Fimmtudagur 26.1.2017 - 11:33 - FB ummæli ()

Talnaleikur borgarstjóra

Meirihlutanum í borgarstjórn gengur illa undir forystu Dags B. Eggertssonar að láta áætlanir í húsnæðismálum ganga upp þó svo borgarstjóri sé duglegur að leika að sér að tölum. Á einu ári hefur umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum fjölgað um 23,5%. Í árslok 2016 voru 893 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum, þar af voru 643 metnir í mikilli þörf. Í árslok 2015 voru 723 umsækjendur á biðlista, þar af voru 535 metnir í mikilli þörf. Þá voru í árslok 2016 samtals 161 umsækjandi á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum og 172 umsækjendur á biðlista eftir þjónustuíbúðum aldraðra.

Leikur að tölum  
Þar sem ljóst var að áætlanir meirihlutans í borgarstjórn um að fjölga eignum hjá Félagsbústöðum um 100 á ári myndu ekki takast enn eitt árið var brugðið á það ráð af hálfu meirihlutans í borgarstjórn að færa 91 eign úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða í árslok 2016. Eingöngu er um bókhaldstilfærslu að ræða enda eru íbúar á vegum velferðarsviðs borgarinnar búsettir í eignunum. Raunveruleg fölgun á eignum Félagsbústað árið 2016 voru 33 eignir sem keyptar voru á almennum markaði eða byggðar af Félagsbústöðum, þ.e. 27 almennar félagslegar leiguíbúðir og sex sértæk búsetuúrræði.

Með því að færa 91 eign á milli A og B getur meirihlutinn sagt að fjölgun á eignum Félagsbústaða hafi verið 124 eignir á árinu 2016 en ekki 33 eignir enda lítur það töluvert betur út á pappír og allir verða búnir að gleyma því fyrir næstu kosningar þegar borgarstjóri fer að telja allar íbúðirnar sem hann er búinn að byggja.

Af þessari 91 eign sem færð var milli A og B í bókhaldi borgarinnar voru 19 eignir færðar undir sértæk búsetuúrræði og 72 undir þjónustuíbúðir aldraðra.

Fjölgun eigna milli ára

Eignum Félagsbústaða er skipt í þrennt, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, sértæk búsetuúrræði og þjónustuíbúðir aldraðra.

Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 27 íbúðir, þ.e. 26 voru keyptar á almennum markaði og ein af Búseta. Borgin byggði enga slíka íbúð. Á árinu 2012 fjölgaði þeim um fjórar, á árinu 2013 um 10, á árinu 2014 um 17 og árinu 2015 um 84 en rúmlega helmingur þeirra var keyptur af Íbúðalánasjóði á gamlársdag 2015.

Á árunum 2012 og 2013 varð engin fjölgun á sértækum búsetuúrræðum en á árinu 2014 fjölgaði þeim um þrjú. Engin fjölgun varð á árinu 2015. Á árinu 2016 fjölgaði þeim um 25, þ.e. annars vegar keyptu Félagsbústaðir eina eign á almennum markaði og byggði íbúðakjarna fyrir fimm einstaklinga og hins vegar bættust við 19 eignir frá eignasjóði Reykjavíkurborgar vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan.

Á árinu 2012 fjölgaði þjónustuíbúðum aldraðra um tvær. Engin fjölgun varð á árunum 2013-2015. Á árinu  2016 fjölgaði þeim um 72 vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan frá eignasjóði Reykjavíkurborgar.

Þegar teknar eru saman tölurnar yfir þessa þrjá flokka, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, sértæk búsetuúrræði og þjónustuíbúðir aldraðra, þá fjölgar þeim samtals um 6 á árinu 2012, 10 á árinu 2013, 20 á árinu 2014, 84 á árinu 2015 og 124 á árinu 2016. Raunveruleg fjölgun á árinu 2016 var hins vegar 33 eignir eins og rakið er hér að framan.

Það er staðreynd að meirihlutanum í borgarstjórn gengur illa að standa við áætlanir og kosningaloforð Samfylkingarinnar um 2500-3000 leiguíbúðir enda ekki skrýtið þegar efndir  meirihlutans byggjast á tilfærslum eigna innan borgarinnar en ekki með raunverulegri fjölgun þeirra sem hefði áhrif á biðlista til lækkunar. Svona talnaleikfimi er auðvitað bara gerð í þeim tilgangi einum að slá ryki í augu borgarbúa. Biðlistar borgarinnar tala sínu máli en tæplega fjórðungs aukning varð á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum milli ára sem staðfestir að meirihlutanum gengur ekkert í að takast á við vandann í borginni þrátt fyrir áætlanirnar sínar og yfirlýsingar, enda býr fólk hvorki í áætlunum né talnabrellum borgarstjóra.

Töflur yfir fjölda eigna og skýringar

  1. Félagslegar almennar leiguíbúðir

Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 27 íbúðir, þ.e. 26 voru keyptar á almennum markaði og ein af Búseta. Borgin byggði enga slíka íbúð.

Í lok tímabils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Almennar félagslegar leiguíbúðir fjöldi 1844 1842 1786 1790 1800 1817 1901 1928
Breytingar milli ára fjöldi -2 -56 4 10 17 84 27
  1. Sértæk búsetuúrræði

Á árinu 2016 keyptu Félagsbústaðir eina íbúð á almennum markaði og byggði íbúðakjarna fyrir fimm einstaklinga. Auk þessara sex eigna þá bættust við 19 eignir frá eignasjóði Reykjavíkurborgar vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan.

Í lok tímabils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Sértæk búsetuúrræði fjöldi 0 0 115 115 115 118 118 143
Breytingar milli ára fjöldi 0 115 0 0 3 0 25
  1. Þjónustuíbúðir aldraðra

Á árinu 2016 bættust 72 eignir við þjónustuíbúður aldraðra vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan frá eignasjóði Reykjavíkurborgar.

Í lok tímabils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Þjónustuíbúðir aldraðra fjöldi 310 312 305 307 307 307 307 379
Breytingar milli ára fjöldi 2 -7 2 0 0 0 72
  1. Fjölgun milli ára

Af þessum 124 eignum sem bættust við eignasafn Félagsbústaða á árinu 2016 eru samtals 33 keyptar eða byggðar af Félagsbústöðum en 91 eign var færð úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða.

Í lok tímbils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Almennar félagslegar leiguíbúðir fjöldi -2 -56 4 10 17 84 27
Sértæk búsetuúrræði fjöldi 0 115 0 0 3 0 25
Þjónustuíbúðir aldraðra fjöldi 2 -7 2 0 0 0 72
samtals 0 52 6 10 20 84 124

Á árinu 2016 keyptu Félagsbústaðir 27 almennar félagslegar leiguíbúðir, sértækum búsetuúrræðum fjölgaði um 25, þar af 19 vegna eignatilfærslunnar úr eignasjóði Reykjavíkurborgar og þjónustuíbúðum aldraðra fjölgaði um 72 vegna eignatilfærslunnar úr eignasjóði Reykjavíkurborgar.

Flokkar: Húsnæðismál

Sunnudagur 15.1.2017 - 12:59 - FB ummæli ()

Fólk býr ekki í áætlunum borgarstjóra

Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar sem er frá árinu 2011 hefst á þessum orðum: „Stefna Reykjavíkurborgar er að allir borgarbúar hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki.“ Síðan eru liðin rúm 5 ár og ástandið aldrei verið verra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur verið duglegur að þylja upp hvað fasteignafélögin eru að gera eða hvað þau ætla að fara gera á lóðum sem eru búnar að vera í höndum þessara félaga í mörg ár. Hann er líka duglegur að yfirfæra getuleysi þessa meirihluta í húsnæðismálum yfir á ríkið. Hann hefur hins vegar ekki verið jafn duglegur við að úthluta lóðum eða framfylgja stefnum og áætlunum sem hann hefur sett. Borgarstjóri virðist nefnilega halda að fólk geti búið í áætlunum eða stefnum og það sé ekki hlutverk borgarinnar að úthluta lóðum.

Þeir sem til þekkja vita hins vegar að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á stóran þátt í því að skapa húsnæðisvandann í borginni með ákvörðunum og athafnaleysi þessa og síðasta meirihluta. Bæði með því að úthluta fáum fjölbýlishúsalóðum, draga það að úthluta lóðum til stúdenta en í viðtali á visir.is í ágúst 2011 vegna langra biðlista eftir stúdentaíbúðum segir framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta að ástandið þyrfti ekki að vera svona slæmt ef Félagsstofnun stúdenta fengi lóðir til að byggja á, og með því að fjölga ekki félagslegum leiguíbúðum árin eftir hrun þegar framboð á húsnæði sem hentaði vel til leigu „flæddi“ út á markaðinn og aðrir sáu kauptækifærin. Borgin ákvað hins vegar að draga úr fjölgun félagslegra leiguíbúða á síðasta kjörtímabili sem m.a. má rekja til vanþekkingar á framboði leiguhúsnæðis og leiguverðs en fljótlega eftir að borgin setti sér húsnæðisstefnuna á árinu 2011 hækkaði leiguverð og framboð minnkaði en eftir sat borgin nánast aðgerðarlaus með húsnæðisstefnuna sem hefst á framangreindum upphafsorðum.

Á árinu sem var að líða hefur borgarstjóri aðeins tekið við sér í því að úthluta lóðum m.a. til stúdenta og gert samkomulag við ASÍ um lóðir á grundvelli samkomulagsins sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við aðila vinnumarkaðarins. Það tekur hins vegar tíma að byggja og óhætt að fullyrða að ef þessi og síðasti meirihluti borgarstjórnar hefði ekki sofnað á verðinum væri ástandið töluvert annað.

Áætlanir um að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 100 á ári á þessu kjörtímabili hafa ekki gengið eftir, engri fjölbýlishúsalóð með fleiri en 5 íbúðum var úthlutað á árinu 2015 og nú síðast bókaði minnihlutinn í borgarstjórn vegna RÚV lóðarinnar: „Ljóst er að það stendur ekki steinn yfir steini í áætlunum og yfirlýsingum meirihlutans í húsnæðismálum. Fyrst stóð til að borgin ætti 40 íbúðir sem dreifðar væru um svæðið en svo að þær væru allar í sama húsinu og nú að það eigi að selja byggingarréttinn en borgin hafi kauprétt á 15 íbúðum.“

Sú stefna borgarinnar að fækka félagslegum almennum leiguíbúðum á síðasta kjörtímabili hefur aukið vandann verulega, en það var fyrst í október 2015 sem Félagsbústaðir áttu jafn margar almennar félagslegar leiguíbúðir eins og félagið átti á árunum 2009 og 2010. Í árslok 2016 voru 893 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg, þar af voru 643 metnir í mikilli þörf. Til samanburðar má geta þess að í árslok 2015 voru 723 umsækjendur á biðlista, þar af voru 535 metnir í mikilli þörf. Ástandið hefur því versnað verulega milli ára.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 14. janúar 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

Föstudagur 13.1.2017 - 19:49 - FB ummæli ()

Tillaga um tímabundna opnun neyðarbrautarinnar

Á síðasta borgarstjórnarfundi sem haldinn var 10. janúar sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu um viðræður borgarstjóra og innanríkisráðherra um tímabundna opnun NA-SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, eða svokallaðrar neyðarbrautar, fyrir sjúkraflug.

Tillagan:

„Borgarstjórn samþykkir að borgarstjóri ræði við innanríkisráðherra og veiti ríkinu heimild Reykjavíkurborgar til þess að hafa NA-SV flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli opna fyrir sjúkraflug fram á vor.“

Greinargerðin með tillögunni:

„Undanfarna daga hafa ýmsir sérfræðingar lýst yfir áhyggjum sínum af lokun NA-SV flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar sjúkraflugs frá Hornafirði 28. desember sl. þar sem ekki var hægt að lenda í Reykjavík og flogið var með sjúkling til Akureyrar og krafist þess að brautin verði opnuð að nýju. Má þar m.a. nefna stjórn Flugmálafélags Íslands, bæjarstjórn Hornafjarðar og bæjarráð Akureyrar. Framsókn og flugvallarvinir telja því nauðsynlegt, meðan fullnægjandi lausn hefur ekki fundist og í ljósi þeirra áhyggja og krafna sem fram hafa komið frá fagaðilum og sveitarstjórnum, að brautin verði höfð opin fram á vor í neyðartilfellum þegar ekki er hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum á Reykjavíkurflugvelli. Því verði borgarstjóra falið að ræða við innanríkisráðherra og veita ríkinu heimild Reykjavíkurborgar að hafa brautina opna fram á vor óski innanríkisráðherra þess.“

Meirihlutinn í borgarstjórn hafði engan áhuga á tillögunni og lagði fram svohljóðandi breytingartillögu sem meirihlutinn samþykkti:

„Borgarstjórn beinir því til innanríkisráðuneytisins að kanna til hlítar hvort tilefni sé til að opna flugbraut 07/25 á Keflavíkurflugvelli og að afstaða til opnunar brautarinnar verði tekin út frá því mati.“

Minnihlutinn, þ.e. Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur, bókuðu:

„Minnihlutinn í borgarstjórn lýsir furðu sinni yfir því að meirihlutinn í borgarstjórn, þ.e. Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar, treysti sér ekki til að taka tillögu Framsóknar og flugvallarvina til atkvæðagreiðslu og leggi fram nýja tillögu sem meirihlutinn kallar breytingartillögu sem hún er auðvitað ekki. Ljóst er að meirihlutinn vildi ekki samþykkja tillöguna og hefði verið stórmannlegra af honum að hafna henni en standa í svona leikaraskap og þverbrjóta reglur um fundarsköp. Meirihlutinn þykist vilja samráð og samtal en sýnir það ítrekað í verki að svo er ekki. Með því að flytja nýja tillögu um annað efni og kalla hana breytingartillögu er meirihlutinn að fella þá tillögu sem lögð var fram og til umræðu er og snýst um að heimila nýtingu Reykjavíkurflugvallar tímabundið í þágu sjúkraflugs og standa þannig vörð um skyldur sínar sem höfuðborg með öryggi sjúklinga í fyrirrúmi fram að þeim tíma að önnur lausn finnst. Minnihlutinn situr hjá við tillögu meirihlutans sem meirihlutinn kallar breytingartillögu þar sem um allt aðra tillögu er að ræða en þá sem lögð var fram og til umræðu er enda teljum við hana ekki fela í sér lausn á þeirri bráðastöðu sem nú er uppi í tengslum við sjúkraflug til höfuðborgarinnar.“

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 29.12.2016 - 14:05 - FB ummæli ()

Upprifjun á áhyggjum fagaðila um lokun neyðarbrautarinnar

Eins og flestir muna sannaði neyðarbrautin gildi sitt í árslok 2015 en daginn fyrir gamlársdag í fyrra treysti sjúkraflug í hæsta forgangi algjörlega á neyðarbrautina en ekki var hægt að lenda á hinum tveimur brautunum. Í gær var ekki hægt að lenda með sjúkling í Reykjavík þar sem búið er að loka svokallaðri neyðarbraut og hinar tvær flugbrautirnar voru lokaðar vegna veðurs en það hefði verið hægt að lenda á neyðarbrautinni ef ekki væri búið að loka henni. Flogið var með sjúklinginn til Akureyrar.

Rifjum nú aðeins upp áhyggjur fagaðila frá því í sumar eftir að dómur Hæstaréttar féll í svokölluðu neyðarbrautarmáli en eins og kunnugt er snérist dómur Hæstaréttar um að samningar skyldu halda en ekki um flugöryggi. Ef ríkið hefði ætlað að byggja á því hefði það þurft að leggja fram gögn því til stuðnings sem ekki var gert en algengustu sönnunargögn í slíkum málum eru matsgerðir dómkvaddra matsmanna en ríkið aflaði ekki slíks mats.

Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin, sem reyndar fagaðilar bentu ítrekað á, er full ástæða til að minna alþingismenn á orðalag í niðurstöðu héraðsdóms í svokölluðu neyðarbrautarmáli en þar segir: „Í krafti almennra heimilda sinna getur Alþingi einnig, ef því er að skipta, gefið ráðherra fyrirmæli um framkvæmd málefna Reykjavíkurflugvallar, svo og sett sérstök lög um málefni vallarins, þ. á m. um stærð og umfang flugvallarins, eftir atvikum þannig að kveðið sé á um heimildir til eignarnáms vegna ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og forgang laganna gagnvart hvers kyns áætlunum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.“

Áskorun flugmanna á flugvél Landhelgisgæslu Íslands

Í Fréttablaðinu 24. júní sl. var birt áskorun flugmanna á flugvél Landhelgisgæslu Íslands þar sem þeir mótmæla harðlega lokun flugbrautar 06/24 og taka undir yfirlýsingu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna frá 14. júní sl. en félagið lýsti yfir verulegum áhyggjum af stöðu flugöryggismála á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar dómsins. Harma flugmenn á flugvél Landhelgisgæslunnar að ekkert tillit hafi verið tekið til flugöryggishagsmuna sjúkra-, leitar-, björgunar- og almannavarnaflugs við ákvörðun um lokun brautarinnar og óttast þeir afleiðingarnar af þeirri ráðstöfun þar sem oft á tíðum þurfi að að fara í slík neyðarflug þegar veður séu hvað verst og aðstæður hvað varasamastar því hafi flugöryggi þeirra sem slíkt flug stunda verið skert.

http://www.visir.is/askorun-flugmanna-a-flugvel-landhelgisgaeslu-islands/article/2016160629429

Áhyggjur Mýflugs

Þá hafa fyrirsvarsmenn Mýflugs, sem sinnir nær öllu sjúkraflugi innan Íslands, ítrekað lýst yfir verulegum áhyggjum vegna lokunar brautarinnar. Í umfjöllun um málið á heimasíðunni www.alltumflug.is frá því 15. júní sl. er m.a. notuð eftirfarandi samlíking: „Það hefur stundum verið sagt að sú ráðstöfun að loka braut 06/24 sé eins og að taka loftpúðann og öryggisbeltin úr hverjum einasta bíl í eigu þjóðarinnar því það veit enginn hvenær hann þarf á þessari mikilvægu braut að halda í vályndu veðri þegar líf liggur við.“

http://alltumflug.is/flugfrettir/9712/Lokun_ney%C3%B0arbrautarinnar_mun_hafa_aflei%C3%B0ingar_-_A%C3%B0eins_t%C3%ADmaspursm%C3%A1l

Áhyggjur Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna lýsti því strax yfir haustið 2015 að nefndin teldi að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul væri ekki rétt þar sem hún væri byggð á röngum forsendum og í andstöðu við alþjóða reglur. Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu eða með bréfi 9. september 2015 til innanríkisráðuneytis gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna athugasemdir um að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul væri hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tæki ekki til greina sem leiddi til þess að skýrslan innihéldi alvarlegar villur. Taldi Öryggisnefndin skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt væri að áhættumatsskýrsla Isavia byggist á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá gerir Öryggisnefndin athugasemdir við að áhættumatsskýrslan taki ekki mið af sjúkraflugi. Lýkur Öryggisnefndin bréfi sínu á því að gera alvarlegar athugasemdir við framvindu málsins og bendir á að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varði flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti.

Eingöngu tímaspursmál 

Á mbl.is í dag er viðtal við Sig­urð E. Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri, sem seg­ir það þó bara tímaspurs­mál hvenær erfiðara til­felli kem­ur upp. Sig­urður seg­ir eng­an í heil­brigðis­kerf­inu vilja ræða mál­efni ein­stakra sjúk­linga, en það verði engu að síður að ræða stöðu þess­ara mála. „Við skild­um þetta sam­komu­lag þannig að lok­an­ir flug­brauta ættu ekki að koma til, nema það kæmi eitt­hvað sam­bæri­legt í staðinn sem myndi tryggja ör­yggi og skil­virkni í sjúkra­flutn­ing­um. Nú er búið að taka þetta fyrsta skref og það hef­ur ekk­ert sam­bæri­legt komið í staðin,“ seg­ir Sig­urður og kveðst ekki vera að leita að blóra­böggli. Upp sé hins veg­ar kom­in sú staða að það muni koma upp til­felli þar sem lok­un braut­ar­inn­ar hef­ur þessi áhrif. „Við höf­um ekk­ert í hönd­un­um, hvorki nýj­an flug­völl eða nein­ar aðrar aðgerðir þar sem komið er til móts við þetta. Það er bara tímaspurs­mál hvenær eitt­hvað ger­ist og við vit­um það flest.“ http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/29/fleiri_tilfelli_muni_koma_upp/

Áhyggjur sérfræðinga í gær og ályktun FMÍ

Í gær lýsti flugstjóri Mýflugs þeirri alvarlegu stöðu sem upp væri komin vegna lokunar svokallaðrar neyðarbrautar; „Núna er komið að því að þetta er orðið að veruleika sem er margbúið að vara við en það er enginn sem hlustar“.  Þá sendi Flugmálafélag Íslands (FMÍ) frá sér fréttatilkynningu með yfirskriftinni „Sjúkraflug liggur niðri af mannavöldum“. Í fréttatilkynningunni segir m.a. „Stjórn Flugmálafélag Íslands man ekki eftir jafn alvarlegri stöðu í flugsamgöngum innanlands og komið hefur fram í dag. Ljóst er að varnaðarorð flugstjóra og sérfræðinga í flugmálum áttu við full rök að styðjast og að stjórnmálamenn hafa gert alvarleg mistök með því að loka Neyðarbrautinni.“

Hér er að finna samantekt frá því í gær sem sérfræðingar sögðu vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna lokunar svokallaðrar neyðarbrautar: http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/12/28/ord-serfraedinga-um-lokun-neydarbrautarinnar/

Ég tel fulla ástæðu til þess að borgarstjóri og innanríkisráðherra ræði saman um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin og margir vöruðu við vegna lokunar svokallaðrar neyðarbrautar og opni brautina hið snarasta fyrir sjúkraflugi meðan unnið er að fullnægjandi lausn. Þá er full ástæða fyrir alþingismenn að láta málið til sín taka. Hér að ofan eru rifjuð upp nokkur varnaðarorð og áhyggjur fagaðila frá því í sumar sem því miður hefur ekki verið hlustað á. Það er algjörlega óviðunandi að ekkert sé gert eða eins og Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri segir á mbl.is í dag að það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist.

Flokkar: Flugvöllur

Miðvikudagur 28.12.2016 - 22:09 - FB ummæli ()

Orð sérfræðinga um lokun neyðarbrautarinnar

Sú alvarlega staða kom upp í dag að ekki var hægt að lenda sjúkraflugvél í Reykjavík þar sem búið er að loka svokallaðri neyðarbraut.

Í dag birti Þorkell Ásgeir Jóhannsson flugstjóri hjá Mýflugi, sem sér um sjúkraflugið, svohljóðandi færslu á facebook:

„Þar kom að því. Nú hefur það gerst að ekki var hægt að koma alvarlega veikum einstaklingi til Reykjavíkur í sjúkraflugi, þar sem við hefðum þá þurft að nota flugbraut 24 (neyðarbrautina) vegna mikils SV-hvassviðris. Aðrar flugbrautir bæði í Reykjavík og Keflavík voru ófærar vegna þessa veðurs.

Það fólk sem ber ábyrgð á þessari skerðingu Reykjavíkurflugvallar lætur sig ekkert muna um að storka örlögum annarra.

Við flugum þessum sjúklingi til Akureyrar þar sem hann fær vonandi fullnægjandi umönnun en þó er ljóst að hann hefði þurft að komast til LSH í Reykjavík. Útkallið var í fyrsta forgangi.“

Í samtali við Alltumflug.is segir Þorkell: „Við sóttum einn sjúkling hérna á Austurlandi og áttum að fara með hann suður í fyrsta forgangi en það var bara ekki hægt – Núna er komið að því að þetta er orðið að veruleika sem er margbúið að vara við en það er enginn sem hlustar“.

Viðtalið er hægt að lesa hér:

http://alltumflug.is/flugfrettir/10511/Sj%C3%BAkraflugv%C3%A9l_gat_ekki_flogi%C3%B0_til_Reykjav%C3%ADkur_%C3%AD_kv%C3%B6ld_me%C3%B0_alvarlegan_veikan_sj%C3%BAkling

Þá birti Flugmálafélag Íslands (FMÍ) eftirfarandi færslu á facebook í dag:

„Sú alvarlega staða er nú komin upp að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið með öllu ófær vegna vinda og lokun Neyðarbrautarinnar.

Nú skiptir miklu máli að bregðast hratt við. Að opna Neyðarbrautina á ný kostar ríkissjóð ekkert og getur Alþingi tekið ákvörðun um það þegar í stað. Flugmálafélagið hvetur nýtt þing til þess að bregðast við tafarlaust áður en það verður um seinan og án þess að það hafi þá kostað mannslíf.“

Hér að neðan er tilkynning FMÍ til fjölmiðla nú í kvöld:

Sjúkraflug liggur niðri af mannavöldum
Sú alvarlega staða er nú komin upp að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið með öllu ófær frá því snemma í morgun. Engin sjúkraflugvél gat lent á vellinum þar sem búið er að loka þeirri flugbraut sem nýtist í stormi úr suðvestri og er í daglegu tali nefnd Neyðarbrautin. Brautin er þó enn á sínum stað og í góðu ástandi. Aðeins stjórnmálamenn standa í vegi fyrir lendingum á brautinni.

Stjórn Flugmálafélag Íslands man ekki eftir jafn alvarlegri stöðu í flugsamgöngum innanlands og komið hefur fram í dag. Ljóst er að varnaðarorð flugstjóra og sérfræðinga í flugmálum áttu við full rök að styðjast og að stjórnmálamenn hafa gert alvarleg mistök með því að loka Neyðarbrautinni.

Nú skiptir miklu máli að bregðast hratt við. Að opna Neyðarbrautina á ný kostar ríkissjóð ekkert og getur Alþingi tekið ákvörðun um það þegar í stað. Flugmálafélagið hvetur nýtt þing til þess að bregðast við tafarlaust áður en það verður um seinan og án þess að það hafi þá kostað mannslíf.

Samþykkt af stjórn Flugmálafélags Íslands þann 28. Desember 2016.

http://us10.campaign-archive1.com/?u=c211f22f14eee7469dfb57aed&id=6a31fa44a8

Flokkar: Flugvöllur

Mánudagur 12.12.2016 - 21:16 - FB ummæli ()

Skjaldborgin Tjaldborg

Í fréttum RÚV í kvöld var viðtal við 65 ára konu sem er öryrki og býr í húsbíl á tjaldsvæðinu í Laugardalnum. Í fréttinni er upplýst að hún sé búin að vera á biðlista í um 2 ár en samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafi tæplega 880 verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði 1. desember sl. Meðalbiðtími eftir íbúð sé um 38 mánuðir en þeir sem séu í brýnustu þörfinni bíði skemur en aðrir.  http://www.ruv.is/frett/heldur-jol-i-husbil-i-laugardalnum

Einhverra hluta vegna var ekki rætt við Dag borgarstjóra um málið enda virðist hann meira og minna stikkfrír þegar kemur að vandamálunum í borginni. Þeir sem til þekkja vita hins vegar að Dagur borgarstjóri á stóran þátt í því að skapa þennan vanda með ákvörðunum og athafnaleysi þessa og síðasta meirihluta í borginni. Bæði með því að úthluta ekki lóðum, en á síðasta ári var engri lóð með fleiri en 5 íbúðum úthlutað, og með því að fjölga ekki félagslegum leiguíbúðum árin eftir hrun þegar framboð á húsnæði sem hentaði vel til leigu „flæddi“ út á markaðinn og aðrir sáu kauptækifærin. Borgin ákvað hins vegar að draga úr fjölgun félagslegra leiguíbúða á síðasta kjörtímabili sem m.a. má rekja til vanþekkingar borgarinnar á framboði leiguhúsnæðis og leiguverðs en fljótlega eftir að borgin setti sér húsnæðisstefnu á árinu 2011 hækkaði leiguverð og framboð minnkaði en eftir sat borgin nánast aðgerðarlaus með húsnæðisstefnuna sem hefst á orðunum: „Stefna Reykjavíkurborgar er að allir borgarbúar hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki.“ Borgarbúar geta svo dæmt um það hvort þetta rúmlega 5 ára gamla loforð eigi við rök að styðjast!

Sú stefna borgarinnar að fækka félagslegum almennum leiguíbúðum á síðasta kjörtímabili hefur aukið vandann verulega, en það var fyrst í október 2015 sem Félagsbústaðir áttu jafn margar almennar félagslegar leiguíbúðir eins og félagið átti á árunum 2009 og 2010. Í árslok 2015 áttu Félagsbústaðir 57 fleiri félagslegar almennar leiguíbúðir en í árslok 2009. Borgin ætlaði að fjölga þeim um 200 á árunum 2015 og 2016 en 15. september sl. hafði þeim einungis fjölgað um 99 íbúðir frá 1. janúar 2015, þar af höfðu einungis 11 eignir sem innihalda 15 leigueiningar verið keyptar á tímabilinu 1. janúar 2016 til 15. september 2106.

Það er ljóst að stefna borgarinnar að fjölga þeim um 100 á ári á þessu kjörtímabili hefur ekki gengið eftir. Það er líka ljóst að borginni gengur illa að takast á við ört vaxandi biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum. Í fréttinni sem vísað er til hér að ofan voru um 880 manns á biðlista 1. desember sl., 1. september sl. voru 844 á biðlista en um síðustu áramót voru 723 manns á biðlista.

Hér að neðan er linkur á nokkrar greinar sem ég hef skrifað um húsnæðismálin í Reykjavík:

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/12/06/ekki-a-thessu-kjortimabili/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/11/08/57-leiguibudir-a-6-arum/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/08/03/lodaverdaleyndin/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/06/09/ulfarsardalur-endurskodun/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/02/27/thetting-byggdar-og-unga-folkid/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/02/24/1887-ibudir/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/02/19/lodauthlutanir-borgarinnar-2015/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/02/11/bidlistaborgin-reykjavik/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/01/17/husnaedisuppbyggingin-i-reykjavik-malthing-november-2015/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/01/15/engar-lodir-til-solu/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/01/07/spurningar-i-upphafi-ars/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/11/05/fjolgun-ibuda-i-reykjavik/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/09/18/bryn-thorf-einhleypra/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/08/16/vilji-er-allt-sem-tharf-til-ad-leysa-husnaedisvandann/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/08/11/felagslegum-leiguibudum-faekkar-i-reykjavik/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/02/20/stora-kosningalofordid-vertu-a-gotunni/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2014/11/17/fyrirspurn-um-kaup-a-felagslegum-ibudum/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2014/11/12/eru-2500-3000-nyjar-ibudir-i-bodi-borgarstjora/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2014/10/31/viltu-koflotta-gangstett-eda-felagslegar-leiguibudir/

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2014/09/23/skortur-a-felagslegum-leiguibudum-i-reykjavik/

 

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 6.12.2016 - 15:53 - FB ummæli ()

Ekki á þessu kjörtímabili

Það gengur hægt að fjölga félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík. Í desember 2014 var samþykkt að fjölga þeim um 100 á ári. Það hefur ekki tekist. Á fundi borgarráðs 3. nóvember sl. var upplýst að Félagsbústaðir hafi á tímabilinu 1. janúar 2016 til 15. september 2106 einungis keypt 11 eignir sem innihalda 15 leigueiningar.

Meirihluti borgarstjórnar með Dag B. Eggertsson borgarstjóra í broddi fylkingar hefur nú endanlega horfið frá þeirri stefnu að fjölga þeim um 100 á ári á þessu kjörtímabili. Miðað við „frammistöðu“ meirihlutans á kjörtímabilinu og áætlanir hans til loka kjörtímabilsins mun ekki nást að fjölga þeim um 100 á ári á þessu kjörtímabili eins og lofað var.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 sem samþykkt var í desember 2014 varðandi Félagsbústaði segir: „Áætluð stækkun á eignasafni félagsins er metnaðarfull eða að nettó fjölgun íbúða í eigu og/eða forsjá félagsins verði 500 íbúðir á næstu 5 árum.“

2014 2015 2016 2017 2018 2019
Kaup eigna Íbúðir 10 110 110 110 110 110
Sala eigna Íbúðir -2 -10 -10 -10 -10 -10

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 sem samþykkt var í desember 2015 varðandi Félagsbústaði segir: „Áætluð stækkun á eignasafni félagsins er metnaðarfull eða að nettó fjölgun almennra félagslegra íbúða í eigu og/eða forsjá félagsins verði 500 íbúðir á tímabilinu 2015—2019.“

2015 2016 2017 2018 2019 2020 Alls
Almennar 44 60 61 159 96 75 495
Utankjarnaíbúðir 15 5 13 33
Búsetukjarni 5 22 23 24 74
Alls 44 80 83 187 133 75 602

„Á tímabilinu verði seldar 12 íbúðir þ.a. nettó fjölgun eigna verði 590, þar af 74 í búsetukjörnum.“

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 sem lögð verður fram til seinni umræðu á næsta þriðjudag segir varðandi Félagsbústaði: „Áætluð stækkun á eignasafni félagsins er metnaðarfull eða að 606 nýjar leigueiningar bætist við safnið á tímabilinu 2016-2021.“

2016 2017 2018 2019 2020 2021 Alls
Almennar 34 46 42 155 147 25 449
Utankjarnaíbúðir 5 8 12 25
Búsetukjarni 5 12 13 32 18 80
Þjónustuíbúðir 52 52
Alls 91 58 60 195 177 25 606

„Á tímabilinu er áætlað að seldar verði 12 íbúðir þ.a. nettó fjölgun eigna verði 594, þar af 80 í búsetukjörnum.“

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 8.11.2016 - 15:11 - FB ummæli ()

57 leiguíbúðir á 6 árum

Á heimasíðu Félagsbústaða er að finna skýrslur stjórnar fluttar á aðalfundum félagsins og tilkynningar til Kauphallarinnar um fjölda íbúða í eigu félagsins. Hér að neðan er tafla sem unnin er upp úr þessum gögnum sem sýnir fjölda íbúða í eigu félagsins í árslok 2009-2015:

Fjöldi íbúða í árslok 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015
1. Almennar leiguíbúðir 1844 1844 1789 1790 1778 1817 1901
2. Þjónustuíbúðir fyrir aldraða 310 310 305 307 307 307 307
3. Íbúðir í sértækum búsetuúrræðum 114 115 137 118 118
fyrir fatlaða einstaklinga*

Í árslok 2009 áttu Félagsbústaðir samtals 1844 almennar félagslegar leiguíbúðir og 310 þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Sex árum síðar eða í árslok 2015 áttu Félagsbústaðir 57 fleiri félagslegar almennar leiguíbúðir en í árslok 2009. Á sama tímabili hafði þjónustuíbúðum fyrir aldraða fækkað um þrjár. Þá hefur íbúðum í sértækum búsetuúrræðum fyrir fatlaða einstaklinga einungis fjölgað um fjórar frá árslokum 2011 til ársloka 2015.

Þess má geta að það var fyrst í október 2015 sem Félagsbústaður áttu jafn margar almennar félagslegar leiguíbúðir og félagið átti á árunum 2009 og 2010. Hér er linkur á grein sem ég skrifaði skömmu fyrir það eða í ágúst 2015:

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/08/11/felagslegum-leiguibudum-faekkar-i-reykjavik/

Á fundi borgarráðs 3. nóvember sl. var upplýst að Félagsbústaðir hafi á tímabilinu 1. janúar 2016 til 15. september 2106 keypt 11 eignir sem innihalda 15 leigueiningar. Engin eign hafi verið seld á tímabilinu.

 

*Frá árinu 2011 hafa Félagsbústaðir einnig átt íbúðir í sérstækum búsetuúrræðum fyrir fatlaða einstaklinga þar sem málefni fatlaðs fólks var flutt frá ríki til sveitarfélaga.

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 18.10.2016 - 20:12 - FB ummæli ()

Hátt veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar

Hátt veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar er áhyggjuefni. Bæði vegna þeirra sem í hlut eiga og kostnaðarins sem af því hlýst.

Í svörum við fyrispurnum Framsóknar og flugvallarvina um veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar kemur fram að veikindahutfallið var 6,1% árið 2013, 6% árið 2014 og 5,9% árið 2015. Þó veikindahlutfallið fari lækkandi er það alltof hátt og langt umfram það sem ásættanlegt er.

Þumalputtareglan hefur verið sú hjá atvinnurekendum að ef veikindahlutfallið sé komið yfir 4% á ársgrundvelli þá sé það á rauðu svæði en helst vilji atvinnurekendur sjá tölur frá 0 upp í 2-3% yfir árið. Veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar er langt yfir því. Ljóst er að viðverustefna borgarinnar er ekki að virka sem skyldi og því þarf að grípa til frekari aðgerða.

Í svari við fyrirspurn um kostnað vegna veikinda, sundurliðað eftir sviðum/skrifstofum borgarinnar árið 2015 kemur fram að á velferðarsviði, skóla- og frístundasviði og íþrótta- og tómstundasviði sé haldið sérstaklega utan um kostnað vegna afleysinga tilkominna vegna veikindafjarvista.

Árið 2015 var kostnaður vegna afleysinga í langtíma og skammtímaveikindum á íþrótta- og tómstundasviði 26,7 mkr., á velferðarsviði 207 mkr. og á skóla- og frístundasviði var kostnaður vegna afleysinga í langtímaveikindum metinn á 473 mkr. og greiðslur vegna skammtímaveikinda 603 mkr.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2016 - 16:17 - FB ummæli ()

Oftúlkaður Hæstaréttardómur?

Í dómsmálinu um lokun neyðarbrautarinnar var ekki gerð krafa um það að ríkið myndi standa við samkomulagið um söluna á landinu í Skerjafirði sem fulltrúar Samfylkingarinnar gerðu f.h. Reykjavíkurborgar og ríkisins 1. mars 2013, þ.e. Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir, þó svo vikið sé að samkomulaginu í dómnum þegar fjallað er um valdmörk innanríkisráðherra.

Dómsmálið snérist um samning Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Jóns Gnarr frá 25. október 2013 um lokun neyðarbrautarinnar en ekki um að það að ríkið ætti að standa við samkomulagið um söluna frá 1. mars 2013.  Með dómnum er ríkið því ekki dæmt til að afsala landinu í Skerjafirði til Reykjavíkurborgar.

Í dómi Hæstaréttar er hins vegar vikið að áformaðri sölu landsins í Skerjafirði og gerð samkomulagsins frá 1. mars 2013 milli Samfylkingarfólksins og bent á að efni til hafi falist í þessu samkomulagi skuldbinding um að aðilar myndu á síðari stigum gera kaupsamning og afsal. Tekur Hæstiréttur það fram að áformuð sala heyri ekki undir innanríkisráðuneytið en hafi verið heimiluð af Alþingi í fjárlögum 2013. Eins og kunnugt er var heimildin ekki veitt í síðari fjárlögum en hingað til hefur verið talið að heimildir í fjárlögum gilda bara eitt ár í senn. Er það m.a. staðfest í viðtali sem birtist á visir.is við embættismann í fjármálaráðuneytinu í nóvember 2013.

http://www.visir.is/heimildarakvaedi-um-solu-flugvallarsvaedis-gleymdist/article/2013131129763

Samkomulagið ekki kaupsamningur í skilningi fasteignakaupalaga

Í 7. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup (hér eftir nefnd fasteignakaupalögin) er fjallað um þau formsatriði sem samningur þarf að uppfylla til að teljast kaupsamningur. Í 8. gr. fasteignakaupalaga er fjallað um það þegar skuldbindingargildi kaupsamnings er bundið fyrirvara um atvik sem ekki hefur gengið eftir þá skuli kaupsamningur falla niður að liðnum tveimur mánuðum frá því að hann komst á.

Hæstiréttur tekur það skýrt fram að þetta samkomulag frá 1. mars 2013 sé ekki kaupsamningur um fasteign samkvæmt 7. gr. fasteignakaupalaga og þ.a.l. séu þær skyldur sem aðilar gengust undir með samkomulaginu ekki fallnar niður samkvæmt 8. gr. fasteignakaupalaga. Það þýðir að ef þetta væri kaupsamningur (en kaupsamningur telst kominn á með samþykki kauptilboðs) sem hefði verið bundinn ótímabundnum fyrirvara hefði hann fallið sjálfkrafa niður eftir tvo mánuði.

Vangaveltur um það hvað Hæstaréttur er að segja

Af Hæstiréttardómnum er hvorki hægt að ráða hvort ríkið sé enn bundið af samkomulaginu um söluna á landinu í Skerjafirði né hvort það sé fallið niður enda snérist dómsmálið ekki um þetta samkomulag. Það má þó ráða af dómnum að þar sem samkomulagið frá 1. mars 2013 sem Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir gerðu uppfyllir ekki þau skilyrði fasteignakaupalaga að teljast kaupsamningur geta ótímabundnir fyrirvarar í annars konar samningum en þeim sem teljast kaupsamningar í skilning laganna ekki fallið niður á grundvelli fasteignakaupalaga.

Til að fá úr því skorið hvort samkomulagið væri enn í gildi þannig að ríkið yrði dæmt til að afsala landinu í Skerjafirði til Reykjavíkurborgar eða eftir atvikum greiða skaðabætur eða hvort það hefði fallið niður þar sem heimildin var ekki endurnýjuð í fjárlögum eða vegna þess að fyrirvarar í samkomulaginu hefðu ekki gengið eftir hefði þurft að láta á málið reyna fyrir dómstólum.

Flokkar: Flugvöllur

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur