Sunnudagur 16.07.2017 - 10:00 - FB ummæli ()

Af hverju voru engin sýni tekin

Engin sýni voru tekin úr sjónum á tímabilinu 20. júní til 5. júlí meðan skólp rann út í sjóinn vegna bilunar í neyðarlúgu skólphreinsistöðvarinnar við Faxaskjól. Um er að ræða lengstu og alvarlegustu bilun sem orðið hefur á skólphreinsikerfinu frá upphafi. Það var fréttastofa RÚV sem upplýsti um málið miðvikudaginn 5. júlí sl.

Á heimasíðu Veitna segir að bilunin hafi verið tilkynnt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þegar hún kom upp.

Í fréttum RÚV föstudaginn 7. júlí sl. kom fram að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi ekki út tilkynningu vegna bilunarinnar og Veitur, dótturfélag Orkuveitunnar, sem rekur dælustöðina, greindi ekki frá biluninni fyrr en eftir að sagt var frá henni í fréttum RÚV. Haft var eftir umhverfisstjóra Orkuveitunnar í fréttinni að ákvörðun um hvort tilkynnt er um mengunarhættu sé á forræði heilbrigðiseftirlitsins.

S. Björn Blöndal formaður borgarráðs sagði í fréttum RÚV föstudaginn 7. júlí sl. að heppilegra hefði verið að láta fólk vita og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í fréttum RÚV laugardaginn 8. júlí sl., þremur dögum eftir að málið var upplýst í fréttum RÚV, að hann hafi fyrst frétt af skólpmengun við Faxaskjól í fjölmiðlum, þótt skólpdælukerfi borgarinnar hafi verið bilað dögum saman og mörg hundruð milljónir lítra af skólpi hafi flætt í fjöruna.

Enn er mörgum spurningum ósvarað. Af hverju voru engin sýni tekin á tímabilinu 20. júní til 5. júlí? Af hverju varð þessi bilun? Mátti ekki sjá hana fyrir? Hvernig hafði viðhaldinu verið sinnt? Af hverju var ekkert tilkynnt, var það vegna þess að þetta var ekki vaktað og engin sýni tekin á tímabilinu 20. júní til 5. júlí? Af hverju vissi borgarstjóri, sem er æðsti embættismaður borgarinnar, ekkert um málið? Voru lög um upplýsingarétt um umhverfismál brotin og upplýsingastefna borgarinnar? Þessum spurningum er enn ósvarað. Framsókn og flugvallarvinir munu óska eftir því á næsta fundi borgarráðs að þeim verði svarað en engir fundir hafa verið haldnir með borgarfulltrúum um málið. Borgarráðsfundur verður haldinn fimmtudaginn 20. júlí nk.

Í fréttum RÚV miðvikudaginn 5. júlí sl. var greint frá því að 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi væri að flæða á hverri sekúndu út í hafið við Faxaskjól í Reykjavík og hafi gert í 10 sólahringa vegna bilunar í neyðarlúgu skólpdælustöðvarinnar. Sýni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók 14. og 19. júní sl. hafi ekki gefið tilefni til að gefa út aðvörun en gildin úr þeim sýnum hafi verið undir þeim mörkum sem eru sett við baðstaði í náttúrunni þannig að ekki hafi verið ástæða til að hafa áhyggjur af heilsu fólks við þær aðstæður. Til standi að taka sýni daginn eftir eða 6. júlí og meta stöðuna upp á nýtt.

Í fréttum RÚV fimmtudaginn 6. júlí sl. var upplýst að óhreinsað skólp renni ekki lengur í sjóinn við dælustöðina við Faxaskjól eftir bráðabirgðaviðgerð. Sýni hafi verið tekið.

Í fréttum RÚV föstudaginn 7. júlí sl. var greint frá því að í sýnunum sem tekin voru 6. júlí var saurgerlamengun yfir viðmiðunarmörkum austan megin í fjörunni við Ægisíðu skammt frá skólpdælistöðinni við Faxaskjól en undir viðmiðunarmörkum vestan megin við stöðina við Faxaskjól. Þá segir í fréttinni: „Allar dælur í skólpdælustöðinni við Faxaskjól voru meira og minna óvirkar í 10 sólarhringa og óhreinsað skólp úr stórum hluta höfuðborgarsvæðisins flæddi í fjöruna. Til samanburðar má geta að það tæki tæpa klukkustund að fylla Laugardalslaugina af skólpi miðað við rennslið sem verið hefur. Gagnrýnt hefur verið að hvorki var varað við klóakmengun né tilkynnt um bilun í skólpdælustöðinni. Enn hefur ekki verið greint frá biluninni á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, en nú rétt fyrir fréttir var greint frá niðurstöðu sýnatökunnar á vefnum. Engin tilkynning er um bilunina á vef Reykjavíkurborgar og Orkuveita Reykjavíkur greindi ekki frá henni fyrr en eftir að fjallað var um málið í fréttum RÚV. Búið er að gera við dælustöðina til bráðabirgða en óvíst er hvenær varanlegri viðgerð lýkur.“ 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur