Þriðjudagur 09.08.2016 - 13:02 - FB ummæli ()

Minnihlutinn í borgarstjórn vill álit siðanefndar

Í áliti umboðsmanns borgarbúa frá 3. júní sl. kemur fram í niðurstöðu hans um samninga bílastæðanefndar við Miðborgina okkar að það hafi verið verulega ámælisvert að samningarnir hafi verið gerðir án tillits til niðurstöðu hans í áliti frá 10. janúar 2014 enda bílastæðanefnd grandsöm um ólögmæti samninganna a.m.k. frá þeim tímapunkti þegar hann kynnti niðurstöðuna. Samningsgerðin öll, aðdragandi hennar og ákvarðanataka hafi verið í verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti enda fól hún í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna, þvert á tilmæli. Þá segir: „að þeir kjörnu fulltrúar sem samþykktu að ráðstafa fjármunum Bílastæðasjóðs til Miðborgarinnar okkar, þrátt fyrir að vera grandsamir um að sú ráðstöfun væri ólögmæt, hafi brotið gegn 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.“

Eins og fram kemur í grein sem ég skrifaði um málið 30. júní sl. er ég sammála niðurstöðu hans. Hér er linkur á greinina sem ber yfirskriftina „Meirihluti borgarstjórnar braut siðareglur“

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/06/30/meirihluti-borgarstjornar-braut-sidareglur/

Tillaga um að leita álits siðanefndar

Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur lögðu fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarráðs 7. júlí sl. um að leitað yrði álit siðanefndar Samband íslenskra sveitarfélaga um málið. Tillögunni var frestað.

Óskað er eftir því að borgarráð samþykki að óska álits hjá siðanefnd Sambands íslenskra sveitafélaga, í samræmi við 29. gr. sveitastjórnarlaga og hlutverki nefndarinnar skv. erindisbréfi, um hvort það sé andstætt, eða fari gegn anda 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg ef við ákvarðanatöku sé farið gegn áliti umboðsmanns borgarbúa við ráðstöfun fjármuna. Tillaga þessi er sett fram þar sem í niðurstöðu umboðsmanns borgarbúa frá 3. júní 2016 segir að það hafi verið verulega ámælisvert að samningar hafi verið gerðir án tillits til niðurstöðu hans í áliti frá 10. janúar 2014. Orðrétt segir: „að þeir kjörnu fulltrúar sem samþykktu að ráðstafa fjármunum Bílastæðasjóðs til Miðborgarinnar okkar, þrátt fyrir að vera grandsamir um að sú rástöfun væri ólögmæt, hafa brotið gegn 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg“.

Bókun vegna þess að tillöginni var frestað

Á fundi borgarráðs 21. júlí sl. var tillagan lögð fram að nýju og frestað. Lögðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur fram eftirfarandi bókun á fundinum:

Það er ámælisvert að meirihlutinn í borgarráði treysti sér ekki til að taka tillöguna til afgreiðslu núna þrátt fyrir að hafa haft tvær vikur til að kynna sér hana. Áfellisdómur umboðsmanns borgarbúa er alvarlegur og álit hans á þann veg að full ástæða er til að krefjast frekari rannsóknar á málinu. Í álitinu kemur fram að umboðsmaður borgarbúa telur það verulega ámælisvert af hálfu bæði Bílastæðissjóðs og bílastæðanefndar að samningar hafi verið gerðir án tillits til ábendinga hans 10. janúar 2014 en á þeim tíma lá fyrir samningagerð við Miðborgina okkar og að Bílastæðasjóði og bílastæðanefnd hefði átt að vera full kunnugt um ólögmæti samninganna. Í áliti umboðsmanns borgarbúa segir að samningagerðin, aðdragandi og ákvarðanataka sé í ,,verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti þar sem hún feli í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna þvert á tilmæli.” Að mati umboðsmanns er sú ráðstöfun brot á 2. gr. siðareglnanna. Athugunarverð eru viðbrögð meirihlutans við áliti umboðsmanns og hvort eðlilegt geti talist að þeir fulltrúar meirihlutans sem sitja í bílastæðanefnd og eru jafnframt fulltrúar í forsætisnefnd gerist dómarar í eigin sök með að fjalla sjálfir þar um álitið og fella um það dóma en slíkt getur varla talist eðlileg né góð stjórnsýsla.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur