Miðvikudagur 31.8.2016 - 10:15 - FB ummæli ()

Fjársveltir skólar

Ástandið er alvarlegt í grunnskólum og leikskólum borgarinnar og það verður að leysa. Lögboðnu skólastarfi er ekki unnt að sinna miðað við núverandi aðstæður og bitnar það á börnunum í borginni. Undanfarna daga hafa starfsmenn leik- og grunnskóla borgarinnar bent á að ástandið hafi aldrei verið jafn slæmt. Hafa bæði skólastjórar leik- og grunnskóla í Reykjavík skorað á borgaryfirvöld að grípa til aðgerða til að leysa fjárhagsvanda skólanna. Þá hafa foreldrar leikskólabarna í Reykjavík komið af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað er á borgaryfirvöld að snúa vörn í sókn í leikskóla- og skólamálum. Það er staðreynd að niðurskurður meirihlutans í skólamálum hefur leitt til skertrar þjónustu við börn í leik- og grunnskólum borgarinnar og verður skólahaldi ekki sinnt með viðunandi hætti miðað við núverandi aðstæður. Hafa skólastjórar í Reykjavík bent á að vegna ákvarðana borgaryfirvalda geta grunnskólar í Reykjavík ekki lengur boðið nemendum sínum upp á sambærilega þjónustu og nágrannasveitarfélögin og krefjast þess að pólitískt kjörnir fulltrúar forgangsraði nú þegar í þágu barnanna í borginni, enda verði lögboðnu skólastarfi ekki sinnt miðað við núverandi aðstæður. Við þessu verður að bregðast.

Meirihlutinn í borginni verður að fara setja grunnþjónustuna í forgang og forgangsraða fjármunum í þágu velferðar- og skólamála.

Áskorun leikskólastjórnenda í Reykjavík

Leikskólar í Reykjavík hafa lengi búið við skort á fjármagni til að sinna nauðsynlegri þjónustu. Undanfarna daga hafa leikskólastjórar í Reykjavík líst því yfir að ástandið hafi aldrei verið jafn slæmt. Leikskólastjóri á Nóaborg sagði í viðtali að erfiðara sé að reka leikskóla nú en síðustu fimmtán ár og reksturinn hafi aldrei verið eins erfiður og undanfarið ár. Síðasti vetur og það sem af sé af þessu ári sé  erfiðasta tímabil sem hún hafi átt í sínu starfi og skrifi hún það nánast að öllu leyti á þann meirihluta sem nú stjórni borginni. Ástandið gangi ekki upp og verði borgin að horfast í augu við það. Harkalegur niðurskurður í sérkennslu bitni illa á þeim sem síst mega við því.

http://www.visir.is/slaem-fjarhagsstada-i-leikskolum-reykjavikur–kreppan-var-jolin-midad-vid-thetta-/article/2016160829154

http://www.ruv.is/frett/rekstur-leikskola-aldrei-erfidari

http://www.visir.is/stadan-a-leikskolum-aldrei-verid-jafn-slaem/article/2016160829108

http://www.ruv.is/frett/skoda-ad-haekka-fjarframlog-til-leikskola

Í gær afhentu leik­skóla­stjórn­end­ur í Reykjavík  Degi B. Eggerts­syni borg­ar­stjóra harðorða álykt­un þar sem þeir mót­mæla niðurskurði í leik­skól­um borg­ar­inn­ar og skora á borg­ar­yf­ir­völd að end­ur­skoða fjár­veit­ing­ar til leik­skól­anna.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/30/hitafundur_i_radhusinu/

http://www.ruv.is/frett/leikskolastjorar-ekki-haegt-ad-skera-nidur

Ályktun skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkur

Á fundi skólastjórnenda 29. ágúst sl. var samþykkt ályktun þar sem skólastjórar lýsa yfir verulegum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu grunnskólanna í borginni sem leitt hafi til skertrar þjónustu við nemendur. Niðurskurðar til grunnskólanna á síðustu átta árum hafi orðið til þess að rekstur skólanna sé nú algjörlega óviðráðanlegur og vegna ákvarðana borgaryfirvalda geta grunnskólar í Reykjavík ekki lengur boðið nemendum sínum upp á sambærilega þjónustu og nágrannasveitarfélögin. Krefjast skólastjórar grunnskóla í Reykjavík að pólitískt kjörnir fulltrúar forgangsraði nú þegar í þágu barnanna í borginni, enda verði lögboðnu skólastarfi ekki sinnt miðað við núverandi aðstæður.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/29/rekstur_grunnskola_ovidradanlegur/

http://www.visir.is/skolastjorar-i-reykjavik-krefja-kjorna-fulltrua-um-adgerdir/article/2016160828819

http://www.ruv.is/frett/geti-ekki-sinnt-logbodnu-hlutverki-skola

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.8.2016 - 11:38 - FB ummæli ()

Engar dælur og engir stórmarkaðir úti á Granda

Meirihlutinn í borgarstjórn, þ.e. Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð, vill ekki dælur fyrir eldsneyti á lóðum stórmarkaða og alls ekki að stórmarkaðir festist í sessi úti á Granda sem meirihlutinn telur jaðarsvæði.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í gær hafnaði meirihlutinn fyrirspurn að sett yrði upp sjálfsafgreiðslustöð fyrir eldsneyti á Krónulóðina úti á Granda þar sem það myndi hvorki samræmast stefnu Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva né nýsamþykktri loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar þar sem markmiðið verði að dælur fyrir jarðefnaeldsneyti innan borgarmarkanna verði 50% færri árið 2030 og verði að mestu horfnar árið 2040. Þá segir meirihlutinn að stórmarkaðir með matvöru í jaðri íbúasvæðis séu jafnframt andstæðir gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem sé að finna stefnur um skipulag vistvænna hverfa og hverfisverslanir. Myndi sjálfsafgreiðslustöð á umræddum stað að öllum líkindum festa stórmarkaðina enn frekar í sessi.

Minnihlutinn þ.e. Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur samþykktu hins vegar fyrirspurnina og bókuðu:

“Valið stendur um það að hafa bensínsstöðvar á sérlóðum eins og fyrirfinnast nú víða um borg eða bjóða upp á þann möguleika að hafa sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir eldsneyti á lóðum þar sem fólk gerir stórinnkaup. Slíkt fyrirkomulag dregur úr ferðum og þar með mengun og meiri möguleikar eru á því að lóðunum sem nú eru sérstaklega nýttar fyrir bensínsstöðvar fækki. Mikið af verslunum eru á þessu svæði sem stór hluti borgarbúa sækir enda mikill fólksfjöldi sem býr þar í kring og fyrirhuguð er mikil uppbygging í næsta nágrenni.”

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.8.2016 - 13:02 - FB ummæli ()

Minnihlutinn í borgarstjórn vill álit siðanefndar

Í áliti umboðsmanns borgarbúa frá 3. júní sl. kemur fram í niðurstöðu hans um samninga bílastæðanefndar við Miðborgina okkar að það hafi verið verulega ámælisvert að samningarnir hafi verið gerðir án tillits til niðurstöðu hans í áliti frá 10. janúar 2014 enda bílastæðanefnd grandsöm um ólögmæti samninganna a.m.k. frá þeim tímapunkti þegar hann kynnti niðurstöðuna. Samningsgerðin öll, aðdragandi hennar og ákvarðanataka hafi verið í verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti enda fól hún í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna, þvert á tilmæli. Þá segir: „að þeir kjörnu fulltrúar sem samþykktu að ráðstafa fjármunum Bílastæðasjóðs til Miðborgarinnar okkar, þrátt fyrir að vera grandsamir um að sú ráðstöfun væri ólögmæt, hafi brotið gegn 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.“

Eins og fram kemur í grein sem ég skrifaði um málið 30. júní sl. er ég sammála niðurstöðu hans. Hér er linkur á greinina sem ber yfirskriftina „Meirihluti borgarstjórnar braut siðareglur“

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/06/30/meirihluti-borgarstjornar-braut-sidareglur/

Tillaga um að leita álits siðanefndar

Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur lögðu fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarráðs 7. júlí sl. um að leitað yrði álit siðanefndar Samband íslenskra sveitarfélaga um málið. Tillögunni var frestað.

Óskað er eftir því að borgarráð samþykki að óska álits hjá siðanefnd Sambands íslenskra sveitafélaga, í samræmi við 29. gr. sveitastjórnarlaga og hlutverki nefndarinnar skv. erindisbréfi, um hvort það sé andstætt, eða fari gegn anda 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg ef við ákvarðanatöku sé farið gegn áliti umboðsmanns borgarbúa við ráðstöfun fjármuna. Tillaga þessi er sett fram þar sem í niðurstöðu umboðsmanns borgarbúa frá 3. júní 2016 segir að það hafi verið verulega ámælisvert að samningar hafi verið gerðir án tillits til niðurstöðu hans í áliti frá 10. janúar 2014. Orðrétt segir: „að þeir kjörnu fulltrúar sem samþykktu að ráðstafa fjármunum Bílastæðasjóðs til Miðborgarinnar okkar, þrátt fyrir að vera grandsamir um að sú rástöfun væri ólögmæt, hafa brotið gegn 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg“.

Bókun vegna þess að tillöginni var frestað

Á fundi borgarráðs 21. júlí sl. var tillagan lögð fram að nýju og frestað. Lögðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur fram eftirfarandi bókun á fundinum:

Það er ámælisvert að meirihlutinn í borgarráði treysti sér ekki til að taka tillöguna til afgreiðslu núna þrátt fyrir að hafa haft tvær vikur til að kynna sér hana. Áfellisdómur umboðsmanns borgarbúa er alvarlegur og álit hans á þann veg að full ástæða er til að krefjast frekari rannsóknar á málinu. Í álitinu kemur fram að umboðsmaður borgarbúa telur það verulega ámælisvert af hálfu bæði Bílastæðissjóðs og bílastæðanefndar að samningar hafi verið gerðir án tillits til ábendinga hans 10. janúar 2014 en á þeim tíma lá fyrir samningagerð við Miðborgina okkar og að Bílastæðasjóði og bílastæðanefnd hefði átt að vera full kunnugt um ólögmæti samninganna. Í áliti umboðsmanns borgarbúa segir að samningagerðin, aðdragandi og ákvarðanataka sé í ,,verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti þar sem hún feli í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna þvert á tilmæli.” Að mati umboðsmanns er sú ráðstöfun brot á 2. gr. siðareglnanna. Athugunarverð eru viðbrögð meirihlutans við áliti umboðsmanns og hvort eðlilegt geti talist að þeir fulltrúar meirihlutans sem sitja í bílastæðanefnd og eru jafnframt fulltrúar í forsætisnefnd gerist dómarar í eigin sök með að fjalla sjálfir þar um álitið og fella um það dóma en slíkt getur varla talist eðlileg né góð stjórnsýsla.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.8.2016 - 21:15 - FB ummæli ()

Lóðaverðaleyndin

Eins og kunnugt er hefur Reykjavíkurborg haft mjög fáar fjölbýlishúsalóðir og lóðir undir íbúðarhúsnæði vestan Elliðaáa til sölu undanfarin ár. http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/02/27/thetting-byggdar-og-unga-folkid/
Óhætt er að fullyrða að verðmætustu lóðirnar sem borgin á miðsvæðis, sem til stendur að byggja íbúðarhúsnæði fljótlega á, eru lóðirnar við Vesturbugt þar sem reisa á svokölluð „Reykjavíkurhús“. Borgin keypti þær af Faxaflóahöfnum og hafa „fróðir“ aðilar sem ég hef spurt skotið á að verðmæti þeirra sé ekki undir 1,5 – 2 milljörðum.
Lóðir ganga kaupum og sölum milli aðila og hefur fasteignaverð hækkað verulega síðustu árin. Nýlega seldu t.d. Valsmenn hf. tvær af lóðunum við Hlíðarenda og Reykjavík Development ehf. seldi hluta sinn í Hafn­ar­torgi. Kaupverðið er trúnaðarmál. Eðli málsins samkvæmt þarf borgarstjórn að vera meðvituð um lóðaverð í borginni til að unnt sé að gæta hagsmuna borgarinnar á sem bestan hátt. Því hefur minnihluti borgarstjórnar lagt áherslu á að fengið verði verðmat tveggja óháðra fasteignasala á lóðum sem borgin á sem til stendur að selja eða ráðstafa. Hafa tvær slíkar tillögur verið lagðar fram af minnihlutanum undanfarið, önnur tillagan var felld af meirihlutanum en hin bíður afgreiðslu.
Á fundi borgarráðs 19. maí sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu:
„Lagt er til að fengnir verði tveir óháðir fasteignasalar til að verðmeta lóðirnar tvær, ásamt byggingarrétti skv. gildandi deiliskipulagi, í Vesturbugt þar sem til stendur að byggja svokölluð Reykjavíkurhús á.“
Tillagan var tekin til afgreiðslu á fundi borgarráðs 23. júní sl. og var felld af meirihlutanum. Á fundinum lögðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur fram svohljóðandi bókun:
„Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks hafa bent á að meirihlutinn ætli að nota dýrustu byggingarlóðir borgarinnar undir svokölluð Reykjavíkurhús án þess að kannað sé hvort það skili borginni meiru að selja lóðirnar svo borgin fengi tekjur til að fjármagna kaup á fleiri íbúðum. Um 700 umsækjendur eru á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum og því mikilvægara að fleiri fái þak yfir höfuðið en að færri fái húsnæði á dýrri lóð. Því er algjörlega óskiljanlegt og óábyrgt að meirihlutinn vilji ekki vita hvert verðmæti lóðanna er sem nota á undir fyrsta verkefnið um svokölluð Reykjavíkurhús á dýrasta staðnum í borginni.“
Á fundi borgarráðs 21. júlí sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur fram svohljóðandi tillögu, sem var frestað: 
„Í ljósi ítrekaðra upplýsinga um sölu lóða sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað og hafa verið framseldar áður en byggingaframkvæmdir eru hafnar, og nú síðast nýrra upplýsinga um sölu tveggja lóða við Hlíðarenda og að kaupverðið sé trúnaðarmál, er mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa að hafa sem gleggstar upplýsingar á hverjum tíma um verðmæti þeirra lóða sem borgin á og til stendur að selja eða ráðstafa. Óskað er eftir því að lagður verði fram listi yfir a) allar lóðir í eigu borgarinnar innan borgarmarkanna b) allra byggingarhæfra lóða innan borgarmarkanna. Þá verði að fengið verðmat tveggja óvilhallra fasteignasala á verðmæti allra lóða sem eru vestan Elliðaáa, sem liggja skal frammi eigi síðar en 1. október 2016. Slík vinna er mikilvæg fyrir komandi fjárhagsáætlanagerð og rekstur borgarinnar sem hefur verið í milljarða halla ár hvert.“

Flokkar: Húsnæðismál

Fimmtudagur 30.6.2016 - 00:08 - FB ummæli ()

Meirihluti borgarstjórnar braut siðareglur

Ég sat sem áheyrnarfulltrúi í bílastæðanefnd þegar samningurinn við Miðborgina okkar var gerður á árinu 2015 og taldi að ekki væri hægt að gera slíkan samning enda lá fyrir álit umboðsmanns borgarbúa frá fyrra kjörtímabili, þ.e. 10. janúar 2014. Bókaði ég þá afstöðu mína á tveimur fundum nefndarinnar. Af bókun meirihlutans, þ.e. Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Bjartrar framtíðar, sem gerð var samhliða samþykki meirihlutans á samningnum 2015 er ljóst að þau ætluðu bara seinna eða á árinu 2016 að fylgja reglum og samþykktum borgarinnar en bara ekki núna. Það varð hins vegar ekki raunin, því þau brutu reglurnar bæði 2015 og 2016, eins og fram kemur í áliti umboðsmanns borgarbúa.

Ég er algjörlega sammála niðurstöðu umboðsmanns borgarbúa í áliti hans frá 3. júní sl. að það hafi verið verulega ámælisvert að samningarnir hafi verið gerðir án tillits til niðurstöðu hans í áliti frá 10. janúar 2014 enda bílastæðanefnd grandsöm um ólögmæti samninganna a.m.k. frá þeim tímapunkti þegar hann kynnti niðurstöðuna. Samningsgerðin öll, aðdragandi hennar og ákvarðanataka hafi verið í verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti enda fól hún í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna, þvert á tilmæli. Þá er ég sammála áliti umboðsmanns borgarbúa „að þeir kjörnu fulltrúar sem samþykktu að ráðstafa fjármunum Bílastæðasjóðs til Miðborgarinnar okkar, þrátt fyrir að vera grandsamir um að sú ráðstöfun væri ólögmæt, hafi brotið gegn 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.“

Fundur bílastæðanefndar 15. maí 2015

Á fundi bílastæðanefndar 15. maí 2015 samþykktu Kristín Soffía Jónsdóttir Samfylkingunni, Elín Oddný Sigurðardóttir Vinstri grænum, Þórgnýr Thoroddsen Pírötum og Elsa Hrafnhildur Yeoman Bjartri framtíð svar til umboðsmanns borgarbúa, dags. 15. maí 2015. Hildur Sverrisdóttir Sjálfstæðisflokki sat hjá.

Ég hafði ekki atkvæðisrétt enda áheyrnarfulltrúi en lagði fram bókun.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, leggur fram svohljóðandi bókun:

„Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina telur að ekki sé hægt að endurnýja samning við Miðborgina okkar fyrir árið 2015 á þeim grundvelli sem til stendur að gera.“

Fundur bílastæðanefndar 29. maí 2015

Á fundi bílastæðanefndar 29. maí 2015 samþykktu Sóley Tómasdóttir Vinstri grænum, Kristín Soffía Jónsdóttir Samfylkingunni, Þórgnýr Thoroddsen Pírötum og Elsa Hrafnhildur Yeoman Bjartri framtíð samstarfssamning við Miðborgina okkar. Hildur Sverrisdóttir Sjálfstæðisflokki sat hjá.

Ég hafði ekki atkvæðisrétt enda áheyrnarfulltrúi en lagði fram bókun.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, leggur fram svohljóðandi bókun:

„Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina telur að ekki sé hægt að endurnýja samning við Miðborgina okkar fyrir árið 2015 á þeim grundvelli sem gert er.“

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Í ljósi þeirra samskipta sem hafa átt sér stað við umboðsmann borgarbúa og þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við samningsgerðina felur bílastæðanefnd framkvæmdastjóra að hefja vinnu við gerð reglna um meðferð styrkja hjá Bílastæðasjóði og endurskoða fyrirkomulag á gerð samstarfssamninga. Frekari samningar við Miðborgina okkar verða ekki gerðir nema að undangenginni auglýsingu styrkveitinga og gagnsæu ferli í samræmi við reglur og samþykktir borgarinnar.“

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.6.2016 - 13:20 - FB ummæli ()

Áhyggjur fagaðila um lokun flugbrautar

Í Fréttablaðinu í dag er birt áskorun flugmanna á flugvél Landhelgisgæslu Íslands þar sem þeir mótmæla harðlega lokun flugbrautar 06/24 og taka undir yfirlýsingu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna frá 14. júní sl. en félagið lýsti yfir verulegum áhyggjum af stöðu flugöryggismála á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar dómsins. Harma flugmenn á flugvél Landhelgisgæslunnar að ekkert tillit hafi verið tekið til flugöryggishagsmuna sjúkra-, leitar-, björgunar- og almannavarnaflugs við ákvörðun um lokun brautarinnar og óttast þeir afleiðingarnar af þeirri ráðstöfun þar sem oft á tíðum þurfi að að fara í slík neyðarflug þegar veður séu hvað verst og aðstæður hvað varasamastar því hafi flugöryggi þeirra sem slíkt flug stunda verið skert.

http://www.visir.is/askorun-flugmanna-a-flugvel-landhelgisgaeslu-islands/article/2016160629429

Þá hafa fyrirsvarsmenn Mýflugs, sem sinnir nær öllu sjúkraflugi innan Íslands, lýst yfir verulegum áhyggjum vegna lokunar brautarinnar. Í umfjöllun um málið á heimasíðunni www.alltumflug.is er m.a. notuð eftirfarandi samlíking: „Það hefur stundum verið sagt að sú ráðstöfun að loka braut 06/24 sé eins og að taka loftpúðann og öryggisbeltin úr hverjum einasta bíl í eigu þjóðarinnar því það veit enginn hvenær hann þarf á þessari mikilvægu braut að halda í vályndu veðri þegar líf liggur við.“

http://alltumflug.is/flugfrettir/9712/Lokun_ney%C3%B0arbrautarinnar_mun_hafa_aflei%C3%B0ingar_-_A%C3%B0eins_t%C3%ADmaspursm%C3%A1l

Samningar skulu halda 

Eins og kunnugt er hefur Hæstiréttur dæmt að ríkinu sé skylt að loka umræddri flugbraut. Niðurstaða dómsins byggir ekki á flugöryggissjónarmiðum heldur á því að samningar skuli halda. Dómsmálið snérist um samning sem gerður var í október 2013 milli þáverandi innanríkisráðherra og þáverandi borgarstjóra en ekki um flugöryggi.

Flugbrautin hefur margítrekað sannað gildi sitt og hafa komið upp tilfelli þar sem ekki hefur verið hægt að lenda sjúkraflugvél í Reykjavík á neinni annarri braut nema neyðarbrautinni. Hinn 30. desember sl. treysti sjúkraflug í hæsta forgangi algjörlega á neyðarbrautina en ekki var hægt að lenda á hinum tveimur brautunum.

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur áður lýst því yfir að nefndin telur að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul sé röng þar sem hún sé byggð á röngum forsendum og í andstöðu við alþjóða reglur. Hljóta fullyrðingar öryggisnefndarinnar að útreikningur nothæfisstuðulsins sé rangur að verða skoðaðar við endanlega gerð áhættumatsins vegna áhrifa á sjúkraflugið og neyðarskipulags almannavarna.

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/05/18/hvad-vard-um-athugasemdir-oryggisnefndarinnar/

Þó dómur sé fallinn á eftir að klára áhættumatið 

Þrátt fyrir að ríkið hafi verið dæmt til að loka brautinni liggur enn ekki fyrir áhættumat vegna lokunar brautarinnar og áhrifa lokunarinnar á sjúkraflug og neyðarskipulags almannavarna.

Í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 kemur fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga. Bendir Samgöngustofa á að gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni.

Með vísan til þess þarf að gera sérstakt áhættumat vegna lokunar brautarinnar því áhættumatið nær hvorki til neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga.

Þar sem enn á eftir að gera áhættumat vegna sjúkraflugsins ættu þær forsendur sem öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur ítrekað bent á að séu rangar eða vanti í áhættumat Isavia að vera teknar inn í matið m.a. að reiknað verði með minni gerðum flugvéla eins og notaðar eru í sjúkraflugið og lægri hliðarvindstuðli, en reikna skal nothæfisstuðul með 10 hnúta hámarks hliðarvindstuðli fyrir slíkar vélar, svo spurningin er hver nothæfisstuðull flugvallarins verður eftir þá útreikninga. Gæti niðurstaða þess jafnvel orðið til þess að Alþingi myndi telja nauðsynlegt að taka svæðið eignarnámi. Í niðurstöðu héraðsdóms segir: „Í krafti almennra heimilda sinna getur Alþingi einnig, ef því er að skipta, gefið ráðherra fyrirmæli um framkvæmd málefna Reykjavíkurflugvallar, svo og sett sérstök lög um málefni vallarins, þ. á m. um stærð og umfang flugvallarins, eftir atvikum þannig að kveðið sé á um heimildir til eignarnáms vegna ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og forgang laganna gagnvart hvers kyns áætlunum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.“

 

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 9.6.2016 - 11:52 - FB ummæli ()

Úlfarsárdalur endurskoðun

Á fundi borgarráðs í dag var samþykkt lýsing vegna uppbyggingar og stækkunar Úlfarsárdalshverfis sem kallar á heildarendurskoðun á deiliskipulagi hverfisins. Í lýsingunni felst m.a. fjölgun íbúða, en stefnt er að því að heildaríbúðafjöldi í Úlfarsárdal verði um 1.400 íbúðir. Gert er ráð fyrir að núverandi hverfi stækki til austurs og til norðurs í átt að Leirtjörn.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun á fundinum:

„Mikilvægt er að stækka byggðina í Úlfarsárdal eins og borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað bent á og komið með tillögur um.

Þetta er mikilvægt til að hverfið verði sjálfbært og þeir innviðir sem borgin hefur og er að fjárfesta í komi að sem mestum notum. Einnig til að hægt sé að uppfylla skuldbindingar borgarinnar gagnvart kaupendum lóða í hverfinu, til að uppfylla skuldbindingar borgarinnar við Knattspyrnufélagið Fram, til að koma til móts við væntingar íbúa í Úlfarsárdal og til að auka lóðaframboð í borginni sem er af skornum skammti.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks telja hins vegar að stækka þurfi hverfið enn meira en endurskoðun deiliskipulagsins gerir ráð fyrir. Eru það vonbrigði að fyrirhuguð breyting á skipulaginu og stækkun hverfisins nái ekki einnig til svæðisins fyrir ofan Mímisbrunn.“

Flokkar: Húsnæðismál

Miðvikudagur 18.5.2016 - 11:05 - FB ummæli ()

Hvað varð um athugasemdir Öryggisnefndarinnar?

Á fundi borgarstjórnar 3. maí sl. samþykkti meirihluti borgarstjórnar, þ.e. Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð, nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar þar sem NA/SV flugbrautin (flugbraut 06/24) eða svokölluð neyðarbraut er tekin af skipulagi.

Niðurstaða héraðsdóms
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 22. mars sl. var innanríkisráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, gert skylt að loka NA/SV flugbraut (flugbraut 06/24) á Reykjavíkurflugvelli og endurskoða skipulagsreglur fyrir völlinn til samræmis við lokun flugbrautarinnar innan 16 vikna frá dómsuppkvaðningu að viðlagðri greiðslu dagsekta til Reykjavíkurborgar, að fjárhæð 1.000.000 króna hvern dag. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og verður flutt þar 1. júní nk.

Fullvissa liggur ekki fyrir að lokun brautarinnar komi ekki niður á flugöryggi 
Niðurstaða héraðsdóms byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Fullnægjandi gögn liggja enn ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun um lokun brautarinnar.

Í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 kemur m.a. fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga. Þá nái það ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Bendir Samgöngustofa á að gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. Tekur Samgöngustofa það sérstaklega fram að hún rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma, en Reykjavíkurborg vísar til þeirrar skýrslu máli sínu til stuðnings við það að taka brautina af skipulagi. Samgöngustofa taldi hins vegar að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul, en áhættumat Isavia er unnið með hliðsjón af þeirri skýrslu, sýndi að nothæfisstuðulinn færi ekki undir 95%. Hefur Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) gert alvarlegar athugasemdir við það og telur að útreikningur nothæfisstuðuls sé rangur í skýrslunni.

Hvað varð um athugasemdir ÖFÍA?
Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu eða með bréfi 9. september 2015 til innanríkisráðuneytis gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna athugasemdir um að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tæki ekki til greina sem leiddi til þess að skýrslan innihéldi alvarlegar villur.

Öryggisnefndin telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrsla Isavia byggist á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá gerir Öryggisnefndin athugasemdir við að áhættumatsskýrslan taki ekki mið af sjúkraflugi.

Lýkur Öryggisnefndin bréfi sínu á því að gera alvarlegar athugasemdir við framvindu málsins og bendir á að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varði flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti. Afrit af bréfi Öryggisnefndarinnar var sent Samgöngustofu, Isavia og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Bókanir og athugasemdir Framsóknar og flugvallarvina

Á borgarstjórnarfundi 15. september 2015 fóru Framsókn og flugvallarvinir yfir bréf Öryggisnefndarinnar og sendu öllum borgarfulltrúum afrit af bréfinu. Þá fóru Framsókn og flugvallarvinir yfir bréfið á fundi borgarstjórnar 3. maí sl. þegar meirihlutinn samþykkti deiliskipulagið. Bréfið er ekki meðal þeirra gagna sem liggja í málinu og samþykkt meirihlutans fyrir deiliskipulaginu byggir á. Hins vegar er vísað til gagna sem ekkert gildi hafa svo sem skýrslu Eflu um nothæfistíma. Framsókn og flugvallarvinir lögðu eftirfarandi bókanir fram við samþykkt meirihlutans á deiliskipulaginu:

Bókun Framsóknar og flugvallarvina í umhverfis- og skipulagsráði 20. apríl 2016:

Þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur liggja ekki fyrir fullnægjandi gögn og þar með fullvissa um að hægt sé að loka brautinni án þess að það komi niður á flugöryggi. Niðurstaða dómsins byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Því til stuðnings er vísað til bréfs frá 9.09.2015, sem Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) sendi til innanríkisráðueytis rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia, en í bréfinu kemur fram að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul, en áhættumatsskýrsla Isavia er unnin með hliðsjón af henni, sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tekur ekki til greina sem leiðir til þess að skýrslan inniheldur alvarlegar villur. ÖFÍA telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrsla Isavia byggi á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni og skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá taki áhættumat Isavia ekki til sjúkraflugs eins og staðfest er í niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia frá 1. júní 2015. Þá er staðfest í niðurstöðu Samgöngustofu að hin skýrslan sem Efla vann fyrir Isavia um svokallaðan nothæfistíma hafi hvorki verið rýnd né hafi Samgöngustofa tekið afstöðu til hennar. Skýrslan hefur því ekkert vægi en samt er ítrekað vísað til hennar í umsögn skipulagsfulltrúa.

Bókun Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði 28. apríl 2016 og borgarstjórn 3. maí 2016:

Niðurstaða héraðsdóms byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Fullnægjandi gögn liggja enn ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar. Í niðurstöðu Samgöngustofu (SGS) 1. júní 2015 um áhættumatið kemur m.a. fram að það nái hvorki til neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. SGS rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma en taldi að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul sýndi að hann færi ekki undir 95%. Þremur mánuðum eftir niðurstöðu SGS gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) athugasemdir um að í skýrslunni um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en þar séu skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla taki ekki til greina sem leiðir til þess að skýrslan inniheldur alvarlegar villur. ÖFÍA telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrslan byggi á henni. Hafi borið að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. 

Flokkar: Flugvöllur

Miðvikudagur 11.5.2016 - 20:10 - FB ummæli ()

Sumargötur

Á visir.is er greint frá því að mikil óánægja sé meðal kaupmanna við Skólavörðustíg með lokun gatna í 5 mánuði í miðborginni. Gagnrýna þeir borgaryfirvöld fyrir samráðsleysi segjast þegar finna fyrir samdrætti í komu viðskiptavina. http://www.visir.is/kaupmenn-vid-skolavordustig-osattir-med-sumarlokun/article/2016160519726

Tillaga Framsóknar og flugvallarvina um samráð 

Á fundi borgarráðs 19. nóvember 2015 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu:

„Lagt er til að tillagan að umræddum göngugötum verði lokað til frambúðar í fimm mánuði frá 1. maí til 1. október verði send til umsagnar hverfisráðsins, íbúasamtakanna, Miðborgarinnar okkar, Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, eigenda, íbúa og rekstraraðila á þeim svæðum sem lokað verður fyrir umferð. Þá er lagt til að kosið verði um málið á Betri Reykjavík.“

Tillaga Framsóknar og flugvallarvina um samráð felld af meirihlutanum 

Á fundi borgarráðs 26. nóvember 2015 var tillagan tekin til afgreiðslu og var hún felld af meirihutanum, þ.e. Samfylkingunni, Pírötum, Vinstri grænum og Bjartri framtíð.

Á fundinum lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tvær eftirfarandi bókanir:

Það er slæmt hvað meirihlutanum er illa við samráð. Því er lagt til  að borgarfulltrúar meirihlutans rifji reglulega upp eftirfarandi yfirlýsingar sínar í samstarfssáttmálanum: „Síðast en ekki síst viljum við að það sé ekki bara okkar vilji sem gildi. Við viljum efla lýðræðið svo að kraftar allra borgarbúa nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku hins opinbera. Við hlustum á alls konar raddir og sköpum þeim vettvang. Með opnari stjórnsýslu verður samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri.“

Ljóst er að þótt ánægja með göngugötur í miðborginni hafi aukist ár frá ári þá verður ekki ráðið af þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að fólk sé almennt tilbúið til þess að loka götum í fimm mánuði á ári. Svo virðist nefnilega að ánægja með göngugötur á sumrin annars vegar og lokun gatna í fimm mánuði á ári hins vegar ekki vera alveg það sama í hugum fólks eins og bersýnilega kom í ljós í skoðanakönnuninni sem Gallup gerði fyrir Miðborgina okkar í apríl síðastliðnum en samkvæmt henni eru 58,3% hlynntir sumargötum en 59,8% eru andvígir því að lengja tímabilið í fimm mánuði. Við teljum að nægur tími sé fram á næsta sumar til að kanna vilja fólks.

Hér er linkur á grein sem ég skrifaði 15. nóvember 2015 „Vilt þú að tilteknum götum verði lokað í 5 mánuði á ári?“

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/11/15/vilt-thu-ad-tilteknum-gotum-verdi-lokad-i-5-manudi-a-ari/

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.5.2016 - 09:41 - FB ummæli ()

Taprekstur borgarinnar

Það er staðreynd að rekstur borgarinnar gengur illa undir stjórn Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, og áætlanir ganga ekki upp. Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2015 liggur fyrir og sýnir verri niðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, þ.e. A- og B-hluta, var 167% undir áætlun. Mikið tap er á aðalsjóði eða sem nemur 18,3 milljörðum króna þrátt fyrir að útsvar sé í hámarki og tekjur hafa aukist.

Borgarbúar hafa ríka ástæðu til að hafa áhyggjur. Rekstur borgarsjóðs er ekki sjálfbær. Hann stendur ekki undir sér. Í fyrra sagði borgarstjóri að þetta væri tekjuvandi, núna eru það lífeyrisskuldbindingar. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er rekstrarvandi. Það er ekki alltaf hægt að skýla sér á bak við að áætlanir standist ekki og því sé tap. Grunnrekstur borgarinnar er ekki sjálfbær, óháð gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga.

Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum
Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var neikvæð um 5 milljarða, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 7,4 milljarða. Afkoma samstæðunnar er 16 milljörðum verri í ár heldur en hún var árið 2014. Ef horft er framhjá matsbreytingum fjárfestingareigna var afkoma samstæðunnar neikvæð um 9 milljarða. Matsbreyting fjárfestingaeigna Félagsbústaða nam um 4 milljörðum, sem rekja má til hækkunar á gangvirði fasteigna félagsins.

Tekjur borgarinnar duga ekki fyrir útgjöldum þó svo að útsvar sé í hámarki og skatttekjur hafi verið hærri en áætlað var. Handbært fé samstæðunnar nam 16,2 milljörðum í árslok og var 1,4 milljörðum lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Handbært fé A-hluta lækkaði um 2,4 milljarða á árinu. Skuldir hækkuðu um 14 milljarða. Skuldir á hvern íbúa í Reykjavík voru 2,46 milljónir á árinu 2015. Skuldir á íbúa í Reykjanesbæ voru lítið eitt hærri eða 2,86 milljónir.

Veltufé frá rekstri A-hluta var 5,2 milljarðar eða 5,7% af tekjum A-hluta á árinu 2015. Fjármálaskrifstofa borgarinnar telur æskilegt að veltufé frá rekstri sé ekki undir 9% af tekjum og er veltufé frá rekstri ársins 2015 um 3 milljörðum frá þessu lágmarki.

Mikill taprekstur aðalsjóðs
Staða aðalsjóðs er mjög slæm en rekstrarniðustaða sjóðsins var neikvæð um 18,3 milljarða. Hlutverk aðalsjóðs er umsjón með hefðbundinni starfsemi borgarinnar og er starfsemin að mestu fjármögnum af skatttekjum. Það er mjög alvarleg staðreynd að aðalsjóður skuli vera rekinn með svo miklu tapi, sem sýnir að meirihlutinn ræður ekki við verkefnið, þrátt fyrir auknar skatttekjur, og bitnar það á grunnþjónustu borgarinnar. Biðlistar eru langir eftir félagslegu leiguhúsnæði, sérfræðiþjónustu skóla og stuðningsþjónustu. Tapið í aðalsjóði er bætt upp að hluta með hagnaði á eignasjóði sem nemur um 4,4 milljörðum sem hefur það í för með sér að viðhaldi á eignum borgarinnar er ekki sinnt sem skyldi. Borgin er búin að spara sér til tjóns í mörg ár. Ef viðhaldi væri sinnt væri hallinn enn meiri.

Það þarf að taka erfiðar ákvarðanir
Það er staðreynd að rekstur borgarinnar undir stjórn meirihlutans gengur illa. Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum þrátt fyrir að skatttekjur hafi aukist. Áætlanir um sölu byggingarréttar gengu hvorki eftir 2015 né 2014. Minnihutinn, bæði Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur, hafa ítrekað lagt til að borgin fengi utanaðkomandi aðila sér til aðstoðar til að hagræða í rekstrinum og takast á við vandann og hefur nú rekstarráðgjafi verið ráðinn til verksins.

Það er ekki hægt að auka álögur á borgarbúa, það þarf að hagræða í rekstrinum. Það þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Það þarf að minnka kerfið sem hefur bólgnað út undanfarin ár. Útsvar er í hámarki og gjaldskrár hafa hækkað. Það þarf að forgangsraða fjármunum í þágu velferðarmála, skólamála og sinna viðhaldi. Það þarf að auka framboð á lóðum til sölu og því hefur minnihlutinn bent á að stækka þurfi byggðina í Úlfarsárdal. Starfsmönnum hefur fjölgað verulega undanfarin ár og er launakostnaður nú um 55% af kostnaðinum. Ef lækka á rekstrarkostnað þarf að fækka starfsfólki. Nú er lítið atvinnuleysi og ef einhvern tímann er tækifæri til að fækka starfsfólki er það nú. Það þarf að sameina ráð og skrifstofur, svo sem mannréttindaráð og stjórnkerfis- og lýðræðisráð, mannréttindaskrifstofu og velferðarsvið, og það þarf að sleppa verkefnum eins og þrengingu Grensásvegar.

 

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 7. maí 2016)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur