjórnsýslu“ að minnihlutinn fái ekki svör fyrr en löngu seinna því lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu á fundinum:

„Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til forsætisnefndar að vinna tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar þess efnis að fyrirspurnum borgarráðsfulltrúa skuli svarað á næsta fundi borgarráðs nema gagnaöflun sé svo viðamikil að lengri tíma þurfi til að svara þeim. Sé fyrirspurn enn ósvarað á fundi borgarráðs tveimur vikum eftir að hún var lögð fram skal leggja fram skriflegar skýringar hvers vegna það þurfi lengri tíma til að svara henni.“

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur