Miðvikudagur 18.05.2016 - 11:05 - FB ummæli ()

Hvað varð um athugasemdir Öryggisnefndarinnar?

Á fundi borgarstjórnar 3. maí sl. samþykkti meirihluti borgarstjórnar, þ.e. Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð, nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar þar sem NA/SV flugbrautin (flugbraut 06/24) eða svokölluð neyðarbraut er tekin af skipulagi.

Niðurstaða héraðsdóms
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 22. mars sl. var innanríkisráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, gert skylt að loka NA/SV flugbraut (flugbraut 06/24) á Reykjavíkurflugvelli og endurskoða skipulagsreglur fyrir völlinn til samræmis við lokun flugbrautarinnar innan 16 vikna frá dómsuppkvaðningu að viðlagðri greiðslu dagsekta til Reykjavíkurborgar, að fjárhæð 1.000.000 króna hvern dag. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og verður flutt þar 1. júní nk.

Fullvissa liggur ekki fyrir að lokun brautarinnar komi ekki niður á flugöryggi 
Niðurstaða héraðsdóms byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Fullnægjandi gögn liggja enn ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun um lokun brautarinnar.

Í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 kemur m.a. fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga. Þá nái það ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Bendir Samgöngustofa á að gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. Tekur Samgöngustofa það sérstaklega fram að hún rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma, en Reykjavíkurborg vísar til þeirrar skýrslu máli sínu til stuðnings við það að taka brautina af skipulagi. Samgöngustofa taldi hins vegar að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul, en áhættumat Isavia er unnið með hliðsjón af þeirri skýrslu, sýndi að nothæfisstuðulinn færi ekki undir 95%. Hefur Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) gert alvarlegar athugasemdir við það og telur að útreikningur nothæfisstuðuls sé rangur í skýrslunni.

Hvað varð um athugasemdir ÖFÍA?
Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu eða með bréfi 9. september 2015 til innanríkisráðuneytis gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna athugasemdir um að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tæki ekki til greina sem leiddi til þess að skýrslan innihéldi alvarlegar villur.

Öryggisnefndin telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrsla Isavia byggist á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá gerir Öryggisnefndin athugasemdir við að áhættumatsskýrslan taki ekki mið af sjúkraflugi.

Lýkur Öryggisnefndin bréfi sínu á því að gera alvarlegar athugasemdir við framvindu málsins og bendir á að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varði flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti. Afrit af bréfi Öryggisnefndarinnar var sent Samgöngustofu, Isavia og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Bókanir og athugasemdir Framsóknar og flugvallarvina

Á borgarstjórnarfundi 15. september 2015 fóru Framsókn og flugvallarvinir yfir bréf Öryggisnefndarinnar og sendu öllum borgarfulltrúum afrit af bréfinu. Þá fóru Framsókn og flugvallarvinir yfir bréfið á fundi borgarstjórnar 3. maí sl. þegar meirihlutinn samþykkti deiliskipulagið. Bréfið er ekki meðal þeirra gagna sem liggja í málinu og samþykkt meirihlutans fyrir deiliskipulaginu byggir á. Hins vegar er vísað til gagna sem ekkert gildi hafa svo sem skýrslu Eflu um nothæfistíma. Framsókn og flugvallarvinir lögðu eftirfarandi bókanir fram við samþykkt meirihlutans á deiliskipulaginu:

Bókun Framsóknar og flugvallarvina í umhverfis- og skipulagsráði 20. apríl 2016:

Þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur liggja ekki fyrir fullnægjandi gögn og þar með fullvissa um að hægt sé að loka brautinni án þess að það komi niður á flugöryggi. Niðurstaða dómsins byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Því til stuðnings er vísað til bréfs frá 9.09.2015, sem Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) sendi til innanríkisráðueytis rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia, en í bréfinu kemur fram að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul, en áhættumatsskýrsla Isavia er unnin með hliðsjón af henni, sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tekur ekki til greina sem leiðir til þess að skýrslan inniheldur alvarlegar villur. ÖFÍA telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrsla Isavia byggi á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni og skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá taki áhættumat Isavia ekki til sjúkraflugs eins og staðfest er í niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia frá 1. júní 2015. Þá er staðfest í niðurstöðu Samgöngustofu að hin skýrslan sem Efla vann fyrir Isavia um svokallaðan nothæfistíma hafi hvorki verið rýnd né hafi Samgöngustofa tekið afstöðu til hennar. Skýrslan hefur því ekkert vægi en samt er ítrekað vísað til hennar í umsögn skipulagsfulltrúa.

Bókun Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði 28. apríl 2016 og borgarstjórn 3. maí 2016:

Niðurstaða héraðsdóms byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Fullnægjandi gögn liggja enn ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar. Í niðurstöðu Samgöngustofu (SGS) 1. júní 2015 um áhættumatið kemur m.a. fram að það nái hvorki til neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. SGS rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma en taldi að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul sýndi að hann færi ekki undir 95%. Þremur mánuðum eftir niðurstöðu SGS gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) athugasemdir um að í skýrslunni um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en þar séu skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla taki ekki til greina sem leiðir til þess að skýrslan inniheldur alvarlegar villur. ÖFÍA telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrslan byggi á henni. Hafi borið að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. 

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur