Laugardagur 06.02.2016 - 14:15 - FB ummæli ()

Ógagnsæið í boði meirihlutans

Þrátt fyrir fögur fyrirheit meirihlutans í borgarstjórn, þ.e. Pírata, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, um gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar hefur ekkert gerst í þeim efnum. Það er bæði erfitt fyrir borgarbúa og borgarfulltrúa að nálgast ýmsar upplýsingar þar sem þær eru ekki aðgengilegar á vef borgarinnar. Heimasíðu borgarinnar er verulega áfátt og vantar mikið af upplýsingum þar. Oft getur tekið vikur eða jafnvel mánuði fyrir borgarfulltrúa að fá svör við einföldum fyrirspurnum.

Orð og athafnir fara ekki saman

Í skýrslu um þjónustuveitingu borgarinnar sem gerð var síðasta sumar kemur fram að íbúar þurfi að hafa nokkra innsýn inn í stjórnkerfi borgarinnar til að átta sig á hvaða þjónusta sé í boði og hvar sé hægt að nálgast hana. Á meðal tækifæra til úrbóta sem þar eru nefnd er stórfelld aukning rafrænnar þjónustu, að nýta betur upplýsinga- og samskiptatækni og gera reglulegar þjónustukannanir. Slíkt hefur ekki verið uppi á pallborðinu hjá meirihlutanum því fyrir ári síðan kom Reykjavíkurborg verst út í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins svo í ár ákvað Reykjavíkurborg að taka ekki þátt í könnuninni. Þá fer meirihlutinn ekki eftir upplýsingastefnu borgarinnar sem samþykkt var síðasta sumar en þar kemur fram að ákvarðanir þurfa að byggjast á bestu fáanlegum upplýsingum. Enn liggja ekki fyrir fullnægjandi gögn til að taka upplýsta ákvörðun um að loka svokallaðri neyðarbraut. Vinnubrögð meirihlutans í því máli sýna að það er eitt að samþykkja upplýsingastefnuna og annað að framfylgja henni.

Svör við fyrirspurnum 

Þar sem lítið er af upplýsingum og gögnum á heimasíðu borgarinnar þurfa borgarfulltrúar ýmist að óska eftir gögnum frá starfsmönnum borgarinnar eða leggja fram fyrirspurnir sem stundum getur tekið ansi langan tíma að fá svör við.

Síðasta vor óskuðu Framsókn og flugvallarvinir eftir því að stjórnkerfis- og lýðræðisráð myndi kanna hvað það tæki langan tíma afgreiða tillögur og svara fyrirspurnum í ráðum borgarinnar. Var það kannað hjá sjö af átta stærstu ráðum borgarinnar. Svarið var lagt fram fimm mánuðum síðar en einungis bárust upplýsingar frá fimm af ráðunum því tvö af ráðunum svöruðu ekki stjórnkerfis- og lýðræðisráði.

Borgarstjóri svarar seint og illa

Sem dæmi um það hvað það getur oft tekið langan tíma að fá svör við fyrirspurnum þá lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tvær fyrirspurnir á fundi borgarráðs 19. nóvember sl., annars vegar  var óskað eftir yfirliti yfir þær lóðir sem borgin væri með til sölu byggingarrétt á fyrir fjölbýlishús með fleiri en fjórum íbúðum og hins vegar var óskað eftir upplýsingum um það hvenær og hvaða tíu lóðir það væru sem borgin úthlutaði síðast eða seldi byggingarrétt á undir fjölbýlishús með fleiri en fimm íbúðum og þá hversu mörgum íbúðum. Það tók borgarstjóra átta vikur að svara þessum fyrirspurnum og þegar hann loks svaraði þá svaraði hann bara að hluta því sem hann var spurður að. Svarið við fyrri spurningunni var að engar slíkar lóðir væru til sölu. Síðari spurningunni svaraði hann ekki í samræmi við það sem spurt var um og þurfti því að ítreka spurninguna. Nú samtals 11 vikum síðar er svarið enn ekki komið. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að það taki borgarstjóra svona langan tíma að svara og þegar hann svarar loks þá svarar hann ekki því sem hann er spurður að. Er slíkur dráttur ekki í anda við opna og gagnsæja stjórnsýslu og gerir borgarfulltrúum erfitt fyrir að rækja eftirlitshlutverk sitt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur