Sunnudagur 1.5.2016 - 12:36 - FB ummæli ()

Er Vesturbærinn að verða barnlaus?

Á föstudaginn fengu foreldrar leikskólabarna á Mýri bréf frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar um að verið væri að skoða framtíð leikskólans bæði út frá því að leikskólastjóri láti af störfum í sumar og „ekki síður út frá því að börnum er að fækka í Vesturbænum.“ Bent er á að staðan á Mýri sé þannig að næsta haust sé útilit fyrir að þar verði einungis 30 börn og því sé ljóst að sú staða skapi óvissu um framtíð þjónustunnar á Mýri.

Í bréfinu er bent á að leikskólinn Ós við Bergþórugötu í Reykjavík sé að leita að húsnæði fyrir starfsemi sína, en hann er sjálfstætt starfandi leikskóli og rekinn af foreldrum barna sem dvelja þar hverju sinni. Ós vilji stækka starfsemina og fara í rýmra húsnæði en þau hafa í dag.

Í bréfinu til foreldra er bent á að viðræður hafi staðið yfir á milli skóla- og frístundasviðs og forsvarsmanna Óss síðustu daga um að Ós taki að sér rekstur leikskólans Mýrar, til að tryggja áframhaldandi leikskólaþjónustu í húsinu en ekki sé komin niðurstaða í þær viðræður. Ef niðurstaðan verði sú liggi fyrir að foreldrum barna í leikskólanum Mýri býðst að hafa börn sín áfram í leikskólanum kjósi þeir það en einnig stendur til boða val um aðra leikskóla í hverfinu.

Bréf skóla og frístundasviðs til foreldra barnanna er dagsett 29. apríl sl. en tveimur dögum áður var fundur í skóla- og frístundaráði en á þeim fundi var málið ekki til umfjöllunar! Vegna ábendinga um að börnum væri að fækka í hverfinu og loka ætti deildum lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram eftirfarandi fyrirspurn á fundi skóla- og frístundaráðs 27. apríl sl.:

Fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina hafa borist ábendingar um að mögulega verði mikil fækkun í ákveðnum árgöngum leikskóladeilda í Vesturbænum nú í haust því útlit sé fyrir að rúmlega fimmtíu pláss séu að losna í þremur leikskólum í Vesturbænum. Foreldrar hafa lýst áhyggjum varðandi hvort deildum verði hugsanlega lokað og starfsfólki sagt upp störfum. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir upplýsingum um hvort til standi að loka þar deildum vegna barnaskorts á viðeigandi aldri eða hvort til standi að nýta plássin fyrir börn á öðrum aldri og eða bjóða jafnvel börnum úr öðrum hverfum leikskólavistun þar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.4.2016 - 11:07 - FB ummæli ()

Auglýsingakostnaður borgarinnar 2015

Á fundi borgarráðs 7. apríl sl. var lagt fram svar við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um auglýsingakostnað borgarinnar á árinu 2015.

Í svarinu kemur fram að á árinu 2015 var auglýsingarkostnaður Reykjavíkurborgar kr. 127.190.750, þar af var kostnaður við birtingu auglýsinga kr. 112.728.032.

Söluaðili Auglýsingagerð Auglýsingar (birting) Fjárhæð Hlutfall
365 – prentmiðlar ehf. 441.090 25.905.602 26.346.692 21%
H.Pálsson ehf. 8.765.733 8.765.733 7%
Árvakur hf. 7.634.615 7.634.615 6%
Hvíta húsið ehf. 3.090.019 4.169.143 7.259.162 6%
MD Reykjavík ehf. 6.756.587 6.756.587 5%
Ríkisútvarpið ohf. 6.494.899 6.494.899 5%
Icelandair ehf. 3.382.427 3.382.427 3%
Pipar Media ehf. 237.435 3.135.331 3.372.766 3%
Brandenburg ehf. 3.277.825 23.525 3.301.350 3%
Skrautás ehf. 3.174.975 3.174.975 2%
Útgáfufélagið Heimur hf. 2.880.696 2.880.696 2%
Já hf. 2.713.732 2.713.732 2%
Markaðsnetið ehf. 2.710.292 2.710.292 2%
Fröken ehf. 2.311.167 2.311.167 2%
Morgundagur ehf. 2.254.620 2.254.620 2%
Capacent ehf. 2.235.710 2.235.710 2%
Borgarblöð ehf. 2.110.480 2.110.480 2%
Með oddi og egg ehf. 220.100 1.803.500 2.023.600 2%
Facebook advertising IK 1.733.916 1.733.916 1%
Hér og nú ehf. 1.464.560 1.464.560 1%
ENNEMM ehf. 600.000 775.802 1.375.802 1%
Nasdaq OMX Nordic OY 1.310.289 1.310.289 1%
 Ink -Esubstance Ltd 469.274 733.643 1.202.917 1%
Kvikmyndahúsið ehf. 1.116.000 1.116.000 1%
Íslenska auglýsingastofan ehf. 1.003.648 31.341 1.034.989 1%
Allir aðrir söluaðilar sem eru undir 1.000.000 22.222.774 17%

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2016 - 14:30 - FB ummæli ()

Orð en ekki öryggi

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs sem var að ljúka samþykkti meirihlutinn deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka svokallaða neyðarbraut af skipulagi. Minnihlutinn þ.e. Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur greiddu atkvæði á móti.

Á fundinum lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi bókun:

Þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur liggja ekki fyrir fullnægjandi gögn og þar með fullvissa um að hægt sé að loka brautinni án þess að það komi niður á flugöryggi. Niðurstaða dómsins byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Því til stuðnings er vísað til bréfs frá 9.09.2015, sem Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) sendi til innanríkisráðueytis rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia, en í bréfinu kemur fram að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul, en áhættumatsskýrsla Isavia er unnin með hliðsjón af henni, sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tekur ekki til greina sem leiðir til þess að skýrslan inniheldur alvarlegar villur. ÖFÍA telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrsla Isavia byggi á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni og skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá taki áhættumat Isavia ekki til sjúkraflugs eins og staðfest er í niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia frá 1. júní 2015. Þá er staðfest í niðurstöðu Samgöngustofu að hin skýrslan sem Efla vann fyrir Isavia um svokallaðan nothæfistíma hafi hvorki verið rýnd né hafi Samgöngustofa tekið afstöðu til hennar. Skýrslan hefur því ekkert vægi en samt er ítrekað vísað til hennar í umsögn skipulagsfulltrúa.

 

Flokkar: Flugvöllur

Miðvikudagur 23.3.2016 - 15:21 - FB ummæli ()

„Lokið brautinni eða takið svæðið eignarnámi“

Niðurstaða héraðsdóms í svokölluðu neyðarbrautarmáli byggir á samningi Hönnu Birnu við Jón Gnarr í október 2013.  Málið er dæmt á grundvelli meginreglu íslensk réttar að samningar skuli halda en ekki á því hvort það sé „áhættulaust“ að loka brautinni.

Í niðurstöðu dómsins er hins vegar að finna leiðbeiningar um það hvað þingið getur gert ef það vill ekki loka brautinni: „Í krafti almennra heimilda sinna getur Alþingi einnig, ef því er að skipta, gefið ráðherra fyrirmæli um framkvæmd málefna Reykjavíkurflugvallar, svo og sett sérstök lög um málefni vallarins, þ. á m. um stærð og umfang flugvallarins, eftir atvikum þannig að kveðið sé á um heimildir til eignarnáms vegna ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og forgang laganna gagnvart hvers kyns áætlunum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Hvað sem líður þessum heimildum Alþingis telur dómurinn að ekki fari á milli mála að innanríkisráðherra var til þess bær að taka ákvarðanir um breytingar á Reykjavíkurflugvelli í október 2013, svo sem með fækkun flugbrauta eða jafnvel lokun flugvallarins ef því var að skipta.“

Í stuttu máli er niðurstaðan sú að þar sem dómarinn telur sig ekki geta annað en dæmt á grundvelli meginreglunnar að samningar skuli halda geti Alþingi hins vegar í krafti almennra heimilda sinna tekið þetta svæði eignarnámi. 

Flokkar: Flugvöllur

Miðvikudagur 16.3.2016 - 07:48 - FB ummæli ()

Framsókn enn flugvallarvinur

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort Framsókn vilji ekki lengur hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni og halda neyðarbrautinni vegna umræðunnar um að byggja spítalann annars staðar en við Hringbraut.

Það eru óþarfa áhyggjur. Ég hef t.d. verið þeirrar skoðunar í nokkur ár, reyndar löngu áður en í fór í pólitíkina, að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni og að byggja spítalann annars staðar en við Hringbraut. Af minni hálfu er ekki nauðsynlegt að hafa spítalann við hliðina á flugvellinum enda er einnig farið með fólk sem kemur með sjúkraflugi á Borgarspítalann.

Það hefur ekki verið sýnt fram á það að önnur staðsetning fyrir flugvöllinn sé jafngóð eða betri en Vatnsmýrin. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að flugöryggi verði tryggt ef neyðarbrautinni er lokað. Meðan slík fullvissa liggur ekki fyrir er ekki hægt að loka henni. Þá er alveg ljóst að kostnaðurinn yrði verulegur ef það ætti að byggja nýjan innanladsflugvöll á nýjum stað með öllum þeim innviðum sem þarf og þeirri þjónustu sem þarf að vera í kringum flugvöllinn eða nálægt honum og þeir peningar eru einfaldlega ekki til. Bygging spítalans er hins vegar forgangsmál.

Flugvöllur sem er ca 10 mín frá sjúkrahúsi er í mínum huga í nálægð við sjúkrahús en það virðist ekki vera í huga Agnesar Bragadóttur blaðakonu á Morgunblaðinu. Hér er linkur á greinina sem hún túlkar eftir sínu höfði.

 

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/02/03/vatnsmyrin-besta-stadsetningin/

 

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 10.3.2016 - 14:05 - FB ummæli ()

Auglýsingakostnaður borgarinnar

Á fundi borgarráðs í dag lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi fyrirspurn: „Óskað er eftir upplýsingum um auglýsingakostnað Reykjavíkurborgar á árinu 2015 og skiptingu kostnaðar á einstaka miðla og þá sem tóku að sér að annast birtingu auglýsinganna.“

Í september 2014 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram fyrirspurn um auglýsingakostnað borgarinnar frá ársbyrjun 2013. Í svarinu kom fram að á árinu 2013 hafi auglýsingakostnaður borgarinnar verið kr. 115.238.846, þar af var kostnaður við birtingu auglýsinga kr. 110.233.240. Auglýsingakostnaður frá 1.01.2014-31.08.2014 nam samtals kr. 96.750.075, þar af vegna birtingar auglýsinga kr. 90.361.976.

Birting auglýsinga 2013, samtals 110.233.240 kr.
1 365 – prentmiðlar ehf. 19.446.215 kr.
2 Ríkisútvarpið ohf. 8.523.703 kr.
3 H.Pálsson ehf.  8.061.484 kr.
4 Árvakur hf.  5.538.311 kr.
5 Hvíta húsið ehf.  4.923.534 kr.
6 Auglýsingamiðlun ehf.  4.312.574 kr.
7 Reykjavíkurborg  4.075.623 kr.
8 MD Reykjavík ehf. 4.018.258 kr.
9 Útgáfufélagið Heimur hf.  3.479.055 kr.
10 Capacent ehf 3.404.526 kr.
11 Upplýsingaveitur ehf.  3.156.524 kr.
12 Skrautás ehf. 3.103.028 kr.
13 Markaðsnetið ehf. 3.016.425 kr.
14 Icelandair ehf. 2.703.408 kr.
15 Fótspor ehf 2.438.448 kr.
16 Aðrir 30.032.124 kr.
Birting auglýsinga 01.01.2014-31.08.2014 samtals kr. 90.361.976 kr.
1 365 – prentmiðlar ehf. 18.679.761 kr.
2 Árvakur hf. 4.666.460 kr.
3 MD Reykjavík ehf. 4.550.879 kr.
4 Ríkisútvarpið ohf. 3.944.499 kr.
5 Hvíta húsið ehf. 3.548.459 kr.
6 H.Pálsson ehf. 3.531.261 kr.
7 Upplýsingaveitur ehf. 2.925.624 kr.
8 Pipar Media ehf. 2.909.258 kr.
9 Morgundagur ehf. 2.585.552 kr.
10 Icelandair ehf. 2.502.314 kr.
11 Skrautás ehf. 2.465.072 kr.
12 Markaðsnetið ehf. 2.275.161 kr.
13 Útgáfufélagið Heimur hf. 2.180.717 kr.
14 Borgarblöð ehf. 2.107.145 kr.
15 Hagvangur ehf. 2.102.543 kr.
16 Aðrir 29.387.271 kr.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.3.2016 - 14:19 - FB ummæli ()

Markviss vinna ríkisstjórnarinnar hefur skapað góðan grunn

Það er hvergi betra í heiminum að vera kona á vinnumarkaði en á Íslandi, kaupmáttur launa hefur aukist, atvinnuleysi er lágt og gæti farið niður í 1% í sumar. Færri og færri glíma við íþyngjandi húsnæðiskostnað og þeim hefur fækkað verulega sem mælast undir lágtekjumörkum um leið og jöfnuður eykst. Skuldastaða íslenska þjóðarbúsins við útlönd er gjörbreytt eftir að nauðasamningar náðust við kröfuhafa. Skuldir lækkuðu um rúmlega 7.000 milljarða milli ársfjórðunga og hefur staðan ekki verið jafngóð síðan fyrir aldamót. Þrátt fyrir þetta er kvartað og kveinað, allt sé skelfilegt á Íslandi.

Vegna skipulagðrar og markvissrar vinnu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar höfum við náð þessum árangri. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sagði að það væri ekki hægt að gera meira fyrir heimilin í landinu og gafst upp á verkefninu. Það skýtur því skökku við að reynt er að gera lítið úr lækkun húsnæðisskulda heimilanna, hvað þá að segja hana ósanngjarna, þ.e. að ósanngjarnt væri að þau heimili sem voru með verðtryggð húsnæðislán fengju leiðréttingu. Þá höfðu fáir trú á orðum Sigmundar Davíðs að hægt væri að sækja fé til kröfuhafanna sem nú er orðið að veruleika.

Framtíðarmöguleikar Íslands eru gífurlega góðir vegna vinnu ríkisstjórnarinnar. Núna erum við loksins komin með góðan grunn til að byggja á og gera enn betur.

Á sama tíma er  fjárhagsstaða borgarinnar mjög slæm. Ég get ekki til þess hugsað ef sami meirihluti og nú er í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð, hefði stýrt fjármálum ríkisins í þessu kjörtímabili. Óhætt er að fullyrða að ef svo hefði verið væri hækkun framlaga til heilbrigðismála og til öryrkja og aldraðra aðeins fjarlæg draumsýn.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.2.2016 - 14:31 - FB ummæli ()

Þétting byggðar og lítið lóðaframboð borgarinnar

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gengur út á þéttingu byggðar. Þrátt fyrir stefnu bogarinnar um þéttingu byggðar er varla hægt að segja að borgin hafi verið með til sölu lóðir á þéttingarreitum í borginni frá 2010. Af þeim 45 lóðum fyrir samtals 97 íbúðir sem borgin úthlutaði á síðasta ári voru einungis 15 íbúðir á lóðum annars staðar en í Úlfarsárdal eða Reynisvatnsási.

Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga og banka á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar síðan til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum bæjarins allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.

Einungis 10 fjölbýlishúsalóðum úthlutað á rúmlega 5 árum  

Borgin hefur einungis úthlutað 10 fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á rúmlega fimm ára tímabili. Aðgerðarleysið við lóðaúthlutanir og vanræksla á að fylgja húsnæðisstefnu borgarinnar frá 2011 hefu skapað mikinn vanda. Uppbyggingin gengur hægt og eftirspurnin er langt umfram framboð sem hefur í för með sér hærra húsnæðisverð. Þétting byggðar á lóðum sem eru í höndum annarra aðila leysir ekki húsnæðisvandann í Reykjavík enda er það ekki á allra færi að kaupa eða leigja íbúðir á dýrustu stöðunum í borginni.

Einbýlishúsalóðir og ein parhúsalóð til sölu hjá borginni

Borgin hefur nú til sölu einbýlishúsalóðir og eina parhúsalóð í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási, sem sýnir að framboð borgarinnar á lóðum er mjög einsleitt og hefur svo verið um árabil. Þarf því að hafa hraðar hendur að úthluta allskonar lóðum fyrir fjölbreytt húsnæði víðsvegar um borgina ef það á að takast að leysa húsnæðisvandann í borginni í nánustu framtíð. Þó að til standi að úthluta á þessu og næstu misserum lóðum fyrir 1200 íbúðir þá hefur megnið af þeim íbúðum nú þegar verið eyrnarmerkt ákveðnum aðilum eða hópum og því ljóst að lítið framboð verður áfram á lóðum fyrir aðra en fáa útvalda í borginni og mun það gera ákveðnum hópum t.d. ungu fólki erfitt að eignast húsnæði í borginni.

 

Flokkar: Húsnæðismál

Miðvikudagur 24.2.2016 - 23:25 - FB ummæli ()

1887 íbúðir

Í fréttum RÚV í kvöld var fjallað um það að íbúðauppbyggingin gengur of hægt fyrir sig og eftirspurn sé langt umfram framboð. Nú séu 1887 íbúðir í byggingu í Reykjavík. Hér er linkur á umfjöllunina: http://www.ruv.is/frett/ekki-byggt-nogu-hratt

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að það þurfi að byrja byggja um 700 íbúðir á ári. Í Reykjavík var byrjað að byggja 614 íbúðir á árinu 2013, 597 íbúðir á árinu 2014 og útgefin byggingarleyfi á árinu 2015 voru 926.

Það tekur tíma að byggja eins og sjá má á vef Þjóðskrár Íslands þá fjölgaði íbúðum í Reykjavík með eftirfarandi hætti árin eftir hrun:

árslok fjöldi fjölgun
2008 49.638
2009 49.721 83
2010 50.149 428
2011 50.155 6
2012 50.287 132
2013 50.516 229
2014 50.914 398

 

Flokkar: Húsnæðismál

Föstudagur 19.2.2016 - 12:10 - FB ummæli ()

Lóðaúthlutanir borgarinnar 2015

Borgin hefur ekki verið með fjölbýlishúsalóðir til sölu með feiri en fimm íbúðum lengi. Á árinu 2015 úthlutaði borgin engri fjölbýlishúsalóð með fleiri en fimm íbúðum.

Nú eru komnir þrír mánuðir síðan Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram fyrirspurn í borgarráði um það hvaða 10 lóðir það væru sem borgin úthlutaði síðast með fleiri en fimm íbúðum. Borgarstjóri hefur eingöngu veitt upplýsingar um þrjár slíkar lóðir, þ.e. að einni hafi verið úthlutað á þessu kjörtímabili og tveimur hafi verið úthlutað á síðasta kjörtímabili. Á fundi borgarráðs 14. janúar sl. upplýsti borgarstjóri að engar lóðir væru til sölu hjá borginni með fleiri en fjórum íbúðum en til stæði að úthluta lóðum undir 1200 íbúðir á þessu og næstu misserum.

Íbúðahúsalóðir sem borgin úthlutaði á árinu 2015

Á árinu 2015 úthlutaði borgin samtals 45 lóðum fyrir samtals 97 íbúðir, þ.e. 13 lóðum fyrir einbýlishús, 17 lóðum fyrir parhús með samtals 34 íbúðum, tveimur raðhúsalóðum fyrir þrjú hús á lóð samtals 6 íbúðir, þremur raðhúsalóðum fyrir fjögur hús á lóð samtals 12 íbúðir og fjórum raðhúsalóðum fyrir fimm hús á lóð eða samtals 20 íbúðir. Þá var einni lóð úthlutað með fjórum íbúðum í blönduðu húsnæði. Auk þess sem á fimm lóðum sem úthlutað var eru samtals 8 íbúðir, þ.e. fjögur sérbýli og eitt fjölbýli með 4 íbúðum.

Lang flestar lóðirnar í Úlfarsárdal

Lang flestar lóðirnar sem úthlutað var á árinu 2015 eru í Úlfarsárdal og fór meiri en helmingur þeirra fram í nóvember og desember 2015. Af þessum 97 íbúðum eru einungis 15 íbúðir á lóðum annars staðar en í Úlfarsárdal og við Reynisvatnsás.

Uppbygging tafist 

Í Morgunblaðinu 16. febúar sl. var umfjöllun um að upp­bygg­ing á fjölda þétt­ing­ar­reita í Reykja­vík hafi taf­ist og að taf­irn­ar munu að óbreyttu viðhalda eft­ir­spurn­arþrýst­ingi á fast­eigna­markaði í Reykja­vík­. Hér er linkur á umfjöllunina:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/16/hvar_eru_ibudirnar/

Málþing um húsnæðisuppbygginguna í nóvember 2014 og 2015

Reykjavíkurborg hélt málþing um húsnæðisuppbygginguna í Reykjavík í nóvember 2014 og í nóvember 2015. Á báðum málþingunum fór borgarstjóri yfir það hvað væri verið að byggja og hvað stæði til að byggja af íbúðarhúsnæði í Reykjavík.

Hér er umfjöllun mín um það sem borgarstjóri kynnti annars vegar í nóvember 2014 og hins vegar í nóvember 2015. Þar kemur m.a. fram hvar er verið að byggja, hvar á að fara að byggja, hve mikið verður byggt, hverjir eru að byggja, í höndum hverra lóðirnar eru og upplýsingar um kosningaloforðið um 2500-3000 íbúðir.

Hér er linkur á umfjöllun mína og samantekt á glærukynningunni sem borgarstjóri var með í nóvember 2014:

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2014/11/12/eru-2500-3000-nyjar-ibudir-i-bodi-borgarstjora/

Hér er linkur á umfjöllun mína og samantekt á glærukynningunna sem borgarstjóri var með í nóvember 2015:

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/01/17/husnaedisuppbyggingin-i-reykjavik-malthing-november-2015/

 

Flokkar: Húsnæðismál

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur