Sunnudagur 11.06.2017 - 13:04 - FB ummæli ()

Áætlanir um félagslegar íbúðir standast ekki

Meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. Samfylkingunni, Vinstri grænum, Pírötum og Bjartri framtíð, gengur illa að láta áætlanir í húsnæðismálum ganga upp. Meðan biðlistar lengjast og húsnæðisvandinn eykst þylur borgarstjóri upp hverja áætlunina á fætur annarri og færir eignir á milli A og B, þ.e. úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða, í þeirri von að borgarbúar átti sig ekki á brellunni. Loforðið um að fjölga íbúðum um 100 á ári hjá Félagsbústöðum hefur ekki gengið eftir. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hefur íbúðunum aðeins fjölgað um þrjár þrátt fyrir áætlanir og verulega fjölgun á biðlistum.

41% aukning á biðlista

Umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg hefur fjölgað um 41% á tæpu einu og hálfu ári. Í árslok 2015 voru þeir samtals 723 og í árslok 2016 voru þeir samtals 893 og hafði því fjölgað um 23,5% á einu ári. Nú eru samtals 1.022 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg.

Talnabrellur borgarstjóra

Íbúðir á vegum Félagsbústaða skiptast í þrennt, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, sértæk búsetuúrræði og þjónustuíbúðir fyrir aldraða.

Þar sem ljóst var að áætlanir meirihlutans í borgarstjórn um að fjölga eignum hjá Félagsbústöðum um 100 á ári myndu ekki ganga upp enn eitt árið var brugðið á það ráð í árslok 2016 að færa samtals 88 eignir úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða. Voru 16 eignir færðar undir sértæk búsetuúrræði* og 72 eignir undir þjónustuíbúðir aldraðra** (sjá mynd).

Með því að færa 88 eignir á milli A og B í bókhaldi borgarinnar lítur út fyrir að fjölgun á eignum Félagsbústaða hafi verið 119 á árinu 2016 en ekki 31 sem er hin raunverulega fjölgun enda íbúar á vegum Reykjavíkurborgar í öllum eignunum sem færðar voru. Von meirihlutans er væntanlega sú að fyrir næstu borgarstjórnarkosningar verði allir búnir að gleyma þessari talnabrellu þegar borgarstjóri fer að þylja upp allar íbúðirnar sem hann er búinn að byggja.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 10. júní 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur