Föstudagur 24.09.2010 - 12:13 - Lokað fyrir ummæli

Heilagar sauðkindur?

Í tilefni af umræðu sem heyrst hefur ómur af undanfarið um mismunandi slátrunarsiði og það hvort einn hópur geti etið ket sem slátrað er samkvæmt hefðum – og jafnvel undir bænum – annars, finn ég mig knúna til að játa eftirfarandi:

Ég gæti sem best trúað því að ég hafi í gegnum tíðina innbyrt kynstrin öll af mat sem framleiddur hefur verið undir áhrifum annarrar menningar en þeirrar sem ég tilheyri.  Oft finnst mér einmitt mjög gott og spennandi að borða framandi mat. 

Hversu framandi þarf matur annars að vera til að geta af einhverjum talist „mengaður“ af bænum annars siðar?

Gæti t.d. hrísgrjónaræktunarfólk hafa tautað fyrir munni sér búddískar kennisetningar við uppskerustörf, túnfiskveiðimenn heitið á vættir sem mér eru ókunnugar, kryddmalarar vottað virðingu heilagri kú og svo framvegis?

Ef við lítum okkur nær, finnst mér líklegt að það erlenda verkafólk sem mannað hefur íslensk sláturhús undanfarin ár hafi oft tilheyrt öðrum trúfélögum en íslenskri kirkju.  Hvað vitum við svosem um þær bænir eða formælingar sem – meðvitað eða ómeðvitað – fara um huga fólks við slátrun hinna ýmsu skepna?

Og hverjum má ekki vera sama?

Höfum við nokkurn tímann sett það fyrir okkur í hvaða anda, öðrum en hreinlegum, mannúðlegum og löglegum hvað dýrin áhrærir, slíkt er gert?

Ekki svo ég muni.

Mér var hins vegar innrætt – og það í fermingarfræðslunni – að mér bæri að virða það sem öðrum er heilagt. 

Ef ákveðinn hópur vill þannig vera viss um tiltekinn menningarlegan uppruna matvæla, finnst mér allt í lagi að boðið sé upp á slíkt af hálfu matvælaframleiðenda hérlendis sem erlendis.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Eiríkur Kristjánsson

    Hólí kind! Þetta er með ólí kindum.

    Það mætti halda að þessar reglur um hreint og óhreint ættu upptök sín hjá hjátrúarfullum fornmönnum.

    Svo mætti ímynda sér sjónarhól kindarinnar:
    „Ó nei! Einn prinsip-maður vill ekki borða líkið mitt af því að hann er ósammála öðrum prinsip-manni um aftökutækni. Forfeður þeirra krotuðu víst mismunandi krafs á skinn fjarskyldar ættkindar minnar.“

  • Reynir Sigurðsson

    Maður á ekki að virða neitt nema það sé virðingarvert.
    Maður getur hinsvegar umborið alskonar kjaftæði til að halda friðinn og líklega gerir maður allt of mikið af því.
    Að öðru leiti er ég sammála þér.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur