Mér finnst koma skýrar í ljós með hverjum deginum að okkur skortir sárlega mikilvægar upplýsingar í umræðunni um vanda þjóðarinnar og mögulegar lausnir sem svo löngu þyrftu að vera orðnar að raunveruleika.
Ég held að ég þurfi ekkert sérstaklega að ræða um misvísandi málflutning þar sem einn segir himinn á meðan annar segir haf. Varla er ég sú eina sem er að ærast af því.
Hér hefur áður verið fjallað um tilhneiginguna til að lesa út úr misgóðri tölfræði þær upplýsingar sem maður vill að séu réttar (þegar menn vilja trúa því að opinberum starfsmönnum hafi fjölgað um 3500 frá hruni).
En ég vil nefna tvennt, sem talar sínu máli – til marks um lukkunar velstand fyrir hrun – um hvað kerfin okkar eru vanbúin til upplýsingasöfnunar og -miðlunar.
Þetta tvennt er annars vegar fjöldi atvinnulausra og hins vegar fjöldi uppboða á heimilum.
Mælingar á því fyrrnefnda hef ég – bara í dag – heyrt gagnrýndar í tvær þveröfugar áttir, annars vegar þess efnis að mælingar séu of háar og hins vegar of lágar. Rökin er á þennan veg:
-of hátt: útgefnar tölur innihalda alla þá sem þiggja greiðslur frá Vinnumálastofnun, líka þá sem ráðnir hafa verið til starfa í tímabundin átaksverkefni með greiðsluþátttöku af hálfu Vmst. Þannig séu atvinnuleysistölur á hverjum tíma oft of háar.
-of lágt: fólk sem fær synjun um bætur frá Vinnumálastofnun er ekki talið til atvinnulausra, enda þótt það sé sannanlega án atvinnu.
Með öðrum orðum, getum við ekki verið viss um að mælingar á atvinnuleysi mæli atvinnuleysi.
Varðandi uppboð á húsnæði hef ég það fyrir satt að upplýsingar um slíkt greini ekki á milli þess hvort um sé að ræða nýbyggt húsnæði sem ekki hefur tekist að selja (og aldrei hefur þannig verið heimili neins), sumarbústaði eða raunveruleg heimili fólks sem sé að missa ofan af sér þakið.
Upplýsingar um uppboð á húsnæði segja okkur þá með öðrum orðum ekki hversu margar fjölskyldur gætu lent á götunni.
Hvort tveggja hlýtur að vera arfaslakt fóður í vitræna umræðu um „lausn vandans“.
Er þetta ekki bara af því að fólk er búið að ákveða sig áður en veruleikinn er spurður álits?
Schopenhauer sagði að heimurinn væri í raun bara vilji og ímynd. Nú hef ég ekki lesið Schopenhauer en vil að hann hafi skrifað þetta og ímynda mér að hann hafi gert það. Annað er útúrsnúningar andstæðinga minna.
Annars sagði Borges um eitthvert verk að frumtextinn ekki trúr þýðingunni, hvað sem það nú merkir.
Landspítalinn er búinn að ‘spara’ um 3 milljarða (fékk reyndar 2,8ma í vaxtalaust lán, samið um afborganir síðar) á undanförnum 2 árum. Það er víst búið að fækka starfsmönnum um 600, en stöðugildum hefur fjölgað um 0,7% á sama tíma.
Stóra spurningin er: Fækkaði eða fjölgaði þeim sem ekki vinna lengur á Landspítalanum.
Það eru ekki bara kerfin sem eru vanbúin til upplýsingaöflunar og -miðlunar. Fjölmiðlarnir standa þar á gati líka. Verst er þó hve stór hluti þess almennings sem á annað borð lætur til sín heyra í fjölmiðlum hrækir á upplýsingar og heimtar þóknanlegan áróður.
Ég hef lesið í gegnum bloggin þín hér og vil bara þakka þér fyrir framlag þitt til að draga stundum athyglisverð atriði upp úr bullinu og sýna okkur líka stundum bullið í bullinu. Takk fyrir viðleitni til vitlegrar umræðu.
Í BNA sem átti að vera fyrirmynd hér er það þannig að ef þú missir kredit þá áttu ekki neitt og ert heimilislaus. Og þar er þetta bara eins og hver önnur staðreynd lífsins. Ráfa um með eigur sínar fáar í innkaupakerru sem ég stal.
Er þetta það sem við látum bjóða okkur?