Miðvikudagur 03.02.2016 - 22:47 - FB ummæli ()

Vatnsmýrin besta staðsetningin

Meirihluti landsmanna er hlynntur því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni samkvæmt könnun sem Maskína gerði dagana 15. til 26. janúar sl. Samkvæmt könnuninni eru 59% hlynntir núverandi staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýrinni en 22% andvígir. Alls svöruðu 847 manns eða 50% úrtaksins.

Kannanir sem gerðar hafa verið undanfarin ár sýna að landsmenn vilja hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þeir sem vilja ekki hafa hann þar hafa bent á kosningu meðal borgarbúa sem gerð var á árinu 2001 en sú kosning hefur ekkert gildi.

Íbúakosningin 2001

Svona til upprifjunar fyrir þá sem hafa gleymt því hvernig sú kosning fór fram og af hverju hún var ekki bindandi þá var samþykkt á fundi borgarráðs 13. febrúar 2001 að atkvæðagreiðslan um flugvöllinn yrði bindandi ef a.m.k. 75% atkvæðisbærra manna tækju þátt í henni og ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna myndi greiða atkvæði á sama veg jafnvel þótt þátttaka í atkvæðagreiðslunni yrði undir 75% mörkunum. Fimm vikum seinna var atkvæðagreiðslan haldin. Voru fylgjendur flugvallarins hvattir til þess að taka ekki þátt í kosningunni.

Samtals 37,2 % atkvæðisbærra borgarbúa tóku þátt í kosningunni. Af þeim 30.219 borgarbúum sem kusu vildu 14.913 eða 49,3% að flugvöllurinn yrði fluttur eitthvert annað en óljóst var hvert en 14.529 eða 48,1% að hann yrði áfram í Vatnsmýrinni. Náðist því hvorki lágmarksfjöldinn né lágmarksviðmiðið.

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er ekki einkamál Reykjavíkur

Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll, heimahöfn flugdeildar Landhelgisgæslu Íslands, gegnir lykilhlutverki í viðbragðsáætlunum Almannavarna vegna stórslysa og náttúruvá, er endastöð sjúkraflugs og miðstöð innanlandsflugs sem tengir landsbyggðina við ýmsa þjónustu, bæði opinbera og einkarekna, sem ekki fyrirfinnst heima í héraði. Ríkið rekur ýmsa kjarnaþjónustu miðlægt í höfuðborginni, þar með talda lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu, sem ekki væri gerlegt að halda úti víðsvegar um landið.

Ef flugvöllurinn yrði byggður annars staðar væri verið að aftengja eina mikilvægustu samgönguæðina milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar og myndi þjónustustig höfuðborgarinnar við landsbyggðina minnka, auk þess sem mikilvægur vinnustaður myndi leggjast af í borginni. Myndi það verða töluvert tímafrekara fyrir fólk sem þarf að notfæra sér þjónustuna í borginni svo sem vegna vinnu eða náms ef staðsetningin væri önnur sem og fyrir borgarbúa að fara út á land. Staðsetningin skiptir máli fyrir ýmsar atvinnugreinar svo sem ferðaþjónustuna.

Sjúkraflugið yrði ekki jafnt tryggt og þyrlur koma ekki í stað sjúkraflugvéla

Staðsetningin í Vatnsmýrinni skiptir máli vegna nálægðar við sjúkrahús þar sem sérhæfðir læknar, tæki og búnaður er og tíminn að koma fólki undir læknishendur getur skipt sköpum. Þaðan er einnig hægt að flytja fólk og búnað með skömmum fyrirvara svo sem lækna, sérsveitina og  björgunaraðila.

Oft hefur heyrst hvort ekki sé hægt að nota þyrlur í sjúkraflugið í staðinn. Gerð er krafa um jafnþrýst farþegarými í sjúkraflugi, til verndar sjúklingum með t.d. loftbrjóst, heilablæðingu eða höfuðmeiðsl. Engin þyrla er þannig útbúin. Engin þyrla hefur afkastagetu til að halda lágmarkshæðum í blindflugi yfir hálendi Íslands, fari svo að annar tveggja mótora hennar bili. Engin þyrla nær viðlíka flughraða og sjúkraflugvélar okkar og er munurinn u.þ.b. tvöfaldur. Þær eru þ.a.l. óviðunandi flutningstæki í sjúkraflugi. Kostnaður við útgerð þyrlu er margfaldur, miðað við sambærilega flugvél að stærð og burðargetu. Þyrlur eru stórkostleg björgunartæki á rúmsjó eða á hálendi fjarri flugvöllum. En þær skortir hraða, hagkvæmni, afkastagetu í blindflugi og jafnþrýstiklefa til að geta tekið við sjúkraflugsþjónustu hér innanlands.

Enginn önnur staðsetning jafngóð eða betri

Engin önnur staðsetning hefur enn fundist sem hefur jafn marga kosti og Vatnsmýrin. Nefnd undir forystu Rögnu Árnadóttur, með aðkomu ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group, fékk það hlutverk að skoða hvaða staðsetning kæmi helst til greina ef það ætti að byggja annan flugvöll. Það var ekki niðurstaða nefndarinnar að það ætti að byggja nýjan flugvöll enda var verksvið nefndarinnar skýrt afmarkað við það að skoða önnur flugvallarstæði en Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd og Keflavíkurflugvöll.  Niðurstaða nefndarinnar var sú að Hvassahraunið væri sá kostur sem helst kæmi til skoðunar.

Það hefur ekki verið sýnt fram á það að önnur staðsetning fyrir flugvöllinn sé jafngóð eða betri en Vatnsmýrin. Þá er alveg ljóst að kostnaðurinn yrði verulegur ef það ætti að byggja slíkan flugvöll á nýjum stað með öllum þeim innviðum sem þarf og þeirri þjónustu sem þarf að vera í kringum flugvöllinn eða nálægt honum og þeir peningar eru einfaldlega ekki til.

 

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur